16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í D-deild Alþingistíðinda. (5244)

125. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla fullyrðingum hv. 2. þm. S-M. sem algerlega tilhæfulausum. Fyrirtæki það, sem hér um ræðir, hefur aflað margfalt meiri gjaldeyris en fiskiðjuverið, og læt ég þetta nægja.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Þetta bú var upprunalega stofnað sem almennt kynbótabú, en síðan hefur það breytzt í eins konar mæðiveikispítala. Þangað hafa verið keyptir stofnar af veiku fé. Tilgangurinn hefur verið sá að reyna hina ýmsu fjárstofna með tilliti til mótstöðukrafts þeirra gegn veikinni, til að finna út, hvort einhverjir stofnar væru svo hraustir, að þeir stæðust hana. Þannig er kynbótabúið orðið að mæðiveikitilraunabúi, og þar hefur verið mikill tilkostnaður frá upphafi. En almerkilegastur er rekstur þessa bús, þar sem fyrirsjáanlegt er, að innan skamms munu fara fram fjárskipti í Borgarfirði, því að Borgfirðingar þrá þær framkvæmdir eins og aðrir bændur, og þá er með öllu tilgangslaust að halda búinu áfram með öllum þess tilkostnaði. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Það eru nokkrar hliðar á þessu máli, sem hæstv. landbrh. mun telja sér ánægju að svara.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Það er dálítill misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, ef hann heldur, að aðalstarf og jafnvel eina starfið á Hestbúinu sé spítalastarf, eins og hann orðaði það. Það er satt, að það var upphaflega stofnað sem kynbótabú, og það hefur líka verið rekið sem kynbótabú. Það mun hafa flýtt fyrir stofnun þess, að gera átti sérstakar tilraunir með ýmsa fjárstofna í sambandi við mæðiveikina. Menn höfðu veitt því athygli, að fé af mismunandi ættum og stofnum virtist misjafnlega móttækilegt fyrir veikina. Þess vegna var það einn af mörgum þáttum í starfsemi búsins að gera tilraunir með næmi og ónæmi fjárstofnanna fyrir mæðiveikinni og rannsaka, hvort hægt væri að koma upp ónæmum stofnum eða því sem næst.

Þetta bú var stofnsett 1943, og ég hef fylgzt með rekstri þess frá upphafi, en varðandi þá fyrirspurn, sem hér liggur fyrir, skrifaði ég dr. Halldóri Pálssyni, sem hefur haft umsjón með búinu frá fyrstu tíð, og fékk ég aftur frá honum eftirfarandi upplýsingar sem svar við hinum ýmsu liðum fyrirspurnarinnar:

Þar sem ekki er enn að fullu lokið við reikninga ársins 1948, geta niðurstöðutölur viðvíkjandi 1. og 5. lið breytzt lítils háttar.

1. Auk jarðarinnar Hests í Borgarfirði, í því ástandi er hún var keypt af kirkjujarðasjóði 1944 fyrir að byggt væri yfir prestinn á Hvanneyri og ræktað þar þriggja hektara tún handa prestinum, hefur verið lagt í stofnkostnað við búið þar kr. 388.304.39. Af þessari upphæð hefur verið lagt í endurbætur og mannvirki á jörðinni kr. 225.995.39, og það, sem gert hefur verið fyrir þessar 225 þús. kr., er sem hér segir: Byggð hafa verið vönduð fjárhús yfir 300 fjár ásamt hlöðu. Byggt hesthús yfir 9 hross með básum. Gert við fjós. Sett nýtt þak á íbúðarhús, og nokkrar aðrar breytingar gerðar á því. Sett upp dieselrafstöð. Land jarðarinnar girt. Ræktaðir um 3 hektarar af túni. Í byggingu er súrheysgryfja, kartöflugeymsla, og allmikið hefur verið unnið að undirbúningi ræktunar. Ég álít þetta vel gert fyrir 225 þús. kr., og er það allra manna mál, sem til þekkja, að þarna hafi verið haldið mjög vel á fé, enda hefur verið þar úrvals ráðsmaður.

Þessar 225 þús. kr. fóru sem sagt í endurbætur og mannvirki á jörðinni, en 162 þúsund krónum, eða rösklega það, hefur verið varið í bústofn, vélar, verkfæri og áhöld.

3. Hér er spurt um keypt sauðfé að Hestbúinu. — Árið 1943 voru keyptar 160 kindur, 1944 25 kindur, 1945 56 kindur, 1946 73 kindur, 1947 46 kindur, og 1948 48 kindur, eða alls 408 kindur, þ.e. 90 ær, 284 gimbrarlömb, 14 hrútar fullorðnir og 20 lambhrútar. Auk þess hafa verið aldar upp 267 kindur fæddar á Hestbúinu, og frá búinu hefur verið selt kynbótafé sem hér segir:

Árið 1945 21 kind, 1946 14 kindur, 1947 29 kindur og 1948 60 kindur, og selt kynbótafé er þá samtals 124 kindur, þar af 49 gimbrarlömb, 14 hrútar fullorðnir og 61 lambhrútur.

4. Þá er spurt, hve mikið hafi drepizt af fé á Hestbúinu árlega, og er það sem hér segir:

Ár: Úr mæðiveiki: Af öðrum sökum:

1943 0 kindur 0 kindur

1944 1 — 4 —

1945 7 — 3 —

1946 18 — 6 —

1947 5 — 12 —

1948 9 — 15 —

Samtals 40 kindur 40 kindur

Auk þessa hefur verið slátrað mæðiveikum kindum, sem komið hafa til nytja í misjöfnu ástandi, sem hér segir: Árið 1944 4 kindum, 1945 14 kindum, 1946 39 kindum, 1947 42 kindum, og 1948 42 kindum, eða alls 141 kind.

5. Undir fimmta lið fyrirspurnarinnar er spurt, hve miklar tekjur og útgjöld landið hafi haft af þessum búrekstri. Frá stofnun búsins til ársloka 1948 hafa tekjur búsins orðið samtals 284.563.95 kr., en útgjöld við rekstur þess og tilraunastarfsemina umfram tekjur hafa á sama tíma numið 214.901.46 kr. Halli á búinu hefur m.ö.o. orðið rúmar þrjátíu þús. kr. á ári, sem verður að skoðast sem stuðningur ríkisins við þetta tilraunabú.

2. Þá kem ég að því, sem varið hefur verið af ríkinu til að eignast jörðina Hest með því að bæta Hvanneyrarpresti jörðina með þeim húsum, sem á henni voru, er hann fluttist frá Hesti að Hvanneyri. Það var gert með því að byggja yfir hann hús á Hvanneyri, og kostaði það 320 þús. kr., og ræktun þriggja hektara túns þar, sem um var samið, kostaði 12.556 krónur. Auk þess hefur síðan verið varið allmiklu fé til rafmagns á staðnum, en það er þessu óviðkomandi.

6. Tekjur búsins af laxveiði hafa verið 1.500 kr. á ári. Veiðin var leigð, þegar búið var stofnað.

7. Yfirstjórnandi Hestbúsins fær enga sérstaka greiðslu fyrir umsjón sína og starf við Hestbúið, því að það er hluti af starfi hans sem forstjóra og sérfræðings í búfjárrækt við búnaðardeildina. Þar fær hann laun samkvæmt launal., kr. 10.200.00 á ári í grunnlaun.

Hv. þm. vildi halda því fram, að tilgangslaust væri að halda þessu búi áfram, vegna þess að nú stæðu yfir fjárskipti, og þar af leiðandi væri hlutverki búsins lokið. Um þetta segir svo í skýrslu, sem nokkuð lýsir árangri þessarar starfsemi:

„Það, sem áunnizt hefur í mæðiveikimálinu með tilraunastarfseminni á Hesti, er í stuttu máli þetta: Áður en búið var stofnað, hafði komið í ljós, að féð á sumum bæjum drapst minna úr mæðiveikinni, en fé á öðrum bæjum og fé af einstökum ættum á sumum bæjum drapst síður úr mæðiveiki, en fé af öðrum ættum á sama bæ. Ýmsir bændur o.fl. töldu fjárskipti óþörf, því að féð af hraustustu stofnunum mundi lifa, en hitt drepast, og smám saman mundi því fé landsmanna verða lítt næmt fyrir veikinni. Af þessum sökum var talið rétt, að fyrsta tilraunin á tilraunabúinu á Hesti yrði sú að fá úr því skorið, hvort fé af ýmsum stofnum væri misnæmt fyrir mæðiveikinni og hvort takast mætti að rækta ónæmt eða lítt næmt fé. Þegar búið var stofnað, voru því keypt lömb frá allmörgum bæjum á mæðiveikisvæðinu, þar sem minnst hafði drepizt úr mæðiveiki síðustu 4–5 árin, þótt veikin væri í stofninum. Jafnframt var keypt fé af kynbótastofnum, þótt vitað væri, að þeir hefðu reynzt næmir fyrir mæðiveikinni. Var það gert bæði til að hafa næmt fé með því, sem búizt var við, að væri hraustara, og til þess að hafa á búinu gott fé til þess að byggja á kynbætur og ræktun í almennri merkingu. Reynslan hefur orðið sú, að flestir þessir fjárstofnar hafa reynzt álíka næmir fyrir veikinni og fé almennt. Þeir, sem álitið var að væru næmir, hafa reynzt mjög næmir, eins og t.d. féð frá Fjarðarhorni í Hrútafirði. Hins vegar hafa tveir stofnar frá Gillastöðum og Kleifum í Dalasýslu reynzt ónæmari, en annað fé. Samt sem áður hafa þeir ekki reynzt eins hraustir og búizt var við. Þetta hefur leitt það í ljós, að þótt ef til vill megi draga úr vanhöldum af völdum mæðiveikinnar með ræktun fjárins með tilliti til ónæmleika, þá mundi það taka of langan tíma til þess að bændur gætu beðið eftir því, og hefur því verið horfið að fjárskiptum í þeirri von, að með því megi takast að útrýma mæðiveikinni. Nú síðustu árin hefur fé af 3 skozkum kynjum verið í samanburðartilraunum á Hesti, m.a. til þess að fá úr því skorið, hvort það reynist ónæmara fyrir mæðiveikinni en íslenzka féð, en þetta fé með erlenda blóðinu er enn of ungt til þess, að hægt sé að draga ályktanir um það, hvort það sé ónæmara, en íslenzkt fé.

Það virðist augljóst af spurningunni, að fyrirspyrjandi veit ekki annað en Hestbúið hafi eingöngu verið stofnað vegna mæðiveikitilrauna. Þetta er misskilningur. Búið var stofnað sem tilraunabú búnaðardeildar í sauðfjárrækt og annarri búfjárrækt, eftir því sem við yrði komið. Það var að vísu ákveðið, að byrjað skyldi á því að rannsaka viðnámsþrótt einstakra fjárstofna gegn mæðiveiki. Búið var stofnað samkvæmt lögum um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins frá 7. maí 1940. Síðan búið var sett á stofn, hafa líka verið framkvæmdar ýmsar ræktunartilraunir þar á sauðfé auk fóðurtilraunanna. Þar eru nú ræktaðir allmargir hreinræktaðir fjárstofnar, t.d. allir þekktustu stofnar Kleifakynsins og nokkrir stofnar af hyrndu fé, t.d. Gottorpsfé, þingeyskt fé o. fl. stofnar. Stofnar þessir eru kynbættir með úrvali og skyldleikarækt, og eins er unnið að því að sameina beztu kosti sumra stofna með blöndun, samfara úrvali og síðan skyldleikarækt. Mikið hefur áunnizt í þessu efni, og féð á Hesti er margt orðið framúrskarandi vel byggt, holdsamt og afurðagott, þótt jörðin sé ekki nema meðaljörð eða varla það að landkostum. Búið hefur selt alls 75 hrúta til kynbóta. Eftirspurnin hefur farið ört vaxandi, og s.l. haust var ómögulegt að fullnægja henni. Auk þessarar miklu hrútasölu á búið árlega um og yfir 20 hrúta, sem nauðsynlegt er að það eigi, vegna hinna mörgu ættstofna, sem þar eru ræktaðir. Suma þessa hrúta lánar búið bændum í nágrenninu, þar sem hægt er að ná til þeirra aftur, ef hrútur ferst. Af þessu mikla hrútahaldi hefur búið aukinn kostnað, en fram hjá því skeri verður ekki synt, ef ræktun fjárstofnanna á að vera skipulega framkvæmd. Nú standa yfir tilraunir um samanburð á kynblendingum af 3 skozkum kynjum og íslenzku fé og hreinræktuðum íslenzkum ám á sama aldri. Í tilraun þessari eru 5 flokkar. Í fyrsta flokki eru Border-Leicester kynblendingar. Í öðrum flokki eru Cheviot-kynblendingar. Í þriðja flokki eru Svarthöfða-kynblendingar. Í fjórða flokki eru ísl. ær af Kleifakyni. Í fimmta flokki eru hyrndar ísl. ær af húnvetnsku kyni, aðallega Gottorpsfé.

Gerður er samanburður á eftirfarandi eiginleikum hjá þessum fjárkynjum: Viðnámsþrótti gegn mæðiveikinni eins og áður er sagt, fóðurþörf, þrifum, bæði á beit og innistöðum, hreysti og dugnaði, frjósemi og afurðagetu, bæði hvað magn og gæði afurðanna, kjöts og ullar, varðar. Tilraun þessi þarf að standa yfir nokkur ár til þess að fá þessum spurningum svarað, en þá ættu að vera fyrir hendi haldgóðar upplýsingar um, hvort þessi brezku fjárkyn hafi yfirburði yfir ísl. féð, svo að ekki þurfi að deila lengur um, hvort hagur væri í því að flytja þessi fjárkyn til landsins með sæðingu eða öðruvísi.

Á Hesti eru haldnar fullkomnar ættartölubækur og afurðaskýrslur yfir hvern einstakling í hjörðinni. Allt ásetningsféð er vegið að haustinu, um miðjan vetur og að vorinu. Hvert lamb er merkt að vorinu og þau öll vegin að haustinu. Allar afurðir hverrar sláturkindar eru vegnar sérstaklega, og byggingarlag hvers dilksskrokks er rannsakað og gæði kjötsins, til þess að fá samanburð á hinum einstöku fjárstofnum með tilliti til kjötgæðanna ekki síður en afurðamagnsins. Búið er einnig notað sem kennslubú. Skólapiltar frá Hvanneyri eru látnir skoða féð þar af hinum ýmsu kynjum og ættstofnum, og þeim er leiðbeint um dóma í því sambandi af sauðfjárræktarráðunautnum, sem hefur yfirumsjón á búinu. Sérstaklega er búið notað mikið við kennslu framhaldsdeildar piltanna á Hvanneyri. Einnig hefur Hestsbúið selt mötuneyti Hvanneyrarskólans sláturafurðir. Er þá tækifærið notað til þess að kenna skólapiltum, hvernig dilkar eigi að vera vaxnir og holdþéttir, með því að sýna þeim dilkaföllin og útskýra fyrir þeim, á hverju gæðamat kjötsins byggist. Skólastjórinn á Hvanneyri er mjög ánægður yfir þessari samvinnu við fjárræktarbúið á Hesti, og því tækifæri, sem nemendur fá þar til þess að læra um sauðfjárrækt. Auk þessa heimsækja tugir bænda búið árlega til þess að sjá féð og leita þar eftir kynbótafé. Auk fjárbúsins hafa verið ræktaðar ágætar kýr á Hesti, þótt kúabúið þar sé og hafi verið lítið. Seldir hafa verið þaðan 5 kynbóta nautkálfar og nokkrar kýr og kvígur. Búfjáreign búsins er nú sem hér segir: 5 nautgripir, 3 hross, 250 ær, 131 gemlingar. þar af 13 lambhrútar, og 13 hrútar fullorðnir, eða alls 394 kindur.“

Eins og hv. þm. sagði, er þetta allt unnið fyrir gýg og tilgangslaust, þegar að því kemur, að fjárskipti fara fram í Borgarfirði og þessi stofn, sem þarna er, fellur eins og annað fé. En í sambandi við það minntist hann á mál, sem rætt var hér í vetur, það eru þær tilraunir, sem nú er verið að gera og sem vonandi lánast, um það að varðveita ýmsa beztu stofna, sem til eru í landinu í þeim héruðum, þar sem nú eru að fara fram fjárskipti og niðurskurður, með því að vernda þá með uppeldi úti í Engey. Þetta er framkvæmt þannig, að ein úrvalsær af Vestfjörðum er flutt til geymslu í Engey, svo er tekið sæði úr úrvalshrút af beztu kynjum, sem nú eru að fara undir öxina. Þessir sæðisflutningar eru framkvæmdir frá landi út í eyju undir nákvæmu eftirliti og skýrslum um notkun hinna ýmsu kynja, og vonir standa til, að þegar fjárskipti eru um garð gengin og búið er að útrýma þessum ágætu stofnum, þá verði þeir til þarna í Engey, og ef reynslan sýnir, sem líkur eru til, að smitun geti ekki borizt á þennan hátt í hinn heilbrigða stofn í Engey, þá er unnt að taka upp á sérstöku búi aftur hina gömlu heilbrigðu stofna, sem þar hafa lifað af þessa miklu pest, og skipuleggja ræktunina á ný út um allt land, og þá er nauðsynlegt að hafa til þess fullkomið fjárræktarbú, þar sem fullkomnasta þekkingu er hægt að fá, og geta byrjað að hreinrækta þessi ýmsu kyn og deila þeim aftur út um landið og reyna að koma þannig í veg fyrir, að það mikla starf og það mikla fé, sem á undanförnum árum hefur verið lagt í að skapa góða kynstofna, fari til einskis, og þessir góðu kynstofnar eyðileggist ekki þrátt fyrir niðurskurð, heldur verði til að bæta kynstofninn aftur, ef það skyldi takast að koma þessum kynbótum við.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir hans allýtarlegu skýrslu og ekki sízt fyrir ýmislegt skemmtilegt, sem hann sagði okkur utan við málefnið. Af þessu sést, að það hefur verið ætlunin að gera almennt kynbótabú á Hesti, en það hefur snúizt upp í spítala. Ég sé ekki betur en að þetta kynbótabú sé gróðrarstía fyrir mæðiveiki, af því að alls konar mæðiveiki er flutt þangað, enda á þetta við um allar þessar kynbætur, og þetta endar á því, að enginn maður vill kynið frá Hesti.

Hæstv. ráðh. lét í ljós, að það væri ekki mikil von með þetta bú í framtíðinni, en sagði, að það væri helzt von um Engey, sem er skynsamlegt. En ég sé ekki, að það sé hægt að treysta því, að íslenzkir bændur, þegar þessi svartidauði líður hjá og úrvalskynin koma úr Engey, taki á móti þeim, svo að það er ekki víst, að Hestbúsins þurfi við. Það er eftirtektarvert um þetta bú, að það er sett á prestssetur, á Hesti, en til þess að fá þetta fram, verður að byggja á Hvanneyri fyrir prestinn fyrir allt að 400 þús. kr., og er mér óskiljanlegt, hvernig slíkt er nauðsynlegt vegna þessara framkvæmda. Enn fremur vil ég benda á eina óheppilega ráðstöfun, að það er boðið í laxveiðina frá Akranesi 15 þús. kr., en hún er ekki leigð nema fyrir tíunda partinn af þeirri upphæð.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Það er í rauninni heppilegt, að þessi fyrirspurn skuli hafa komið hér til umræðu í dag, þegar ríkisstj. útbýtir frv. um eignarnám á lóðum handa gamla Menntaskólanum í Reykjavík í nágrenni hans, og vaknar hæstv. menntmrh. að vísu seint til þeirra hluta, en betra er seint en aldrei. Hæstv. fyrrv. menntmrh. gerði kaupráðstafanir á landi í nánd við Klepp undir menntaskóla og lét ríkissjóð borga fyrir þetta, og hygg ég, að það fé hafi aldrei verið endurgreitt. Ríkisstj. mun nú ekki veita af að fá þessa peninga aftur til útgjalda í sambandi við menntaskólann, og vænti ég, að í ljós komi nú, hvenær búast megi við, að þetta verði endurgreitt, og hvað gert hafi verið til að fá það endurgreitt.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Út af fyrsta lið fyrirspurnarinnar vil ég segja þetta: Ekkert fé hefur verið goldið fyrir lönd hjá Kleppi undir væntanlegt menntaskólahús, og er eigi kunnugt, að þeirri hugmynd hafi fyrr skotið upp að tengja skólann þeim stað eða þessu hæli, en hér ber áð lesa í málið hjá hæstv. fyrirspyrjanda eins og stundum áður hjá honum. Hér mun hann eiga við land í Laugarnesi, þótt spurt sé um land í nánd við Klepp, og vil ég í sambandi við það, með leyfi forseta, lesa úr áliti nefndar, sem skipuð var 3. okt. 1942 til að velja nýju menntaskólahúsi stað, en þar segir svo: „Að ýtarlega athuguðum þeim stöðum innan takmarka bæjarins, sem að dómi nefndarinnar helzt væru líklegir sem skólastaðir, hefur nefndin komið sér saman um að mæla með því, að framtíðarhúsakosti skólans verði valinn staður í Laugarneslandi, en tilhögun staðarins og staðsetning húsanna nánar ákveðin í samráði við skipulagsnefnd og samkvæmt skipulagstillögum að þessu svæði.“ Undir þetta álit rita nefndarmenn nöfn sin: Guðjón Samúelsson, Hörður Bjarnason og Pálmi Hannesson. Á grundvelli tillagna nefndarinnar keypti hæstv. fyrrv. menntmrh. land undir skólann í Laugarnesi af ríkisins hálfu, og voru greiddar 350 þús. kr. fyrir þetta land.

Í öðrum lið er spurt, hver hafi verið eigandi þessara lóðaréttinda, þegar ríkið keypti réttindin, og skal ég svara því. Það var dánarbú Þorgríms Jónssonar í Laugarnesi.

Varðandi þriðja lið fyrirspurnarinnar er hv. fyrirspyrjanda vel kunnugt um, að leitað hefur verið eftir því að nota þetta land fyrir menntaskóla, en bæjarstjórn Reykjavíkur hefur viljað nota það fyrir útgerðarmenn, og það hefur af hálfu stjórnar menntamálanna þótt gerlegt að gefa landið eftir, ef annað fengist í staðinn engu lakara, er ráðizt yrði í að reisa nýjan skóla, og hefur í því sambandi verið mikið talað um land í nánd við Golfskálahæðina. En frá þessu hefur ekki verið endanlega gengið sökum þess, að hik hefur verið á ríkinu að ráðast í þessa nýbyggingu.

Nú hefur að vissu leyti verið tekin ný stefna í málinu, og hefur einmitt verið lagt fram frv. þess efnis í dag. Og ef hæstv. Alþ. aðhyllist þá stefnu og ráðstafanir verða gerðar til að losna við Laugarnes, þá er engin ástæða til að ætla annað en það takist. Um endurgreiðslu eða endurheimt andvirðis Laugarness er auðvitað ekki að ræða, þar sem eignin hefur verið keypt, — og tel ég mig þá hafa svarað öllum liðum fyrirspurnarinnar.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Mér hefur fundizt, að hæstv. ráðh. vilji ómögulega tengja eða kenna það land, sem hér um ræðir, við Klepp. Það er þó ekki langt frá Kleppi, svo að til sanns vegar má færa það, sem stendur í fyrirspurn minni, að það sé í nánd við Klepp. Þar að auki er Kleppur að færa út veldi sitt þarna inn frá og er orðið voldugt höfuðból með mörgum nýjum byggingum, svo að engan þarf að undra, þótt við hann sé miðað, þegar rætt er um nærliggjandi lönd.

Hér hefur verið lýst yfir, að ekki væri hægt að endurheimta andvirði Laugarness og ekkert að hafa upp úr þeim viðskiptum, og vildi ég aðeins, að það kæmi í ljós, hvernig þau mál stæðu. Ég vil aftur láta í ljós gleði mína yfir því, að hæstv. menntmrh. skuli loks hafa sannfærzt um, að menntaskólinn sé bezt kominn á sínum gamla stað.

Brynjólfur Bjarnason: Hv. þm. S-Þ. hefur sannarlega ekki veitt af að spyrja, því að hann virðist hafa verið æði ófróður um þetta mál. Hann talar um lóðakaup hjá Kleppi í fyrirspurn sinni, en þar hafa aldrei komið til greina nein lóðakaup í þessu sambandi. En keypt voru lóðaréttindi í Laugarnesi í minni ráðherratíð og mannvirki, sem þar höfðu risið upp í langri búskapartíð Þorgríms Jónssonar þar, þar eð nefnd sú, sem átti að velja nýju menntaskólahúsi stað, hafði komið sér saman um að mæla með því, að skólinn yrði reistur þar, eins og hæstv. menntmrh. sagði. En ráðherrann gaf einnig upplýsingar um það, að bæjarstjórnin hefði síðar farið fram á, að land þetta yrði gefið eftir fyrir umfangsmikil fyrirtæki útvegsmanna, og þótti ekki ástæða til að standa í vegi fyrir því. Nefndin og ríkisstj. vildu því falla frá þessum stað, ef bæjarstjórnin útvegaði aðra hentuga lóð. Ég veit ekki betur en að sami áhugi sé enn fyrir hendi af hálfu útvegsmanna á þessum stað, svo að ekki mun vera minnsti vandi að koma landinu út aftur, ef sá kostur er tekinn. Verðið var að vísu hátt, en verð á öllum fasteignum var og er hátt, og miðað við verðlag á þeim yfirleitt var verð Laugarness mjög hagstætt og hefði þess ekki verið kostur að fá það ódýrara. Það er því enginn vandi að koma landinu út fyrir sama verð.

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson): 15. júní s.l. skipaði atvmrh. þriggja manna nefnd til að láta rannsaka, hvernig hægt væri að nota jarðhúsin við Elliðaár í sambandi við geymslu á jarðarávöxtum fyrir Grænmetisverzlun ríkisins. Þessi n. gaf út skýrslu 24. júlí, ég hef ekki tíma til að fara út í þá skýrslu, en n. leggur eindregið til, að jarðhúsin verði tekin til þessarar starfrækslu, og færir rök fyrir því. Nú er það komið fram, að forstjóri Grænmetisverzlunarinnar hefur ekki getað haft samvinnu við landbrh. um þetta mál og setur sig upp á móti þessari tilraun og taldi það engan veginn fjárhagslegan gróða fyrir verzlunina, og með því að enn fremur hefur heyrzt, að hæstv. landbrh. hafi leigt jarðhúsin, þá hef ég leyft mér að bera fram í sambandi við þetta fyrirspurn á þskj. 324 til hæstv. landbrh.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég skal reyna að svara þessum spurningum nokkuð, sem hér liggja fyrir.

