16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í D-deild Alþingistíðinda. (5239)

125. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Að því er snertir þessa fyrirspurn, sem er rómv. í á þskj. 324, sem hér liggur fyrir og varðar byggingu og rekstur fiskiðjuvers við Grandagarð í Reykjavik, þá vil ég fyrst geta þess, varðandi 1. tölul. fyrirspurnarinnar — því að eins og hv. þm. sjá, er fyrirspurnin í 7 tölul. — sem fjallar um það, eins og þar segir: „Hvaða aðilar réðu því, að lagt var út í byggingu fiskiðjuversins?“, — að fiskiðjuverið er sem kunnugt er byggt í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Og mér skilst, að það hafi verið fiskimálanefnd og þáverandi hæstv. atvmrh., sem réðu því, að lagt var út í þessa byggingu. Mér er ekki kunnugt um, hvort ríkisstj. öll stóð að því verki, en frumkvæði og ráð munu hafa verið hjá báðum þessum aðilum. Ég get getið þess, að það var leitað til nýbyggingarráðs varðandi þetta fyrirtæki eins og önnur fyrirtæki, er byggð voru á þeim tíma, um nokkurs konar löggildingu og innflutningsleyfi fyrir vélum fyrir þetta fyrirtæki, og var það veitt í þann tíð. Leyfi fyrir innflutningi á því, sem þurfti til byggingarinnar, var veitt af hálfu nýbyggingarráðs, þar sem á þetta fyrirtæki var litið sem verandi innan þess ramma nýbygginga ýmissa fyrirtækja sem ráðizt var í á þeim árum.

Þá koma fyrirspurnartölul. 2, 3, 4, 5 og 6. Ég skal svara þeim eins og þær heimildir gefa tilefni til, sem ráðuneytið hefur aflað sér í tilefni þessarar fyrirspurnar. En svörin eru samin af stjórn fiskimálasjóðs eða skjalið undirritað af form. hennar, Þorleifi Jónssyni, f.h. stjórnar fiskimálasjóðs.

Í fyrsta lagi er fyrirspurn undir tölul. 2: „Hve mikið fé hefur verið lagt í þessa byggingu?“ — Því er svarað þannig af stjórn fiskimálasjóðs:

„Heildarstofnkostnaður fyrirtækisins, eins og það er nú, hefur orðið kr. 6.850.248,97 og sundurliðast hann þannig:

Bygging ...................... kr. 4.619.591.88

Vélar .......................... — 2.112.025,72

Áhöld ...............................— 90.583,65

Skrifstofuáhöld ................ — 28.047,72

….Samtals kr. 6.850.248,97“

3. tölul. fyrirspurnarinnar hljóðar þannig: „Hvar standa byggingarlánin fyrir fiskiðjuverið?“ Því er svarað svo:

„Stofnlán fyrirtækisins eru sem hér segir:

Stofnlánadeild sjávarútv. ...... kr. 3.333.000,00

Fiskimálanefnd í . ... . .. .. .. .. . — 750.000,00

Fiskimálanefnd II .................... — 515.000,00

Fiskveiðasjóður ...................... — 400.000,00

Bæjarsjóður Reykjavíkur . .. . . — 350.000,00

Fiskimálanefnd, bráðab.lán . .. — 703.267,13

Landsbanki Íslands, víxill ........ — 800.000,00

Ríkissjóður Íslands ...................- 301.817,00

Samtals kr. 7.153.084,13

Munurinn á heildarupphæð lánanna og hinum bókfærða stofnkostnaði stafar af ýmsum birgðum, tapi á rekstrinum, o.s.frv.“

4. tölul. fyrirspurnarinnar hljóðar þannig:

„Hve mikið hefur ríkið fengið fyrir selda framleiðslu fiskiðjuversins árlega?“ — Það gefur nú raunar auga leið, að ríkið hefur ekki fengið andvirði seldrar framleiðslu í þessu efni. En þetta á vist að skilja þannig, að spurt sé um, hvað hafi selzt af framleiðslu fyrirtækisins. — Þessum lið fyrirspurnarinnar er svarað þannig:

„Árið 1947 var fyrsta starfsár fiskiðjuversins, og var þá lítið framleitt annað en frystur fiskur. Framleiðsla þessi hófst í marzmánuði og var þá ýmsum örðugleikum bundin sökum þess, að frystihúsið var ekki fullgert. Alls var frystur það ár fiskur, sem nam að útflutningsverðmæti kr. 1.620.207,95. Niðursoðin vara var flutt út það ár fyrir kr. 78.661,35, en seld innanlands fyrir kr. 6.067,60. Niðursuðuverksmiðjan var ekki tilbúin til starfrækslu fyrr en nokkru síðar en frystihúsið, og varð rekstur hennar vegna þess og annarra aðstæðna bæði mjög lítill og óhagstæður.

