26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í D-deild Alþingistíðinda. (5207)

921. mál, hafrannsóknir og friðun Faxaflóa

Fyrirspyrjandi, (Jónas Jónsson):

Fyrirspurn þessi er um alþjóðaráðstefnur um hafrannsóknir og þátttöku Íslands í þeim á undanförnum árum, en lítið hefur komið fram um árangur af því máli fyrir almennings sjónir, og langar mig þess vegna að bera fram spurningar viðvíkjandi því. Stundum hafa þær verið allíburðarmiklar þessar aðgerðir hjá einum starfsmanni sjávarútvegsins, þar sem hann hefur verið á fundum með allmikla sveit manna með sér. Þetta hafa ef til vill verið gagnlegir fundir, en þó getur maður efazt um, að þessar ferðir hafi borið mikinn árangur. Ég hef þess vegna leyft mér að bera fram þessar spurningar, hvað margir fundir hafi verið haldnir og hverjir hafi verið fulltrúar á þessum fundum, hve mikið þátttaka Íslands hefur kostað og hverjar niðurstöðurnar hafa verið o.s.frv.

Ég vil nota tækifærið til þess að benda á það, að margt, sem hefur komið fram í þessu efni, er ákaflega léttvægt. Það hefur t.d. ekki mikið verið unnið að því að fá aðrar þjóðir til þess að veiða ekki í Faxaflóa, og það hefur komið fyrir þráfaldlega, meira að segja í landhelgi.