Fyrsta spurningin er: Hefur ríkisstj. tekið á leigu jarðhúsin við Elliðaár? Þessu er svarað játandi. Nýlega hafa farið fram samningar milli ráðuneytisins og eiganda jarðhúsanna, og skal ég fara nokkrum orðum um ástæðurnar til þess, að það var gert. Eins og kunnugt er, hefur prívatmaður látið byggja fyrir nokkrum árum vandaðar geymslur inn við Elliðaár, sem aðallega voru ætlaðar fyrir kartöfiur og aðra jarðarávexti. Það mun hafa verið ætlun hans að hafa um þetta að nokkru leyti samvinnu við Grænmetisverzlun ríkisins, en það hafa ekki tekizt samningar milli þeirra aðila. Mér barst vitneskja um það, eftir að ég kom í atvmrn., að þessi hús stæðu til boða ríkinu eða grænmetisverzluninni, og fljótlega tók að bera á því, að það var mjög mikill áhugi meðal bænda og kartöfluframleiðenda um það, að ríkið beitti sér fyrir því, að þessi hús væru leigð og kæmu þannig beint inn í notkun fyrir framleiðendur landsins. Ég vil aðeins nefna nokkrar af þeim stofnunum, sem sendu um þetta beinar áskoranir til búnaðarþings 1947: Aðalfundur stéttarsambands bænda, framleiðsluráð, Sandgræðsla Íslands, Garðyrkjufélag Íslands, skólastjóri Garðyrkjuskóla ríkisins, ráðunautur ríkisstj. í garðyrkjumálum, ræktunarráðunautur Reykjavíkurbæjar og þar að auki fjöldi einstaklinga. Ég taldi því sjálfsagt að kynna mér þetta mál sem bezt og reyna að hrinda því í framkvæmd, eftir því sem mögulegt væri. Ég kynnti mér álit þeirra manna, sem höfðu reist húsin, og það var sameiginlegt álit þeirra, sérstaklega eftir að sett höfðu verið fullkomin kælitæki við húsin, þar sem hægt er að regúlera hitann í húsunum eftir vild, að þetta væru vönduðustu og beztu geymslur til þessara hluta, sem þeir hefðu kynnzt, og taldi ég því eðlilegt, að Grænmetisverzlun ríkisins, sem hefur haft þessa starfsemi með höndum, tæki húsin og starfrækti þau. Hins vegar gat ég ekki fengið samþykki forstjóra grænmetisverzlunarinnar fyrir því að taka húsin á leigu, því að hann taldi óþarft fyrir verzlunina að taka þetta mörg hús á leigu, sem þarna eru til nota, en taldi, að hann mundi geta gengið að því að taka 2–3 hús, en alls ekki meira. Það kom fram, að forstjóri grænmetisverzlunarinnar leit fyrst og fremst á þetta sem forstjóri verzlunarinnar og lagði á það þann mælikvarða, hvað honum sem forstjóra eða verzluninni væri nauðsynlegt að hafa mikið húsrúm vegna sinnar sölu. En sjónarmiðin utan að, sem ég minntist á áðan, það voru fyrst og fremst sjónarmið framleiðendanna, bænda, sem eru að rækta kartöflur, en eru í vandræðum vegna geymsluleysis með að koma þeim fyrir á aðalmarkaðsstöðunum í tæka tíð, áður en frost og vetrarveður skella á. Nú þótti mér alls ekki rétt að þvinga þennan undirmann minn, forstjóra grænmetisverzlunarinnar, sem rækir sitt starf mjög vel, til þess að taka þetta á móti hans vilja, þannig að ég sneri mér til framleiðsluráðs landbúnaðarins og hóf samninga við það um að taka að sér jarðhúsin, ef ríkið tæki þau á leigu, og var því vel tekið þar, og setti ég það síðan inn í samninga við eiganda, þannig að ég hefði heimild til þess að framleigja húsin til framleiðsluráðs. Ég taldi. að á þennan hátt væri hægt að sameina sjónarmið og framleiðsluhætti kartöfluframleiðendanna, en hins vegar var eðlilegt að tryggja grænmetisverzluninni þann hluta af húsunum, sem hún taldi nauðsynlegt fyrir sig, og eins og málin stóðu þá, var ekki önnur leið en í gegnum atvmrn. að sameina þessa aðila í eitt. Nú hef ég skrifað framleiðsluráði landbúnaðarins um þetta og fengið það svar frá því, að þeir mundu taka að sér að reka jarðhúsin við Elliðaár, en það er tekið fram, að gagnvart eiganda beri ríkissjóður ábyrgð á leigunni. M.ö.o., framleiðsluráð tekur við leigusamningnum af ríkisstj., en lætur það fylgja í bréfi frá sér, að án þess að taka afstöðu til leigumála þess, er gerður var, telji ráðið þá ráðstöfun að taka hús þessi til sem fyllstra nota verulegt spor í rétta átt, til þess að gera framleiðendum fært að losna við jarðarávexti á þeim tíma, sem þeir óska, og tryggja geymslu þeirra svo sem unnt er. Þannig hefur starf rn. í þessu máli fyrst og fremst verið það, að leiða þá aðila, sem áhuga hafa fyrir húsunum og þörf fyrir að nota þau, saman, svo að þetta gæti komið að sem fyllstum notum.

Það hefur verið ákveðið, eins og ég sagði, að grænmetisverzlunin fái til sinna nota þrjú af húsunum, auk þess hefur Reykjavíkurbær tekið eitt hús á leigu, skógrækt ríkisins eitt, en tvö hús er hugsað að leigja einstaklingum, sem þess óska, og skal ég geta þess, að ef þetta mál hefði verið flutt og að fullu undirbúið í haust á uppskerutímanum, þá hefði verið hægt meira en að fylla húsin, svo mikil var eftirspurnin um að koma kartöflum til geymslu. Það er ekki vafi á því, að það er full þörf á að tryggja framleiðendum og neytendum líka hér í höfuðstaðnum geymslu, sem þessi hús geta veitt, og tel ég, að það megi ekki minna vera. Húsin taka, þegar þau eru full, 18 þús. tunnur, og er það ekki meira en 1/3 af neyzluþörf bæjarmanna og 1/6 af venjulegri framleiðslu landsmanna. Það er mjög mikill vandi að skipuleggja kartöfluflutninga og kartöflugeymslu frá framleiðendum til neytenda, og ég tel nauðsynlegt að ganga frá því að koma upp geymslum á öllum helztu markaðsstöðum landsins í viðbót við þær geymslur, sem einstaklingar geta komið upp hjá sér, því þó að það sé rétt, að þeir bændur, sem næstir eru markaðsstöðunum, geymi sínar kartöflur fram eftir vetri, eftir því sem nauðsyn krefur, þá er það alveg nauðsynlegt, að héruð, sem fjærst eru markaðsstöðunum, komi sinni framleiðslu þegar að haustinu til þeirra staða, þar sem salan og eftirspurnin er mest. Ég tel, að Reykjavík og verðlagssvæði hennar muni alls ekki komast af með minni geymslu en hér um ræðir, sérstaklega geta þeir tímar komið, að nauðsynlegt sé að geta birgt sig upp til nokkurs tíma með þennan vetrarforða eins og hvern annan.

Þá er spurt um, í hve langan tíma húsin séu leigð og hver ársleigan sé. — Húsin eru leigð til 5 ára. Ársleiga er 175 þús. kr., og var hún ákveðin samkv. mati, sem fram fór á leigunni. — Gert er ráð fyrir, að grænmetisverzlunin noti a.m.k. eitt af þessum húsum, einnig Reykjavíkurbær og sandgræðslan. Þá er og gert ráð fyrir, að framleiðsluráð landbúnaðarins sjái um rekstur húsanna. — Ég hef svo ekki meira við þetta að bæta að svo komnu máli.

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson): Herra forseti. Ég vildi lýsa ánægju minni yfir því, að horfið var að þessu. Ég hef geymt ýmsa ávexti í húsunum, t.d. appelsínur. Hafa þær haldizt óskemmdar í 6 mánuði. Hæstv. ráðh. mun hafa heiður af þessu, því að þetta eru góð hús.

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson): Herra forseti. Ég var einn af þeim 14 þm., sem sáu sér ekki fært árið 1946 að samþykkja að ganga í bandalag Sameinuðu þjóðanna, eftir að felld hafði verið tillaga um, að við þyrftum aldrei að láta í té stöðvar til hernaðaraðgerða. Í hópi þessara þm. voru margir hinir elztu og reyndustu þm., svo sem Bernharð Stefánsson, Pétur Ottesen, Jón Sigurðsson, Ingvar Pálmason, Björn Kristjánsson, Páll Zóphóníasson, Skúli Guðmundsson, Steingrímur Steinþórsson og Gísli Sveinsson. 36 hv. þm. vildu þó allt til vinna, að Ísland gerðist þátttakandi í Sameinuðu þjóðunum, sem áttu að útrýma styrjöldum og koma á eilífum friði. Nú er svo komið eftir 2 ár, að farið er að draga af trú 36-menninganna á mátt Sameinuðu þjóðanna til að vernda þjóðirnar og tryggja þeim daglegt brauð. Nú heyrist það daglega, að Sameinuðu þjóðirnar hafi brugðizt hlutverki sínu og Íslendingar verði að ganga í nýtt bandalag, sem tryggja eigi frið milli þjóðanna. Á skammri stundu skipast veður í lofti.

Út af þátttöku Íslendinga í Sameinuðu þjóðunum hef ég borið fram svo hljóðandi fyrirspurn til hæstv. fjmrh. á þskj. 324.

1. Hvaða árgjald hefur Íslandi verið gert að greiða til Sameinuðu þjóðanna samkv. 17. gr. bandalagssáttmálans?

2. Hver hefur orðið kostnaður Íslands af fulltrúasendingum á þing Sameinuðu þjóðanna, hvert árið um sig?

3. Hver er orðinn allur kostnaður Íslands af þátttöku í þessu bandalagi Sameinuðu þjóðanna síðan Ísland gerðist þar aðili og til þessa dags?

Ég hef ekkert heyrt um það, hvað þetta hafi kostað, en leikur hugur á að fá úr því skorið, og hygg ég, að svo muni vera um fleiri þm. Ég vænti góðra og glöggra svara. Spurningin er hrein og bein og undirhyggjulaust borin fram.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn hef ég látið fara fram athugun á þessu hjá ríkisbókhaldinu og fengið eftirfarandi upplýsingar:

Í fyrsta lagi er spurt, hvaða árgjald Íslandi hafi verið gert að greiða til Sameinuðu þjóðanna samkvæmt 17. gr. bandalagssáttmálans. — Ríkisbókhaldið hefur gefið mér þær upplýsingar, að árin 1946-47 hafi tillag Íslands til Sameinuðu þjóðanna verið kr. 88.062.02. Svo bætist þar við tillag til Working Capital Fund, kr. 52.040.00, að viðbættum yfirfærslukostnaði, sem var kr. 1.050.77. Samtals er því tillagið 1946-47 kr. 141.152.79. Svo er uppfært hér tillag ársins 1948, kr. 90.282.90, en þar sé ég ekki þennan seinni lið, sem uppfærður er fyrri árin, það er tillag til Working Capital Fund. Ég fékk þessar upplýsingar svo seint í hendur, rétt áður en ég fór úr ráðuneytinu í dag, að ég hafði ekki ráðrúm til að leita eftir því hjá ríkisbókhaldinu, hvort þessi liður kæmi til greina 1948 eða ekki. En sé gengið út frá, að þessi liður komi ekki til greina á árinu 1948, eins og gert er í þessu yfirliti, sem ég hef í höndunum, þá er hér um að ræða heildarkostnað að upphæð kr. 231.435.69, sem er árgjald eða tillag Íslands til Sameinuðu þjóðanna árin 1946–48 að báðum meðtöldum.

Þá kem ég að öðrum lið fyrirspurnarinnar, og er þar spurt, hver kostnaður hafi orðið af fulltrúasendingum á þing Sameinuðu þjóðanna hvert árið um sig. — Ríkisbókhaldið gefur þær upplýsingar, að kostnaður Íslands af þinghaldi Sameinuðu þjóðanna hafi orðið sem hér segir:

Árið 1946 kr. 76.550.66

— 1947 — 105.823.39

— 1948 — 29.274.61

En til skýringar stendur hér í yfirlitinu, að þessi kostnaður fyrir mánuðina okt.–des. 1948 sé ókominn til reiknings, þ.e. kostnaðurinn við þinghaldið í París í haust, og er því ekki hægt að gefa upplýsingar um hann. En samanlagt eru þær tölur, sem ég las áðan, kr. 211.648.66, og er sú tala því svarið við öðrum lið fyrirspurnarinnar að viðbættum kostnaðinum við þinghaldið í París.

Í þriðja lið fyrirspurnarinnar er svo loks spurt, hver sé orðinn allur kostnaður Íslands af þátttöku þess í bandalagi Samelnuðu þjóðanna frá því að Ísland gerðist aðili að því og til þessa dags. Svarið er, auk þess kostnaðar, sem þegar hefur verið tilfærður, kr. 16.618.97 til gjaldeyris- og alþjóðabankans á árunum 1946 og 1947, kr. 37.596.21 til matvælaráðstefnunnar árin 1946, 1947 og 1948, kr. 1.622.70 til alþjóðlegu barnahjálparinnar árið 1948, og loks kostnaður og framlag til alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar kr. 16.120.00.

Framangreindar niðurstöðutölur, þ.e.

kr. 231.435.69

— 211.648.66

— 16.618.97

— 37.596.21

— 1.622.70

— 16.120.00

mundu þá samanlagðar vera svarið við þriðja lið fyrirspurnarinnar, og hef ég ekki lagt þær saman, að viðbættum kostnaðinum við þinghaldið í París í okt.–des. s.l. ár sem fyrr segir.

Ég skal ekkert segja um, hvort þetta er algerlega tæmandi, en ríkisbókhaldið hefur fengið mér þessar upplýsingar þannig í hendur sem svar við þessari fyrirspurn hv. 3. landsk. Sé svarið ófullnægjandi að einhverju leyti, þá get ég því miður ekki bætt úr því í bili. En ég hef fullan vilja á að láta endurskoða þessar upplýsingar, ef hv. fyrirspyrjandi óskar eftir því, og láta honum það síðar í té, ef í ljós kæmi við nánari athugun, að hægt væri að gefa fyllri skýringar og upplýsingar.

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson): Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. upplýsingar hans og get ekkí ímyndað mér, að þær séu á nokkurn hátt fjarri lagi frá ári til árs. Og ég efast ekki um, að þær hafi fyllilega gefið hv. þm. hugmynd um þann kostnað, sem Ísland hefur þurft að greiða vegna þátttöku sinnar í bandalagi Sameinuðu þjóðanna.

Fyrirspyrjandi (Lárus Jóhannesson): Herra forseti. Árið 1947 var samþ. á Alþingi, að Ísland gengi í Bernarsambandið. Var það gert að fyrirlagi hæstv. menntmrh. Hefur skapazt það ófremdarástand, að ekki hefur fengizt nægur gjaldeyrir til að inna af hendi greiðslur fyrir þýðingar, og er því spurning, hvort ekki hefði verið heppilegra að fara að eins og Rússland og Bandaríkin, að gera sérsamning um gagnkvæma vernd. Nú er svo komið, að það virðist sem svo, að við getum ekki staðið við þær skuldbindingar, sem felast í því að greiða umboðslaun til rithöfunda fyrir þýðingarrétt á verkum þeirra. þess vegna hef ég lagt þessar spurningar fram.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Menntmrn. sneri sér til viðskiptanefndarinnar og hagstofunnar til þess að fá svar við þessum spurningum. Ég vil þá leyfa mér að lesa bréf hagstofustjóra, en þar segir svo:

Reykjavík, 15. febrúar 1949.

Út af bréfi menntmrn., dags. í dag, þar sem óskað er vegna fyrirspurnar, sem svara þarf á Alþingi á morgun, upplýsinga um gjaldeyristekjur landsins fyrir þýðingarrétt á íslenzkum ritum síðan 7. sept. 1947 og hve mikið Íslendingar hafa greitt til útlanda fyrir þýðingarrétt á erlendum ritum á sama tíma, skal ég leyfa mér að taka það fram, að hagstofan hefur ekki undir höndum nein gögn til þess að geta svarað fyrirspurnum þessum. Líklegast væri til þess gjaldeyriseftirlit bankanna, og hef ég því snúið mér þangað, en fengið það svar, að þessum greiðslum sé ekki haldið sérstökum, heldur séu þær færðar með ýmislegum greiðslum. Þyrfti því að ganga í gegnum allar þær greiðslur á þessu tímabili og tína úr hinar umbeðnu greiðslur til þess að finna upphæð þeirra, en það væri mjög mikið verk og þó ekki einhlítt, því að margar greiðslur eru þannig bókfærðar, að ekki er augljóst, hvað í þeim kann að felast, og auðvitað getur gjaldeyriseftirlitið ekki upplýst annað en það, sem gengið hefur í gegnum bankana.

Þorst. Þorsteinsson.

(sign.)

Í bréfi viðskiptanefndarinnar segir:

15. febrúar 1949.

Með bréfi, dags. í dag, óskar hið háa ráðuneyti, að nefndin svari í dag fjórum fyrirspurnum varðandi gjaldeyri fyrir þýðingarrétt o.fl. í því sambandi.

Það er útilokað, að nefndin geti látið í té umbeðnar upplýsingar með jafnskömmum fyrirvara og hér um ræðir, en vill þó taka fram eftirfarandi í sömu röð og spurningarnar eru greindar í bréfi ráðuneytisins:

1) Þær skýrslur, sem nefndin fær frá gjaldeyrisdeild bankanna, bera ekki með sér þær upplýsingar, sem um er beðið. Telja bankarnir sig ekki sundurliða innborgaðan gjaldeyri þannig, að þeir geti upplýst þetta fyrirvaralaust, telja þó, að um litlar upphæðir muni vera að ræða, eða jafnvel alls engar.

2) Leyfðar yfirfærslur fyrir þýðingarrétt á umræddu tímabili munu aðeins hafa átt sér stað í smáum stíl, enda ekki áætlað fyrir slíku á s.l. ári. Til að rannsaka þetta þarf að yfirfara leyfisafrit, sem skipta tugum þúsunda að tölu, og er útilokað að láta framkvæma slíkt á skömmum tíma.

3) Hvorki viðskiptanefnd né aðrar þær nefndir, er farið hafa með hliðstæð mál s.l. 17 ár, hafa fært skýrslur yfir synjaðar umsóknir. Hinar umbeðnu upplýsingar er því ekki auðið að láta í té. Nefndin man eftir, að hún synjaði á s.l. ári umsókn frá hr. Jóni Leifs, að upphæð kr. 60 þús., sem var miðuð við erlendan kostnað í sambandi við þýðingu eða útgáfu á hans eigin tónverkum. Sami aðili mun hafa átt viðræður við nefndina og óskað eftir mjög háum yfirfærslum vegna Stefs h.f. Mun nefndin hafa tjáð honum, að slíkir yfirfærslumöguleikar væru ekki fyrir hendi. Nefndin telur, að þessar synjanir séu þær, sem máli skipta í þessu efni, hvað upphæðir snertir.

4) Nefndinni er ekki kunnugt um þau atriði, er felast í fjórðu fyrirspurninni.

Með sérstakri virðingu,

Sigurður B. Sigurðsson.

(sign)

Stefán Jónsson.

(sign)

Fyrirspyrjandi (Lárus Jóhannesson): Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið. Það er sláandi, þegar ekki fást yfirfærð 100 pund eða 25 dollarar til að borga með greiðslu fyrir þýðingarrétt. Þessu þyrfti að kippa í lag hið bráðasta og bæta það ástand, sem nú er í þessum efnum. Mig undrar einnig, hve litlar gjaldeyristekjurnar eru af þýðingum íslenzkra rita. Einn íslenzkur rithöfundur hefur t.d. fengið eina bók sína gefna út af bókafélaginu „Book of the month club“, en slíkt þykir mjög álitlegt í Bandaríkjunum og vegsauki fyrir viðkomandi höfund.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Helgi Jónasson): Herra forseti. Þessi fyrirspurn skýrir sig nú reyndar sjálf, og er því óþarfi að fara að flytja neina ræðu. Eins og kunnugt er, þá var hérna samþ. frá Alþ. ályktun í fyrra, eða 17. marz 1948, þar sem Alþ. fól ríkisstj. að undirbúa setningu heildarlöggjafar um embættismannabústaði. Í þessum málum ríkir hinn mesti glundroði. En hins vegar er það nauðsynlegt, að þetta sé athugað til hlítar, en nú langar mig til að fá upplýsingar um það, hvað ríkisstj. hefur aðhafzt í þessu máli.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Skömmu eftir að ríkisstj. fékk þessa ályktun í hendur, var hún falin skrifstofustjórum fjmrn. og dómsmrn. Þeir hafa svo rætt sín á milli um þetta mál, og þeir leituðu svo til mín síðla sumars um leiðbeiningar um það, hvert efni þessarar lagasetningar skyldi vera. Dómsmrn. skrifaði svo hinum ráðuneytunum 15. okt. s.l., til þess að fá upplýsingar um það, hvaða embættismannabústaði væri mest þörf á að byggja að þeirra áli,i. En í svarbréfum ráðuneytanna koma fram mjög mismunandi skoðanir á þessu.

Fjmrn. telur, að þörfin sé mest í dreifbýlinu og að sömu stefnu beri að halda þar. En þá stefnu, sem farin hefur verið í kaupstöðunum, telur rn. vera mjög varhugaverða fjárhagslega fyrir ríkissjóð, og ef haldið verður áfram á þessari sömu braut og nú hefur verið farin undanfarin ár, þá mætti búast við því — og enda eðlilegt —, að forstjórar tóbakseinkasölunnar, áfengisverzlunarinnar o.fl. kæmu fram með sínar kröfur um bústaði. — Samgmrn. telur einnig, að fara beri varlega þá braut, að ríkið sjái embættismönnum sínum fyrir bústöðum og bindi sér á þann hátt fjárhagslegar byrðar, en hins vegar kemur þetta mjög ójafnt niður á embættismönnum, þar sem ekki geta allir orðið þess aðnjótandi að fá bústaði. Ef hins vegar haldið yrði áfram sömu braut, þá væri ráðuneytið reiðubúið til þess að benda á nokkra starfsmenn. — Menntmrn. álítur, að ekki sé rétt að halda áfram á sömu braut og byggja, heldur beri að halda til baka frá þeirri stefnu, sem farin hefur verið. En ef haldið yrði áfram, þá væri það reiðubúið að benda á ýmsa starfsmenn, sem þyrfti að byggja fyrir, svo sem rektor o.fl. — Landbrn. taldi rétt að láta byggja yfir þá starfsmenn, sem vinna í þágu landbúnaðarins úti um sveitir landsins. — Og loks taldi viðskmrn. ekki koma til mála að halda áfram sömu stefnu, enda munu ekki vera svo margir starfsmenn hjá því — enginn utan Reykjavíkur —, sem byggja þyrfti yfir. Maður sér það, að þessar upplýsingar ráðuneytanna veita ekki mikið hald við setningu laga, nema það eitt, að öllum virðist þeim, að of langt hafi verið gengið í þessu efni. Það hefur dregizt nokkuð að fá svar hjá sumum ráðuneytunum, en sjálfsagt er að reyna að finna einhverja viðunandi lausn á þessum málum. Ályktanir þeirra eru nokkuð óákveðnar, en af þeim er þó hægt að draga eina sameiginlega ályktun, en hún er sú, að embættismannabústaðir verði eingöngu reistir utan kaupstaðanna. En nú vitum við vel, að það hafa verið í smíðum bústaðir í ýmsum kaupstöðum landsins, og ég held, að það þyrfti að taka til athugunar, áður en þessi löggjöf er sett, heimild til slíkra bygginga.

Fyrirspyrjandi (Helgi Jónasson): Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þær upplýsingar og þau svör, sem hann hefur gefið í ræðu sinni.

Ég býst við því, að menn muni eftir því, að þegar þetta mál var hér til umræðu í fyrra, þá komu í ljós ýmsar ástæður til þess að auka byggingar embættismannabústaða, en þó var það heldur vilji Alþ. að draga úr þeim, þar sem ríkissjóður gæti ekki tekið á sig of þungar fjárhagslegar skuldbindingar vegna þessa. Það var tekið fram, að þegar væri of langt gengið. En ég býst þó við því, að menn megi alltaf búast við því skjólinu, að þessi löggjöf nái aðeins til embættismannabústaða utan kaupstaðanna, því að það er allt önnur og miklu erfiðari aðstaða fyrir embættismenn úti í sveit, en í kaupstöðunum, þar sem oftast er hægt að leigja húsnæði eða kaupa. Ég tel það hins vegar ekki fært, að ríkissjóður sé látinn byggja embættismannabústaði í kaupstöðum, hvorki hér í Reykjavík né öðrum kaupstöðum, meðan ekki er gert það sama í sveitunum. Að öðru leyti vil ég ekki orðlengja þetta frekar, en ég vænti þess, að stjórnin taki þetta til athugunar fljótlega og leggi fram frv. um þetta efni.

Páll Zóphóníasson: Herra forseti. Mig langar bara til þess að benda á það, að það er nauðsynlegt, áður en undirbúningi er lokið — hvenær sem það verður nú —, að vita hvar á að byggja, t.d. yfir presta. — Það hafa heyrzt um það háværar raddir víðs vegar að, að prestssetur og önnur embættismannasetur séu víða á mjög óheppilegum stöðum. Þetta verður að fyrirbyggja. Það verður að fyrirbyggja það. að prestar sitji á óeðlilegum stöðum og afskekktum, oft utan við alfaraleið. Þess vegna er það alveg nauðsynlegt að taka það til rækilegrar athugunar, hvar eigi að byggja og hvort það elgi að byggja eins marga prestabústaði eins og prestssetur eru nú, sem ég tel alls enga þörf á. Það er þetta, sem þarf að gera áður en undirbúningi er lokið.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Ég hef nú ekki miklu við þetta að bæta. Ég tek alveg undir það með hv. 1. þm. Rang., að undirbúningur að þessu frv. hafi ekki verið mikill, en ég skal nú leggja það til við þá, sem að undirbúningnum standa, að þeir hraði honum, eftir því sem föng standa til. Mér skildist það, að meginkjarninn hafi verið nokkurn veginn í sömu átt hjá hv. þm. og það, sem fram kom í skýrslu ráðuneytanna, enda vænti ég þess, að framkvæmdum verði hagað í svipaða átt og hv. 1. þm. Rang. lagði til. Ég játa það, að persónulega hef ég beitt mér fyrir því, að menn hér í Reykjavík yrðu aðnjótandi þessara bústaða, en það gerði ég vegna þess, að sams konar embættismenn voru áður búnir að fá bústaði. Og það er að mínu viti mögulegt að takmarka ákvæði, þannig að byggt verði eftir sanngjörnum reglum og látið ganga jafnt yfir alla, en það má ekki gera mönnum mishátt undir höfði.

