26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (5189)

95. mál, sjálfvirka símstöðin Akureyri

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það hefur nú upplýstst, að þær tafir, sem orðið hafa á leyfisveitingum, hafa ekki seinkað framkvæmdum í þessu máli nema kannske í mánaðartíma. Hitt kemur nokkuð spánskt fyrir, að embættismenn ríkisins skuli gera stórar pantanir án þess að fyrir liggi leyfi frá viðkomandi yfirvöldum. Ég skil þörf Akureyrar í þessu efni; en hitt þykir mér undarlegt, að lagt skuli vera í svo kostnaðarsamar stórframkvæmdir á meðan símalínur í sumum landsfjórðungum virðast vera orðnar hér um bil ónýtar, og ekki er hafizt handa um að ráða þar bót á. Það hefur t.d. verið símasambandslaust við Vestfirði upp undir mánuð í vetur, og annaðhvort er, að símalínurnar eru ónýtar, eða viðhaldið er mjög slælega framkvæmt, nema hvort tveggja sé. Ég vildi því alvarlega skora á hæstv. viðskmrh. að kynna sér, hvernig á því stendur, að Vestfirðir hafa verið svo lengi símasambandslausir í vetur, og reyna að ráða bót á því á sumri komanda.