02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í D-deild Alþingistíðinda. (5222)

114. mál, símabilanir á Vestfjörðum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir því við settan póst- og símamálastjóra, Gunnlaug Briem, að hann gæfi mér skýrslu um það, sem að er hér spurt, og í þeirri röð, sem spurningarnar eru bornar fram, og ég held, að málið skýrist bezt með því að lesa upp svar, sem settur póst- og símamálastjóri, Gunnlaugur Briem, hefur sent mér. Þar segir:

„1. spurning: Hverjar eru taldar vera orsakir hinna tíðu bilana, sem orðið hafa undanfarna mánuði á símalínum á Vestfjörðum?

Greinargerð: Það yrði allt of langt mál að fara nákvæmlega út í allar línur á Vestfjörðum, og skal því símalínan milli Borðeyrar og Ísafjarðar tekin til meðferðar sem dæmi, en hún er væntanlega þýðingarmesta línan til Vestfjarða og sú, er verst skakkaföll hefur hlotið í vetur. Á þessari línu er og fjölsímasambandið til Ísafjarðar. Á s.l. ári bilaði þessi lína alls 5 sinnum, en einu sinni það sem af er þessu ári. Geta þetta varla talizt tíðar bilanir á svo langri og erfiðri leið. Hins vegar hafa viðgerðir tekið alllangan tíma vegna veðurofsa og ófærðar, og hefur það valdið miklum óþægindum. Skeytasambandi hefur þó verið haldið uppi loftleiðis, meðan línurnar voru ónothæfar.

Ein af nefndum bilunum var smávægileg og stóð í sambandi við sumaraðgerðarvinnu, og var viðgerð lokið eftir 2 klukkustundir. Orsakir allra hinna bilananna var mikil ísing, sem engar loftlínur standast, ef stormur er samtímis ísingunni. Við ísinguna hleðst handleggsþykkt íslag utan á hvern vír. Þegar þessu fylgir ofsarok, verður áreynslan á vír, einangrara, króka og staura oft hundraðfalt meiri ,en við íslausan vír í logni. Hins vegar er áreynslan á íslausan vír í ofsaroki aðeins 4–5 sinnum meiri en í logni. Af þessu er auðskilið, að ísingarhættan er ólikt alvarlegri fyrir loftlínur, en nokkurt rok án ísingar. Þegar lína hefur bilað við slíka ísingu og hefur fengið viðgerð að vetrarlagi, er hún yfirleitt veikari en áður, því að fullkominni viðgerð, þar á meðal algerðri endurnýjun hins ofreynda efnis, verður að jafnaði ekki við komið fyrr en næsta sumar.

Nefndum bilunum á línunni milli Borðeyrar og Ísafjarðar skal nú lýst nokkru nánar. 1. bilun: 12. jan. 1948. Línan slitnar niður af 34 staurum hjá Arngerðareyri vegna ísingar. Enginn staur brotnaði. Viðgerð var lokið eftir 2 daga. — 2. bilun: 26. febr. 1948. Vírar slitnuðu niður á 2 km svæði á Steingrímsfjarðarheiði vegna ísingar. Brotnuðu 100 einangrarar. Vegna óveðurs og vatnavaxta urðu viðgerðarmenn að margsnúa við í viðgerðarferðum, og var ekki unnt að ljúka viðgerð fyrr en 6. marz, eða eftir 9 daga. 3. bilun: 30. sept. 1948. Var smábilun í sambandi við sumaraðgerðarvinnu, og var viðgerð lokið eftir 2 klukkustundir. — 4. bilun: 8. nóv. 1948. Gríðarmikil ísing á svonefndri Skák milli Arnardals og Sauradals, upp af Súðavík. Brotnuðu 28 staurar,margir krókar og einangrarar eyðilögðust og línur lágu niðri á 5 km svæði. Viðgerðarmenn voru strax sendir af stað, en urðu frá að hverfa vegna veðurofsa. Daginn eftir var aftur reynt, og loks var viðgerð lokið 12. nóv., eða á 5. degi. 5. bilun: 1. des. 1948. Urðu miklar bilanir á mörgum stöðum vegna ísingar og aftakaveðurs. Línurnar slitnuðu niður á 12 km svæði frá Ögri og inn með Mjóafirði, en enginn staur brotnaði þar. Í Reykjarfirði brotnuðu 5 staurar, og línur slitnuðu á 300 m svæði. Hjá Húsavík í Steingrímsfirði brotnuðu 5 staurar og allir vírar slitnuðu á 300 m svæði. Ísingin var þar yfir 10 cm þykk á hverjum vír. Á Steingrímsfjarðarheiði slitnuðu línurnar niður á rúmlega 1 km svæði, en staurar brotnuðu þar ekki, en hins vegar margir einangrarar. Þess má geta, að þarna var vírinn úr 5,3 mm járni, sem er gildasti vír, sem hér hefur verið notaður í símalínur. — 6. bilun: 1. jan. 1949. Bilun á Steingrímsfjarðarheiði vegna ísingar. Var ekki hægt að senda út viðgerðarmann sama dag vegna stórhríðar, og næsta dag urðu viðgerðarmenn að snúa við vegna veðurs. Þriðja daginn var blindhríð á heiðinni. Viðgerð tókst loks 8. jan., og línan hefur ekki bilað síðan.