Varðandi það, sem hv. 1. þm. N–M. sagði, þá er það nú nokkurs annars eðlis, og það getur varla komið fram í þessari löggjöf, því að hér verður varla annað tekið fram en það, hvaða tegund embættismannabústaða ætti að byggja og undir hvaða skilyrðum eigi að byggja, en varla verður tekið fram um einstaka staði, þar sem byggja á. Þar kemur aftur til greina löggjöfin um skipun læknishéraða og skipun prestakalla. Þannig eru það ráðuneytin, sem kveða á um það, á hvaða stað skuli byggja.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Fyrir nokkrum misserum bar ég fram till., um leið og ég hreyfði virkjuninni á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, að laxavegur yrði gerður fram hjá virkjuninni. Þetta er fjárhagsmál, því að 20 km ofan við hana er hinn bezti laxahylur á landinu. Þessu máli var vísað til hv. allshn. Ætlaði hún að vera með því, en þegar til átti að taka, urðu mannaskipti við sérfræðirannsóknirnar. Kom í staðinn maður, er var án allrar reynslu í þessum efnum, auk þess sem hann skorti kunnugleik. Hann gerði sig sekan um að segja, að það þyrfti rannsókna með, hvort Laxá væri hæf fyrir klak. Honum var sýnd sú kurteisi, að orðið var við þessum óskum. Nú hefur eigi heyrzt um þetta síðan, og vil ég því fá að vita þetta tvennt: Í fyrsta lagi: Hefur hæstv. stj. látið manninn gera athuganir, og hvað hefur þá fengizt út úr þeim? Veit maðurinn nú, að laxinn geti lifað þarna? Í öðru lagi: Hvað líður samanburði á störfum þessara tveggja manna? Hver hefur orðið kostnaðurinn við þessi mál? Og hversu er háttað um stofnun fiskiræktarfélaga? Hverjar eru rannsóknir sérfræðingsins? Hann hefur verið að skoða í glös. Væri gott að vita, hvað hann hefur séð í þeim.

Nú liggur grunur á, að þessi nýi vísir líkist að einhverju athöfnunum á Úlfarsá, og eðlilegt má þykja, að þing og þjóð fái að vita um árangur rannsóknanna og kostnaðinn við þær.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að minna hv. þm. á hina gömlu setningu: Vísindin efla alla dáð, — og þau geta tekið sinn tíma. Þá vil ég svara fsp. hv. þm. Ég hef fengið skýrslu um málið frá veiðimálastjóra, Þór Guðjónssyni. Hefur hann lagt allmikla vinnu í það að skýra gang málanna varðandi það efni, er fsp. hljóðar um, og vil ég leyfa mér að lesa álit hans, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt lögum nr. 61/1932, um lax- og silungsveiði, (74. og 75. gr.) er gert ráð fyrir, að veiðimálanefnd og veiðimálastjóri verði atvmrh. til aðstoðar um stjórn veiðimála. Veiðimálanefndin hefur tillögurétt um allt, sem að veiðimálum lýtur, og ber að leita samþykkis hennar um reglugerðir og annað, sem lögin ákveða, að hún skuli fjalla um. Verksvið veiðimálastjóra, sem skal vera sérfræðingur í veiðimálum og vatnalíffræði, eru að annast rannsóknir vatna og fiska og skrásetja veiðivötn, safna skýrslum um veiði og fiskirækt, láta gera uppdrætti af klakstöðvum og fiskvegum og hafa umsjón með gerð þeirra, gera tillögur um reglugerðir og leiðbeina um veiðimál.

Þegar lögin um lax- og silungsveiði frá 1932 gengu í gildi, var Ólafur Sigurðsson bóndi á Hellulandi starfandi ráðunautur um klakmál á vegum Búnaðarfélags íslands og Fiskifélags Íslands, en hins vegar var þá enginn sérfræðingur um veiðimál og vatnalíffræði til í landinu til að taka að sér starf veiðimálastjóra. Var því ákveðið með bráðabirgðaákvæði í lögunum (95. gr.), „að sá maður, sem hefur með höndum eftirlit með lax- og silungaklaki í landinu, komi í stað veiðimálastjóra og veiðimálanefndar, eftir því sem við getur átt“, þar til Alþingi kveður öðruvísi á. Veiðimálanefndin var svo skipuð 31. marz 1933, og áttu sæti í henni þeir Pálmi Hannesson rektor, formaður, dr. Bjarni Sæmundsson og Metúsalem Stefánsson búnaðarmálastjóri. Síðar var Ólafur Sigurðsson ráðinn hjá Búnaðarfélaginu eftir tillögu veiðimálanefndar til að hafa á hendi leiðbeiningar um klak og veiði, og starfaði hann hjá félaginu til ársloka 1946.

Á fyrstu árunum, eftir að lögin um lax- og silungsveiði frá 1932 gengu í gildi, var rannsóknum á veiðivötnum og vatnafiskum ekki sinnt, en Pálmi Hannesson hafði haft slíka rannsóknarstarfsemi með höndum á árunum 1927–30. Þegar Atvinnudeild háskólans tók til starfa 1937, var fiskideildinni falið að annast rannsóknir í þágu veiðimálanna, og gerði hún það fram til ársins 1946, að veiðimálastjóraembættið var stofnað. Gerðar voru rannsóknir á Kleifarvatni, Mývatni, vatnahverfi Ölfusár — Hvítár, Blöndu, hluta af Laxá í Þingeyjarsýslu og fleira. Einnig voru gerðar rannsóknir á ævi laxins í nokkrum ám og þá aðallega í Elliðaánum. Í þessum rannsóknum tóku þátt þeir Árni Friðriksson, dr. Finnur Guðmundsson, Geir Gígja og aðstoðarfólk.

Fyrsta spurning: Hve miklu fé hefur ríkissjóður varið til klakmála árlega 1939–48? Svar: Því miður er ókleift að gefa nákvæmt yfirlit yfir útgjöld ríkissjóðs vegna veiðimála á öllum árunum frá 1939 til 1948, þar sem ekki liggur fyrir nákvæm sundurliðun á, hvað rannsóknarstarfsemi fiskideildar í þágu veiðimálanna hefur kostað á árunum 1939–45. Árni Friðriksson fiskifræðingur, forstöðumaður fiskideildarinnar telur, að ekki sé of hátt ætlað, að kostnaður deildarinnar af vatnarannsóknunum á þessu tímabili hafi árlega numið upphæð, er samsvarar launum, ferðakostnaði og rekstrarkostnaði eins sérfræðings. Í rekstrarkostnaði er innifalinn kostnaður vegna aðstoðar, húsnæðis, ljóss og hita og vegna kaupa á rannsóknar- og skrifstofuáhöldum. Með núgildandi verðlagi mundi kostnaður af einum sérfræðingi vera 60 –75 þús. kr. árlega.

— Útgjöld ríkissjóðs til veiðimála á árunum 1939 –48, sem tölur eru til yfir, fara hér á eftir ásamt upphæðum þeim, sem veittar voru til veiðimála í fjárlögum:

Ár Fjárlög Útgjöld

1939 14.000.00 kr. 14 371.63 kr.

1940 18,500.00 – 17.658.81 -.

1941 18.400.00 – 17 080.83 -.

1942 18.400.00 – 26.286.38-.

1943 25.000.00 – 41.489.70 -.

1944 25.000.00 – 72.315.09-.

1945 25.000.00 – 42.558.40 -.

1946 25.000.00 – 127.974.42 -.

1947 114.980.00 – 110.132.33 -.

1948 127.650.00 – 100.470.00 -.

Á fjárlögum hefur verið veitt árlega fé í klaksjóð, og hafa þær fjárveitingar verið teknar hér með. Fjárveitingar til klaksjóðs voru kr. 5.000.00 á árunum 1939–42 og kr. 10.000.00 frá 1943–48. Fé hefur ekki verið notað úr klaksjóði síðan 1945.

Á árunum 1943–45 voru greiddar samtals kr. 36.000.00 sem styrkur úr sjóði til styrktar vegna framleiðslubóta og atvinnuaukningar til tveggja bænda í Kelduhverfi vegna tilrauna með silungaeldi. Þar sem hér er um að ræða styrk af opinberu fé til fiskiræktar, þá voru styrkupphæðirnar teknar með öðrum fjárframlögum hins opinbera til veiðimála á þessum árum.

Útgjöld ríkissjóðs til veiðimála á árunum 1939–45, að undanskildum kr. 36 000.00, sem áður var minnzt á, gengu til að greiða laun og ferðakostnað Ólafs Sigurðssonar og til að styrkja fiskiræktarframkvæmdir. Á árinu 1945 voru útgjöld ríkissjóðs vegna veiðimála aukin verulega, þó að ekki komi það fram á útgjaldalistanum, þar sem fiskideildin fékk á því ári aukna fjárveitingu til starfsemi sinnar og þar á meðal álitlega upphæð, sem varið skyldi tal vatnarannsókna.

Svo er að sjá á útgjaldalistanum, að á árinu 1946 hafi útgjöldin til veiðimála hækkað stórkostlega, en þetta er ekki að öllu leyti rétt, eins og nú skal sýnt fram á. Þann 1. maí 1946 hóf veiðimálastjóri starf sitt, en við stofnun embættis veiðimálastjóra voru færð saman á einn stað verkefni þau á sviði veiðimálanna, sem veiðimálastjóra voru ætluð samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, en þessi mál höfðu verið í höndum ráðunauts Búnaðarfélagsins í klakmálum og hjá fiskideildinni. Þessi breyting hafði það í för með sér, að á þessu ári kemur fram í ríkisreikningnum kostnaður vegna rannsókna á veiðivötnum undir liðinn kostnaður vegna veiðimála í stað þess að vera með ósundurliðuðum kostnaði fiskideildar, eins og verið hafði, frá því að atvinnudeildin var stofnuð. Þá varð það og til að auka útgjöldin til veiðimálanna á þessu ári, að embætti veiðimálastjóra keypti af fiskideildinni tæki þau og áhöld, sem deildin hafði aflað sér til vatnarannsókna, svo og bækur þær, sem til voru um vatnarannsóknir og vatnafiska. Auk þessara kaupa var óhjákvæmilegt að ráðast í kaup á nauðsynlegum húsgögnum og áhöldum á skrifstofu, sem jafnframt var rannsóknarstofa. Í árslok 1946 eru eignir embættisins taldar kr. 54.682.59, og hafa gjöldin á árinu því verið kr. 73.291.83, og eru þar með talin laun Ólafs Sigurðssonar ráðunauts og ferðakostnaður hans. Auk þess, sem nú hefur verið talið, voru greiddar á árinu af umræddum lið um kr. 10.0000.00 í styrki og vegna veiðieftirlits.

Um útgjöldin árið 1947 þykir ekki þörf á að ræða sérstaklega, en geta skal þess þó, að á þessu ári verður embætti veiðimálastjóra að hverfa úr húsnæði fiskideildar í atvinnudeildarbyggingunni vegna þrengsla og fara í leiguhúsnæði út í bæ, þar sem ókleift var að komast í húsnæði hins opinbera. Við þetta skapaðist aukinn kostnaður við rekstur embættisins, sem varð þess valdandi, að óska varð eftir hærri fjárframlögum, en þau fengust fyrst á fjárlögum fyrir árið 1948. Eignaaukning á árinu var kr. 6.725.11.

Varðandi útgjöld ársins 1948 skal vísað til svars við þriðju spurningu. Eignaaukning á árinu 1948 nam kr. 7.058.76.

Önnur spurning: Hve mörg klak- og fiskiræktarfélög voru stofnuð á þessu tímabili fyrir forgöngu Ólafs Sigurðssonar og að tilstuðlan Þórs Guðjónssonar?

Svar: Á árunum 1939–48 var stofnað 21 félag, sem voru ýmist fiskiræktar- eða veiðifélög eða hvort tveggja. Tvö þessara félaga höfðu verið til áður, en voru endurstofnuð. Nokkur vafi leikur þó á, að telja beri 21 félag stofnað á nefndu tímabili eða hvort þau voru nokkru færri, því að sennilega hafa þau 7 félög, sem staðfestingu fengu í stjórnarráðinu fyrstu 5 mánuði ársins 1939, verið stofnuð árið 1938.

Samkvæmt B-deild Stjórnartíðinda skiptist fjöldi fiskiræktar- og veiðifélaga, sem staðfestingu fengu í stjórnarráðinu á árunum 1930–45, eins og hér segir:

1930 1 félag 1935 1 félag

1931 2 félög 1936 6 félög

1932 0 – 1937 6 –

1933 0 – 1938 4 –

1934 2 – 1939 7 –

1940 3 félög 1943 2 félög

1941 3 – 1944 1 félag

1942 4 – 1945 1 –

Í sambandi við möguleika á stofnun fiskiræktar- og veiðifélaga á Íslandi er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi eru því takmörk sett, hve kleift er allra aðstæðna vegna að koma á stofn mörgum félögum, þar sem fiskihverfin eru bara svo mörg og ekki fleiri. Þá er mjög misjafnlega auðvelt að fá bændur til að stofna félög, og fer það nokkuð eftir félagslegum aðstæðum við fiskihverfin svo og ástandi veiðivatnsins, sem stofna á félagið um. Sums staðar hefur þörfin fyrir slík félög verið mikil, og bændur hafa viðurkennt hana og því nær samstundis verið til í að stofna félögin. Þetta atriði kemur greinilega í ljós, þar sem í sumum tilfellum er reynt að fá bændur árum saman til að stofna hjá sér félög, en án árangurs. Taflan hér að framan, sem sýnir fjölda félaganna, sem stofnuð voru árlega á árunum 1930–45, gefur góða hugmynd um, hvernig gengið hefur til með félagsstofnanirnar. Á árunum frá 1930–35 eru bændur tregir til að stofna félög, en þá bregður skyndilega til hins betra. Á árunum 1936–39 eru stofnuð til jafnaðar tæplega 6 félög á ári að meðaltali, en úr því fer að fækka félagsstofnununum, og þær verða til jafnaðar 3 á ári næstu 4 árin, en þá er nálgazt það mark, að sárafáir eiga eftir að stofna hjá sér félög, og það er því aðeins eitt félag stofnað hvort árið 1944 og 1945 og ekkert 1946.

Eins og sjá má hér að framan, þá hefur verið stofnað 21 félag til eflingar fiskirækt eða til samveiði eða hvort tveggja á árunum 1939–45, eða áður en embætti veiðimálastjóra var stofnað. Þegar á fyrstu mánuðum í starfi mínu kynnti ég mér starfsemi fiskiræktar- og veiðifélaganna eftir föngum. Mér var brátt ljóst af þeirri kynningu, að mjög var starfsemi félaganna með mismunandi móti. Í sumum félaganna var starfað af lífi og fjöri, en í öðrum var deyfð og drungi og í um þriðjungi þeirra var ekkert starfað. Nokkur höfðu sofnað út af, þegar eftir stofnunina. Það lá því næst við að leitast við að hressa upp á félögin, sem fyrir voru, frekar en að leggja allt kapp á stofnun nýrra félaga, sem svo ef til vill yrðu ekkert annað en nafnið, og verður það mikið starf í framtíðinni að hjálpa þeim áleiðis sem illa eru stödd.

Þriðja spurning: Hvernig var árið 1948 notað það fé, sem ríkið lagði til klakmála? Hve mikið í laun, ferðir, áhöld til vísindalegra tilrauna og til annarra útgjalda?

Svar: Á fjárlögum fyrir árið 1948 var ætlað kr. 127.650.00 til veiðimála, þar af kr. 10.000.00 í klaksjóð. Kostnaðarliðirnir á fjárlögunum (16. gr., 26) eru áætlaðir eins og hér segir:

A. Veiðimálastjóraembættið:

a. Laun ................................ kr. 49.650.00

b. Skrifstofukostnaður o.fl. .. — 8.000.00

c. Ferðakostnaður .............. — 10.000.00

d. Annar kostnaður . .. .. .... — 20.000.00

B. Kostnaður vegna veiðimála

nefndar og styrkir til fiski

ræktar ............................... — 30.000.00

kr. 117.650.00

Fjárveitingunni til veiðimála hefur verið varið eins og hér segir:

A. Veiðimálastjóraembættið:

a. Laun ...................... kr.49.125.00 b.

Skrifstofukostnaður o.fl.:

1. Daglegur rekstrarkostnaður, svo sem símagjöld, pappírsvörur, ritföng og burðargjöld, ræsting og hreinlætisvörur o.fl. .............. 3.485.88

2. Áhöld, bækur og

tímarit ............................... 3.585.23

— 7.071.11

c. Ferðakostnaður .........— 11.405.93

d. Annar kostnaður:

1. Húsaleiga og hiti ..11.377.13

2. Rannsóknaráhöld ..3.473.53

3. Laxamerkingar ….. 1.966.70

4. Ýmis kostn., svo

sem afnotagj. af síma og heimtaugargj., prentkostn., auglýsingar, vátrygging

o. fl. ……………. …..5.325.36

…..— 22.142.72

Áður en lengra er haldið, skal tekið fram, að á liðum b, c og d var fjárveitingin á fjárlögum kr. 38.000.00. Kostnaðurinn var þó kr. 40.619.76. Fé til greiðslu upphæðar þeirrar, sem er umfram fjárlög, er þannig til komið, að atvinnumálaráðuneytið veitti kr. 1.000.00 utan fjárlaga með tilliti til þess, að á árinu 1947 hafi fjárveitinganefnd Alþingis ekki tekið til greina umsókn um fjárveitingu til embættis vegna húsaleigukostnaðar, sem embættið varð að taka á sig við það að flytja úr húseign ríkisins (atvinnudeildarbyggingunni) í leiguhúsnæði. Var reynt með erfiðismunum að greiða húsaleiguna fyrir 1947 af fé því, sem embættinu var ætlað til annarra hluta á árinu 1947 og 1948. Kr. 1.619.76 var fé, sem greitt hafði verið á fyrra ári í ákveðnu skyni, en ekkert kom á móti fyrir, fyrr en á árinu 1948.

Af fjárveitingu til veiðimálanefndar og til styrkveitinga var greitt eins og hér segir:

Vegna veiðimálanefndar ........ kr. 1.500.00

Vegna eftirlits með veiðiám í Borgarfirði og Árnessýslu ...........— 9.845.39

Styrkveiting til Fiskiræktar- og

veiðifélags Laugdælinga ....................................................... — 1.000.00

Samtals kr. 12.345.39

Eins og sjá má, var fjárveitingin á þessum lið ekki notuð nema rúmlega að einu þriðja leyti. Gert hafði verið ráð fyrir, að fjárveitingin yrði notuð öll til styrktar fyrirhugaðri fiskvegagerð á árinu, en sökum frestunar á framkvæmdum varð ekki úr því.

Í sambandi við kostnað vegna rannsókna og laxamerkinga skal það tekið fram, að verulegur hluti hans er falinn í ferðakostnaði og kemur því undir þann lið hér að framan.

Fjórða spurning: Hverjar eru ráðagerðir klakstjórnarinnar um vísindalega starfsemi í klakmálum?

Svar: Gert er ráð fyrir að haga vísindalegri starfsemi í þágu veiðimálanna á þann hátt, að rannsökuð verði ár og vötn á landinu og fiskalífið í þeim og jafnframt verði tekin fyrir sérstök rannsóknarverkefni og tilraunir gerðar, eftir því, sem við verður komið.

Rannsóknir á ám og vötnum með tilliti til lífsskilyrða fyrir fisk eru undirstöðurannsóknir, er vinna verðum að kerfisbundið og taka munu langan tíma. Tilgangurinn með rannsóknunum er að fá vitneskju um framfærslumátt einstakra veiðivatna og helztu einkenni þeirra. Að niðurstöðunum fengnum má m.a. ráða, hvort veiðivatnið er fullnýtt eða ekki. Í fljótu bragði kann að virðast nægjanlegt að rannsaka eina á og eitt vatn, en svo er þó ekki, þar sem aðstæður eru svo mismunandi í hinum ýmsu veiðivötnum, að nauðsyn er á að kynna sér hvert einstakt þeirra sérstaklega. Þekking á ánum og vötnunum kemur að margs konar gagni, og skal í því sambandi minnzt á, að það er mjög þýðingarmikið, þegar seiðum er sleppt, upp á góðan árangur, að þekkja þá staði, sem bezt henta fyrir seiðin, eftir að þau koma í sitt nýja umhverfi, og jafnframt að hafa í huga, hve hyggilegt er að sleppa mörgum seiðum á hvern stað.

Jafnnauðsynlegt er að rannsaka líf vatnafiskanna eins og lífsskilyrði þeirra. Niðurstöðurnar gefa bendingar um, hvenær skynsamlegast er að leyfa veiði þeirra og hvenær og undir hvaða kringumstæðum eigi að friða þá. Rannsóknir á vatnafiskum okkar eru stutt á veg komnar, og er nú hafinn undirbúningur undir að halda þeim áfram. Það þarf að rannsaka stofnana í ánum og vötnunum til að kynnast mismun þeirra, sem getur verið með mörgu móti, þó að fljótt á litið séu þeir allir eins. Í sambandi við klakstarfsemina í landinu hafa niðurstöður þessara rannsókna verulega þýðingu, því að óskynsamlegt er að taka til undaneldis í klakið aðra fiskstofna en þá, sem gæddir eru heppilegum eiginleika hvað snertir vaxtarhraða og annað. Við nánari kynni af lífsferli vatnafiskanna. sem rannsóknir næstu ára munu leiða í ljós, má vænta, að breyta þurfi einstökum ákvæðum veiðilöggjafarinnar að verulegu leyti.

Auk undirstöðurannsóknanna er þörf að taka til meðferðar sérstök rannsóknarverkefni og hafa nokkra tilraunastarfsemi með höndum. Skal í því sambandi minnzt á þörfina fyrir rannsóknir á klakaðferð, samband vatnafiskanna og annarra dýra (t.d. minka og fugla). Tilraunaverkefnin eru mörg, en tilraunir með eldi lax og silungs er einna mest aðkallandi. Ef eldistilraunirnar gefa sæmilega raun, ætti eldi vatnafiska og þá sérstaklega laxaeldi að geta haft töluverða fjárhagslega þýðingu. Vonir standa til, að kleift verði að byggja fyrirmyndar ríkisklakstöð á næstunni svo og eldisstöð, og mun við það skapast vettvangur fyrir rannsóknir á klakaðferðum og tilraunum með eldi laxa og silunga.

Þegar um er að ræða að vinna að vísindastarfsemi eins og að ofan getur, þá er nauðsynlegt upp á góð afköst við starfsemina, að fyrir hendi séu áhöld til rannsóknanna, bókakostur og starfskraftar. Eins og sakir standa er embætti veiðimálastjóra allvel búið að tækjum og bókum, en því miður eru önnur störf en þau, sem að rannsóknum lúta, svo tímafrek, að gefa verður þeim nú minni gaum en skyldi. Þegar frá líður og byrjunarerfiðleikarnir hafa verið yfirunnir, verður mögulegt að nota verulegan tíma til rannsóknanna.

Fimmta spurning: Hefur atvmrn. látið klakfræðing sinn rannsaka hrygningarskilyrði laxa í Þingeyjarsýslu milli rafstöðvarinnar hjá Brúum og Mývatns? Hver var árangur þeirrar rannsóknar? Vill atvmrn. gera það skilyrði fyrir auknu virkjunarleyfi við Brúar, að leyfistaki leggi á sinn kostnað fullkominn fiskiveg fram hjá mannvirkjum rafstöðvarinnar?

Svar: Athugun á hrygningarskilyrðum fyrir lax í Laxá í Þingeyjarsýslu fór fram um miðjan júlí 1947. Í bréfi, dags. 17. marz 1948, var atvmrn. skýrt frá niðurstöðunum af athugununum og þá jafnframt tilkynnt um niðurstöður kostnaðaráætlunar raforkumálaskrifstofunnar um byggingu fiskvegar í Brúargljúfri. Innihald nefnds bréfs er í stuttu máli þetta: Á um 10 km svæði í Laxá í Þingeyjarsýslu ofan Brúargljúfra, frá stað í ánni á móts við jörðina Hamar og norður undir Birningsstaðaflóa, eru allvíðáttumiklar hrygningarstöðvar. Æti á þessu svæði er ríkulegt, en rennslistruflanir spilla afkomumöguleikum fiskanna í ánni. Það er talið ráðlegt og æskilegt, að reynt verði að koma upp laxastofni í Laxá ofan Brúargljúfra. Nefndar eru tvær leiðir til að koma laxinum upp fyrir hindranirnar í Brúargljúfrum, annars vegar að byggja fiskveg í gljúfrunum og hins vegar að safna laxinum í kistu neðan við gljúfrin og flytja hann síðan upp fyrir þau á bifreiðum. Raforkumálaskrifstofan gerði uppdrátt að fiskvegi í gljúfrunum og kostnaðaráætlun um byggingu hans. Áætlaði hún, að fiskvegurinn mundi kosta eina milljón og sjö hundruð þúsund krónur. Kostnaðurinn við að koma fyrir laxakistu neðan gljúfranna mundi hins vegar ekki verða verulegur, en þó mundi flutningurinn upp fyrir gljúfrin hafa nokkurn árlegan kostnað í för með sér. Þá var og rætt um fjárframlag til að hefja veiði neðan Brúargljúfra til öflunar stofnlax fyrir Efri-Laxá, ef horfið yrði að því ráði að koma upp laxastofni þar.“

Já, þannig hljóðar skýrsla veiðimálastjóra, og ég get bætt því við, varðandi þá spurningu, hvort atvmrn. vilji gera það að skilyrði fyrir auknu virkjunarleyfi við Brúar, að leyfistaki leggi á sinn kostnað fullkominn fiskveg fram hjá mannvirkjum rafstöðvarinnar, að eftir þeirri kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið og gerir ráð fyrir, að það verði hátt á aðra milljón króna, þá get ég svarað því strax, að ég mun ekki gera slíkt að skilyrði upp á mitt eindæmi, og mun það, ef til þess kemur, verða lagt fyrir Alþingi.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Það er ástæða til að þakka þessa skýrslu, ef málefni eru eins skýr og skýrslan er löng. Það er sýnilegt, að allur kostnaður í sambandi við þessi mál hefur aukizt mjög mikið, síðan hinn ungi kunnáttumaður tók við þessu starfi sínu, en hins vegar hefur ekki komið í ljós neinn sýnilegur árangur af hans starfi. Félög, sem stofnuð hafa verið af fyrirrennara hans, lifa sum allvel, en heldur sýnist það ósennilegt, að hinn nýi maður sé fjörugur að halda þeim við, sem stofnuð eru. Þá hefur komið í ljós, að nokkur kostnaður er frá fiskideildinni. Á sínum tíma reyndum við í Þingvallanefnd að fá Árna Friðriksson fiskifræðing til þess að sinna nokkru um silungsrannsóknir í Þingvallavatni, en aldrei hefur komið til Þingvallanefndar nein vitneskja, sem nokkurs var virði. En það er annars mjög einkennilegt, að þegar nýr kunnáttumaður kemur, þá er hann fluttur út úr fiskideildinni, og það er einnig mjög einkennilegt, að það lítur út fyrir að hann hafi orðið að kaupa með sér bækur út úr fiskideildinni.

