02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í D-deild Alþingistíðinda. (5165)

918. mál, ríkisskattar samvinnufélaganna

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. ráðh. hefur gefið fyllri upplýsingar um þetta mál en beint var spurt um. Hann upplýsti það, að beinar skattgreiðslur til ríkissjóðs á árunum 1939–47 hefðu numið 275 millj. kr., og síðan reiknar ráðh. út, að skattgreiðslur 9 samvinnufélaga séu 3,2% af þessari upphæð. Ég vil benda á það, að mér finnst vafasamt, að rétt útkoma fáist með því að reikna þannig. Hæstv. ráðh. hefur ekki birt upplýsingar um það, hvað félagsmennirnir í þessum 9 félögum hafa borgað til viðbótar hver frá sér. En þær uppl. hefðu átt að fylgja með. Þá hefði fengizt rétt mynd af því, hvað þeir sömu menn hefðu greitt hlutfallslega af sköttum til ríkissjóðs á þessu tímabili. En þarna er ekki nema hálfsögð sagan um þeirra skattgreiðslur. Þetta vildi ég benda á. En það er vitanlega engin von að hæstv. ráðh. hafi skýrslur til um það, hvað þessir menn, sem hafa greitt hér sameiginlega þessar tæpar 9 millj. króna, hafi greitt til viðbótar hver frá sér á þessum 9 árum. Það er örðugra verk en svo, að það yrði gert á einni viku í hans endurskoðunardeild. Það er fróðlegt að gera ýmsan samanburð af þessu tagi, t.d. um skattgreiðslur fyrirtækja, sem byggist á tekjum þeirra, og einnig væri mjög fróðlegt að athuga einhvern tíma, hvað hreinar tekjur ýmissa verzlunarfyrirtækja hér á landi hafa numið mikilli upphæð á hvern einstakan eiganda fyrirtækjanna. — Ég sé svo ekki að öðru leyti ástæðu til að blanda mér í þessar umr.