02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í D-deild Alþingistíðinda. (5164)

918. mál, ríkisskattar samvinnufélaganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég hef ekki stofnað til þessarar fyrirspurnar, heldur svarað því, sem að var spurt, og þó dálítið fyllra. Hvort það er réttlátt, að samvinnufélögin greiði knappar 8 millj. kr. af 275 millj., skal ég ekki leggja dóm á, það liggur ekki hér fyrir. Naktar tölur hafa leitt það í ljós, að þessi félög, sem eru sterkasti hluti kaupfélaganna, greiða 3,2% af heildargreiðslunum í ríkissjóð. (JJ: Hvað borgar Eimskipafélag Íslands?) Það hefur fengið skattaívilnanir samkvæmt l. Nú, ef þessi niðurstaða er þannig, að hún er ekki eins og hv. þm. S–Þ. óskaði, þá er það ekki mér að kenna, og það er heldur ekki mér að kenna, þó að þær verði ekki eins beitt vopn í höndum hans og hann ef til vill hefur ætlað. Þó að kaupfélögin hafi mikla starfsemi, er ekki hægt að dæma af öllum öðrum gjaldendum starfsemi þeirra til þjóðþrifa. Hinu verður heldur ekki mótmælt, að eitt hlutafélag hefur á þeim tíma, sem hér er um að ræða, borgað knappar 12 millj. kr. í skatta. — Þetta er fyrirspurnatími og því ekki ætlunin að fara út í meira mál. Ég hef gefið eins skýrar upplýsingar um þetta og mér var unnt.