02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í D-deild Alþingistíðinda. (5148)

79. mál, lyfsölumál

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fyrsta spurningin er um það, hvernig eftirliti með lyfjabúðum hafi verið háttað síðan lög nr. 7 4. júní 1924 komu í gildi, en hinar spurningarnar eru um það, hversu oft eftirlitsmaður hafi komið í hverja einstaka lyfjabúð árlega, hvernig eftirlitið hafi verið framkvæmt og hvaða reglu hafi verið fylgt um veitingu lyfsöluleyfa undanfarin ár. — Ég mun nú leitast við að svara þremur fyrstu spurningunum í einu lagi með því að lesa úr skýrslu, sem landlæknir hefur samið og er, að ég hygg, eins ýtarleg og hægt er að ætlast til, en þar segir svo:

„Frá því að lyfjabúðarekstur hófst hér á landi, hafa lyfjabúðir verið undir sérstakri umsjá og eftirliti landlæknis. Lyfsalar hafa snúið sér til hans með mál sín, er þeir áttu undir hið opinbera að sækja. Hann hefur heimilað þeim fjarvistir og samþykkt staðgöngumenn þeirra, og honum hafa lyfsalarnir tilkynnt, eða átt að tilkynna, misferli í lyfjabúðunum, þegar svo hefur borið undir. Á sama hátt hafa læknar snúið sér til landlæknis, er þeir hafa haft undan einhverju að kvarta vegna lyfjabúðanna, og hið sama allur almenningur. Þá hefur landlæknir undirbúið öll mál, er varða lyfjasölu, í hendur ríkisstjórnarinnar, sem auðvitað hefur yfirstjórn allra þessara mála. Þó hefur það orðið hefð, að landlæknir einn setji og birti allar reglur varðandi afgreiðslu lyfja og starfshætti í lyfjabúðum, enda engin lagaákvæði fyrir hendi, er mæli fyrir um að setja slíkar reglur með venjulegum hætti. Enn var lyfsöluskráin lengst af samin af landlækni, en að sjálfsögðu staðfest af ríkisstj.

Þessari umsjá og almenna eftirliti með lyfjabúðum er þráfaldlega ruglað saman við lyfjabúðaeftirlit annars eðlis og þrengri merkingar. Það er hið verklega eftirlit, sem á Norðurlöndum a.m.k. er í föstu formi, hinar svonefndu vísitasjónir. Þær eru í því fólgnar, að sérstakur vísitator heimsækir hverja lyfjabúð einu sinni á ári eða svo og eftirlítur lyfjabúðina, reynir að lesa niður í kjölinn vinnuskilyrði öll og vinnutilhögun, en gerir umfram allt skoðun á lyfjaefnum og lyfjum, sem á boðstólum eru, enda tekur af þeim sýnishorn og rannsakar, hvort þau fullnægi gerðum kröfum.

Upphaflega kann að hafa verið tilætlunin, að landlæknar leystu einnig persónulega af hendi þetta verklega eftirlit, og ekki verið fráleitt að ætlast til þess, er þróun þessarar iðju var enn skammt komið. En sannast mála er það, að landlæknar hafa aldrei haft tök á að rækja það með nokkurri reglu. Hafi þeir gripið í það, hefur það vægast sagt verið málamyndaþjónusta og aldrei náð því að svara tilgangi sínum. Einkum hlaut þetta að verða svo, er fram í sótti og fjarstæða var orðin að ætlast til, að eftirlit þetta yrði rækt af öðrum en völdum lyfjasérfræðingi og þá annaðhvort lyfsölufræðingi (pharmaceut), er allra helzt hefði meiri menntun til að bera en lyfsölufræðingar almennt, eða þá lyfjasérfróðum lækni, þ.e. lyfjafræðingi (pharmacolog), enda skorti þá ekki tæki til framkvæmda eftirlitsins og allra sízt aðgang að fullnægjandi lyfjarannsóknastofu.

Þann tíma, sem lyfsölufræðingur hafði á hendi forstöðu Áfengisverzlunar ríkisins, var honum ætlað að hafa á hendi hið verklega eftirlit með lyfjabúðunum, en auðvitað að því óbreyttu, að hið almenna eftirlit væri eftir sem áður í höndum landlæknis. Ekki eru gögn fyrir hendi um, hversu forstöðumaðurinn hefur hagað þessu eftirliti sínu, en tæplega mun það hafa komizt í fullnægjandi horf og auðvitað fyrir það, að sum mikilsverð skilyrði skorti enn til þess.