Þess skal getið, að símasambandið milli Reykjavíkur og Ísafjarðar hefur rofnað oftar vegna bilana sunnanlands, eða í 7 skipti árið 1948, þar af voru tvær bilanir vegna skemmda af mannavöldum, og tvísvar var sambandslaust á fjölsímanum vegna rafmagnsleysis á Ísafirði, en aðeins 2–3 stundir í einu.

Veðráttan á þessum vetri hefur valdið óvenju stórfelldum bilunum á Ísafjarðarlínunni. Hins vegar munu bilanir á ýmsum öðrum loftlínum í landinu hafa verið tíðari, svo sem á sunnanlandslínunni til Austfjarða.

Á Barðastrandarlínunni urðu um helmingi fleiri bilanir, en á Ísafjarðarlínunni, en viðgerð tókst samdægurs eða næsta dag í öll skipti nema eitt, en það var í byrjun desember, eða í sama óveðrinu og versta bilunin varð á Ísafjarðarlínunni. Þá var Barðastrandarlínan sama sem sambandslaus í 16 daga.“

Þá vil ég geta þess, að eftir að grg. þessi er samin, bilaði Ísafjarðarlínan frá Ögri, eða í fyrradag, en komst aftur í lag í morgun. Varð samsláttur, sem talinn er stafa frá tognun frá biluninni í des. s.l.

Eins og hv. þm. hafa heyrt af þessari skýrslu, er það ísing, sem mestu hefur valdið um þessar skemmdir og bilanir, og þá einnig veðrið, sem hefur hamlað viðgerð á línunum, svo að hún hefur dregizt lengur en ella. En mér skilst á skýrslunni, svo og á samtali við póst- og símamálastjóra, að í þessum efnum hafi verið gert allt, sem hægt er, til þess að gera við þessar bilanir og það eins fljótt og hægt er. En trygging getur ekki fengizt í þessu efni meðan um loftlínur er að ræða.

„2. spurning: Hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar til þess að bæta úr því öngþveitisástandi, sem ríkir í símamálum þessa landshluta.

Greinargerð: Á hverju sumri fara línuflokkar meðfram öllum aðallínum, og svo var einnig á síðasta sumri á línunni milli Borðeyrar og Ísafjarðar. Á Steingrímsfjarðarheiði var þannig skipt um ónýta staura og farið upp í topp á hverjum staur til athugunar á einangruðum og bindingum víra og lagfært það, sem athugavert fannst. Jafnframt er sú venja að skrá niður, hvaða staurar séu að byrja að fúna og þurfi að skipta um á næsta sumri eða því sem næst. Er verkstjórinn skildi við línuna eftir síðustu sumaraðgerð, taldi hann, að staurarnir á Steingrímsfjarðarheiði væru í svo góðu ástandi, að ekki þyrfti að skipta um neinn staur fyrst um sinn, en hins vegar þyrfti að skipta um nærri 100 staura næsta sumar á leiðinni Arngerðareyri–Ísafjörður. Af þessum 100 síðastnefndum staurum eru 7 á svæðinu milli Ögurs og Þernuvíkur, þar sem mikil ísingarbilun varð í vetur, en enginn þeirra staura brotnaði þar. Það kom og fram annars staðar, að við svona ísingu brotnuðu jafnt nýir staurar sem gamlir og nýr vír úr sterkasta efni hélt ekki heldur.

Á næsta sumri er ráðgert, eins og venjulega hefur verið, að skipta um allt hið ofreynda efni á þeim svæðum, sem hefur bilað í vetur, og enn fremur staga staura mun meira, en gert hefur verið að undanförnu, svo og stytta staurabilið á vissu svæði milli Ísafjarðar og Arngerðareyrar, þótt það sé kostnaðarsamt. Kostnaðurinn við þessa aðgerð á Ísafjarðarlínunni hefur verið áætlaður nálægt hálfri millj. kr., og er það nærri sjötti hluti þess, sem áætlað er til viðhalds allra lína í landinu samkvæmt tillögum til fjárlaga 1949. Hins vegar telur póst- og símamálastjórnin, að slíkar aðgerðir tryggi ekki gegn bilunum við svo mikla ísingu, sem varð á þessum vetri, en staurabrot og aðrar skemmdir yrðu þá minni.

