02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í D-deild Alþingistíðinda. (5149)

79. mál, lyfsölumál

Fyrirspyrjandi (Lárus Jóhannesson):

Ég vil þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir upplýsingar þær, sem hann hefur gefið, og hefur þar komið fram, sem ég í rauninni vissi, að því hefur verið slegið föstu, að í tíð núverandi landlæknis hafi lyfjabúðirnar greitt árlegt gjald til þess að litið sé eftir þeim, án þess að til nokkurs eftirlits hafi komið, og hefur þetta því orðið uppbót á laun landlæknis. Hins vegar virðast þessi mál vera að komast í betra horf núna. En þá er vitanlega ekki hægt að gagnrýna lyfsalana, þótt eitthvað hafi verið í ólestri hjá þeim, sem hefði verið hægt að lagfæra með eftirliti, þó að ekki hefði verið meira en var í tíð núverandi landlæknis.

Þá kem ég að síðara atriðinu, um veitingu lyfsöluleyfa, og þykir gott að fá því slegið föstu, að menntmrh. hafi í þessu tilfelli farið eftir tillögum landlæknis, en verð að segja, að þær till. hafa í ýmsum tilfellum verið harla einkennilegar. Ég veit ekki, hvort búið er að veita lyfsöluleyfi fyrir Kleppsholtsapóteki, en ég veit, að um Ingólfsapótek sóttu margir ágætir menn, lyfsalar og lyfjafræðingar, sem höfðu mikla reynslu að baki sér og ágætan starfsferil, en í þetta embætti var tekinn heildsali ofan af Njálsgötu, raunar með prófi, en var farinn úr sinni stétt og hafði farið út meðan á stríðinu stóð og verið í pilluverksmiðju í Kaupmannahöfn og tekizt á hendur heildsölu hér. Ég hef ekkert út á manninn að setja persónulega, ég þekki hann lítið og heldur að góðu, en mér finnst hreint þurfa sérstaka hugkvæmni til þess, að slíkum manni sé veitt þessi eftirsótta staða og gengið fram hjá fjölda af beztu lyfjafræðingum landsins, og þetta má alls ekki láta óátalið, og það er aðallega út af þessu, að ég hef komið fram með þessa fyrirspurn, ef verða mætti, að menntmrh. sýndi meira sjálfstæði í veitingu lyfsöluleyfa og færi ekki aðallega eftir tillögum landlæknis, alveg óathugað.