26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í D-deild Alþingistíðinda. (5216)

922. mál, þingfréttir í útvarpi

Barði Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á, að hv. fyrirspyrjandi hefur áður svarað þeirri fyrirspurn, er fyrir liggur á þskj. 177 og er nú til umr. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa svar hans við hans eigin fyrirspurn, en það birtist í blaði hans, Landvörn, 6. des. s l. og hljóðar svo:

„Stefán Jóh. forsrh. kom eitt sinn úr utanferð með þá ágætu hugmynd, að þingmenn ættu að geta spurt ríkisstj. um þjóðarhag og fengið svör einu sinni í viku. Þegar til kom og þingmenn byrjuðu að spyrja, þótti sumum fullmikið um frelsið. Undu Hermann Jónasson, Gylfi, Jóhann Hafst. og Sigurður úr Vigur illa við, að horft væri bak við tjöldin, og vildu helzt neita, að spurningar væru bornar upp á Alþ. Þegar til kom, brast þá félaga áræðið og það því fremur sem fyrirspurnirnar voru vinsælar hjá kjósendum. Loks björguðu deildarforsetarnir, Barði og Bernharð, málinu með því að banna Helga Hjörvar að minnast á fyrirspurnirnar í útvarpinu. Kjósendur eiga ekki að fá að sjá nema yfirborð stjórnmálanna.

Vegna bannfæringar deildarforsetanna og ótta hinna pappírsauðugu blaða við að segja frá spurningum á Alþingi verður Landvörn að eyða nokkru rúmi til að koma bannfærðu málefnunum til almennings.“

Þannig er svar hv. þm. S–Þ. við hans eigin fyrirspurn, en á því er sá galli, að það eru gersamlega tilhæfulaus ósannindi, að deildarforsetarnir hafi skipt sér nokkuð af málinu. Þeir hafa aldrei lagt bann við því, að skýrt væri frá fyrirspurnum í þingfréttatíma útvarpsins. Hv. þm. hefði átt að snúa sér til þingfréttamanns eða skrifstofustjóra Alþingis, áður en hann bar slík ósannindi á borð fyrir lesendur sína. Ég hef að svo stöddu ekki meira um þetta að segja, því að málið hefur aldrei komið til kasta deildarforsetanna, og vænti ég þess, að hv. þm. S-Þ. sjái sóma sinn í að leiðrétta þetta í næsta tölublaði Landvarnar.