02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í D-deild Alþingistíðinda. (5233)

924. mál, mjólkurflutningar til Reykjavíkur úr Borgarfjarðarhéraði

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Ráðh. hefur nú skýrt þetta mjög ýtarlega, og árangurinn er sá, að það ætti að vera þm. ljóst, hvílíkt ófremdarástand er í mjólkurmálunum, ef það kostar 50 kr. í Borgarnesi að láta eitt tonn af mjólkurbrúsum af bryggjunni upp í Laxfoss og aðrar 50 að taka brúsana hér við bryggjuna og láta á bíla, en flutningsgjaldið yfir hafið er líka 50 kr. Allt sýnir þetta manni, hvað skipulagið er lélegt í þessu yfirskipulagða landi, því að ef nokkurri hagsýni væri til að dreifa, væri þetta auðvitað ekki nærri svona stór liður að koma brúsunum af bryggju eins og raun ber vitni, að það skuli þurfa að eyða 100 kr. á tonnið fyrir að lyfta brúsunum upp á skip í Borgarnesi og taka af skipi hér.

Ég vænti svo þess, að hæstv. ráðh. stilli svo til, að þessu ófremdarástandi verði aflétt, og menn sjái, að engin meining er í öðru, en að nota Laxfoss til þessara flutninga. Ég vona, að þessar upplýsingar verði til þess, að á þetta komist betra skipulag, hið vonda skipulag fæði af sér betra skipulag.