En þannig fór, eins og ég bjóst raunar við, að þessi ungi maður komst að þeirri niðurstöðu, að laxar gætu lifað í ám fyrir ofan fossa, en það hafa nú verið talin heldur lítil vísindi fram að þessu, heldur virðist hann vera að tylla sér á tá með þessu. Þeir eru með ráðagerðir um vísindalegar framkvæmdir, þessir menn, en þessir sömu menn, sem að vísindalegu framkvæmdunum eiga að vinna, þeir dveljast hér í Reykjavík tíu mánuði ársins, en taka sér svo smásumarferð út um sveitir til þess að skoða laxinn. En ef sami árangur næst af þeirri skoðun og fékkst í Þingvallavatni forðum, þá held ég, að ekki verði hægt að byggja mikið á honum.

Hæstv. atvmrh. vil ég svo segja þetta: Þessi athugun eða áætlun, sem rafmagnsfræðingarnir gerðu um kostnað við fiskveginn, hefur ekki við neitt að styðjast, því að rafmagnsfræðingar hafa ekkert vit á því, hvað laxastigar kosta. Það er enginn maður hér á landi, sem gæti gert þessa kostnaðaráætlun, og í öðru lagi vil ég benda á, að ef veitt er leyfi til aukinnar virkjunar þarna, þá er búið að eyðileggja klakið fyrir þessum mönnum, ef ekkert verður að gert, og verður því ríkisstj. að beita sér fyrir því, að þetta verði lagfært.

Gylfi Þ. Gíslason: Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að óska þess, að fyrirspurnirnar verði ekki bornar upp í einu lagi, svo að mér fyrir mitt leyti gefist tækifæri til þess að greiða atkv. gegn því, að fyrirspurn nr. II verði leyfð. Ég get ekki betur séð en að um þessa fyrirspurn eins og aðrar, sem hv. þm. S–Þ. ber fram, sé það svo, að mikill vafi sé á því, hvort hún sé þinghæf. Hér er ríkisstj. spurð um, hverju sæti, að ekki er aðallýsing í byggingu fornminjasafnsins gegnum þakið, og hvers vegna veggir séu ekki heilir á þeirri hæð safnbyggingarinnar, sem er ætluð listaverkageymslu, í öðru lagi, hvers vegna stærsti salur hins tilvonandi listasafns sé nálega dimmur, og enn fremur, hvort það sé rétt, að helztu málarar landsins muni mótmæla, að verk þeirra verði til sýnis í þessu húsi. Ég tel slíka fyrirspurn sem þessa varla þinghæfa og vil fá tækifæri til að greiða atkv. gegn því að leyfa hana og þannig gera mitt til þess að koma í veg fyrir, að sá skrípaleikur verði hafður hér á Alþ., sem stundum áður hefur átt sér stað, er slíkar fyrirspurnir sem þessi hafa verið til umr. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að í engu þjóðþingi á Vesturlöndum gætu aðrar eins fyrirspurnir og þessi verið teknar til umræðu. Og sama gildir um sumar þáltill., sem bornar hafa verið fram og ræddar hér á Alþ. af miklu kappi. Ég skal ekki fullyrða, að slíkt gæti ekki átt sér stað suður á Balkanskaga eða í Afríku eða Suður-Ameríku. En ég staðhæfi, að í engu þjóðþingi öðru á Vesturlöndum en Alþ. gæti það gerzt viðkomandi umr. um fyrirspurnir og þáltill., sem hvað eftir annað hefur gerzt hér á Alþ., síðan ég kom á þing fyrir tveim til þrem árum. Og ég verð að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að hvorki forseti né þingmenn hafa gert nokkuð til að koma í veg fyrir, að bæði hefur tími þingsins verið misnotaður með því, eins og gert hefur verið, og þingið raunverulega hefur oft verið með skrípaleik og skrípaumr., eins og hér hefur átt sér stað. A.m.k. vil ég fyrir mitt leyti kasta af mér allri ábyrgð af því að nota tíma þingsins til að ræða sumar fyrirspurnir, sem bornar eru hér fram. Ég hef einnig gert það áður viðkomandi fyrirspurnum.

Forseti (JPálm): Það gilda alveg fastar reglur um fyrirspurnir. Og það er hér alltaf ákveðið af hv. þm. sjálfum, hvort þær skuli leyfðar eða ekki. En að þessu sinni skal ég verða við þeirri ósk að bera upp sérstaklega fyrirspurn nr. II á þskj.

Pétur Ottesen: Ég vildi bara gera þá fyrirspurn til þess hv. ræðumanns, sem hreyfði hér andmælum gegn leyfi fyrir fyrirspurn nr. II á þessu þskj., sem hér er um að ræða, hvort þau andmæli gildi fyrirspurnina í heild eða einstaka liði hennar. Ég sé ekki ástæðu til að vera á móti því að leyfa 1. og 2. liðinn. Ég veit ekki, hvers konar einvaldsherra menn vilja leika hér á Alþ., þar sem ríkir bæði lýðræði og þingræði.

Gylfi Þ. Gíslason: Herra forseti. Það er 3. liðurinn, sem ég átti við. Ég sé ekki ástæðu til að vera á móti því að leyfa 1. og 2. liðinn. En það er 3. liðurinn, sem ég tel ekki þinghæfa fyrirspurn og vil þess vegna fá leyfi til að greiða atkv. gegn leyfi fyrir. Ef hæstv. forseti telur sér fært að bera upp einstaka liði fyrirspurnarinnar, mundi ég greiða atkv. með 1. og 2. liðnum, en á móti 3. liðnum, sem ég tók fram, að ég teldi fyrir neðan virðingu Alþ. að taka til umr. og fyrir neðan virðingu ríkisstj. að taka til svara.

Ingólfur Jónsson: Herra forseti. Það er óskiljanleg viðkvæmni, sem kemur fram í ræðum hv. 4. þm. Reykv. Hann er alltaf að tala um virðingu þingsins og að henni sé misboðið, ef samþ. sé að leyfa hér ákveðna fyrirspurn. Og hann hefur einnig talið, að það sé gert með því að bera fram sumar þáltill. Hann telur, að með því sé misboðið virðingu þingsins, enda þótt hann hafi sjálfur borið fram þáltill., sem kannske eru ekkert betri fyrir virðingu þingsins en þær till., sem hann talar um. — Ég sé ekki, að þessi fyrirspurn, sem hann hefur gert hér að umtalsefni, sé neitt lakari en margar aðrar fyrirspurnir, sem hafa komið fram í þinginu, og legg ég því til, að samþ. verði að leyfa hana.

Gylfi Þ. Gíslason: Herra forseti. Ég skil þá viðkvæmni, sem hefur gripið hv. 2. þm. Rang. Hann er einmitt einn af þeim hv. þm., sem hafa átt verulegan hlut að því á þessu þingi, að virðingu þingsins hefur mjög verið misboðið með — ég vil segja hálfgerðum skrípatillögum, sem degi eftir dag hefur verið eytt í að ræða um. Á ég þar t.d. við þáltill. um jeppabifreiðar og till. um innflutning landbúnaðarvéla, sem mér skilst, að flestir hv. þm. séu sammála um, að séu skrípamál, sem þinginu sé til mjög lítils sóma að eyða miklum tíma í að ræða um. Ég er því ekki hissa á því, þótt þessi hv. þm. hrökkvi við, þegar talað er um, að tími þingsins sé misnotaður til þess að ræða mál, sem varla eða ekki geta talizt eiginleg eða réttmæt þingmál.

Forseti (JPálm): Þetta mál kemur ekki við fyrirspurnum, sem hér liggja fyrir. Ingólfur Jónsson: Herra forseti. Þessi hv. þm., 4. þm. Reykv., hefur áður talið, að landbúnaðartill., sem við sjálfstæðismenn höfum flutt, og hefur oft sagt það, að þetta væru skrípatill. Það er dálítið einkennilegt, að till. um innflutning landbúnaðarvéla skuli vera kallaðar skrípatill., enda þótt þessi hv. þm., sem það hefur gert, sé ekki úr landbúnaðarkjördæmi og hafi lítinn skilning á sjónarmiðum þeirra, er landbúnað stunda. Samt sem áður hefur þessi sami hv. þm. flutt inn í þingið fyrirspurnir og oft mjög ómerkilegar, og hann ætti þess vegna ekki að vera að tala um virðingu þingsins og að henni sé misboðið með þessum þáltill., sem hann nefndi, eða með fyrirspurnum, sem hann nefndi, fyrst hann hefur sjálfur flutt fyrirspurnir í þinginu, sem að áliti margra hv. þm. eru mjög ómerkilegar.

Sigurður Bjarnason: Ég vildi aðeins skjóta því fram, að ég álít fyrir neðan virðingu þingsins að vera að ræða virðingu þingsins við hv. 4. þm. Reykv.

ATKVGR.

Fyrirspurnin leyfð með 26:1 atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

já: SK, SÁÓ, SkG, StJSt, StSt, ÞÞ, ÁS, BG, BBen, BÓ, BrB. EE, EmJ, FJ, GJ, HB, IngJ, JóhH, JG, KTh, LJóh, PO, SigfS, SB, SEH, JPálm.

nei: GÞG.

StgrA, StgrSt, BSt, BA, HÁ, HV, HelgJ, JS, PÞ, SG greiddu ekki atkv.

15 þm. (ÁkJ, ÁÁ, BK, EOI, EystJ, GÍG, GTh, HermG, HermJ, JJós, JJ, JörB, LJós, ÓTh, PZ) fjarstaddir.

2 þm. gerðu grein fyrir atkv.:

Barði Guðmundsson: Herra forseti. Enda þótt það sé mjög hæpið, að svona lagaðar fyrirspurnir eins og sú, sem nú er verið að greiða atkv. um, hvort leyfð skuli, séu í fullu samræmi við ákvæði þingskapa, þá ætla ég nú samt sem áður að segja já.

Bernharð Stefánsson: Herra forseti. Ég sé ekki, að þessi fyrirspurn, sem hér er borin fram, sé miklu lakari en ýmsar aðrar, sem bornar hafa verið fram og leyfðar, þegar bornar hafa verið fram fyrirspurnir um það, sem fyrirspurnarmaður getur aflað sér sjálfur á annan veg vitneskju um, og í öðru lagi hafa verið bornar fram fyrirspurnir um allt milli himins og jarðar. Það er eins og þingmenn haldi, að þeir geti notað ráðherrana eins og alfræðiorðabók. — Mér hafa fundizt þessir fyrirspurnatímar mjög óviðfelldnir, ég verð að segja það. En ég sé ekki, að þessi fyrirspurn sé miklu lakari en ýmsar aðrar. Ég hef haft þann hátt, að ég hef setið hjá við atkvgr. um fyrirspurnir, og ég geri það enn, og greiði ekki atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Eins og allir íbúar Reykjavíkur hafa orðið varir við, þá hefur verið unnið að því undanfarin misseri að koma upp mikilli byggingu vestan við háskólann. Á sú bygging að verða fyrir listaverk landsins og fornminjar. Þessi bygging var ákveðin í sambandi við stofnun lýðveldis á Íslandi og bygging hússins ákveðin í hátíðargleði. Hefur slíkt valdið nokkurri fljótfærni og umbúnaður hússins því ekki hugsaður eins og hefði mátt ætla um hús af þessari gerð. Húsið er frámunalega ljótt og óhentugt sem safnbygging. Meðal annarra vankanta var það, að enginn inngangur var í það, og hefur orðið að brjóta inngang í það. Sá menntmrh., sem réð byggingarframkvæmdum, var Einar Arnórsson. Skipaði hann 3 manna nefnd til að sjá um byggingu hússins, og var Sigurði Guðmundssyni falið að teikna húsið. Varð ósamkomulag á milli húsameistara og byggingarnefndar, og fékk nefndin engu ráðið. Á þeim hluta hússins, sem ætlaður er fyrir listaverk, er sá galli, að engin ofanbirta er. Aðalsalur er 9 m hár, en þar er ekkert ljós. En á hinum háu veggjum þessara sala eru stórir hliðargluggar líkt og á verzlunarhúsum. Nú er því þannig háttað í öllum málverkasöfnum, sem getið er um, að birtan er fengin ofan frá. Þessi sjálfsagði hlutur hefur verið vanræktur, og mun þetta tiltæki hafa skapað megna óánægju hjá málurum landsins. Ég hef því spurt sérstaklega um þetta, hvort málarar landsins muni neita að sýna málverk sin í slíkum salarkynnum. Mér hefur einnig þótt máli skipta að spyrja, hver hafi haft eftirlit með verkinu, auk kostnaðar. Bygging þessi verður því óvinsælli sem hún er dýrari. Þess vegna hef ég spurt um þetta.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Ég hef óskað þess við byggingarnefndina, að hún gæfi upplýsingar um þetta mál. Mér hefur borizt skýrsla varðandi þetta frá nefndinni, og mun ég svara fyrirspurnum hv. þm. með því að lesa þær upplýsingar hér upp, með leyfi hæstv. forseta.

„Samkvæmt ósk hins háa ráðuneytis, dags. 25. febr. s.l., skal eftirfarandi upplýst:

1. Kostnaður vegna byggingarinnar var upprunalega áætlaður 4 millj. kr. Alþingi veitti 3 millj. kr. 1944, en ríkisstjórn Ólafs Thors samþykkti á ráðherrafundi að veita 1 millj. kr. í viðbót, eftir að byggingarnefnd hafði tjáð henni, að ekki yrði komizt af með minna. Byggingunni er nú langt komið, og standa vonir til, að verkinn verði að mestu leyti lokið eftir nokkra mánuði. Byggingarkostnaður er nú orðinn kr. 4.577.117,32, eða nál. 41/2 millj. kr., og er áætlað, að ca. 3/4 millj. nægi til að fullgera húsið, að undanskildum ýmsum skápum og innanstokksmunum m. m., er smám saman mun bætast við, þegar farið verður að raða safninu.

2. Húsameisturunum Sigurði Guðmundssyni og Eiríki Einarssyni hafa verið greiddar 120.000.00 krónur samkvæmt taxta arkitektafélagsins. Byggingarnefndin hefur engin laun tekið fyrir störf sín. Eftirlit með byggingunni, auk arkitektanna og formanns byggingarnefndar, hefur Sigurður Jónsson múrarameistari, en hann og Snorri Halldórsson húsasmíðameistari hafa tekið verkið að sér, og hefur hvor þeirra fengið í laun kr. 1.125.00 grunnkaup pr. mánuð að öllu tréverki. Hins vegar hefur ekkert annað verið greitt til verksala, og hafa sparazt á þessu stórar upphæðir, en eins og kunnugt er reikna byggingarfélög sér 15–20% af vinnulaunum fyrir að taka að sér byggingar. Vinnulaun til 1. marz hafa verið greidd samt. kr. 1.775.355.78, og mundi venjulegt byggingarfélag, miðað við 15% af vinnulaunum, hafa fengið greitt kr. 266.303.00. Þessi upphæð hefur að miklu leyti sparazt.

3. Þessum lið hafa arkitektarnir í bréfi til mín svarað á eftirfarandi hátt:

„Á miðsal efstu hæðar aðalhússins eru gluggar fyrir ofan hliðarþökin. Þeir eru rúmlega 100 fermetrar, en gólf salarins um 320 ferm., svo að gluggaflötur er nálega þriðjungur gólfflatar. Þótt gluggarnir séu lóðréttir, en ekki á þaki, verður þarna góð ofanbirta, og er þetta fyrirkomulag ekki óalgengt á nýjum safnahúsum. Salurinn er nú allur dimmur neðan til sökum þess, að vinnupallar eru um allan salinn, svo að ekki sér til glugganna, og kann þetta að hafa villt einhverjum sýn. Um hliðarsalina má segja, að þakgluggar hefðu getað komið þar til greina, í stað glugga á veggjum. Óneitanlega virðist þó tryggilegra að geyma dýrmæta muni undir heilu þaki og steinsteyptu lofti heldur en stórum þakgluggum. sem auk þess eru vandfengnir nægilega góðir. Loftplatan styrkir mjög langveggi hússins, sem lítinn stuðning hafa af skilrúmum, og hún ber einnig hitunartæki og loftrásir. Venjulegir veggofnar þóttu ekki heppilegir, sérstaklega vegna fornminjanna. En þetta húsnæði er ætlað fornminjum síðar, þegar málverkasafnið eignast sitt eigið hús.“

Virðingarfyllst,

Alexander Jóhannesson.“

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur nú gefið Alþ. skýrslu sína í þessu máli, en ekki hefur komið fram, hve mikið sé ógreitt til arkitektanna. Nú, út af því eftirliti, sem verktakar hafa sjálfir tekið að sér, þá er það sýnilegt, að þeir hafa fengið þúsundir kr. fyrir þau störf. En hvað um það, þá er það ekkert eftirlit, að verktaki hafi laun fyrir að hafa eftirlit með sínu eigin verki. Út af þakgluggunum þá er gott, að þm. fái að vita, hvernig um þetta er búið. Aðalsalurinn er ljóslaus. Í byggingu sem þessari er venja að hafa svipmikinn og rúmgóðan inngang, en í þessu húsi er enginn, heldur er tröppum klesst á húsið móti austanvindátt. Er slíkt einsdæmi, auk þess sem tröppurnar eru ólöglegar. Frágangur og umbúnaður hússins er allur til skammar.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Til glöggvunar á, hvað hv. þm. S-Þ. hugsar sér með því að tala um, að ráðh. eigi að leggja meiri vinnu í það að svara fyrirspurnum, þá vil ég spyrja hann, hvernig hann hugsar sér sjálfur að svara síðasta lið fyrirspurnar sinnar: „Er það rétt, að helztu málarar landsins muni mótmæla, að verk þeirra verði til sýnis í þessu húsi?“ Ég vil spyrja, — er ekki nauðsynlegt að leita til spámanns til þess að fá slíku svarað? Það væri e.t.v. framtíðarúrlausn með tilliti til margra annarra fyrirspurna frá þessum hv. þm.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Ég vil taka það fram, að svarið í bréfinu segir engan veginn fyrir um það, hvort hér sé um lokagreiðslur að ræða eða ekki. Ég hef ekki kynnt mér það nánar. Ég fékk þetta bréf ekki fyrr, en um hádegisbilið í dag, þegar ég fór heim að borða, svo að það var ekki mikill tími til stefnu, en ég skal láta athuga þetta og fá upplýsingar um það, hvort hér sé um lokagreiðslur að ræða. En um eftirlitið segir svo í bréfinu:

„Eftirlit með byggingunni, auk arkitektanna, og form. byggingarnefndar, hefur Sigurður Jónsson múrarameistari, en hann og Snorri Halldórsson húsasmíðameistari hafa tekið verkið að sér, og hefur hvor þeirra fengið í laun kr. 1.125.00 í grunnkaup pr. mán..... Húsameisturunum hafa verið greiddar 120.000.00 kr. samkv. taxta arkitektafélagsins.“

Ég veit ekki annað en það, sem í bréfinu stendur, en ég get vel tekið undir það með hv. þm., að það þurfi undirbúning til þess að svara fyrirspurnum, en sumar af þeim fyrirspurnum, sem hv. fyrirspyrjandi leggur fram, eru þannig lagaðar, að það er ekki hægt að svara þeim, og aðrar eru þannig vaxnar, að það er ekki hægt nema verið sé að undirbúa sig í 3–4 daga.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Ég vonast eftir því, að sá, sem þessi fyrirspurn beinist að, sé betur undirbúinn að svara. Ég. vænti þess, að þegar tignarmenn eru spurðir, hafi þeir meiri sagnaranda til að bera, en við hinir.

Út af þessari III. fyrirspurn langar mig til þess að geta þess, að það mun hafa komizt sá siður á hér, að helztu valdamenn hafi fengið flutta inn bila til landsins án þess að borga lögmælt gjöld. Og af því að ég býst ekki við,. að við eigum svo marga tignarmenn hér á okkar landi, þá býst ég við, að það verði ekki erfitt að kasta á þá tölu. En af því að hér er um nýjung að ræða. þá langar mig til þess að vita, í fyrsta lagi, hve margir bilar hafa þannig verið fluttir inn, í öðru lagi, hvenær þessi venja hófst, í þriðja lagi, hve miklu ríkið hefur tapað á þessu, og í fjórða lagi, hvaða rök og hvaða lagaheimildir liggja til grundvallar þessu misrétti.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn hef ég lagt fyrir starfsmenn fjmrn. að athuga þetta mál og gefa mér skýrslu um það. En þeir hafa spurt mig að því, hverjir eigi að teljast tignarmenn, og mér var erfitt um svör. En meðan engin aðgreining er á því, hverjir skuli vera tignarmenn, vona ég; að hv. fyrirspyrjandi hafi biðlund. Annars hefur þetta verið sent til tollstjóra, og vonast ég til, að hann geti gefið upplýsingar um þetta atriði: Ég verð svo að biðja hv. fyrirspyrjanda afsökunar á því, að ég skuli ekki hafa haft þetta við höndina.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég tek þetta eins og það er talað, og má það þá bíða í eina viku að svarað sé. Viðvíkjandi því, hverjir geti talizt tignarmenn, þá býst ég við, að það megi telja forseta lýðveldisins, ráðherrana, hæstaréttardómara, forseta Alþingis og skrifstofustjóra, ég hygg, að það megi kalla alla þessa menn tignarmenn.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti.: Það hefur dregizt nokkuð, að þessari fyrirspurn væri svarað, og mér skilst, að það sé vegna þess, að tollstjóri þurfi að láta athuga 150 þús. skjöl, svo að svarið verði nákvæmt. Það vakir nú ekki fyrir mér, að svo mikil vinna verði lögð í þetta, heldur hitt, að fá nokkrar upplýsingar um þetta mál og hvort það eru margir menn, sem hafa skammtað sér sjálfir á þennan hátt. Það er að segja, ég geri ekki kröfu til að fá nákvæmt svar um fjárhagslega hlið málsins.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að svar tollstjóra við þessari fyrirspurn, þegar ég bað hann um upplýsingar, var það, að til þess að slíkar upplýsingar gætu orðið nákvæmar, þyrfti að fara í gegnum 150 þús. skjöl. Þegar málið horfði þannig við, var horfið frá slíkri rannsókn, en hins vegar hafizt handa um að afla upplýsinga, sem ég áleit, að mundu nægja. Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir enn. Hins vegar ættu þær að geta verið tilbúnar í næsta fyrirspurnartíma.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Ég læt mér vel líka, að hæstv. ráðh. upplýsi málið á þennan hátt, því að ég tel ekki skipta máli, þó að t.d. veikur maður fái undanþágu á slíkum tollum. Hitt er nauðsynlegt að upplýsa og koma í veg fyrir, ef fjöldi manna afla sér sjálfir hlunninda með þessu móti.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Þessi fyrirspurn hefur nú beðið lengi, en ég hef skilið hæstv. ráðh. svo, að það tæki langan tíma, ef svara ætti spurningunni nákvæmlega, en tilætlunin er aðeins sú að fá að vita, hvað margir af æðstu embættismönnum þjóðarinnar hafa fengið fluttar inn bifreiðar án þess að þurfa að greiða af þeim toll og hvenær þessir innflutningar byrjuðu. Hefur mér skilizt á hæstv. ráðh., að hann gæti svarað því án þess að hafa langan tíma, því að ég ætlast ekki til, að hann gefi upp nein nöfn á þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, heldum aðeins um hve marga menn sé að ræða og hve margar bifreiðar.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Það er að vísu svo, eins og ég hef þegar getið um áður, að það er ekki svo fljótlegt að komast eftir því, hve margir þessir menn eru, ef taka á alla, sem komið gætu til greina, en eftir orðalaginu gætu allmargir gert það.

Ég var að biðja tollstjóra um að athuga þetta, en hann hefur tjáð mér, að það væru svo mörg skjöl, sem fara þyrfti gegnum, að það yrði geysimikil vinna að svara fyrirspurninni til hlítar. En nú hefur hv. fyrirspyrjandi lýst því yfir, að hann ætlist ekki til, að svo mikil vinna verði lögð í þetta. Hann spyr, hvenær byrjað hafi verið á þessum innflutningi.

Er þess þá að geta, að með bréfi 16. okt. 1941 skrifar forsrh. þáverandi til bifreiðaeinkasölu ríkisins, þar sem segir, að það hafi verið ákveðið á ráðherrafundi, að í stað þess að stjórnarráðið átti bifreiðar þær, sem notaðar voru af ráðherrum, þá skyldu þeir nú eiga þess kost að kaupa bifreiðar og greiða þær með innkaupsverði, einkasölunni að skaðlausu, en tolla- og álagningarlaust. Svo hefur sá háttur verið hafður á, eftir því sem bezt verður séð, að ýmist allir ráðherrarnir hafa notað sér þessa heimild og notað eigin bifreiðar og átt þær, eða þá að þeir hafa ekki átt bifreiðarnar sjálfir, heldur ríkið, sem leggur þær til afnota fyrir ráðherra, og er svo enn í sumum tilfellum. Ég geri ráð fyrir, að það sé aðallega þetta, sem vakir fyrir hv. fyrirspyrjanda. En ég hef ekki getað fengið um það upplýsingar hjá bifreiðaeinkasölunni, hve margar bifreiðar hafa verið fluttar inn á þennan hátt, og ekki heldur, hve margir sendimenn ríkisins og starfsmenn við íslenzk sendiráð hafa fengið leyfi til þess að hafa með sér og flytja tollfrjálst bifreiðar sínar inn í landið.