Árið 1948 var frystur fiskur, sem nam að útflutningsverðmæti kr. 2.915.442,29. Þar af var útskipað fyrir áramát andvirði kr. 1.625.960,45, en birgðir um áramót voru kr. 1.289.481,84, og verður afskipun þeirra að líkindum lokið fljótlega eftir næstu mánaðamót. Niðursoðin vara var flutt út á árinu fyrir kr. 991.854,37, en seld innanlands fyrir kr. 179.893,65. Fryst síld var seld á árinu fyrir kr. 254.737,50.“

5. tölul. fyrirspurnarinnar er svarað á þessa leið:

„Árið 1947 varð tap samkvæmt rekstrarreikningi kr. 289.552,55. Í þessu sambandi ber að geta þess, að þetta var fyrsta starfsár fyrirtækisins. Frystingin var í fyrstu rekin við erfið skilyrði, þar eð ýmislegt var ófullgert, og niðursuðan varð hverfandi lítil. Endanlegt uppgjör fyrir árið 1948 er enn ekki tilbúið, og er því ekki hægt að svo stöddu að gefa nákvæmar upplýsingar um rekstrarafkomuna. Hins vegar er svo að sjá samkvæmt bráðabirgðauppgjöri, að rekstrarhalli á árinu muni hafa verið hér um bil kr. 135.000,00, og eru þá ekki reiknaðir með dráttarvextir af lánum þeim, sem í vanskilum eru. Bókfærðir vextir af lánum nema samtals kr. 286.395,54, en ef dráttarvextir eru reiknaðir með, verður heildarvaxtakostnaður á árinu kr. 364.467,54. Í þessu sambandi ber sérstaklega að athuga það, að talsvert af stofnfénu er annaðhvort algerlega óarðbært, svo sem það, sem liggur í hinu ófullgerða ísframleiðslukerfi, og að niðursuðuverksmiðjan hefur ekki verið rekin með svo miklum krafti sem mögulegt hefði verið, ef fjárskortur hefði ekki hamlað. Enn fremur var, svo sem kunnugt er, þorskvertíðin á árinu 1948 sérstaklega óhagstæð, þar eð róðrar hófust mjög seint vegna síldarvertíðarinnar og óvenjulegar ógæftir hömluðu veiðum þegar leið á. Vér leyfum oss að taka það fram, að hugsanlegt er. að einhverjar skekkjur kunni að vera í tölum þeim, sem hér eru gefnar varðandi rekstur ársins 1948, þar eð enn hefur ekki verið gengið endanlega frá uppgjöri, en vér gerum ráð fyrir, að endanlegir reikningar geti legið fyrir fljótlega eftir næstu mánaðamót.“

6. lið fyrirspurnarinnar er svarað þannig: „Fyrst eftir að farið var að reka fiskiðjuverið sem sjálfstætt fyrirtæki, voru í stjórn þess þeir Þorleifur Jónsson, Pálmi Loftsson og Lúðvík Jósefsson, sem þá skipuðu einnig fiskimálanefnd. Eftir að fiskimálanefnd var lögð niður í júnímánuði 1947, héldu sömu menn áfram stjórn fiskiðjuversins þar til 21. okt., sama ár, er hinni nýju stjórn fiskimálasjóðs var falin stjórn þess með bréfi frá sjútvmrh. Hefur þessum stjórnendum aldrei verið greidd nein sérstök þóknun fyrir að stjórna fyrirtækinu eða kostnaður í því sambandi við undirbúning þess né rekstur.

Undirbúning að stofnun og byggingu fyrirtækisins annaðist aðallega dr. Jakob Sigurðsson. Hann sá um skipulagningu þess, kaup á vélum og framkvæmd byggingarinnar. Störfum þessum gegndi dr. Jakob sem tæknilegur ráðunautur fiskimálanefndar, en hann hafði jafnframt með höndum ýmis önnur störf á vegum nefndarinnar. Síðan fiskiðjuverið varð sjálfstæð stofnun hefur hann verið framkvæmdastjóri þess. Grunnlaun dr. Jakobs hafa frá byrjun verið kr. 1.200,00 á mánuði, og hefur hann engar aukaþóknanir fengið vegna byggingar fiskiðjuversins. Vegna ferðalaga dr. Jakobs utanlands, aðallega vegna markaðsleitár, voru greiddar kr. 13.403,01 á árinu 1947, og kr. 11.124,00 á árinu 1948. Annan ferðakostnað hefur fiskiðjuverið ekki greitt.“

