26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í D-deild Alþingistíðinda. (5198)

920. mál, skipakaup

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég tel eðlilegast, að ég svari fsp. á þskj. 177 varðandi kaup á þeim 10 togurum, sem samið hefur verið um kaup og smíði á frá útlöndum. Bæði nú og fyrir nokkrum árum hefur það fallið undir alla ríkisstj., en formlega undir forsrh. Þegar ég lagði fyrir Alþ: staðfestingu á bráðabirgðal. um heimild til að kaupa til landsins 10 nýja togara og láta byggja þá erlendis, þá gerði ég grein fyrir ástæðunum, að horfið var að því ráði. En ég vil aðeins beina örfáum orðum að því að svara því, sem liggur í fyrstu fyrirspurninni.

Það eru þrír möguleikar, sem stjórnin hefur reiknað með og talið, að notaðir yrðu, eftir því sem ástæður leyfðu um hvern þeirra, til fjáröflunar til kaupa á þessum 10 togurum. Í fyrsta lagi brezkt exportcredit, sem þegar er nokkur ádráttur fenginn um í sambandi við samninga um smíði á þessum 10 togurum, og eru nú áframhaldandi samningatilraunir um að fá þann brezka exportcredit bæði stærri og til lengri tíma. Í annan stað, eins og öllum er kunnugt um, hefur ríkisstj. í áætlun sinni um notkun Marshall-aðstoðarinnar talið þar upp kaup á þeim 10 nýju togurum. Gert er ráð fyrir, að af því fé, sem úthlutað kann að verða á sínum tíma, kunni að verða notað eitthvað upp í þessar greiðslur, eftir því sem seinna kann að verða ákveðið. Í þriðja lagi hefur og ríkisstj. reiknað með þeim möguleika, að þeir, sem keyptu þessa 10 nýju togara, mundu sjálfir leggja fram eitthvert fé, sem þeir sjálfir kynnu að eiga eða afla sér láns fyrir að verulegum hluta af andvirði þessara togara. Hvað það verður mikið, sem talið er rétt, að kaupendur togara leggi fram, fer nokkuð eftir því, hvernig fer um þau tvö atriði, sem ég nefndi fyrst, brezka samninginn og Marshallaðstoðina. — Á þessu stigi málsins get ég ekki gefið frekari upplýsingar um það, sem spurt er viðvíkjandi þessu atriði.