Ég ætla þá, að ég hafi gert þetta ljóst, að þetta hefur verið til síðan 1941, að ýmist hafa bifreiðarnar verið í eign ráðherra, og hafa þeir því lagt fram allt slit, sem á bifreiðunum verður, en tolllaust, en hafa hins vegar fengið gúmmí og benzín, eða þá að ríkið sjálft á bifreiðarnar til afnota fyrir ráðherra.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú leyst úr þessu að nokkru leyti, þó að það hefði nú mátt vera meira eftir þennan tíma. Það hefur nú komið í ljós, að á ákveðnum tíma hefur þessi venja komizt á með samþykki þeirra manna, sem sæti áttu í ríkisstj. Þetta er því að nokkru leyti nýmæli, en ekki heppilegt nýmæli, en ég ætla ekki að fara út í það hér, en ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort allir þeir ráðherrar, sem setið hafa í ríkisstj. frá þessum ákveðna tíma, hafi notað sér þessi hlunnindi og hvort ekki sé leyfilegt, að ráðherra fái sér bifreið skv. þessari heimild og flytji hana inn í landið, selji hana síðan og fái sér aðra nýja. Ráðherrar gætu haft af þessu ekki ósnotra verzlun og arðbæra, geri ég ráð fyrir. Veit hæstv. ráðh., hvort þessi venja hefur komizt í praxís?

Mér er ekki kunnugt um, hvort sú venja hefur komizt á, að forsetar Alþ. og skrifstofustjórar ráðuneytanna og Alþ. hafi þessi hlunnindi, en ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. viti það. Og að endingu þætti mér æskilegt að fá að vita það, hvort allir núverandi ráðherrar hafa notað sér þessa helmild eða hve margir.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Mér er ekki kunnugt um, að neinir skrifstofustjórar hafi flutt inn bifreiðar á þennan hátt. Hjá núverandi ríkisstj. er því þannig háttað, að þrír af ráðh. eiga sínar bifreiðar sjálfir, en aðrir hafa þær bifreiðar, sem ríkið leggur þeim til. Þá er mér ekki kunnugt um neina verzlun með bifreiðar þessar, sem hv. þm. talar um.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson): Herra forseti. Spurningar þessar eru svo skýrt orðaðar, að þær þurfa ekki frekari skýringa við, og ég vil óska þess, að hæstv. ráðh svari því, sem hér er spurt um.

Samgmrh. (Emil Jónsson): Herra forseti. Það er rétt, að spurningarnar eru ljóst orðaðar, og svara ég þeim þannig skv. bréfi, sem mér hefur borizt um þetta frá fjárhagsráði:

I. Fjárhagsráð: Laun samtals í janúarmánuði kr. 50.138.44, þar af aukavinna kr. 638.44. Fjöldi starfsmanna 21, þar með taldir nefndarmenn.

II. Viðskiptanefnd og verðlagsstjóri: Laun samtals í janúarmánuði kr. 99.088.18, þar af aukavinna kr. 15.509.20 (ca 15,6%). Fjöldi starfsmanna 47. Þar með taldir nefndarmenn og þeir, sem annast verðlagseftirlit úti á landi. Eftirvinna er óhjákvæmileg í það minnsta í janúar og febrúar. — Viðskiptanefndin hefur aldrei greitt næturvinnutaxta, þótt unnið hafi verið á helgidögum og fram til kl. 12 á miðnætti aðra daga, ef sérstök nauðsyn hefur krafið.

III. Skömmtunarskrifstofan: Laun alls í janúarmánuði kr. 59.756.07, þar af aukavinna kr. 21.437.30 (ca. 35,8%). Starfsmenn 26, þar af tveir lausamenn, sem unnið hafa fyrir tímakaup og hækka aukavinnuna því óeðlilega mikið.

Með þessu held ég, að spurningum hv. þm. sé svarað.

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson): Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið, og mun ég ekki ræða þetta mál frekar nú, að öðru leyti en því að benda á, að séu þessar tölur um starfsmannafjölda stofnananna bornar saman við upplýsingar frá þessum stofnunum, sem gefnar voru í júní s.l., þá ber ekki alveg saman. Hjá fjvn. liggur áætlun um útgjöld fjárhagsráðs og deilda þess, sem send var ríkisstj. vegna undirbúnings fjárlagafrv. Samkv. þeirri skýrslu eru 19 starfsmenn hjá fjárhagsráði, en nú eru þeir sagðir vera 21. Það lítur því út fyrir, að starfsmönnum hafi verið fjölgað um 2 síðan í júní. — Þá er það viðskiptanefndin, þar sem áður var gefið upp, að væru 48 starfsmenn, en nú er sagt, að þeir séu 47. Þar virðist því hafa verið fækkað um einn. — Á skömmtunarskrifstofunni voru í sumar 19 menn, en nú eru þeir sagðir 26, eða 7 mönnum fleira en þá. Útkoman sýnist því vera sú, að hjá þessum stofnunum hafi verið fjölgað um 8 menn frá því í júní. Þar af eru 2 lausamenn hjá skömmtunarskrifstofunni.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar nú, t.d. það, hvort hér sé um hæfilegan starfsmannafjölda að ræða, en ég vil aðeins vekja athygli á því, að samkv. 22. gr. fjárlaga fyrir árið 1948 er ríkisstj. heimilt að ákveða, að fjölgun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana skuli vera háð samþykki fjármálaráðherra. Hafi þessi heimild verið notuð, hlýtur því þessi starfsmannafjölgun að hafa verið samþ. af hæstv. fjmrh.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Það er í rauninni vegna verkbragðanna við þetta, að ég kvaddi mér hljóðs. Vildi ég skýra frá því, að upplýsinga er eigi unnt að afla í fljótu bragði. En jafnskjótt og þær liggja fyrir, þá mun þessu verða svarað. En allmiklar upplýsingar liggja fyrir hjá hv. fjvn. Ég hef komið af stað athugun á þessu, en ekkert svar er að fá hjá mér enn þá. Vil ég spyrja hv. fyrirspyrjanda, hvort hann samþykki eigi, að fyrirspurn þessi sé tekin af dagskrá, þar til kleift mun að afla frekari upplýsinga.

Fyrirspyrjandi (Hermann Guðmundsson): Herra forseti. Eðli þessa máls er þannig, að það þarf ekki að skýra það neitt nánar. Það er kunnugt, að mikið er um starfandi nefndir hjá því opinbera, og virðist nokkur vafi leika á því, hvað þær séu margar, og um laun þeirra, og hef ég því leyft mér að spyrja um þetta. Ég geng þess ekki dulinn, að nokkurn undirbúning hafi þurft til þess að geta svarað þessum spurningum, en nú er hálfur annar mánuður liðinn frá því, að þessari fyrirspurn var útbýtt, og vænti ég því þess, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að svara nú.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Ég hef látið athuga nokkuð þær spurningar, sem hv. þm. hefur lagt hér fram, og þau svör, sem starfsmenn rn. hafa gefið, munu nægja til að svara öllum liðum fyrirspurnarinnar. Þá vil ég leyfa mér að leggja fram þessa skýrslu, sem samin hefur verið um þetta og vil ég leyfa mér að lesa hér upp, með þeim fyrirvara, að það kann að vera, að skrifstofumanninum hafi eitthvað yfirsézt, þó að ég hafi ekki neina ástæðu til að halda slíkt eða sjái neitt, sem bendi til slíks á þessari skýrslu, en þetta er það umfangsmikið, að alltaf getur yfirsézt. Þessi skýrsla er um starfandi nefndir hjá því opinbera á árinu 1948, laun þeirra og þeirra getið, sem lagðar hafa verið niður.

Starfandi nefndir, sem fá laun fyrir störf sin úr ríkissjóði eða frá ríkisstofnunum:

Flugvallarnefnd ..............................

Framtalsnefnd ................................

Fiskábyrgðarnefnd ....... ....................

Nefnd til að endurskoða lögin um þingsköp

Alþingis ....................................

Millibankanefnd ..............................

Menntamálaráð ..............................

Nefnd, er fjallar um menningarsamband Norðurlandaþjóða….

Landsprófsnefnd ..............................

Próf löggiltra endurskoðenda ..................

Ríkisskattanefnd ..............................

Skipulagsnefnd ................................

Skattamálanefnd ..............................

Nefnd til að undirbúa og sjá um norrænt iðn

skólamót í Reykjavík ........................

Bókasafnsnefnd ... ........................

Byggingarnefnd þjóðleikhússins ... .. .. .... .....

Nefnd til að gera tillögur um kennslu fyrir

verkstjóra og verkstjóraefni ................

Stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ......

Öryggismálanefnd ............................

Fjárhagsráð ..................................

Viðskiptanefnd ................................

Sérfræðinganefnd við Tryggingastofnun ríkisins Sölunefnd setuliðseigna .

Samninganefnd utanríkisviðskipta ............

Atvinnuleyfanefnd ............................

Stjórnarnefnd landssmiðjunnar ................

Nefnd setuliðsviðskipta ...... ...............

Stjórnarnefnd „upptökuheimilisins í Elliðahvammi“ ......

Rekstrarnefnd þjóðleikhússins ................

Nýbygginganefnd Höfðakaupstaðar ............

Úthlutunarnefnd skáldastyrkja ................

Nefnd samkv. 37. gr. launalaga ................

Sjóðaeftirlit ..................................

Alþingissögunefnd ............................

Kauplagsnefnd . .............................

Trúnaðarnefnd við slysatryggingar ............

Stjórn síldarverksmiðja ríkisins ..............

Útvarpsráð ....................................

Stjórn fiskimálasjóðs ..........................

Tryggingaráð ................................

Raforkuráð ....................................

Flugráð ...........................:..........

Stjórnarnefnd ríkisspítalanna ................

Nýbýlastjórn ..................................

Verkfæranefnd ... ............................

Rannsóknaráð ríkisins ........................

Verðlagsnefnd landbúnaðarafurða ............

Veiðimálanefnd ................................

Sauðfjársjúkdómanefnd ......................

Stjórn byggingarsjóðs verkamanna ............

Yfirhúsaleigunefnd ............................

Húsaleigunefnd Reykjavíkur ..................

Hafnarfjarðar ................

Laun 1948.

Óákveðið um laun.

kr. 61.200.00

– 69.000.00

– 1.500.00

Þóknun óákveðin. Hefur ekkert fengið greitt. kr. 23.400.00

Þóknun óákveðin.

Form. kr. 5.500.00. Aðrir nefndarmenn fá greiðslu fyrir vinnu sína eftir reikningi.

kr. 1.500.00

– 35.100.00

– 9.300.00

– 50.000.00 (fyrir árin 1947–48).

Þóknun óákveðin.

Þóknun óákveðin.

Þóknun óákveðin.

Þóknun óákveðin.

kr. 10.800.00

– 43.000.00

– 213000.00

– 186.000.00

Þóknun óákveðin.

kr. 58.000.00

– 7.500.00 (lögð niður á árinu 1948).

– 20.520.00

– 7.200.00

– 36.000.00

– 3.600.00

Þóknun óákveðin.

Hefur enn ekki fengið greidd laun fyrir árið 1948.

kr. 3.400.00

– 8400.00

– 8.580.00

Hefur engin laun fengið fyrir árið 1948.

kr. 14.040.00

Þóknun óákveðin.

kr. 111.000.00

– 42.900.00

– 41.400.00

– 54.000.00

– 15.000.00

– 35.700.00

– 2.500.00

– 24.000.00

– 9.000.00

– 28.080.00

– 24.000.00

– 1.500.00

– 15.000.00

Hefur ekki enn fengið greitt fyrir árið 1948.

kr. 39.600.00

– 90.720.00

– 8.100.00

Húsaleigunefnd Vestmannaeyja ......kr. 10.237.50

Ólafsfjarðar ..................................... — 4.000.00

Seyðisfjarðar ................................... — 1.440.00

Ísafjarðar ......................................... —5.400.00

Akureyrar .......................................— 14.400.00

Sauðárkrókskaupstaðar ...................— 480.00

Siglufjarðar ......................................— 5.760.00

Höfðakaupstaðar ............................. — 900.00

Neskaupstaðar ....................... — 1.000.00

Keflavíkur .............................. — 1.000.00

Læknaráð .................................... — 22.800.00

Skipulagsnefnd fólksflutninga með bifreiðum — 21000.00

Barnaverndarráð Íslands .......................... — 11.700.00

Stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar í Reykjavík — 586.16

Nefnd til að endurskoða lög um eftirlit með

skipum .................................................... — 12.500.00

Nefnd til að undirbúa byggingu sementsverksmiðju Skipuð í janúar 1949.

Skilanefnd bátaútvegsins ...................... …………..Skipuð 18. des. 1948.

Skipulagsnefnd prestssetra ....................................... Þóknun óákveðin.

Nefndir, sem hafa verið lagðar niður eða lokið hafa störfum á síðastl. tveimur árum: Nýbyggingarsjóðsnefnd. Sölunefnd setuliðsbifreiða.

Samninganefnd utanríkisviðskipta. Héraðsnefnd til aðstoðar bændum á öskufallssvæðum.

Nefnd til að gera tillögur um endurbætur á jörðum, sem orðið hafa fyrir öskufalli vegna Heklugossins.

Skipulagsnefnd atvinnumála.

Íslenzk–amerísk

skaðabótanefnd.

Brezk–íslenzk bifreiðaslysanefnd.

Síldarmatsnefnd.

Aðstoðarlánanefnd síldarútvegsmanna.

Varðskipanefnd.

Brezk-íslenzk leigumatsnefnd.

Íslenzk-amerísk matsnefnd.

Rannsóknarnefnd sænskra timburhúsa.

Framfærslulaganefnd.

Nefnd til athugunar á starfrækslu landssmiðjunnar.

Skipulagslaganefnd.

Fjárskiptanefnd.

Sölunefnd setuliðseigna.

Stjórnarnefnd landssmiðjunnar.

Útsvarslaganefnd.

Nefnd til að athuga áhrif húsaleigulaganna og endurskoða þau.

Heildarkostnaður við nefndir á árinu 1948.

Húsaleigunefndir ............ ca. kr. 200.000.00

Framtalsnefnd ................ — 499.138.33

Fjárhagsráð og undirdeildir — 3.445.423.90

Ýmsar nefndir ................ ca. — 380.000.00

Alls kr. 4.524.562.23

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég hef fengið við því, sem um er beðið, en hvað snertir einstaka nefndir, þá kann að vera, að um einhverjar skekkjur geti verið að ræða, og legg ég því þetta fram með fyrirvara. Það kann að vera, að skrifstofumaðurinn finni ekki allt, þegar hann fer í gegnum hin ýmsu skilríki og semur skýrslu sem þessa, en ég hef samt enga ástæðu til að vefengja neitt af því, sem hér er sagt.

Ég leyfi mér svo að vænta, að hv. fyrirspyrjandi hafi fengið nógu ýtarleg svör við því, sem hann spurði um.

Fyrirspyrjandi (Hermann Guðmundsson): Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka hæstv. fjmrh. fyrir skýr og greið svör og tel ég þau vera fullnægjandi.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Hermann Guðmundsson): Herra forseti. Snemma á vorþingi 1947 var lögð hér fram till. um, að útgerðarmenn væru skyldaðir til þess að setja í skip sín góða ljóskastara og önnur öryggistæki. Þetta náði ekki fram að ganga á því þingi og var flutt aftur á haustþingi 1947 og var síðan samþykkt snemma í febrúar 1948. En af því að ég hef ekki séð þau tæki á skipunum, sem gætu gefið til kynna, að þessi reglugerð væri komin á, þá langar mig til þess að bera hér fram fyrirspurn þá, sem er á þskj. 413, II. tölul.

Samgmrh. (Emil Jónsson): Herra forseti. Það var 4. febr. 1948, sem þál. um ljóskastara í skipum var afgr. frá Alþingi. 16. febr. skrifaði ég skipaskoðunarstjóra og óskaði eftir, að hann hefði framkvæmd um undirbúning þessa máls. Ég hef spurzt fyrir hjá honum um, hvað þessu máli líður. Hefur hann skrifað mér svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið hefur með bréfi, dags. 4. þ.m., óskað upplýsinga um, hvað gert hafi verið í því, er lýtur að framkvæmd þingsályktunar frá 4. febr. 1948, um ljóskastara. Málið stendur þannig:

Ráðuneytið skrifar skipaskoðunarstjóra bréf, dags. 16. febr. 1948, ásamt nefndri þingsályktun, og felur honum að undirbúa reglugerð þá, sem þingsályktunin gerir ráð fyrir, að sett verði, í samráði við þá aðila, sem skipaeftirlitslögin gera ráð fyrir, að geri tillögur við samningu slíkrar reglugerðar, svo og Slysavarnarfélag Íslands.

Það næsta, sem gerist, er þetta: Með því að nefnd sú, sem skipuð var af ríkisstjórn, sjómönnum og útgerðarmönnum til þess að semja frumvarp til laga „um eftirlit með skipum“ (sem nú er orðið að lögum) og reglugerð, m.a. um útbúnað skipa, er enn þá starfandi, þá taldi skipaskoðunarstjóri réttast að senda nefndinni nefnda þingsályktun til þess að taka ákvæði um ljóskastara í skipum upp í væntanlega reglugerð.

Hinn 8. marz 1948 ritar skipaskoðunarstjóri formanni nefndarinnar, hr. Bárði Tómassyni, bréf, þar sem farið er fram á, að nefndin taki þetta mál til frekari fyrirgreiðslu og í samræmi við tilgang þingsályktunarinnar.

Á fundi, sem ég var staddur á hjá nefndinni, tók hún þetta mál til athugunar, og var tekið upp í væntanlega reglugerð ákvæði um ljóskastara. Í væntanlegri reglugerð er gert ráð fyrir, að öll íslenzk skip, 50 rúmlestir að stærð, skuli hafa ljóskastara. Ljósmagn ljóskastaranna er hvað stærstu skipin snertir miðað við alþjóðareglur, en fer síðan minnkandi.

Ljóskastararnir eru með þrenns konar ljósmagni.

No. 1 lýsir í ca. 1.000 m fjarlægð

— 2 — —— 700 m —-

— 3 — —— 400 m —-

Ákvæðin um ljóskastara eru enn þá ekki komin í framkvæmd, með því að reglugerðin er ekki búin, en auðvelt væri að taka þessi ákvæði strax út og gefa þau út í sérstakri reglugerð.“

Ég hef svo ekki öðru við þetta að bæta en að ég óska eftir, að hann hraði málinu.

Fyrirspyrjandi (Hermann Guðmundsson):

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans skýrslu um mál þetta. Ég vil aðeins lýsa yfir til viðbótar við það, sem ég hef áður sagt, að ég tel, að sá dráttur, sem hefur á þessu orðið, sé slæmur, en hæstv. ráðh. hefur lýst yfir, hver ástæðan sé, og það er ekki hans seinagangur, heldur annarra, sem veldur, en málið er þannig vaxið, að það er mikið nauðsynjamál fyrir öryggi sjómanna, að þetta komist sem fyrst í framkvæmd, og skiptir mestu máli, að svo verði innan tíðar, enda var tilgangurinn jafnhliða því að vita, hvernig málið stæði, að reka eftir því, að þetta mál komist sem fyrst í framkvæmd, og það tel ég, að ég hafi gert.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Finnur Jónsson): Herra forseti. Ég vil ganga úr skugga um, hver aðstaða er til að reka drykkjumannahæli á Úlfarsá, því að mér hefur verið sagt, að ætlunin væri að koma þar á fót þessu hæll. Annars þarf ég eigi frekara að fylgja þessu úr hlaði og óska svara hæstv. ráðh.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt um, hvaða húsnæði sé nothæft á Úlfarsá fyrir rekstur vistmannahælis og dvöl starfsfólks þar. Eins og áður hefur komið fram, fór heilbrmrn. þess á leit að fá Úlfarsá til lækningahælis fyrir drykkjumenn. Gert er ráð fyrir því samkv. till. landlæknis og forstöðumanns Kleppsspítalans, að Úlfarsá verði eins konar lækningaheimili fyrir allt að 8 vistmenn. Þar er íbúðarhúsnæði allsæmilegt. Hef ég beðið landlækni að gera till. um, hvaða framkvæmdir þurfi að gera, til þess að hugmyndin komist í framkvæmd. En ég hef eigi fengið þær. En ég hygg, að bæta þurfi við einum skála. Kostnaðaráætlun liggur hins vegar ekki fyrir enn þá. Málið er eigi komið lengra áleiðis, því að ráðuneytið hefur eigi fengið fullnægjandi svör um, hvort jörðin muni fást, og sé hún föl, hvenær hún muni fást. En samkv. síðustu viðtölum held ég, að hún fáist, og þegar svo er orðið, mun skriður settur á til að undirbúa framkvæmdir.

Þá er það 2. liður fyrirspurnarinnar: hver aðstaða sé til búrekstrar á Úlfarsá. Varðandi það atriði segir Halldór Pálsson, forstöðumaður landbúnaðardeildar Atvinnudeildar háskólans, að túnið sé rúmir 800 ha að stærð og gefi af sér 350 hestburði af töðu. Mýrlendi sé 6 ha, og þurfi að ræsa það fram. Auk þess má víða koma við ræktunarframkvæmdum. Er það óþrjótandi verk. Fjós er til fyrir 9 kýr og hesthús fyrir 3 hesta. Þessu hesthúsi er auðvelt að breyta í fjós, og fæst þá 12 kúa fjós. Á bænum er og heyhlaða fyrir hendi með tveim votheysgryfjum. Annars tek ég fram, að skv. till. þeirra, sem þessi mál hafa haft til meðferðar, þá verður hér eigi um stórt lækningaheimili að ræða, og segir landlæknir, að gera megi ráð fyrir, að hver vistmaður verði aðeins stuttan tíma og stopult yrði að treysta á vinnu þeirra. Því verði þetta eigi vinnuheimill og heldur ekki um stórt bú að ræða.

Hinni 3. spurningu get ég ekki svarað nú, en vísa að nokkru leyti til svars við 1. spurningu. Þegar málið er komið lengra áleiðis og áætlun liggur fyrir frá landlækni, þá mun hægt að gefa nánari upplýsingar.

Fyrirspyrjandi (Finnur Jónsson): Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, en af þeim kemur í ljós, að fyrst og fremst er engin aðstaða til að reka að Úlfarsá hæli fyrir drykkjumenn. Er þar engra íbúðarhúsa kostur fyrir hvora tveggja, starfsmenn og vistmenn. Í öðru lagi virðist þarna lítil aðstaða vera fyrir hendi til að hafa verkefni fyrir vistmennina, enda er ekki til þess ætlazt eftir upplýsingum frá hæstv. ráðh. Í þriðja lagi virðist heilbrmrn. svo eigi hafa verið búið að gera sér grein fyrir fyrirkomulagi hælisins eða kostnaði við það, áður en hælið í Kaldaðarnesi var lagt niður.

Ég hygg, að ég fari eigi með neinar ýkjur, þó að ég leyfi mér að draga þessar ályktanir af orðum hæstv. ráðh.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Ég ætla nú ekki að bæta neinu við. Engan vafa tel ég á því leika, að nóg verkefni liggi fyrir við hið fyrirhugaða lækningaheimili. Rétt er það, að hælið í Kaldaðarnesi var lagt niður, áður en fullar upplýsingar lágu fyrir um Úlfarsá. En raunar var það óþarfi, því að áður vissu menn um, hvernig þar var háttað. Enn hefur þó eigi borizt endanlegt svar um jörðina, en mikil líkindi eru til, að það komi á næstunni, og þá mun unnt að hefja framkvæmdir. Ljóst var, að einhverjar endurbætur þurfti að gera á Úlfarsá, og hef ég lýst því áður.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Finnur Jónsson): Það hefur verið upplýst á Alþingi, að teknar hafa verið á leigu kartöflugeymslur við Elliðaár fyrir 175 þús. kr. á ári til fimm ára. Þar sem ekki liggur fyrir nein lagaheimild um þessa framkvæmd, hef ég leyft mér að bera fram þessa fyrirspurn til að fá úr því skorið, hvort öll ríkisstj. hefur tekið þessa ákvörðun.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Hv. fyrirspyrjandi telur, að ekki hafi verið lagaheimild til að taka á leigu kartöflugeymslurnar við Elliðaár. Ég verð að vefengja þennan lagaskilning hjá honum og láta hann vita, að það er ekki aðeins í þetta skipti, heldur oft áður, að atvmrn. hefur orðið að gera ráðstafanir til, að Grænmetisverzlun ríkisins tæki á leigu húsnæði til atvinnurekstrar síns, á sama hátt og ég hygg, að hæstv. viðskmrh. hafi tekið á leigu húsnæði vegna innkaupastofnunar ríkisins, sem nýlega er komin á laggirnar. Það er ein af þeim skyldum, sem rn. eru lagðar á herðar, að sjá um framkvæmd slíkra mála. Að því leyti sem snertir leigu á þessum geymslum, þá er ótvíræð heimild til þess í sjálfu málinu, um leið og ráðh. er fengið það til framkvæmda. Þetta hefur verið gert fyrir milligöngu milli eigenda húsanna og framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem hefur óskað eftir því við atvmrn., að hafizt væri handa um að fá þessi hús og nota þau til geymslu á kartöflum og öðrum garðávexti og grænmeti. Rn. hefur haft milligöngu um að ná þessum samningum sameiginlega fyrir Grænmetisverzlun ríkisins og framleiðsluráð landbúnaðarins, sem nú hefur tekið við þessu í sínar hendur, að því leyti sem grænmetisverzlunin notar það ekki sjálf. Það væri kannske sá hlutur, sem mætti vefengja, að rn. hefði haft heimild til, en framleiðsluráð landbúnaðarins starfar að nokkru leyti undir atvmrn., og því er falið að gæta þess, að framleiðsla landbúnaðarins nýtist sem bezt fyrir þjóðina, og það óskaði eftir að fá yfirráð yfir þessum húsum, svo að þau nýttust sem bezt fyrir framleiðslu landsmanna. Þetta hefur rn. gert án þess að bera sig saman við hina ráðh.

Fyrirspyrjandi (Finnur Jónsson): Ég fékk í lokin hjá hæstv. atvmrh. svar við því, sem ég spurði um, og vil þakka fyrir það.

Viðvíkjandi lagaheimild til þess að gera slíka ráðstöfun, þá skal ég ekki fara út í það, en ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, og það hefur komið í ljós, að forstjóri grænmetisverzlunarinnar hafi fyrir sitt leyti ekki viljað gera þessa ráðstöfun, jafnvel talið, að þær geymslur, sem um er að ræða, séu alls ekki heppilegar sem kartöflugeymsla, og að hann hafi enn síður viljað taka þá fjárhagslegu ábyrgð á grænmetisverzlunina, sem þessi samningur fól í sér.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég hef áður skýrt frá afstöðu forstjóra grænmetisverzlunarinnar. Hann vildi ekki taka öll húsin í sína umsjá, en gat þess, að hann vildi taka nokkurn hluta þeirra. Hann vildi ekki taka eins mikinn hluta af þeim og ýmsir aðrir. En af 6–7 stofnunum, sem til þekkja og aðstöðu sinnar vegna voru beðnar að dæma um þetta, leit hann einn þessum augum á málið. Og þó að ég beri mikla virðingu fyrir hans þekkingu og dugnaði, þá taldi ég réttara að fara eftir áliti allra hinna.

