26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í D-deild Alþingistíðinda. (5193)

95. mál, sjálfvirka símstöðin Akureyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Fyrst er það út af umsókn um leyfi fyrir þessum fjárfestingum. Í bréfi frá póst- og símamálastjóra segir svo, eftir að hann hefur lýst viðskiptum sínum við viðskiptaráð og nýbyggingarráð, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar svo fjárhagsráð var stofnað, var að sjálfsögðu sótt um fjárfestingarleyfi og beiðnin síðan endurnýjuð.“ Ég get ekki skilið af þessu annað en að póst- og símamálastjóri hafi sótt um nokkurn veginn eins og l. gera ráð fyrir að þurfi að gera.

Um línuna og bilunarhættu á henni er allt rétt, sem hv. þm. Ísaf. sagði, og bilunin verður mest fyrir vestan Hrútafjörð og vestur, en ég er ekki tæknilega nægilega vel að mér í því, hvernig þetta nýja fyrirkomulag er hugsað, en mér hefur þó skilizt, að til þess að línan vestur gæti komið að notum, þyrfti að koma upp símastöðvarhúsinu í Hrútafirði og sú stöð að vera komin upp, til þess að hægt verði að koma nýju jarðsímasambandi suður, sem ætti að verulegu leyti að bæta úr þessu ástandi. Það er áreiðanlegt, að ástandið batnar ekki, þó að ný lína sé lögð út af fyrir sig frá Ísafirði og í Hrútafjörð, ef ekki verður séð um að komast lengra en í Hrútafjörðinn, því að línan frá Ísafirði nú liggur allt annars staðar. Og línunni hinni er ætlað að vera allt annars staðar, og sú lína á að verða höfuðlínan og koma í samband við jarðsímann suður, og eru þær framkvæmdir tengdar við byggingu símahússins í Hrútafirði, og það, sem hefur staðið á, er að koma upp þessu símastöðvarhúsi í sambandi við jarðsímann og línuna vestur, eða þannig hef ég skilið það.