26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í D-deild Alþingistíðinda. (5197)

920. mál, skipakaup

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Hér er að vísu um tvö ólík atriði að ræða, annars vegar framkvæmd á togarakaupum ríkisins og hins vegar viðvíkjandi gæzluskipi. Við umr., sem kannske fara fram í dag um landhelgisgæzlu, mun ég gera grein fyrir því, að þessi skipakaup, sem hér er talað um, nýtt gæzluskip, er í raun og veru brot á eldri samþ. Alþ., sem við höfum lifað eftir um alllangan tíma. Það gæti vel komið til mála að auka þann skipastól, þó að reynslan sýni, að það sé lítil bót. 100 tonna bátar duga bezt til þessara starfa, en hin stærri skip eru ekki heppileg, eins og allir vita, og mig undrar stórlega, að ríkisstj. skyldi láta sér detta í hug að semja um smíði á slíku skipi, þegar tillit er tekið til þeirra miklu peningavandræða, sem ríkisstj. er nú í, nema því aðeins að hún hafi einhvern aðgang að fjármunum erlendis í einhverju formi, sem þm. vita ekki um. Við vitum um þau miklu skipakaup, sem átt hafa sér stað hingað til, og hvernig hefur gengið með þau, en mig langar til að vita nú, hvernig ríkisstj. hugsar sér kaupin á hinum 10 nýju togurum, sem lýst hefur verið hér á Alþ., og enn fremur hvernig landhelgismálarh. ætlar sér að borga hið nýja gæzluskip í Danmörku. Mér er kunnugt um, að landið er enn í vanskilum vegna Skjaldbreiðar, Herðubreiðar og Heklu, af því að það eru ekki til peningar erlendis. Ég vænti, að hæstv. ráðh. muni láta þingið vita um þessar aðstæður.