Gísli Jónsson: Herra forseti. Ég vil upplýsa hæstv. atvmrh. um það í sambandi við jarðhúsin, að forstjóri grænmetisverzlunarinnar hefur lýst yfir, og það er bókað eftir honum í gerðabók fjvn., að hann hafi verið á móti því að taka á leigu nokkuð af jarðhúsunum. Hann vildi ekki nota þau, honum þóttu þau allt of dýr til að geyma í þeim grænmeti. Ég dæmi ekki um, hvort þetta er rétt, en ég vildi láta þetta koma fram, en hæstv. ráðh. segir, að húsin hafi verið tekin með hans samþykki. Mér þykir einkennilegt, ef forstjóri slíkrar stofnunar, sem hefur 8 millj. kr. veltu, getur ekki komið sér saman við hæstv. ráðh. um svo stórt atriði sem hér er um að ræða.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég vil aðeins geta þess í áframhaldi af því, er ég áður sagði, að forstjóri grænmetisverzlunarinnar hefur í 2–3 ár tekið á leigu nokkuð af þessum húsum og sagt við mig í þessu sambandi, að hann teldi hæfilegt að taka á leigu tvö af þessum húsum.

Ingólfur Jónsson: Herra forseti. Í sambandi við þessi geymsluhús vildi ég upplýsa, að það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði og hafði eftir forstjóra Grænmetisverzlunar ríkisins, að hann vildi ekki taka þessi hús á leigu, og ég býst við, að ástæðan til þess sé sú, að hann hafi ekki viljað samþ. þann taprekstur, sem hann hefur gert ráð fyrir, að yrði á þessari leigu. Í sambandi við þetta vil ég spyrja hæstv. ráðh., hver verði endanleg ársleiga á þessum geymslum. Það var upplýst fyrir nokkrum dögum, að þær hefðu verið teknar fyrir 175 þús. kr. á ári auk rekstrarkostnaðar. Hversu mikill verður hann? Og hversu mikil tekjuvon er af þessum geymslum? Og hversu mikið verður tap ríkisins og grænmetisverzlunarinnar á þessu fyrirtæki? Það er ekki nema rétt, að gerð sé grein fyrir þessu, því að við erum svo vanir, að það, sem ríkið skiptir sér af, hafi tap í för með sér. Og þegar við erum að ræða um þennan samning, þá væri ágætt, ef hæstv. ráðh. gæti gefið upplýsingar um, við hve miklu tapi megi búast af þessum geymslum. En það er ástæða til, að forstjóri grænmetisverzlunarinnar hafi viljað vera laus við þetta fyrirtæki, hafi verið fyrirsjáanlegur taprekstur á því, og hann sem hygginn maður viljað biðja sig undan þeirri ábyrgð.

Atmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég ætla ekki að koma með neina spádóma, hvernig þessi jarðhús muni bera sig. Leigumat hefur farið fram á þeim grundvelli, að húsaleigan, sem verið hefur og er, geti haldið uppi eðlilegum kostnaði, en það mun sýna sig á sínum tíma, hver niðurstaðan verður.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Finnur Jónsson): Hæstv. atvmrh. hefur við umr. lýst yfir, að leigusamningur sá, sem gerður var um trésmíðaverkstæðið í Silfurtúni og fól í sér heimild handa ríkisstj. til þess að kaupa eignina síðar, hafi verið borinn undir ríkisstj. Nú kom það ekki fram hjá ráðh., hvort það, að heimildin væri notuð, hafi á sínum tíma verið borið undir alla ríkisstj., en ég vildi gjarnan heyra, hvort svo væri, og hef því borið fram þessa fyrirspurn.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég hef lýst því yfir áður í sambandi við umr. um þetta mál, að till. um heimild handa ríkisstj. til þess að taka þetta verkstæði á leigu var borin upp á ráðherrafundi og fallizt á hana af allri ríkisstj. Hitt man ég ekki, hvort sjálfur leigusamningurinn hefur verið borinn undir ríkisstj., en heimild til að taka þetta á leigu, og ég endurtek það, að heimild til að taka þetta á leigu var samþ. af ríkisstj.

Fyrirspyrjandi (Finnur Jónsson): Annaðhvort hef ég ekki heyrt, hvað hæstv. ráðh. sagði, eða hann hefur ekki svarað fsp. Hún er um það, hvort kaupin á trésmíðaverkstæðinu hafa verið borin undir alla ríkisstj., og ef svo er, hvaða afstöðu ráðh. hafa haft til málsins. Mér var áður kunnugt um leigumálann, en vil vita, hvort kaupin sjálf hafi verið borin undir alla ríkisstj.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég skýrði frá því í upphafi, að þegar leigusamningurinn var gerður, var í honum innifalin heimild til kaupa, og eftir að leigusamningurinn hafði verið í gildi um nokkurt skeið, varð um það samkomulag milli atvmrn. og fjmrn., að kaupin væru hentugri en leigan, og komu þessi ráðun. sér saman um að nota heimildina í leigusamningnum um kaupin.

Gísli Jónsson: Ég vildi í sambandi við þessa fsp. aðeins mega spyrja hæstv. atvmrh., hvaða ástæður liggja til þess, að kaupverðið var hækkað um 65% frá því, sem samið var um, þegar leigusamningurinn var gerður. Í öðru lagi liggja fyrir gögn í fjvn. um það, að ríkið hafi yfirtekið yfir 1 millj. kr. í víxlum frá Búnaðarbankanum, og vil ég spyrja ráðh., hvort hann veit, hvaða aðilar hafa staðið að þeim viðskiptum, þegar ríkið keypti og yfirtók víxlana.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég hef engin gögn í höndum til að svara þessu nú. Hefði það verið í fyrirspurnarformi, hefði ég athugað það, en get ekki svarað því nú á þessari stundu.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Það er nú orðinn siður að gefa jarðir, og fylgja þá oft skilyrði, þannig að gjöfin verður minni en búizt var við. Ég veit ekki, hvernig það er með þessa jörð, og vildi ég óska eftir að fá að vita, hvað á að telja jörðina mikils virði, miðað við venjulegt matsverð, um hve miklar skuldir er að ræða og hverjir eru lánardrottnar, svo og hvort jörðinni fylgir bústofn og þá hve mikill og hvað ríkisstj. hyggst fyrir með gjöfina og til hvers hún ætlar að nota hana.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Það er auðheyrt á hv. þm. S-Þ., að þessi fsp. er af sömu rótum runnin og margt, sem hann spyr um. Ekki til þess að fá upplýsingar, heldur til að gefa í skyn, að hér hafi verið gefin lítilmótleg gjöf. Fyrsta spurningin er svona: „Hve mikið má telja söluverð jarðarinnar og húsanna, eftir venjulegu matsverði á opinberum eignum?“ Það hefur ekki farið fram neitt sérstakt mat á þessari eign, og er þess vegna ekki hægt að svara þessari spurningu, en ég vil aðeins segja það, að þessi jörð var áður einhver bezta jörð landsins, mjög vel byggt hús með 18 herbergjum, sumum stórum og veglegum. — Önnur spurningin er svona: „Hve miklar skuldir hvíla á eigninni, og hverjir eru lánardrottnar?“ Á eigninni hvíla engar skuldir, og hygg ég, að hv. fyrirspyrjandi hafi vitað það. — Gjöfinni fylgir enginn bústofn. — Síðasta spurningin er á þessa leið: „Ætlar ríkisstj. að byggja jörðina einum eða fleiri bændum eða nota hana til einhverrar opinberrar starfsemi, svo sem fyrir rithöfundaheimili?“ Um þetta hafa ekki ákvarðanir verið teknar enn þá.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Það er furðuleg framkoma í fjármálum, ef ríkisstj. hefur ekki gert sér grein fyrir, hvers virði þessi gjöf er, sem hún hefur tekið á móti, og hefur þó svo mikið verið rætt um Kaldaðarnes og Silfurtún, að hún ætti að geta gert sér grein fyrir því, hvað hér er um að ræða. Ég vil nú spyrja hæstv. ríkisstj., fyrst hún veit ekki, hvað hún ætlar að gera við gjöfina, hvort hún ætli að sýna það lítillæti að spyrja þingið um það, hvað eigi að gera við hana.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Þessari fyrirspurn er beint til hæstv. sjútvmrh., en áður hafði ég beint sams konar spurningu til hæstv. landbrh. varðandi þjóðartekjur af landbúnaði, og þær tekjur, sem hér er um að ræða, eru brúttó-tekjur af sölu erlendis, sem ég hef sundurliðað þannig:

a. Fyrir fisk, veiddan af togurum.

b. Fyrir bátafisk.

c. Fyrir síld.

Þá er í öðrum liðnum spurt um tekjur af lýsissölu, og að lokum, hve mikið áætla megi, að hafi þurft að greiða úr landi þetta ár fyrir útgerðarvörur fyrir togara, vélbáta á fiskveiðum og vélbáta á síld, svo sem olíu, kol, salt, veiðarfæri og varahluti í skip og báta, þar með taldar viðgerðir erlendis.

Svörin við þessum spurningum ættu að geta verið bending um það, hver tilkostnaðurinn sé, og ég get tekið það fram í þessu sambandi, að því hefur varla verið veitt nægileg athygli, hvað þorskveiðarnar eru miklu stöðugri, en síldin nú á undanförnum árum. Flestir bátarnir hafa eingöngu stundað síldveiðar á sumrin og hafa yfirleitt alltaf verið reknir með tapi, en bátar þeir, sem stundað hafa þorskveiðar á sama tíma, hafa yfirleitt borið sig sæmilega. Um þetta ætti fyrirspurnin að geta gefið nokkuð glögg skil, þegar hæstv. ráðh. hefur svarað.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Varðandi þá fyrirspurn, sem hér liggur frammi og er á þskj. 413, vil ég hér með tilkynna hv. fyrirspyrjanda það svar, sem fyrir liggur og sett er í letur af Fiskifélagi Íslands, sem bezta aðstöðu hefur til þess að upplýsa þessi mál, og vil ég leyfa mér að lesa það svar, en það hljóðar svo:

„Vér höfum haft til athugunar bréf hins háa ráðuneytis, dags. 3. þ. m., þar sem óskað er eftir, að við látum í té upplýsingar um nokkur atriði, er fram koma í fyrirspurn alþm. Jónasar Jónssonar á þskj. 413, varðandi þjóðartekjur af útgerð árið 1947.

Spurningum þeim, sem settar eru fram í 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar, er svarað með eftirfarandi:

1. a. Togarafiskur ............ kr. 47.172.700 b.

Bátafiskur ...................... — 111.742.690 c.

Síldarafurðir . .................. — 75.848.420

2. Tekjur af lýsissölu ........ — 22.863.700

Rétt þykir oss að benda á, að spurningarnar eru þannig fram settar, að mjög erfitt er að átta sig á, hvað raunverulega er átt við. Enn fremur vantar hér upplýsingar um ýmsar afurðir sjávarútvegsins, svo sem t.d. fiskimjöl, en tekjur af þeim útflutningi árið 1947 námu alls kr. 5.594.790, en af öðrum sjávarafurðum alls kr. 3.806.470, en heildarútflutningstekjur af sjávarafurðum þetta ár námu kr. 267.028.770.00. Allar tölurnar sýna það, sem fékkst fyrir þessar afurðir fob., þ.e. eins og talið er í opinberum útflutningsskýrslum, en þar með er ekki sagt, að afurðirnar hafi verið framleiddar á þessu ári, því að ávallt flyzt svolítið magn af flestum afurðunum milli ára. Það ætti þó ekki að breyta neinu verulegu um niðurstöðuna.

Varðandi 3. liðinn höfum vér engar handbærar upplýsingar og leituðum því til Hagstofu Íslands í því sambandi. Barst oss í gær svo hljóðandi svar frá hagstofunni:

„Með bréfi dags. 4. þ. m. hefur Fiskifélagið farið fram á, að hagstofan léti því í té upplýsingar, sem atvmrn. hefur óskað eftir vegna framkominnar fyrirspurnar á Alþingi um áætlaðar greiðslur til útlanda árið 1947 fyrir útgerðarvörur og viðgerðir skipa erlendis.

Út af þessu skal yður hér með tjáð, að áætlun um þetta hefur verið gerð í áliti nefndar þeirrar, er skipuð var 3. apríl 1948 til þess að gera tillögur um árlegan vísitöluútreikning miðaðan við magn og verð útflutningsframleiðslunnar. Skilaði nefndin áliti sínu til forsætisráðherra í byrjun þessa árs, og mun nægja að vísa til þess.“

Virðingarfyllst,

Davíð Ólafsson

(sign.).“

Nú er það að vísu rétt, að á þessar upplýsingar skortir að skýra það, sem í plagginu stendur, og af því að ég hafði það ekki við höndina, þá vildi ég mega vænta nokkurrar biðlundar hjá hv. fyrirspyrjanda varðandi það.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég þakka ráðherranum fyrir þessar upplýsingar, en þætti það gott, ef hæstv. ráðh. vildi láta mig fá þær, sem á vantar, við hentugleika.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson): Herra forseti. Árið 1946 voru sett l. um embættisbústaði fyrir héraðsdómara. Byggja átti eða kaupa 1–2 slíka bústaði á ári, eftir því sem fé væri veitt til þess í fjárl. Árið 1947 voru sett ný l. um þetta efni. Var þá ákveðið að byggja 1–2 bústaði á ári handa héraðsdómurum og hæstaréttardómurum, og eins og í fyrri l. var ákveðið að fara eftir því, sem fé væri veitt til þess í fjárl.

Það mun ekki hafa verið fjárveiting í þessu skyni árið 1946. Árið 1947 var ekki heldur fjárveiting í sjálfum fjárl., en í 22. gr. var stj. veitt heimild .til að verja allt að 400 þús. kr. til að byggja embættisbústaði fyrir héraðsdómara. Árið 1948 er veitt í 20. gr. 500 þús. kr. .til þess að byggja eða kaupa bústaði fyrir héraðsdómara, en ég hef ekki komið auga á, að enn hafi verið veitt neitt í fjárl. til að byggja bústaði fyrir hæstaréttardómara.

Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn um framkvæmdir í þessum efnum og vænti þess, að spurningarnar séu þannig orðaðar, að þær þurfi ekki frekari skýringar við, en vænti svars frá hæstv. ráðh.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Það kemur fram í fyrirspurninni sjálfri, að aðeins er spurt um, hvað gert hafi verið í því efni, sem hér er um að ræða, frá og með árinu 1945. Þó var fyrir þann tíma í einstökum tilfellum keypt hús handa héraðsdómurum, þar sem sérstök ástæða þótti til vera. Ég hef þó ekki rakið það mál lengra en til ársins 1945, því að ekki er spurt um meira.

Fyrirspurn þessi er gerð um embættisbústaði dómara og er í 4 liðum.

Í fyrsta lagi er um það spurt, á hvaða stöðum ríkið hafi látið byggja eða hefja byggingu bústaða handa héraðsdómurum á árunum 1945–48, að báðum meðtöldum. Hefur í þessar framkvæmdir verið ráðizt á þremur stöðum: Í Neskaupstað, á Selfossi og Vik í Mýrdal.

Í öðru lagi er spurt um stærð og kostnaðarverð bústaðanna og hve miklu hafi verið til þeirra varið. Í Neskaupstað var bygging hafin 1946 á embættisbústað, og er byggingu lokið. Er byggingin ein hæð og kjallari, flatarmál 151 fermetri, rúmmál 906 rúmmetrar. Kostnaðarverð hefur orðið kr. 539.724,03, og er það greitt. — Á Selfossi var hafin bygging á embættisbústað á árinu 1946, og er byggingu bústaðarins lokið, en ekki gengið fyllilega frá reikningum. Byggingin er tvær hæðir og kjallari, aðalbygging, og ein hæð og kjallari, viðbygging, rúmmál alls 1.700 rúmmetrar. Áætlað smíðaverð er 560 þús. kr. Úr ríkissjóði hafa verið greiddar 200 þús. kr., en af sýslufélaginu 100 þús. kr., og er það framlag vegna afnota af salarkynnum í viðbyggingunni. — Í Vík í Mýrdal var hafin bygging embættisbústaðar á árinu 1947, og er byggingu ekki lokið. Byggingin er tvær hæðir og kjallari, flatarmál 126 fermetrar. Áætlað kostnaðarverð er 410 þús. kr., og hafa þegar verið greiddar úr ríkissjóði kr. 278.192,60.

Undir þessum lið þykir rétt að tilgreina skrifstofuviðbyggingu við embættisbústaðinn í Stykkishólmi samfara endurbyggingu á bústaðnum, sem er timburhús. Er aðgerðum þessum lokið. Viðbyggingin er ein hæð. Flatarmál 51,6 fermetrar. Brunabótamat 120 þús. kr. Hafa þegar verið greiddar úr ríkissjóði vegna aðgerða þessara kr. 73.367,92. Ógreiddar ca. 135 þús. kr. Um þennan embættisbústað er þess að geta, að hann var keyptur áður en lög heimiluðu að gera nokkuð í slíkum málum, en húsið var ófullnægjandi til þeirra nota, sem það var keypt.

Í þriðja lagi er spurt um kaup íbúðarhúsa handa héraðsdómurum á fyrrgreindu tímabili og óskað upplýsinga um stærð, kaupverð og hve miklu varið hafi verið til viðgerða á þeim. Slík kaup hafa verið gerð á fjórum stöðum. Á Húsavík var keypt íbúðar- og skrifstofuhús fyrir sýslumannsembættið í Þingeyjarsýslu, og er afsal gefið út 20. marz 1945. Kaupverð 70 þús. kr. Flatarmál hússins 110 fermetrar, rúmmál 990 rúmmetrar. Til viðgerðar á húsinu á árunum 1945 og 1946 var varið kr. 35.347,06. Í Bolungavík var keypt íbúðar- og skrifstofuhús fyrir lögreglustjóraembættið, og er afsal gefið út 20. marz 1946. Kaupverð 75 þús. kr. Til viðgerða hefur verið varið kr. 22.642,14. Húsið er steinsteypt, 45 fermetrar, tvær íbúðarhæðir, ris og kjallari. — Í Búðardal var keypt íbúðar- og skrifstofuhús fyrir sýslumannsembættið í Dalasýslu, og er afsal gefið út 14. febr. 1948. Kaupverð er kr. 134 þús. Húsið er steinsteypt, tvær hæðir og kjallari. Flatarmál ca. 89 fermetrar, rúmmál ca. 700 rúmmetrar. Viðgerð, framkvæmd á árinu 1948, hefur kostað kr. 73.749,02, þar af hafa verið greiddar 26 þús. kr. — Á Siglufirði var keypt íbúðar- og skrifstofuhús fyrir bæjarfógetaembættið, og er afsal gefið út 23. júní 1948. Húsið er steinsteypt, tvær hæðir, kjallari og ris og tvær útbyggðar forstofur. Flatarmál 116 fermetrar, rúmmál 1264 1/2 rúmmetri. Kaupverð 380 þús. kr. Til viðgerða hefur verið varið á árinu 1948 5 þús. kr. Um tvö þessi síðustu hús má taka fram, að kaupverð þeirra beggja var miðað við mat trúnaðarmanns valdstjórnarinnar á staðnum.

Í fjórða lagi er um það spurt, hvort ríkið hafi látið hefja byggingu íbúða handa hæstaréttardómurum. Svo er ekki. Hins vegar hafa tveir hæstaréttardómarar hafið byggingu íbúðarhúsa, þeir Gissur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson, sem miða að því að firra ríkið því að þurfa að standa í þessum byggingum sjálft.

Svo hljóðandi samkomulag hefur verið gert milli dómsmrn. og Gissurar Bergsteinssonar varðandi byggingu íbúðarhúss á lóðinni nr. 6 við Nesveg í Reykjavík:

„1. Ráðuneytið samþykkir, að húsið verði byggt fyrir reikning hæstaréttardómarans samkvæmt fjárfestingarleyfi nr. 2.156, útgefnu til ráðuneytisins 4. maí 1948.

2. Húsið sé byggt eftir uppdrætti húsameistara ríkisins, er hafi yfirumsjón með byggingunni og láti í té alla uppdrætti hússins án endurgjalds.

3. Ráðuneytið hlutast til um, að ábyrgð ríkissjóðs verði veitt fyrir eitt hundrað þúsund króna láni úr Lífeyrissjóði embættismanna og allt að sjötíu og fimm þúsund króna láni hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands eða annars staðar, en lán þessi hyggst hæstaréttardómarinn að taka til byggingar hússins.

4. Hæstaréttardómarinn veðsetur ríkissjóði húseignina með fyrsta veðrétti til tryggingar skaðleysi ríkissjóðs vegna ábyrgða samkvæmt 3. lið.

5. Meðan húsið er í smiðum, þó eigi lengur en næstu tvö ár, á ráðuneytið vegna ríkissjóðs að fá afsal fyrir húseigninni úr hendi hæstaréttardómarans gegn greiðslu stofnkostnaðarverðs hennar, enda verður húsið þá embættisbústaður hæstaréttardómarans, sbr. lög nr. 96 1947.“

Sams konar samningur hefur verið gerður vegna Jónatans Hallvarðssonar hæstaréttardómara.

Eins og menn sjá, var samið við þessa tvo dómara, Gissur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson, að ríkið byggi ekki yfir þá, heldur byggi þeir sjálfir yfir sig, en ríkið veiti þeim hliðstæða ábyrgð og þeir hefðu fengið, ef þeir hefðu verið í byggingarsamvinnufélagi, en þessir menn hafa ekki aðstöðu til þess.

Það þótti ekki ósanngjarnt, að ríkið greiddi fyrir því, að þessir menn gætu fengið sæmileg lán út á hús sín, en hlutur ríkissjóðs væri aftur á móti tryggður. Með þessu móti er ríkissjóður losaður við fjárútlát við að byggja yfir þessa embættismenn.

Ég vona, að þetta svar sé fullnægjandi.

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson): Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir veittar upplýsingar. Annars er það svo, að ástæðan til þess, að menn þurfa meir en ella mundi að ónáða hæstv. ráðh. með fyrirspurnum af þessu tagi, er ekki sízt sú, að eins og við vitum er útgáfa ríkisreikninga síðari ára með allt öðrum hætti en hæfilegt getur talizt, þar sem nú fyrst er verið að leggja fyrir þingið fullendurskoðaða reikninga fyrir árið 1945. Ef betra lag væri á þeim málum, gætu menn í mörgum tilfellum sparað ómak bæði sér og þeim hæstv. ráðh., sem beðnir eru um slíkar upplýsingar.

Eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh., eru l. um þessa framkvæmd tiltölulega ný, og eins og hann tók fram, að mér skildist, þá var gert ýmislegt af hálfu þess opinbera í þessum efnum, áður en l. komu fram. Annars kemur það fram í svari ráðh., að til þessara framkvæmda hefur verið varið á s.l. árum meira fé en heimilað hefur verið á fjárl., þótt það hins vegar sé ákveðið í l., að framkvæmdirnar skuli miðaðar við fjárveitingu á fjárl. Ég skal nú út af fyrir sig ekki neitt um það segja, en vil benda á, að einmitt í því, hve mikið hefur verið að því gert síðustu ár að verja fé úr ríkissjóði, án þess að gert sé ráð fyrir slíkum gjöldum á fjárl., er meðal annars að leita ástæðunnar fyrir því, í hvert öngþveiti ríkissjóður er kominn með fjármál sín. Það er ekki aðeins á þessu sviði, heldur er þetta eitt dæmi af ótal mörgum um það, að mikið hefur verið um framkvæmdir og mikið fé greitt án þess, að gert hafi verið ráð fyrir því á fjárl., og hygg ég, að ekki verði komið viðunandi lagi á fjárhagsmálin, nema hér verði breytt um stefnu og farið meir eftir ákvæðum fjárl. eftirleiðis en gert hefur verið nú um skeið.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Ég er sammála því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, að það er sjálfsagt að miða að því, að ekki verði farið fram úr fjárveitingum. Varðandi þær aðgerðir, sem hér um ræðir, er það hins vegar svo, að það er, eins og hv. þm. veit, örðugt að sjá fyrir nákvæmlega, hvað framkvæmdirnar muni kosta, og þótt ég hafi lesið hér upp tölur um áætlaðan kostnað við þessar byggingar, hafa þær upphæðir ekki nærri allar verið greiddar úr ríkissjóði enn sem komið er, þó að auðvitað lendi á ríkinu að borga það fyrr eða síðar. Það getur ekki hafa verið ætlunin hjá ríkinu, að fé yrði fyrir fram lagt til hliðar til bygginganna, heldur að það yrði borgað jafnóðum, og virðist ekki óeðlilegt, að á þessum byggingum hvíli nokkrar skuldir um nokkurt skeið, eins og á ýmsum öðrum, þannig að ekki er hægt að ætlazt til, að þetta sé allt látið í té jafnóðum.

Hv. þm. dró í efa, hvort rétt væri að byggja yfir dómara, eins og ákveðið hefur verið í l., en ég get fullyrt, að ég hef staðið fast á móti óskum fjölda dómara, sem við mig hafa verið bornar fram um byggingar í þessu skyni. Ég hef sannfærzt um það af eigin raun, að aðbúnaður þeirra er með öllu óhæfur, en hef orðið að standa á móti þessum óskum, þar sem ekki hefur verið til fé til ráðstöfunar í þessu skyni, þannig að ég hef reynt að halda verulega í þetta fé. Þann tíma, sem ég hef gegnt þessu, hefur ekki verið byrjað að byggja nema einn embættismannabústað. Hitt er rétt, að keyptir hafa verið bústaðir á Siglufirði og í Búðardal, en það reyndist alveg óhjákvæmilegt. Hitt er rétt, að þetta kostar allt verulegt fé, og ég er sammála því, sem fram kom við umr. um fsp. á dögunum, að þörf er á að endurskoða þessa löggjöf, ekki aðeins varðandi bústaði héraðsdómara, heldur einnig varðandi bústaði annarra embættismanna, og væri því eðlilegast að ræða það allt í heild, en taka ekki þennan litla hóp út úr.

