02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í D-deild Alþingistíðinda. (5167)

918. mál, ríkisskattar samvinnufélaganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hv. þm. V- Húnv. Honum þótti ég upplýsa of mikið (SkG: Nei, nei, ekki var það.) og jafnvel of lítið, en sérstaklega þó of mikið. En ef hann vill bera fram fyrirspurn um, hvað hver einstakur maður í hverju kaupfélagi og hverju hlutafélagi hafi greitt, þá býst ég við, að það yrði að víkja frá þingsköpum með tímann. Það yrði nokkurra vikna starf, og væri kannske vel til fundið, að sparnaðarmennirnir á Alþ. hefðu forgöngu um það, að halda starfsfólki ríkisins launuðu við þau störf að athuga um þetta. En ég mun ekki skorast undan því, ef hann vill bera fram fyrirspurn um þetta efni, eins og hann var að tala utan að. Ég mundi biðja hæstv. forseta að víkja nokkuð frá þingsköpum hvað tímann snerti til þess að svara því, sem spurt yrði um.