26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í D-deild Alþingistíðinda. (5218)

922. mál, þingfréttir í útvarpi

Barði Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. segir, að sér hafi verið sagt, að bann við því að geta um fyrirspurnirnar í þingfréttatíma ríkisútvarpsins kæmi frá hærri stöðum. Það er undarlegt, að hann skyldi ekki spyrja, hverjir þeir hærri staðir væru, og hví ekki að snúa sér til hæstv. forseta Sþ. og spyrja hann um þessi máttarvöld? Svo heldur þessi hv. þm. því fram, að það sé vanræksla af hendi deildarforseta, að fyrirspurnir, sem bornar eru fram í Sþ., séu ekki birtar í útvarpinu. Hv. þm. S-Þ. ætti að vera kunnugt, að hæstv. forseti Sþ. hefur umsjón með fréttaflutningi þaðan. Annars er auðséð, hvert hv. þm. S-Þ. er að fara. Hann ber fram þessa fyrirspurn til að blekkja almenning. Hann vekur athygli á, að höft séu lögð á áróður hans, og lýgur því svo á deildarforsetana, af því að honum er einna verst við þá af þingforsetunum, að það séu þeir, sem séu að níðast á sér, — þokkapilturinn!