Forseti (JPálm): Ég skal geta þess, að fyrri fyrirspurninni á þskj. 442 getur ekki orðið svarað nú vegna fjarvistar hæstv. ráðh.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson): Herra forseti. Það er út af þessari tilkynningu hæstv. forseta, að þessari fyrirspurn, sem er beint til hæstv. ríkisstj., geti ekki verið svarað vegna fjarvistar helmingsins af hæstv. ríkisstj., sem nú er í Ameríku. Fyrirspurnin er borin fram fyrir það löngu síðan, að hæstv. stj. hefur haft þann frest, sem nægja á að lögum, og ég veit ekki til, að ekki sé hægt að afla þeirra upplýsinga, sem þar er beðið um, svo að það er hægt að svara af hálfu þess hluta hæstv. stj., sem enn sem komið er, er eftir á Íslandi. Ég álit, að meginið af þessum fyrirspurnum muni snerta fjmrn. Ég held því, að það ætti að vera hægt að fá upplýsingar um þetta mál, og ég legg ákaflega mikið upp úr því, að það sé gert. Ég vildi þess vegna fá þær upplýsingar, sem hægt er að gefa nú, og ef það er ekki hægt, vil ég fá að vita, hvaða upplýsingar það eru, sem þeir hæstv. ráðh., sem nú eru í Ameríku, sitja einir með, svo að aðrir vita ekki um það.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Út af þessari aths. hv. 2. þm. Reykv. vil ég segja það að, að svo miklu leyti sem það kann að vera fjmrn. að afla upplýsinga viðvíkjandi fyrirspurninni á þskj. 442, þá er þess að gæta, að þeir menn, sem fjmrn. hefur í því að afla upplýsinga viðvíkjandi fyrirspurnum, eru enn þá í öðrum fyrirspurnum og eru ekki enn búnir að skila til ráðh. svörum við þeim. Meðan þeir eru ekki búnir að ljúka því, hef ég ekki tök á að láta vinna þetta verk. Nú hef ég litið svo á, að þetta snerti fleiri en eitt rn. að afla upplýsinga viðvíkjandi fyrirspurninni á þskj. 442. Mér finnst ekki aðalatriðið, hvað hratt er hægt að svara fyrirspurnum. Aðalatriðið er, að upplýsingarnar, sem koma, séu sem réttastar og ýtarlegastar. Þess vegna er það, að það er ekki alltaf, að sá frestur nægi, sem liður milli þess, að fyrirspurn er leyfð, og þar til hún er tekin á dagskrá, eins og raun hefur orðið á um fyrirspurn frá hv. þm. S–Þ. á þskj. 391,3. Hún var fengin í hendur tollstjóra til athugunar, en hann hefur af skiljanlegum ástæðum verið bagaður frá að sinna sínu embætti nú um tíma, af því að hann er sáttamaður hins opinbera, eins og allir vita. Það er önnur fyrirspurn, sem líka á að svara af þessu rn., fyrirspurn 413,1. Seinast í morgun var ég að ganga úr skugga um, að það er ekki búið að afla allra þeirra upplýsinga, sem þar skipta máli. Þetta vildi ég sagt hafa út af aths. hv. 2. þm. Reykv. út af fyrirspurn hans á þskj. 442. Það eru þegar mjög margar fyrirspurnir komnar á sama rn., og það eru takmörk fyrir, hvað miklu er hægt að afkasta á stuttum tíma með að svara þeim.

Eins og ég sagði áðan, tel ég, að megináherzluna beri á það að leggja, að svörin séu sem ýtarlegust og réttust, en ekki, hvort þau koma viku fyrr eða seinna.

Forseti (JPálm): Ég vil taka fram út af aths. hv. 2. þm. Reykv., að auðvitað verður þessari fyrirspurn svarað, en svarið frestast nú vegna þess, að tveir hæstv. ráðh., utanrrh. og flugmrh., sem þessi fyrirspurn var líka send til, eru fjarstaddir, og samkvæmt upplýsingum hæstv. fjmrh. er hann ekki viðbúinn að svara þeim fsp., sem heyra undir hann.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson): Herra forseti. Það er nú svo með þessa fyrirspurn, eins og ég tók fram áður og eins og hæstv. fjmrh. hefur nú líka fallizt á, að meginið af þessum fyrirspurnum heyra undir fjmrh., en ekki undir utanrrn. eða flugmrn. Hins vegar hef ég orðið var við í sambandi við umr., sem áður hafa orðið í sambandi við þetta mál, að utanrrn. hefur beinlínis gripið inn í og skipt sér af því, sem heyrir undir fjmrn., sem sé tollafgreiðslu vara. Það urðu mjög langar umr. um þau mál hér á þingi fyrir rúmu ári síðan, og þess vegna hef ég haldið, að þegar spurningar eru lagðar fram um þessi mál, mundi vera hægt að afgr. þær nokkuð fljótt, vegna þess að hæstv. ríkisstj, mundi hafa nokkurt eftirlit með því vegna þess aðhalds, sem hún hefur fengið frá þinginu, hvernig þessum málum er háttað. Ég hef ekki lagt fram margar fyrirspurnir í þinginu, aðeins eina aðra en þessa. Mér þykir þess vegna dálítið hart, ef það er afsakað að fresta að svara á lögmæltum tíma svona fyrirspurn, vegna þess að embættismenn rn. séu svo önnum kafnir við að undirbúa svör við öðrum fyrirspurnum. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða, hvorki meira né minna, en efndir á þeim samningi, sem gerður var við stj. Bandaríkjanna 1946. Hæstv. stj. hefur einu sinni áður átt að standa reikningsskap fyrir framkvæmdina á þessum samningi, því að hún hafði í umr. hér á þingi lofað að láta fram fara þá rannsókn á málinu, sem við á, og eftir að hæstv. utanrrh. hafði farið hraklega út úr umr., þá greip hann til þess ráðs að neita að vísa málinu til n. og lét þar með viðhafa óþinglega meðferð á slíku máli. Og þegar ég nú ber fram fyrirspurn, sem aðeins er um einfaldar upplýsingar, upplýsingar, sem í raun og veru ætti að vera hægt fyrir fjmrn. að gefa, svo framarlega sem íslenzk l., sem fjmrn. og tollstjóri eiga að sjá um að framkvæma, eru ekki brotin eftir fyrirskipun frá utanrrn. Þá kann ég illa við að fresta slíkum fyrirspurnum fyrir það, að ráðh. séu staddir í Washington. Ég held, að það hefði verið skyldara að gera skil á, hversu vel þessi samningur hefur verið haldinn, en að fara að kynna sér, hvers konar nýja samninga ætti að gera við Bandaríki Norður-Ameríku.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forseta, af því að hann segir úr forsetastóli, að auðvitað yrði þetta mál tekið fyrir og því svarað, hvaða tryggingu hæstv. forseti hefur fyrir því. Ég sé ekki betur, en að ákvæði þingskapa séu alveg ákveðin viðvíkjandi þessum málum. Hæstv. ríkisstj. ber lagaleg skylda til að svara þessu máli. Ég er ákaflega hræddur um, að um það leyti, sem hæstv. ráðh. koma til baka frá Washington, þá muni þeir segja við þingið, að þeir séu með mjög þýðingarmikið uppkast með sér, sem þeir vilji, að þingið ræði, og ég er ákaflega hræddur um, að þeir muni reyna að koma sér hjá að svara þessari spurningu, sem hér hefur verið lögð fram viðvíkjandi Keflavíkurflugvelli. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að hæstv. fjmrh. láti sína starfsmenn rannsaka þetta mál nú þegar, þann hluta af þessum spurningum, sem heyra undir fjmrn., þannig að hægt sé að svara þessu á morgun og taka málið á dagskrá þá. Ég vil beina til hæstv. forseta, hvort hann vill verða við því.

Forseti (JPálm): Út af þeirri efasemd, sem kom fram, hvort þessari fyrirspurn yrði svarað, þá er hún ástæðulaus. Það hefur áður komið fyrir og getur oft komið fyrir, að verði að fresta að svara fyrirspurnum. Eins og ég tók fram, verður að fresta að svara þessari fyrirspurn nú og þar til í næsta fyrirspurnatíma, sem er næsta miðvikudag. Ég trúi ekki, að það velti á miklu, hvort þessari fyrirspurn er svarað nokkrum dögum fyrr eða síðar.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson): Ég álit það ekki heppilegt, að það sé látið bíða í viku að svara þessari fyrirspurn. Það hefur verið tilkynnt í blöðum, að líklegt sé, að þessi helmingur ríkisstj., sem er í Ameríku, muni innan skamms koma heim með eitthvert samnings uppkast. Sem sé, þá má búast við því, að þeir muni vilja hraða þeim málum í þinginu, og ég þykist þekkja þá hæstv. ráðh., sem eru vestan hafs nú, svo vel, að ég þykist vita, að þeir muni ekki kæra sig um að ræða mikið Keflavíkursamninginn og framkvæmd á honum, meðan þetta samningsuppkast liggur fyrir þinginu. Það mun vafalaust verða sagt þá, að það liggi mikið á því máli, sem þeir koma með Ég vil því eindregið fara fram á það við hæstv. forseta, af því að hann hefur gert það áður um fyrirspurnir, að það verði haldinn fundur í Sþ. á morgun og að þessi fyrirspurn verði þá tekin fyrir og reynt, hvort ekki er hægt að fá hæstv. fjmrh. til að gefa þessar upplýsingar. Þetta eru einfaldar statistiskar upplýsingar, sem tollstjóri og skattstofan hljóta að hafa hjá sér, svo framarlega sem tollur hefur verið greiddur af þessum vörum. Ég vil því eindregið fara fram á, að þetta verði gert, ekki sízt vegna þess að hæstv. forseti hefur frestað fleiri málum, sem fyrir lágu, svo að svör fáist, áður en sá helmingur ríkisstj., sem enn er hér á landi, er floginn burt.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Hv. 2. þm. Reykv. virðist hafa eitthvað allt annað í huga með þessu þrætugjarna kvabbi sínu en það, sem stendur á þessu þskj. Hann hefur í orðum sínum látið falla ásakanir í garð hæstv. utanrrn. um ágengni inn á stjórnarsvið annarra. Í sömu andránni leggur hann áherzlu á, að þetta mál sé rætt áður en sá hæstv. ráðh. sé viðstaddur, sem ætti þá að svara til sakar. Það getur verið þægilegt frá hálfu hv. 2. þm. Reykv. að hafa þessa málfærslu, en mér finnst hún einkennileg, af því að hann hefur dregið fram í umr., að hér sé um einhverja sök að ræða hjá hæstv. utanrrh., og leggur mikla áherzlu á, að málið sé rætt og því svarað, án þess að hæstv. ráðh. sé viðstaddur. Ég ætla, að þetta sé nokkuð augljós þingræðisleg glompa hjá hv. þm. Í þingsköpum er gert ráð fyrir, að fyrirspurnum sé svarað, en ég sé ekki, að þau banni, að þeir, sem eiga að svara, fái tóm til athugunar og undirbúnings. Á þessari fyrirspurn hefur enginn óeðlilegur dráttur orðið og eðlilegt, að svör liggi ekki fyrir hendi. Það stappar nærri frekju af hv. 2. þm. Reykv. að fara fram á, að þingið taki þetta mál á dagskrá á morgun, þegar það liggur fyrir, að málið er ekki fullundirbúið enn. Ég veit, að hann er það greindur maður, að hann sér, að sá frestur er svo stuttur, að ekki væri hægt að láta fram fara nema mjög handahófslega athugun á öllum þessum liðum, og þeir snerta ekki heldur allir fjmrn., þótt sumir þeirra geri það.

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson): Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram út af þessum umr., sem fram hafa farið, og ítrekunum hv. 2. þm. Reykv. að fá þessari fyrirspurn, sem hér liggur fyrir frá honum, svarað í dag eða á morgun, að það er viðtekin regla hér á þingi, sem framkvæmd er af forsetum Alþingis, bæði í Sþ. og deildum, að taka til greina, ef mál er á dagskrá, sem varðar einhvern þm. eða ráðh., og taka málið ekki fyrir meðan hlutaðeigandi er fjarvistum. Og þegar þeir tveir ráðh., sem þetta mál samkvæmt eðli sínu snertir, hæstv. utanrrh. og hæstv. menntmrh., sem með flugmálin fer, eru fjarvistum í embættiserindum, þá finnst mér það ekki ná nokkurri átt og stappa nærri ósvífni, að þess skuli vera krafizt, að mál, sem heyrir undir þá, skuli verða tekið til umr. hér á þingi. Ég veit, að hæstv. forseti hefur sýnt hv. 2. þm. Reykv. ætíð þá tilhliðrun, sem hann hefur óskað eftir, að mál yrði ekki tekið fyrir, — vegna þess að hann væri óviðbúinn að ræða það eða þyrfti að vera fjarvistum, — sem hann vildi vera viðstaddur. Þá hefur hæstv. forseti ætíð sýnt honum tilhliðrunarsemi eins og öðrum hv. þm. Þá er það augsýnilegt, þegar hæstv. ráðh. eru fjarvistum í embættiserindum fyrir ríkið, að það er skylt og sjálfsagt að taka til greina ósk, sem fram er borin um það réttilega, að fyrirspurnir, sem snerta þá beint eða óbeint, verði ekki teknar fyrir, meðan þeir eru fjarverandi í embættiserindum fyrir ríkið, enda veit ég það, að þegar ég minntist á það við hæstv. forseta í gær, þá taldi hann það sjálfsagt. Þetta er regla, sem ávallt hefur verið fylgt, líka gagnvart hv. 2. þm. Reykv., en krafa hans sýnir, hvernig hann vill láta hegða sér gagnvart öðrum, en honum sjálfum.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson): Herra forseti. Ég vildi mælast til, að hæstv. forseti tæki fyrir 160. mál, sem er fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. um aðflutninga að Keflavíkurflugvellinum. Þessi fyrirspurn var á dagskrá í síðasta fyrirspurnatíma, en var ekki svarað þá, á þeim grundvelli, að hálf ríkisstj. væri vestur í Ameríku. En hæstv. forseti lofaði því þá, að hún yrði tekin fyrir í næsta fyrirspurnatíma. Nú háttar því svo til, að ekki er mikið verk að svara henni, en mjög þýðingarmikið að fá þessar upplýsingar áður en rætt verður um sáttmála Atlantshafsbandalagsins, sem hæstv. ríkisstj. mun leggja hér fyrir þingið á næstunni. Ég vil því mælast til þess við hæstv. forseta, að ríkisstj. verði gefinn tími til að svara þessari fyrirspurn á þessum fundi. Ég mæli ekki gegn því, að fyrst verði flutt framsöguræða til fjárl., en ef framsöguræðan er það löng, að ekki verði tími til að svara fyrirspurninni, þá vil ég mælast til, að henni verði frestað.

Forseti (JPálm): Ég hef nú tekið fyrir fjárl., en fyrirspurnirnar eru 2. mál á dagskrá, svo að annaðhvort verður að fá afbrigði um að fresta þeim eða taka þær fyrir á þessum fundi.

Síðar á fundinum tók forseti málið af dagskrá.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson): Herra forseti. Ég þarf ekki að taka til máls, því að fyrirspurnin skýrir sig sjálf.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Það kemur í hlut fleiri en eins ráðh. að svara þessum fyrirspurnum á þskj. 442, en 1.–3. tölul. munu heyra undir fjmrh. að svara.

Um 1. liðinn er það að segja, að ég hef ekki enn fengið allar upplýsingar, sem þarf til að svara honum, en mun hins vegar fá þær áður en langt um líður.

Um 2. og 3. lið er eftirfarandi að segja: Samkv. 9. gr. Keflavíkursamningsins svonefnda frá 14. okt. 1946 skal eigi leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt til afnota fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmenn hennar samkv. þessum samningi eða til afnota fyrir starfslið það, sem leiðir af framkvæmd samningsins. Annars veit nú hv. fyrirspyrjandi þetta vel, en það gerir ekkert til, þó að það sé endurtekið hér. Það er síður en svo rétt, að Bandaríkjunum sé stórlega ívilnað, þó að þau og þegnar þeirra séu undanþegin sköttum og tollum, því að taka ber tillit til þess, að öll mannvirki flugvallarins verða eign Íslendinga, þegar samningurinn fellur úr gildi, og er þar um stórar fjárupphæðir að ræða.

Samgmrh. (Emil Jónsson): Herra forseti. Það mun heyra undir viðskmrn. að svara spurningunni um, hversu mikinn gjaldeyri bankarnir hafi fengið í sambandi við Bandaríkin og amerísk félög, sem starfa á Keflavíkurflugvelli, og hins vegar í sambandi við flutningsgjöld. Ég hef leitað til gjaldeyriseftirlitsins og fengið það svar, að árið 1948 nam þessi fjárupphæð 2 millj. og 560 þús. kr. og fargjöldin námu alls 20 millj. og 406 þús. kr. Með þessum tölum ætlast ég til, að þessari spurningu sé svarað.

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson): Herra forseti. 6. liður fyrirspurnarinnar á þskj. 442 mun heyra undir félmrn., það er að segja það, sem varðar, hvort Bandaríkjamenn hafi hér húsnæði á leigu. Sem svar við þessari fyrirspurn get ég vitnað til rannsóknar, sem farið hefur fram um húsnæði Bandaríkjaþegna hér í bænum. Var þessi athugun gerð vegna ummæla tveggja blaða og hlutaðeigandi blaðamenn látnir gefa þær upplýsingar, sem þeir byggðu málflutning sinn á. Héldu þeir því fram, að um væri að ræða sex hús í bænum, sem Bandaríkjaþegnar byggju í án leyfis. Við nánari athugun kom í ljós, að eitt þessara húsa er ekki til, eitt er eign konu, sem gift er Bandaríkjamanni, í tveimur þeirra hafa aldrei búið Bandaríkjamenn, eitt er notað til hótelrekstrar, og þar bjó Bandaríkjamaður í einu herbergi, og í einu bjó Bandaríkjamaður ásamt íslenzkri konu sinni og dóttur. Þetta er niðurstaðan í þessu máli, og hefur húsaleigunefnd ekki getað fengið betri upplýsingar.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson): Herra forseti. Ég þakka þær upplýsingar, sem ég hef fengið varðandi þær spurningar, sem ég hef borið fram, en vil leyfa mér að óska eftir svari við þeim liðum, sem ekki hefur verið svarað, við fyrsta tækifæri, en það er 1. og 5. liður. Það er sennilega flugmrh., sem svarar spurningunni um fjölda Bandaríkjamanna hér á flugvellinum.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Þessi spurning heyrir ekki undir flugmrn., því að það gefur ekki út landvistarleyfin. Það er dómsmrn., sem gefur út landvistarleyfin, og þess vegna dómsmrh., sem mun svara þessari spurningu.

Forseti (JPálm): Eins og menntmrh. hefur skýrt frá, mun þessi spurning heyra undir dómsmrn., en þar sem dómsmrh. er ekki viðstaddur, verður svar við henni að bíða, en mun svarað síðar.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Ég vil taka það fram hér, áður en farið er að ræða einstök atriði, að 5. liður I. fsp. á þskj. 442 mun heyra undir dómsmrn., en ég hélt, að svo væri ekki. Ég áleit, að þessu hefði verið svarað meðan ég var fjarverandi, en það mun ekki hafa verið gert. Ég vil taka það fram, að hér er eingöngu um persónulega yfirsjón hjá mér að ræða, og skal ég gera ráðstafanir til að afla upplýsinga um þetta mál og svara þessari fyrirspurn við næsta tækifæri.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Ég hef nú bætt við þekkingu mína um þetta efni, frá því að ég svaraði 2. og 3. lið þessarar fyrirspurnar, og vonandi til ánægju fyrir hv. fyrirspyrjanda. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið frá skrifstofu tollstjórans í Rvík og tollstjóraskrifstofunni á Keflavíkurflugvelli, hafa Bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli flutt inn á árinu 1948, um Reykjavíkurhöfn eða beint með flugvélum, samtals um 4.753 smálestir af ýmiss konar vörum, sem eru tollfrjálsar samkv. l. nr. 95 frá 28. des. 1946, sem eru löggilding Keflavíkursamningsins. Langmestur hluti þessa varnings er annaðhvort byggingarefni vegna mannvirkja, sem reist hafa verið og eru í smíðum, eða matvæli handa embættis- og starfsmönnum Bandaríkjastj. þar. Af viskí og sterkum drykkjum var flutt inn á árinu 1948 1.548 kassar, sem samsvarar því, að hver erlendur starfsmaður á þessum stað fái liðlega 18 flöskur af sterkum drykkjum á ári. Af öli og bjór voru fluttir inn 3.890 kassar, sem samsvarar því, að 93 flöskur séu handa hverjum erlendum starfsmanni flugvallarins á árinu. Um einn lið eru ekki fyrir hendi fullar upplýsingar, en tóbak er skammtað til starfsmanna á flugvellinum.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson): Herra forseti. Ég hefði að vísu kosið, að þessar upplýsingar væru dálítið nákvæmari, en þær eru. Í fyrirspurninni var spurt um magn þessara tegunda, sem hér eru taldar upp, og verð á þeim. Það hefði náttúrlega verið nauðsynlegt að fá þær upplýsingar til þess að geta byggt á þeim það, sem ég álít, að þurfi að gera, sem sé þær kröfur, sem ég álít, að við Íslendingar eigum um toll af þessum innflutningi. Ég mun þó ekki gera aðra fyrirspurn eða ræða meira um þetta hér. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar, en mér hefði þótt vænt um, að fyrirspurninni hefði verið nákvæmar svarað. Er þá eftir 5. liður fyrirspurnarinnar, og vona ég, að honum verði svarað sem fyrst.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Það hefur dregizt að svara þessari fyrirspurn, þar sem ég hef ekki verið viðstaddur. Í 5. lið er spurt: Hve margir Bandaríkjaþegnar unnu 1. jan. 1949 .á Keflavíkurflugvelli og við byggingar þar? Hve margir Íslendingar? Hvað voru samsvarandi tölur 1. jan. 1948?

Um þetta er það að segja, að 1. jan. 1949 unnu 715 Bandaríkjaþegnar á Keflavíkurflugvelli, þar af 230, sem unnu hjá byggingarfélaginu. Á sama tíma unnu þar 254 Íslendingar. Samsvarandi tölur voru 1. jan. 1948 þannig, að þar unnu 870 Bandaríkjaþegnar, þar af 316 hjá byggingarfélaginu, og 232 Íslendingar. Bandaríkjaþegnum hefur því fækkað um 155 á þessu tímabili, en Íslendingum fjölgað um 22.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson): Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. utanrrh, fyrir upplýsingarnar.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Tilgangurinn með þessari fsp. er sá, að þjóðin fái við því svar, hve margs konar verðtaxtar það eru á rafmagni, sem neytendur eiga nú við að búa.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég mun í aðalatriðum leitast við að svara þessari fsp. eins og um er spurt.

Hvað það atriði snertir, hvernig verðið á raforkunni er ákveðið, gildir yfirleitt það sjónarmið, bæði að því er heildsölu frá orkuverum og aðalorkuveitum og smásölu frá héraðsrafmagnsveitum snertir, að verðið er ákveðið með tilliti til þess, að hlutaðeigandi fyrirtæki beri sig fjárhagslega, þ.e.a.s. standi undir viðhaldi, rekstri og eðlilegum aukningum, en ekki reiknað með, að þessi fyrirtæki séu rekin sem gróðafyrirtæki. Í stærri kaupstöðum og sérstaklega þar, sem rafveiturnar eru orðnar gamlar, hlýtur verðið því að jafnaði að vera lægra, en í minni kauptúnum, og í hinum minni kauptúnum með nýjar rafveitur mun núgildandi verð tæpast vera nógu hátt til þess að standa undir veitunum.

Fram til þessa hafa rafveitur ekki verið reknar nema í kaupstöðum og kauptúnum hér á landi. Hafa þær yfirleitt staðið undir sér fjárhagslega, en á nokkrum stöðum, þar sem orkuveitur eru í byrjun, er ekki talið fært að fara það hátt með verðið, að veiturnar fái staðið alveg undir sér fyrstu árin, og því í þeim tilfellum leyft að haga verðinu þannig, að það er að vísu fyrirsjáanlegur halli á rekstri veitnanna fyrstu árin, en gert ráð fyrir, að það lagist á næstu árum, þegar nokkurn veginn er búið að ná því marki, sem að var stefnt.

Þetta er um hinar almennu veitur að segja. Um sveitaveiturnar er öðru máli að gegna. Vegna strjálbýlisins verður stofnkostnaðurinn þar svo hár, að engin von er til, að rekstrartekjurnar geti staðið undir honum og verð á rafmagninu þó ekki verið óhæfilega hátt. Þess vegna hefur það ákvæði verið tekið í l., að ríkið greiði niður nokkuð af stofnkostnaði héraðsveitna, það mikið, að ekki þurfi að setja verðið hærra en svo, að það verði nokkuð nærri rafmagnsverði annars staðar á landinu, þótt það sé sums staðar lítið eitt hærra.

Ég vil nú snúa mér sérstaklega að fsp. og í því sambandi gefa eftirfarandi upplýsingar: Á Hvanneyri telst ekki vera almenningsveita, og hefur því ekki verið staðfest gjaldskrá fyrir raforkusölu þar. Aftur á móti kaupir skólinn orku frá Andakílsárvirkjuninni á 380 kr. árskílówattið, en ekki munu hafa verið ákveðin gjöld fyrir notkun einstakra heimilisnotenda þar. — Hinir staðirnir, sem um er spurt, hafa gjaldskrár, staðfestar af atvmrn. og birtar í B-deild stjórnartíðindanna. Gjaldskrárnar eru allar með sama eða mjög líku sniði og því auðvelt að bera þær saman. Raforkuverð til heimilisnota er aðallega miðað við þrenns konar notkun: (a) til lýsingar, (b) til almennrar heimilisnotkunar, (c) til húshitunar. Skal hér tilgreint verðið á rafmagni til þessara nota á þeim stöðum, sem um er að ræða, og jafnframt gert í sem stytztu máli grein fyrir tilhögun raforkusölunnar, eftir því sem tilefni virðist til.

Það er þá fyrst verð á rafmagni til lýsingar. Í Rvík er ljósaverðið kr. 0,93 á hverja kwst., á Akureyri kr. 1,20, í Sandgerði kr. 1,44, á Selfossi kr. 1,20, í Þykkvabæ kr. 1,25, á Grenjaðarstað kr. 1,25 og á Akranesi kr. 1,20. — Þess skal getið, að í gjaldskrám flestra rafveitna er heimild til 20% hækkunar á raforkuverðinu án sérstakrar staðfestingar rn. Rafveita Sandgerðis hefur ákveðið að notfæra sér þessa heimild, og er raforkuverðið þar því 20% hærra en hjá hliðstæðum rafveitum, þ.e. kr. 1,44 pr. kwst., eins og fyrr segir.

