02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í D-deild Alþingistíðinda. (5155)

917. mál, fæðingardeild landsspítalans

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að það væri rétt fyrir þá, sem bera fram fyrirspurnir, að koma ekki fram með ný atriði, þegar þeir gera grein fyrir fyrirspurnum, atriði, sem maður hefur ekki haft tækifæri til að búa sig undir að svara, eins og t.d. þegar hv. fyrirspyrjandi kom með grjótmálið. Ef það hefði verið í fyrirspurninni, þá hefði ég getað gert grein fyrir því, en sem stendur hef ég ekki gögn við höndina til þess. — Nú, 1. spurning hljóðar svo: „Hvenær var upphaflega ráðgert, að fæðingardeild Landsspítalans gæti tekið til starfa í hinni nýju byggingu deildarinnar?“ — Ég hef látið leita í gögnum málsins og ekki fundið, að í öndverðu hafi verið neinar bollaleggingar um það, hvenær deildin tæki til starfa, aðrar en þær, að alltaf hefur verið gert ráð fyrir því, að deildin tæki til starfa, strax og byggingunni væri lokið. — 2. spurning er svo hljóðandi: Hvað hefur tafið það, að deildin tæki til starfa, og hvað tefur enn?“ Ófyrirséðar tafir urðu á byggingarframkvæmdum, m.a. fyrir það, að erlend firmu stóðu ekki við umsamdar afgreiðslur á ýmsum nauðsynjum til byggingarinnar. Allt um þetta var byggingunni lokið í ágúst í sumar, og hefði þá deildin getað tekið til starfa, ef ekki hefði hamlað almennur starfsfólksskortur og ekki sízt hjúkrunarkvennaskortur ríkisspítalanna. Er þessi starfsfólksskortur tilfinnanlegastur á sumrin vegna orlofa og sumaratvinnu kvenna við framleiðslustörf. Nú vinnur deildarlæknir fæðingardeildarinnar að engu öðru en að koma deildinni af stað, svo að ég vona, að deildin muni nú innan skamms geta tekið til starfa. Ég hafði vonað, að deildin kæmist af stað í september s.l., en af framangreindum ástæðum hefur það reynzt ókleift. Það er náttúrlega leiðinlegt, hversu framkvæmdir hafa dregizt, en því hafa mörg óhöpp valdið, t.d. erfiðleikar með útvegun lyftu, og slíkur seinagangur er því miður ekkert einsdæmi, t.d. verð ég að játa með hryggð, að viðbyggingin á Kleppi hefur dregizt mjög lengi. En ég held mér sé óhætt að segja, að heilbrmrn. og landlæknir hafi ekki látið sinn skerf eftir liggja við eftirrekstur og umsvif til að hraða framgangi málsins.