26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í D-deild Alþingistíðinda. (5192)

95. mál, sjálfvirka símstöðin Akureyri

Finnur Jónsson:

Þegar fjárhagsráð tók til starfa, lá ekki fyrir frá viðskiptanefnd og nýbyggingarráði neitt um það að veita leyfi til sjálfvirku stöðvarinnar á Akureyri, og þeir menn, sem sæti áttu í viðskiptaráði og eins nýbyggingarráði, hafa ekki kannazt við, að neitt slíkt hafi farið fram. Ég er hins vegar ekki að rengja, að eitthvað hafi verið um þetta rætt, en leyfi hefur aldrei verið gefið fyrir þessu verki, og þess vegna mun um algerlega nýja umsókn að ræða til fjárhagsráðs. Þessar vélar hefðu ekki verið tilbúnar til afgreiðslu fyrr en í nóv., og er bágt að skilja þann hamagang, sem út af þessum málum hefur verið á Akureyri. Leyfisveitingar fjárhagsráðs hafa á engan hátt tafið þetta mál. Akureyringar hafa komizt svo að orði, að það sé ekki lifandi á Akureyri, ef sjálfvirka stöðin komist ekki upp. Ef svo er á Akureyri, þá er alveg víst, að það eru staðir á landinu, sem erfiðara verður að lifa á, en þar. Það, sem ætti að leggja mesta áherzlu á í sambandi við símamálin, enda þótt viðurkennd sé þörfin á Akureyri fyrir sjálfvirka stöð, er það, að fyrst og fremst sé reynt að haga símaframkvæmdunum þannig, að langlínurnar verði í fullkomnu lagi. Þegar svo er komið, að aðstaða landshluta eins og Vestfjarða er sú, að þeir mega heita sambandslausir lengri tíma eða mikinn hluta af árinu, þá fer nú skörin að færast upp í bekkinn, ef framkvæmdir hinna einstöku staða eiga að ganga fyrir umbótum á langlínum, og það var þetta, sem ég vildi minnast á við hæstv. viðskmrh., að hann beitti sér fyrir því, að gert yrði við línuna vestur. Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri verið að gera við línuna vestur og meðal annars væri fyrirhugað nýtt símastöðvarhús í Hrútafirði, og er mér kunnugt um það, en það, sem mér finnst þurfi fyrst að gera og leggja mesta áherzlu á, er að koma línunni sjálfri í lag vestur, áður en farið er út í dýrar framkvæmdir með því að byggja sérstakt símastöðvarhús í Hrútafirði. Menn gætu sætt sig við að bíða svolítið lengur eftir sjálfu símastöðvarhúsinu í Hrútafirði, ef línan sjálf væri bætt, og jafnvel þó að liðu nokkur ár, en að bíða í nokkur ár þar til sjálf línan væri komin í fullkomið lag, er ákaflega erfitt. Það, sem ég undrast, er, hve mikil áherzla er lögð á sérstaka staði og bætt sé inn sveitum eða bæjarkerfum áður en sjálf línan er tekin. Það þarf enginn að segja mér, að það er stórkostlegt tekjutap fyrir símann, að heilir landshlutar séu úr sambandi við hann svo mánuðum skiptir eða jafnvel heilt ár. Ég þykist vita, að það mundi vera farið að þjóta í tálknunum á Akureyringum, ef þeir hefðu orðið fyrir einhverju slíku. Hv. þm. Ak. vildi halda því fram, að ég hefði sérstaklega tafið fyrir þessum framkvæmdum á Akureyri. Það er algerlega ósatt, og getur hv. þm. gengið úr skugga um það, ef hann vill afla sér upplýsinga um það.

Ég vil ítreka það við hæstv. viðskmrh., að hann láti fara fram sérstaka athugun á þessu máli og beiti áhrifum sínum í þá átt, að aðallínan verði látin ganga fyrir framkvæmdum, sem ekki eru eins bráðnauðsynlegar.