24.02.1949
Efri deild: 65. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

119. mál, gjaldaviðauki 1949

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um hækkun á greiðslum til ríkissjóðs, sem eru tvenns konar. Í fyrsta lagi er ríkisstj. heimilað að innheimta eignarskatt með 50% viðauka. Og það hefur nú um mörg undanfarin ár verið þannig að farið, að þessi viðauki hefur verið heimilaður frá ári til árs og innheimtur, og taldi n. ekkert athugavert við það og sjálfsagt að samþ. það ákvæði. — Þá er hinn hlutinn, sem er hækkun skipagjaldanna, og var n. í dálitlum vafa um, hvort svona mikla hækkun þyrfti að hafa á þessu eins og hér er gert ráð fyrir, sem er 200% viðaukagjald, svo að form. n. leitaði fyrir sér um það, hvernig þessum málum væri farið nú. Og síðustu upplýsingar, sem n. fékk um þetta, voru þannig, að það voru milli 40 og 50 þús. kr., ef ég man rétt, sem tekjurnar voru af þessu skipaskoðunargjaldi, en á annað hundrað þús. kr. gjöldin, svo þó að þessi viðauki verði á lagður, er tæplega, að hrökkvi fyrir útgjöldunum sá skattur, sem þannig kemur til ríkissjóðs. Er því ekki vafi á, að það ber að samþ. þessa hækkun. Reyndar má geta þess, að ekki er upplýst enn, nema vel geti veríð, að einhver hluti elgi eftir að koma inn af þessum gjöldum á árinu 1948. — Ef hæstv. fjmrh. hefði verið hér viðstaddur, hefði ég viljað beina því til hans, að mér virtist það vera sammála álit n., að rétt væri, að skoðunarmenn innheimtuðu þessi gjöld á sama tíma og skoðun fer fram og þeir afhentu ekki vottorð sín um skoðunina fyrr en gjöldin væru greidd, að sínu leyti eins og bifreiðaeigendur fá ekki sín skoðunarvottorð fyrr en þeir hafa greitt áfallin gjöld af bifreiðinni.

Sem sagt, n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.