Póst- og símamálastjórnin telur, að ekki fáist viðunandi trygging gegn símabilunum fyrr en hægt er að nota loftlínur. Hjá Landssímanum hafa lengi legið fyrir áætlanir um framtíðarlausn þessara mála, bæði yfir Vestfirði og aðra landshluta. Fela þær í sér jöfnum höndum fjölgun símasambanda, betri afnot og hraðari afgreiðslu, svo og stóraukið öryggi með því að fella niður notkun loftlina á aðalleiðum. Hér skal rétt drepið á helztu atriðin í þessum áætlunum varðandi sambandið við Ísafjörð:

Fyrsti liðurinn í nefndum áætlunum er að koma upp símastöð með mögnurum og fjölsímum í Hrútafirði við endann á núverandi jarðsíma frá Reykjavík norður. Á sambandið við Ísafjörð þá að fara í gegnum jarðsíma á þeim hluta leiðarinnar, sem er milli Reykjavíkur og Hrútafjarðar, og þar með verða óháð loftlínunum. Næst er ráðgert að koma á ultrastuttbylgjuradiosambandi (með fjölsíma) milli Melgraseyrar og nágrennis Ísafjarðar og þar með komast fram hjá loftlínum og sæsímum á leiðinni frá Arngerðareyri til Ísafjarðar. Þá er eftir að komast fram hjá loftlínum á leiðinni milli Hrútafjarðar og Melgraseyrar. Er hugsað að leysa það sumpart með jarðsíma yfir Steingrímsfjarðarheiði og sumpart með ultrastuttbylgju-fjölsíma milli Blönduóss og Hólmavíkur, þegar fyrirhugaður jarðsími milli Hrútafjarðar og Akureyrar er kominn til Blönduóss. Verður þá hægt að fjölga samböndum úr 3 upp í 5 eða meira. Síðan er hugsuð önnur sambandsleið við Ísafjörð um Patreksfjörð til Reykjavíkur, en það yrði of langt mál að rekja þessar áætlanir hér. Allar þessar framkvæmdir kosta mikið og verða ekki gerðar á stuttum tíma, nema þá með stórlánum.

Póst- og símamálastjórnin hefur að undanförnu sótzt mjög fast eftir fjárveitingu og fjárfestingarleyfi til síma- og magnarastöðvarinnar í Hrútafirði, sem hún telur óhjákvæmilegan fyrsta lið í öllum umbótum á símaleiðunum til Vestfjarða og Norðurlands, og liggur það mál nú fyrir fjvn. Alþ.

3. spurning: Hvernig eru horfur með innflutning á nauðsynlegu efni til viðhalds og nýbyggingar símalína í landinu?

Greinargerð: Í okt. s.l. heimilaði fjárhagsráð að gera pantanir fyrir vissri upphæð varðandi mikið aðkallandi efni. Þetta svaraði þó tæplega til 1/30 þess, sem síminn telur sig þurfa á þessu ári. Var þá pantaður vír og einangrarar meðal annars. Nú er það svo, að á einangruðum er nú nærri tveggja ára afhendingartími, svo að sú pöntun leysir ekki úr þörfum þessa árs. Hins vegar er póst- og símamálastjóri í utanför sinni að reyna að leysa það mál, ef til vill með láni hjá erlendum símastjórnum. Enn fremur hefur landssímanum verið tjáð, að alveg á næstunni muni hann fá innflutningsleyfi fyrir upphæð, sem svarar til um 20% umsókna hans, og verða þá strax gerðar pantanir á staurum og öðru mest aðkallandi símaefni, eftir því sem leyfisupphæðin nær. Hins vegar er póst- og símamálastjórninni ekki kunnugt um, hvenær leyfi verða veitt til pöntunar meginhluta efnisþarfanna.

Loks skal þess getið, að vegna hins langa afhendingarfrests og fyrirvara, sem nú er á flestu efni, er ekki víst, að efnið, sem nú verður pantað, fáist í tæka tíð fyrir sumaraðgerðirnar.“

Við þessa skýrslu póst- og símamálastjórnarinnar hef ég ekki öðru að bæta en því, að á innflutningsáætlun ársins, sem fjárhagsráð hefur nú gengið frá, en aðeins er ósamþ. af ríkisstj., er gert ráð fyrir að leyfa innflutning á símaefni á árinu 1949 fyrir 6,1 millj. kr., og ætti með því að vera leyst úr a.m.k. öllum aðalefnisþörfum símans. Þessi leyfi er vitanlega ekki farið að veita enn þá, því að ekki hefur verið gengið frá efnisþörfinni til fulls.

Ég sé svo ekki þörf á að bæta við þessa ýtarlegu skýrslu póst- og símamálastjórnarinnar.