Þetta, sem ég hef nú lagt hér fram, eru andsvör þau, sem stjórn fiskimálasjóðs hefur gefið ráðuneytinu út af fyrirspurn þeirri, sem hér liggur fyrir og ráðuneytið vísaði áfram til andsvara. Ég get svo bætt því við, að þar sem vitnað er til þess, að fjárskortur hafi hamlað rekstri fyrirtækisins, einkum ísframleiðslukerfinu, þá hefur ráðun. reynt að afla fjár til fyrirtækisins og orðið allmikið ágengt í því, en skuldar samt sem áður yfir 7 millj. kr.

Fyrirtæki þetta er þannig til orðið, að það er í raun og veru byggt í lausu lofti. Það var stofnsett án samþykkis Alþ., og um það er engin löggjöf. En í sjútvmrn. er nú í undirbúningi löggjöf um þetta mikla bákn, sem verður að vera tilbúin fyrir næsta þing. Nýlega hefur ráðun. borizt bréf frá Fiskiðjuverinu, þar sem tilkynnt er, að stofnlánadeildin hafi við orð að ganga að fyrirtækinu vegna skuldar að upphæð 3.3 millj, kr. Að því leyti er snertir rekstrarlán, þá mun Landsbankinn lána fiskiðjuverinu út á hraðfrystingu sem öðrum hraðfrystihúsum. Út á niðursuðuna er lánað annað tveggja, ef sölusamningur liggur fyrir eða rembours hefur verið opnaður hér í banka, sem staðfestir slíka sölu. Þó má vera, að þeir láti eitthvað gegn áritun stjórnar fiskimálasjóðs.

Mér hefur verið legið á hálsi fyrir það, að þetta fyrirtæki hafi ekki haft nægilegt rekstrarfé. Menn virðast halda, að sjútvmrh. þurfi ekki annað en biðja um fjármagnið, en lánsstofnanirnar vilja vita fótum sínum forráð, er þær lána til rekstrar fyrirtækja. Þegar Marshall-fé var hér til ráðstöfunar, og var því aðallega ætlað að standa undir framkvæmdum, sem lytu að vinnslu síldar, kom það til athugunar, hvort ekki væri hægt að nota eitthvað af því til að fullkomna ísframleiðslukerfið, því að það var líklegast til að svara rentum, en þá kom það í ljós, að allar þær vélar, sem til þess þurfti, voru brezkar, og var því ekki hægt að nota Marshall-fé til kaupa á þeim. Það sama er að segja um niðursuðuvöruna, að það, sem takmarkar söluna, er það, að verðið á þessari vöru hjá okkur stenzt ekki samkeppni á erlendum vettvangi. Um gæðin skal ég ekki dæma og er ekki kunnugt um, hvort hún stenzt þar samkeppni við vörur annarra þjóða. En síðan ég kom í ríkisstj. hefur rannsóknarstofa háskólans haft eftirlit með vörunni. Það hefur verið reynt fyrir löngu að afla gagna um eftirlit og reglur um niðursuðu hjá nágrannaþjóðunum, svo að koma mætti hér upp matslöggjöf varðandi þennan iðnað. Og eru þessi gögn nú fyrst að berast. Hvað snertir síðasta liðinn í fyrirspurninni: Hvað ætlar ríkisstj. að gera við fiskiðjuverið?, þá get ég ekki svarað því fyrir hönd ríkisstj. Það þarf að koma fyrirtækinu á þann grundvöll, að það svari kostnaði. Ég er ekki víss um, að brýn þörf hafi verið, þegar það var reist, að hafa það svo stórt, en það gat vel verið og ekki hægt að sjá þá, hvort það væri of stórt eða ekki. Það kom síðar í ljós, að bátafiskframleiðsla hér við Faxaflóann var ekki eins mikil og menn höfðu gert sér hugmynd um. Það kemur nú til kasta þingsins að ákveða, hvað gera skuli við þetta fyrirtæki. Ég hef enga ákveðna till. að bera fram í þessu efni að svo stöddu. En eitt er ljóst, að eins og er er þetta stór baggi á ríkissjóði og hann einn af mörgum, og því ber að athuga, hvort ekki sé rétt að koma honum á aðrar hendur, ef um leið væri tryggt, að fyrirtækið verði rekið með almenningsheill fyrir augum.