28.02.1949
Efri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

10. mál, lóðasala í Reykjavík

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta mál. Málavextir eru þeir, að með bréfi dómsmrh. 20. sept. 1944 var frú Margréti Rasmus, fyrrverandi forstöðukonu málleysingjaskólans, gefið loforð um, að henni yrði seld lóð á horni Þverholts og Stakkholts, 525,5 fermetrar að stærð, en hún hafði haft afnot af þessari lóð undanfarið. Svo var tekið fram í bréfinu, að lóðina skyldi selja eftir mati, og var hún síðan metin á kr. 15.500,00. Ástæðan til þess, að þetta mál er komið hér inn í d., er sú, að hlutaðeigandi ráðh. taldi sig ekki hafa heimild til að selja lóðina eða standa við loforð fyrirrennara síns án lagaheimildar, þó að það hafi að vísu viðgengizt með aðrar lóðir.

Eins og málinu er háttað, sá n. ekki annað að gera en að mæla með, að frv. verði samþ. á sama hátt og hv. allshn. Nd. hefur gert. Ég vil því leyfa mér fyrir hönd þeirra nm., sem voru á fundi, að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.