02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í D-deild Alþingistíðinda. (5150)

79. mál, lyfsölumál

Jónas Jónsson:

Út af fjórða lið fyrirspurnarinnar, um reglur fyrir veitingu leyfis til lyfjasölu, vildi ég minna á það, sem tekið var til umr. í fyrra, að í Rvík, sem telur 55 þúsund íbúa, eru nú 4 lyfjabúðir. Sagt er, að 8 menn hafi sótt um lyfsöluleyfi í Kleppsholti, og vitað er, að miklu fleiri menn væru undir það búnir og fúsir til að stofna lyfjabúðir í Rvík. Því má furðulegt heita, að hv. þm. Seyðf., sem talaði um þetta mál síðast, skuli vera úr þeim flokki, sem hefur mjög lagt áherzlu á það, að hann mundi berjast fyrir frjálsri verzlun. Það er að vísu ýmsum erfiðleikum bundið að hafa alla verzlun eins frjálsa og unnt væri, en væri þó það minnsta, að þeir menn, sem hafa gert það að einu höfuðáhugamáli sínu, að verzlunin verði frjáls, — að þeir skuli ekki hafa beitt sér af meiri áhuga fyrir því, að þetta eldgamla einokunarskipulag verði fært til betri vegar. — Þegar ég hafði með þessi mál að gera, voru íbúar Reykjavíkur ekki nema 20 þús. og lyfjabúðirnar tvær, en mér tókst þó að fjölga búðunum um helming, og við það situr. Mér fyndist nú ekki óviðeigandi, að þeir dugnaðarmenn, sem eru hér og telja sig formælendur frjálsrar verzlunar, reyndu að koma því til leiðar, að lyfjabúðum í bænum væri fjölgað upp í 10, til þess að afnema það ófremdarástand, sem nú ríkir í lyfsölumálum bæjarins.