02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í D-deild Alþingistíðinda. (5154)

917. mál, fæðingardeild landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þrjár fyrirspurnir til hæstv. menntmrh. varðandi byggingu fæðingardeildar landsspítalans, enda þykir nú mörgum manni í bænum, að óhæfilegur dráttur hafi orðið á byggingu hennar, svo að um einstakt hneyksli mun vera að ræða um seinagang við opinberar framkvæmdir. Reykjavíkurbær hefur lagt fram sinn skerf til fæðingardeildarinnar, svo að ekkert er upp á bæinn að klaga, en heilbrigðisstjórn ríkisins hefur séð um framkvæmdina frá upphafi. En ef maður sleppir drættinum, sem orðið hefur á því, að deildin tæki til starfa, þá er ýmislegt annað, sem einkennilegt er um þessa byggingu, svo sem þegar sú fregn komst á kreik og reyndist rétt, að húsameistari ríkisins hafi staðið fyrir því að fylla kjallara hússins með grjóti. Ýmislegt fleira hefur komið fram, en ég mun ekki rekja það hér. Það hefur venjulega verið svo, þegar spurt hefur verið um framkvæmdir í þessu máli, að spurningunum hefur verið mætt með skætingi af landlækni, sem hefur viljað kæfa málið í blaðaskrifum og orðaflaumi. Ég vona því, að hæstv. ráðh. geti upplýst málið og geti sagt, að ekki verði langt þangað til deildin muni taka til starfa, og þess vegna hef ég borið fram þessar þrjár fyrirspurnir.

Það er alltaf mikið rætt um þetta mál og alls konar sögur ganga, t.d. er ein um það, að keypt hafi verið sótthreinsunartæki, en þau hafi ekki komizt inn í húsið, svo að nú eigi að byggja viðbyggingu yfir þau. Mér dettur náttúrlega ekki í hug að trúa þessu, en svona sögur komast á kreik vegna þess, hve margt hefur verið undarlegt við þessa byggingu. Ég vonast svo til þess að fá skýr svör frá hæstv. ráðh., svo að almenningur geti fengið að vita hið sanna í málinu.