02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í D-deild Alþingistíðinda. (5163)

918. mál, ríkisskattar samvinnufélaganna

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Hæstv. fjmrh. hefur nú svarað fyrirspurnum mínum og starfsmenn stjórnarráðsins lagt mikla vinnu í þessi mál. Mönnum ætti nú að vera það ljóst, að það er fjarri sanni, að samvinnuhreyfingin greiði enga skatta. Einn liður hjá einu fyrirtæki nam rúmlega 1 millj. kr., svo að það er ekki létt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd. En af því að hæstv. ráðh. var svo góður að bera saman kaupfélögin og einkafélög, vildi ég benda honum á, að samvinnuhreyfingin hefur ekki gróðasöfnun að markmiði, heldur lágt vöruverð. Hér er því ekki hægt að nota sama mælikvarða nema að nokkru leyti. Sá munur, sem á vinnubrögðum er, kom bezt í ljós á stríðsárunum, en ég mun ekki fara nánar út í það. Ég mun haga minni málfærslu í samræmi við það, sem andstæðingarnir gera, og ef þeir beita ósanngirni, þá verður ekki komizt hjá því að taka hart á þessum málum. Ég vil benda á það, að eitt félag, sem ég þó er yfirleitt ánægður með, hefur greitt svo lítinn skatt, að eitt sinn, er það hefði átt að greiða 23 millj. kr., greiddi það aðeins liðlega 1 millj. kr. Það er margt, sem vert væri að athuga í þessu sambandi, en það er augljóst mál, að hart er að kalla félag skattfrjálst, sem borgar 1 millj. kr. í skatt.