Þegar núverandi landlæknir tók við embætti sínu og um leið hinu almenna eftirliti með lyfjabúðunum, dró hann enga dul á, að sjálfa framkvæmd hins verklega eftirlits tæki hann ekki að sér, með því að til þess brysti öll skilyrði, að hann fengi rækt það, svo að nokkru haldi kæmi. Að gefnu tilefni gerði hann grein fyrir þessu opinberlega. Leit landlæknir svo á, að væri nokkurs árangurs að vænta af verklegu eftirliti af hendi ósérfróðs læknis með starfsháttum í lyfjabúðum, væri nær að fela slíkt eftirlit héraðslæknum, hverjum á sínum lyfjabúðar stað. Héraðslæknarnir flestir hefðu dagleg viðskipti við lyfjabúðirnar og ættu hægt um vik að kynnast ásigkomulagi þeirra. Væri ólíku saman að jafna aðstöðu þeirra og aðvífandi læknis, er stingi við stafni í lyfjabúð í hæsta lagi einu sinni á ári. Féllst ráðuneytið á þetta með ákvæði þar að lútandi í 10. gr. erindisbréfs héraðslækna, sem sett var samkvæmt nýjum læknaskipunarlögum frá 1932. Engu síður taldi landlæknir brýna þörf á, að komið væri á virku eftirliti með lyfjabúðunum af hendi sérfróðs vísitators, eftir beztu erlendum fyrirmyndum, og hóf hann þegar að vinna að því. Og með því að þá var fyrir hendi að mennta ungan og efnilegan lækni til að taka að sér kennslu í lyfjafræði (pharmacologi) við háskólann, varð ofan á að gera ráðstafanir til þess, að hann byggi sig jafnframt undir að taka að sér framkvæmd hins verklega lyfjabúðaeftirlits. Tók hann og við því í umboði landlæknis árið 1939. Var þar kominn maður, sem bæði hafði þekkingu á að rækja þessa starfsemi og nauðsynleg skilyrði til þess. En stutt varð í þeirri þjónustu. Þá er 2–3 ár voru af starfstíma hans, urðu leið misferli í einni lyfjabúðinni, og gerði eftirlitsmaðurinn það að skýlausu fráfararatriði, að ábyrgð yrði komið fram vegna misferlisins, að svo miklu leyti sem lög stæðu til, en væru lögin ófullnægjandi, yrði þeim breytt til ýtrustu tryggingar því, að svipuð misferli vörðuðu ábyrgð eftirleiðis. Þrátt fyrir atfylgi landlæknis sinnti hvorki ríkisstj.Alþ. kröfu eftirlitsmannsins, og lét hann af starfinu. Eftirlitsgerðir hans eru allar fyrir hendi.

Lá nú hið verklega eftirlit niðri, unz aftur var völ á vel hæfum, ungum og áhugasömum manni til að taka það að sér. Hefur hann lokið doktorsprófi í lyfsölufræði í Bandaríkjunum. Tók hann við starfi sínu um síðustu áramót og hagar því í samráði við landlækni. En auk þess er honum ætlað að annast kennslu við lyfjafræðingaskóla Íslands og vera lyfjakauparáðunautur Tryggingastofnunar ríkisins. Eftirlitsstarfið hefur hann stundað á þessu ári af miklum áhuga og dugnaði, að öðru leyti en því, að enn er löggjafar vant til tryggingar því, að það komi að fyllstu notum.

Ríkissjóður hefur að undanförnu engan sérstakan kostnað borið af lyfjabúðaeftirlitinu, hvorki af hinu almenna eftirliti né hinu verklega, nema hafi einhver ferðakostnaður verið greiddur vegna hins verklega eftirlits, þegar það hefur verið rækt. Síðan 1924 hafa lyfjabúðir greitt árlega 250 króna svonefnt eftirlitsgjald, og hefur það haldizt óbreytt síðan þrátt fyrir breytt verðlag. Fé þessu var varið til uppbótar á laun landlæknisembættisins, unz launalögin gengu í gildi. Núverandi eftirlitsmaður hefur 11.000 króna árslaun (grunnlaun), en þau greiðir Tryggingastofnunin að hálfu, auk þess sem í móti kemur eftirlitsgjald lyfjabúðanna og þóknun af hendi lyfsalanna fyrir kennslustörfin, sem þeim ber að lögum að standa straum af. Kostnaður ríkissjóðs verður því ekki tilfinnanlegur, allra sízt ef eftirlitsgjaldið yrði hækkað í samræmi við breytt verðlag.

Fjórða spurningin er á þá leið, hvaða reglu hafi verið fylgt um veitingu lyfsöluleyfa. Um þetta get ég fyrir mitt leyti ekki sagt nema lítið eitt, því að það er svo stutt síðan ég fór að hafa afskipti af þessum málum, en landlæknir hefur látið í té svofellda grg. varðandi veitingu lyfsöluleyfa:

„Þeirri reglu um veitingu lyfsöluleyfa hefur verið fylgt undanfarin ár að auglýsa eftir umsækjendum eftir verðleikum og meðal annars með sem fyllstu tilliti til starfsaldurs, unz tilteknu aldurshámarki er náð. Þó hefur þótt rétt að leggja annan mælikvarða á starfsaldur lyfsala, sem ungir hafa hlotið lyfsöluleyfi án allrar samkeppni, en lyfsölufræðinga, sem lengi hafa starfað í annarra þjónustu, án þess að hafa átt kost á því að keppa um lyfsöluleyfi.“

Frá minni hendi er ekki annað um þetta að segja en það, að fallið hefur í minn hlut að ákvarða um nokkur leyfi, og hef ég í þeim tilfellum öllum farið eftir leiðbeiningum og tillögum landlæknis. En það, sem ég mun kappkosta að leggja áherzlu á, er menntun, hæfileikar, starfsaldur og svo það, hvernig reynsla er af störfum þessara manna, þar sem þeir hafa starfað, hvort sem það hefur verið í eigin þágu eða í þjónustu annarra. Hv. fyrirspyrjandi, sem annars gerði ekki mikla grein fyrir fsp. sinni, talaði um, að einstakar veitingar hafi valdið hneyksli í þessu sambandi. Það getur verið mikið álitamál, hverjum skuli veita af mörgum vel hæfum umsækjendum og á hvaða atriði skuli leggja mesta áherzlu, og skal ég ekki fara nánar út í það í sambandi við þessa fsp. Ég tel mig hafa svarað henni.