Þá er verð á rafmagni til heimilisnotkunar. Á þeim gjaldskrárlið, sem algengastur er til heimilisnotkunar, er innheimt bæði kwst.-gjald og fastagjald. Kwst.-gjaldið er miðað við verð á orku til suðu, en fastagjaldið við áætlaða ljósanotkun. Fastagjaldið er sett til þess að komast af með aðeins einn kwst.-mæli á heimilunum í stað þess að hafa tvo. Á Akureyri, Akranesi og Grenjaðarstað er þessi gjaldskrárliður enn fremur miðaður við notkun til herbergjahitunar með lausum ofnum. Því er þannig hagað, að fyrir notkun umfram áætlaða ljósa- og suðunotkun er kwst.-gjaldið hækkað. Verðið er sem hér segir:

Í Rvík eru greiddir 19 aurar pr. kwst. (fyrsta notkun), á Akureyri 20 aurar, í Sandgerði 36 aurar, á Selfossi 27 aurar, í Þykkvabæ 30 aurar, á Grenjaðarstað 30 aurar og á Akranesi 30 aurar. Auk þess er herbergisgjald, sem grípur hér inn í. Í Rvík er það 2 kr. af hverju herbergi, á Akureyri 20 aurar af fermetra gólfflatar, í Sandgerði 6 kr. af fyrsta herbergi og kr. 3,60 af öðrum herbergjum, á Selfossi 5 kr. af fyrsta herbergi og 3 kr. af öðrum herbergjum, á Grenjaðarstað og á Akranesi er gjaldið hið sama og á Selfossi, og á Akranesi er gjaldið 4 kr. af hverju herbergi.

Loks er verð á rafmagni til húshitunar. Rafmagn til fullrar húshitunar er selt um sérmæla og einungis til fasttengdra tækja, sem straumur er tekinn af á vissum tímum með klukkurofum. Við daghitun er straumurinn rofinn á tímum mesta álags rafveitnanna um hádegið og síðdegis. Við næturhitun er straumurinn rofinn frá kl. 8 á morgnana til kl. 11 á kvöldin. Verðið er sem hér segir:

1. Daghitun: Í Rvík 9 aurar á kwst., á Akureyri 10 aurar, í Sandgerði 16,8 aurar, á Selfossi 12 aurar, í Þykkvabæ 15 aurar, á Grenjaðarstað 15 aurar og á Akranesi 12 aurar.

Sandgerði er hér hæst, og stafar það af 20% álaginu.

2. Næturhitun: Í Rvík 3,7 aurar á kwst., á Akureyri 5 aurar, í Sandgerði 6 aurar, á Selfossi 4 aurar, í Þykkvabæ 5 aurar, á Grenjaðarstað 5 aurar og á Akranesi 5 aurar.

Nú hefur eingöngu verið spurt um rafmagnsverð í sambandi við vatnsraforkustöðvar, en þótt ekki hafi verið um það spurt, skal ég til fróðleiks lesa til samanburðar raforkuverð í þeim kaupstöðum landsins, sem hafa olíurafstöðvar, en verð til lýsingar um sérmæli er þar sem hér segir:

Í Neskaupstað kr. 1,50 á kwst., í Stykkishólmi kr. 1,50, á Flateyri kr. 1,50, í Hrísey kr. 2,00, í Dalvík kr. 1,80, á Eskifirði kr. 1,75.

Ég held, að það sé ekki öllu meira, sem ástæða sé til að svara í sambandi við þessa fyrirspurn.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir góð svör, en vildi aðeins spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvað valdi því, að Sandgerðisbúar einir hafa farið þá leið að leggja meira á rafmagnið, en aðrir.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Ég held, að sú ákvörðun Sandgerðisbúa að nota einir sér þessa heimild að hækka gjaldið um 20% sé eingöngu byggð á því, að þeir vilji tryggja þetta fyrirtæki, koma fótum undir það, því að sá afgangur, sem verður af rekstri veitunnar, rennur allur í varasjóð fyrirtækisins, en varasjóðnum á að verja bæði til aukningar og útbreiðslu kerfisins, ef þess þykir með þurfa, og einnig til þess að standa undir fyrningum og uppbyggingu stöðvarinnar, þegar hún eða ýmsir einstakir liðir hennar fara að ganga úr sér. Ég held, að þetta sé m.ö.o. búmannsráðstöfun þeirra í Sandgerði til þess að tryggja rekstur fyrirtækisins í framtíðinni.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég álít rétt. að borgararnir viti, hvað menntastofnanirnar kosta, og þess vegna hef ég borið fram þessa fyrirspurn. Málið skýrir sig að öðru leyti sjálft, og vænti ég að fá svör við þessari spurningu.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Þessari fyrirspurn er fjmrh. ætlað að svara, og mun ég leitast við að leysa úr því, sem óskað er, eftir minni beztu getu. Svör mín eru miðuð við skólaárið 1947, og er reiknað út, hvað hver nemandi kostar ríkið á þessu skólaári, miðað við meðalkostnað á nemanda í þeim skóla, sem hann stundar nám við. Stofnkostnaður skólanna er ekki reiknaður með.

Meðalkostnaður við hvern nemanda við háskólann er 3.888 kr., við Menntaskólann í Rvík 2.500 kr., við Menntaskólann á Akureyri 2.600 kr., við bændaskólann á Hvanneyri 8.000 kr., við stýrimannaskólann 2.500 kr., við kennaraskólann 4.000 kr., við Eiðaskóla 2.700 kr., við Núpsskóla 1.000 kr., við Laugarvatnsskóla 1.300 kr., við Flensborgarskóla 1.700 kr., við Gagnfræðaskólann á Ísafirði 1.200 kr. Kvennaskólinn í Reykjavík er með 162 nemendur. Heildarkostnaður er 97.200 kr. Meðalkostnaður fyrir hvern nemanda er 600 kr. Húsmæðraskólinn í Reykjavík telur 90 nemendur. Heildarkostnaður er 60.302 kr. Meðalkostnaður fyrir hvern nemanda er 670 kr. Húsmæðraskólinn á Laugum hefur 18 nemendur. Heildarkostnaður 57.081 kr. Meðalkostnaður á nemanda 3.171 kr. Iðnskólinn í Reykjavík hefur 854 nemendur. Heildarkostnaður er 124.500 kr. Meðalkostnaður á nemanda er 145 kr.

Hér er víst fylgt þeirri röð, sem var í fyrirspurninni. Þess skal getið, að í þeirri skýrslu, sem ráðuneytið útfyllti, hefur ekki verið sundurliðaður kostnaður við háskólann eftir deildum, heldur tekinn í heild. Ef hv. fyrirspyrjandi óskar slíkrar sundurliðunar, t.d. fyrir sig sjálfan, er sennilega hægt að leggja hana fram. Ég skal játa, að mér var ekki afhent nein skýring á því, hvers vegna var ekki fylgt því fyrirkomulagi, sem í fyrirspurninni er, að taka hverja deild út af fyrir sig.

Af þessari skýrslu sést, að Iðnskólinn í Rvík hefur tekið langminnst fé á hvern nemanda úr ríkissjóði allra skóla þeirra, sem hér er um að ræða. Hins vegar það, að bændaskólinn á Hvanneyri er hæstur. Þegar tillit er tekið til aths., sem fylgir, um viðhaldskostnaðinn, er hann með um 8 þús. kr. á hvern nemanda. Þessu næst koma kennaraskólinn og Húsmæðraskólinn á Laugum. Aftur er svipaður kostnaður á nemanda í Núpsskóla, Laugarvatnsskóla, Flensborgarskóla og Gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Og ekki er mikill munur á kostnaði á nemanda í Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum á Akureyri og hins vegar Eiðaskóla.

Ég ætla, að með því, sem hér hefur verið fram talið, sé þessari fyrirspurn svarað. Læt ég útrætt frá minni hálfu um málið með tilvísun til þeirrar aths., sem ég beindi aðallega til hv. fyrirspyrjanda varðandi kostnað við hverja deild háskólans.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Hæstv. ráðh. hefur nú svarað þessu bæði skörulega og ýtarlega. Ég sé ekki ástæðu til að óska eftir sundurgreiningu á fyrsta liðnum, vegna þess að það skiptir engu verulegu máli. Ég álít þessa skýrslu hæstv. ráðh. mjög fróðlega, ekki svo mjög fyrir augnablikið, heldur ef koma skyldi til þess að endurskipuleggja okkar skólakerfi. Eins og hæstv. ráðh. benti á, er það að sjálfsögðu ekki rétt að taka til greina viðhaldið á Hvanneyri, því að það er hvergi talið annars staðar. En það var líka leiðrétt. Ég skal taka það fram, að kvennaskólinn í mínu kjördæmi var allra kvennaskóla ódýrastur, — kannske ekki eins og hér í Reykjavík —, þangað til nýju lögin komu. Það er þess vert fyrir hv. þm. að fara að fylgjast með, hvaða breyt. skólalöggjöfin frá 1946 hefur í för með sér kostnaðarlega. Og það, sem hefur komið í ljós við iðnskólareksturinn, sem að vísu er nokkuð sérstaks eðlis, bendir á, að það mundi kannske hægt að endurskipuleggja skólana á þann hátt, að þeir verði ekki algerlega háðir ríkinu, bæði gagnfræðaskólar og héraðsskólar. Það var verið að biðja um fjárveitingu til Iðnskólans í Reykjavík, sem þótti nokkuð há, en ég held ég verði að vera með henni til að verðlauna þennan ódýra skóla.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég hef spurt um fjárskiptin í Eyjafirði og Skagafirði. Okkur, sem stöndum að fjárskiptum í sýslum norðanlands, þykir miklu skipta, hvernig fer um þetta mál. Vænti ég, að hæstv. ríkisstj. muni svara þannig, að það gleðji hana, að fjárskiptin séu látin fara fram.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Herra forseti. Um fyrsta liðinn er það að segja, að í haust er leið fór fram atkvgr. á umræddum svæðum um væntanleg fjárskipti og niðurskurð á þessu ári. Þetta var fellt, að nokkru leyti af ónógri þátttöku og að nokkru leyti af neikvæðri þátttöku. Nú hefur fyrir tilstilli sauðfjársjúkdómanefndar verið ákveðið að láta fara fram endurtekna atkvgr., til þess að fá skýrt úr því skorið, hvort vilji sá, sem áskilið er í l. um fjárskipti, að sé fyrir hendi, sé þarna til. Er beðið eftir þeirri niðurstöðu.

Um 2. spurninguna er það að segja, að ég geri ekki ráð fyrir, að neitt frv. verði borið fram á þessu þingi, sem breyti um lagaákvæði, sem nú gilda.

3. spurningunni vil ég svara eins og maðurinn, sem varð á vegi langferðamanns, sem bað hann um að útvega sér snærisspotta, sem hann þarfnaðist. Sá, sem fyrir beiðninni varð, svaraði: Fyrst og fremst á ég engan spotta, og þótt ég ætti spotta, þá léti ég hann ekki. Ég mun ekki fyrirskipa fjárskipti, ef atkvgr., sem nú stendur yfir, fer öðruvísi en margir vænta, þannig að hún verður neikvæð. Og enda þótt ég ætlaði að gera það, þá mundi ég ekki svara á þá leið, því að það mundi hafa óheppileg áhrif á atkvgr.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég læt svar hæstv. ráðh. nægja og þarf ekki að taka til máls.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég tel mikils virði, að ríkisstj. gefi skýrslu nokkra um þau atriði, sem ég spyr um. Það standa náttúrlega vonir til, að stöð þessi verði að miklu gagni í framtíðinni. Ég tel rétt að fá að vita, hvað landbrh. hugsar sér að þetta verði í stórum stíl og hver verkefni stöðinni eru ætluð.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Samkv. upplýsingum frá húsameistara er búið að leggja 2.133.714 kr. til byggingarframkvæmda við tilraunastöðina á Keldum fram til 21. marz 1949. Um s.l. áramót hafði Rockefeller-sjóðurinn í New York lagt fram 137.500 dollara. Er þetta fé til áhaldakaupa og til að kaupa byggingarefni ýmiss konar. Enn fremur höfðu verið yfirfærðar í íslenzkum gjaldeyri 50 þús. dollarar af áðurgreindri upphæð til greiðslu á byggingarkostnaði.

Þá er 3. spurning. Rockefeller-sjóðurinn gaf tilraunastöðinni á Keldum s.l. ár 50 þús. dollara til viðbótar fyrri gjöf sinni, sem var alls 150 þús. dollarar, og verður það fé notað smám saman á næstunni til að ljúka við að koma stofnuninni í það horf, sem þarf að vera.

4. spurning. Tilraunastöð háskólans á Keldum hefur starfað um fjögurra mánaða skeið, og sést á því, að stofnunin er orðin nothæf. Ekki er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram meira vegna stofnkostnaðar. Er ætlað, að það, sem eftir er ógreitt af framlagi Rockefellersjóðsins, nægi til að ljúka við innréttingar, byggja áburðargryfjur, setja upp brennsluofn o. fl., sem enn er ógert.

Um 5. spurninguna er það að segja, að ráðgert er að ráða ekki að svo stöddu fleira fólk við stofnunina en nú er. Það er einn forstöðumaður, sem hefur 11 þús. kr. í grunn, tveir sérfræðingar með 10.200 kr. í grunn, einn aðstoðarmaður við vefjarannsóknir, sem hefur 7.200 kr. í grunn, tvær aðstoðarstúlkur, hvor með 5. þús. kr.; einn ráðsmaður með 7.800 kr., einn vinnumaður með 6 þús. kr.; og einn maður enn, sem er dýrahirðir og bílstjóri, sem hefur 6 þús.: kr. í grunnlaun.

Þetta er sá starfsmannafjöldi, sem samþ. var af menntmrn. og fjmrn. að leggja stofnuninni til, eftir mjög ýtarlegar rannsóknir og viðtöl við alla aðila um það, hvað minnst muni þurfa til þess, að stofnunin geti farið af stað. Það voru uppi till. um að ráða nokkra fleiri, en þetta var samþ.

Þá er 6. spurning, um verkefni stöðvarinnar fyrstu fimm árin.

Helztu verkefni tilraunastöðvar háskólans á Keldum eru sem stendur: 1. Að komast að eðli og útbreiðsluháttum þurramæði í sauðfé. 2. Að gera tilraunir með bóluefni gegn garnaveiki í sauðfé. 3. Rannsóknir á júgurbólgu í kúm. 4. Rannsóknir á afleiðingum eitrunar frá Heklugosi. 5. Rannsóknir á þýðingu sjaldgæfra steinefna í fóðri íslenzks búfénaðar. 6. Rannsóknir á súrheyseitrun og Hvanneyrarveiki í sauðfé. 7. Rannsóknir á hænsnatyphus í hænsnabúum, til að aðstoða við útrýmingu, þegar þess er óskað. 8. Rannsóknir á coccidiose í kjúklingum og dreifing á lyfi gegn þeirri plágu. 9. Framleiðsla á bóluefni gegn lungnapest. 10. Framleiðsla á bóluefni gegn lambablóðsótt. 11. Framleiðsla á serum gegn lambablóðsótt. 12. Dreifing á ormalyfi til bænda. 13. Rannsóknir á bráðadauða í kúm. 14. Tilraunastöðin hefur verið tilnefnd til að taka af Íslands hálfu þátt í alþjóðlegum epidemiologiskum rannsóknum á inflúenzu, sem fram fara í flestum löndum á vegum Sameinuðu þjóðanna. 15. Tilraunastöðin mun, þegar svo ber undir, taka að sér einstök verkefni varðandi sjúkdóma í mannfólki, ef starfsskilyrði þykja þar hentugri til slíks, t.d. hefur hún fengizt nokkuð við athuganir á lömunarfaraldri á Akureyri, sem nú er nýafstaðinn.

Þetta eru þau atriði, sem forstöðumaðurinn hefur séð ástæðu til að taka fram í svari sínu til ráðuneytisins. Sést greinilega á þessu, að ekki skortir verkefnin.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég þakka fyrir þessi svör. Þau eru allýtarleg, það sem þau ná. Mér fannst rétt, að Alþingi fengi nokkuð að segja um þetta. Það er og gott að hafa þessar upplýsingar fyrirliggjandi til samanburðar eftir nokkur ár um það, hverju af þessu hefur tekizt að koma í verk. Ég vildi og óska frekari skýringa, hvort þessi nýja stofnun á að notast við ormaveikimeðal frá Dungal og einnig bóluefnisgerð Dungals, — hvort sú stofnun, sem Dungal veltir forstöðu, hættir sínu starfi. (Menntmrh.: Það er ekkert um það í fyrirspurninni. — Atvmrh.: Það mun ekki verða fyrst um sinn.) Svo að Dungal á þá að halda áfram með sitt!

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi. (Áki Jakobsson): Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa fyrirspurn. En eins og menn muna, hafa oftar en einu sinni komið til umræðu í blöðum slys og aðrir óvenjulegir atburðir í sambandi við flugvélar, sem ýmist voru að fara af stað eða koma. En ekki hafa fengizt opinberlega nægilega skýrar hugmyndir um þetta, svo að ég óska að fá upplýsingar um, hve mikil brögð hafa verið að slíkum misfellum og hvað gert hafi verið í málinu.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Ég er ekki persónulega nákunnugur þessum málum. En skýrsla, sem ég hef í höndum, virðist benda á, að ekki sé ástæða til að telja, að mikið hafi verið um slys þarna í sambandi við þjónustu á vellinum. Vil ég þá leyfa mér að lesa upp skýrsluna.

„TF-ISH (Flugfélag Íslands h/f) 1/11 1948. Flugvélin rann út af braut í hálku, er hún var að aka í flugtaksstöðu á brautinni. Vinstri hjólaumbúnaður skemmdist, vinstri vængur, mótor og skrúfa, einnig miðburðarbiti í búknum (centre section). Málið er í rannsókn og liggur nú í dómsmálaráðuneytinu.

F-BAZQ (Air France) 27/11 1948.

Flugvélin stóð fyrir framan flugstöðvarbygginguna, og voru farþegar að fara út úr henni, þegar eldur kom upp í farþegarúminu (klefanum). Gekk greiðlega að koma öllum farþegum út, og urðu engin slys á mönnum. Tókst að ráða niðurlögum eldsins, en flugvélin skemmdist talsvert, aðallega efri hluti búksins, og allur umbúnaður á farþegaklefa gereyðilagðist.

Gert var við flugvélina af Lockhead Aircraft Corp., og er hún nú að verða flugfær aftur. Engin rannsókn hefur farið fram um upptök eldsins. Álitið er að kviknað hafi út frá rafmagni.

G-AHNN (British South American Airways) 31/12 1948.

Flugvélin fékk á sig snögga vindhviðu, er hún var að aka eftir einni akstursbrautinni. Fór flugvélin út af brautinni með bæði framhjólin, og skemmdist við það einn hreyfillinn og loftskrúfan. Einnig mun hjólaumbúnaður hafa laskazt eitthvað. Nokkur hálka mun hafa verið á brautinni. Gert var við flugvélina hér, og flaug hún síðan á þrem hreyflum til Bretlands. Flugvélar af þessari gerð hafa reynzt hinir mestu gallagripir, og hefur brezka flugmálastjórnin bannað notkun þeirra nema til birgðaflutninga til Berlínar. Engin rannsókn hefur farið fram um orsök slyssins.

G-AGJP (British Overseas Airways Corp.) 24/2 1949.

Flugvél þessi reyndi fyrst aðflug og lendingu með aðstoð radarblindlendingatækja. Lendingin misheppnaðist, og tók flugvélin niðri fyrir utan brautina með annað hjólið, um leið og flugmaður hóf hana á loft aftur. Við þetta skemmdist vinstri hjólbarði, og varð áhöfnin vör við skemmdirnar. Voru því viðhafðar sérstakar varúðarráðstafanir af hálfu flugvallarins, með því að fleiri slökkviliðsbifreiðar voru hafðar til taks (tvær), fleiri slökkviliðsmenn og aðvörun send til sjúkrahússins. Svo illa vildi til, að önnur slökkviliðsbifreiðin festist í snjóskafli í brautarbrúninni, er hún var að aka út af brautinni, og stóð framendi hennar lítið eitt inn á brautina. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að losa bifreiðina áður en flugvélin lenti, og rann flugvélin út að vinstri brautarbrúninni og lenti á bifreiðinni. Sökum þess að vinstri hjólbarði flugvélarinnar var sprunginn, leitaði flugvélin til vinstri, eftir að hún var lent, og tókst flugmanninum ekki að halda henni á miðri braut. Skemmdir urðu á ytri hreyfli vinstra megin, og einnig skemmdist vinstri vængur allmikið. Rannsókn er hafin í máli þessu, en ekki lokið.

Þess ber að geta, að engin slys hafa orðið á mönnum vegna framangreindra óhappa. Loftferðaeftirlitið hefur með aðstoð sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og fulltrúa hans á Keflavíkurflugvelli rannsakað öll þau slys, sem fyrrnefndum aðilum hefur verið tilkynnt um.

GF-TFN (Trans-Canada Airlines) 10/1 1949, kl. 23.30.

Flugvél þessi rann í lendingunni á eitt brautarljósanna, og skeði ekki annað en að ljósið eyðilagðist, jafnframt því að annar vinstri hjólbarðinn skemmdist.

VH-TAO (Trans Australia Airlines) 11/1 1949, kl. 00.30.

Flugvél þessi rann í lendingunni út af flugbrautinni og skemmdist allverulega. Það mun þó verða gert við flugvélina hér, en aðalskemmdir eru á vinstri væng, vinstri hjólaumbúnaði, nefhjóli og vinstri hreyfli. Rannsókn hefur farið fram um orsök slyssins, og virðist hún í höfuðdráttum vera þessi: Mikill skafbylur var, er flugvélin lenti, og skyggni vart meira en 1/4 mílu. Hugsanlegt er, að brautin hafi verið mishál og að það hafi orsakað eitthvað um, að flugvélin fór út af brautinni. Um leið og flugvélin lenti, kom snögg vindhviða á hægri hönd, sem þyrlaði snjóskýi upp fyrir framan flugvélina, og hefur það blindað flugmanninn og ef til vill hrakið flugvélina til vinstri.

USAF-5498 (United States Army Airforce) 18/1 1949.

Flugvél þessi mun hafa lent allharkalega, og sprungu við það þrír hjólbarðar; engar aðrar skemmdir urðu á flugvélinni, og hélt hún áfram ferð sinni, þegar búið var að skipta um hjólbarðana. Engin rannsókn hefur farið fram.“

Undirskrifað Haukur Claessen.

Fyrirspyrjandi (Áki Jakobsson): Ég þakka fyrir þessar upplýsingar. Ég býst við, að allir muni sammála um, að eitthvað sé hér í ólagi, þegar svona mörg slys geta átt sér stað. Rétt er það, að engir hafa orðið mannskaðar, en það er hins vegar tilviljun. T.d. komu tvö slys fyrir svo að segja samtímis, 10. og 11. janúar, með svo að segja klukkutíma millibili. Og það var hrein tilviljun, að ekki varð af stórslys. Þeir eru með bíla hingað og þangað um brautir og hafa ekki samband úr flugturninum, af því að talstöðvarbíllinn er í ólagi, svo að þeir vita ekki, hvar bílarnir standa, þegar þeir gefa flugvélinni merki um að setjast. En bíllinn sat þá fastur í fönninni, og slysið varð fyrir það, að sveigt var hjá bílnum. Mér finnst mjög einkennilegt það, sem hæstv. ráðh. sagði, að engin rannsókn hefur farið fram og ekki hafi verið talin ástæða til slíks. Við vitum, að ekki mega verða miklir árekstrar meðal bíla eða skemmdir á þeim, svo að ekki fari rannsókn fram; það er talið nauðsynlegt að staðfesta, hvað hefur skeð. Það væri fróðlegt að vita, hver það er, sem ákveður, hvort rannsókn skuli fara fram á óhöppum og mistökum á flugvellinum, hver fær skýrslurnar og hver ákveður, hvort ýtarlegri rannsókn eigi að fara fram eða ekki. Ég er mjög hræddur um, að þessi slys hljóti að verða til þess, að Keflavíkurflugvöllur verði ekki talið öruggt lendingarsvæði.

Ég fékk þær upplýsingar, að hált væri á Reykjavíkurflugvellinum, en aftur á móti væri búið að sandbera Keflavikurflugvöllinn, en þegar til kom, var þar flughált, og rann flugvélin á hliðina. Ekkert slys hlauzt af þessu, en það hefði getað orðið, og sýnir þetta ófyrirgefanlegan trassaskap hjá þeim, sem þar stjórna þessum málum, enda er sagt, að félagið, sem þar hefur umsjón nú, hafi fengið það með því að bjóða niður önnur félög. T.d. er aðeins einn maður á vakt í flugturninum, og mun eitt slys hafa orðið af því, að hann gat ekki sinnt flugvél, sem var að lenda, og þó að ekkert slys hlytist af því, þá er slíkt óforsvaranlegt og verður að taka alvarlegum tökum. Ég vil svo spyrja hæstv. ráðh., hvaða ákvörðun hafi verið tekin í þessu efni og hvort rannsókn eigi að fara fram eða ekki.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Mér heyrðist hv. þm. vita eitt og annað um þetta mál og meira en ég veit, en það er varhugavert að fara eftir því, sem slúðrað er, en viti hann eitthvað fyrir víst í þessu efni, væri æskilegt, að hann léti ráðuneytinu þær upplýsingar í té. En eins og ég sagði áðan, hafa þeir, sem þessum málum stjórna, ekki getið þess, að ekki væri allt með felldu í þessum efnum. Rannsókn hefur farið fram í öll skiptin nema tvísvar, því þó að allt liggi ljóst fyrir um ástæðuna, verður rannsókn að fara fram vegna trygginganna. Annars hvílir þetta á loftferðaeftirlitinu, sem á að hafa eftirlit með þessu, hvort ástæða þykir að fyrirskipa sérstaka rannsókn, en það á að afla sér upplýsinga hjá fulltrúa sínum á vellinum. Óski eftirlitið eftir sérstakri rannsókn, lætur ráðuneytið hana að sjálfsögðu fara fram.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson): Herra forseti. Ég vildi varpa fram þeirri athugasemd, hvort ekki væri rétt að haga því eins með flugslys eins og sjóslys, að um þau fjallaði sérstakur réttur, en þegar um slys á sjó er að ræða, fjallar sjóréttur um þau, en hann er samansettur m.a. af kunnáttumönnum í þessum málum. Ég held, að hér fari fram rannsókn á flugslysum, þó að ekki sé um banaslys að ræða, og þessi rannsókn fer fram hjá sakadómara og það að því er virðist án þess, að menn með flugkunnáttu fjalli þar um. Ég vil því varpa fram þeirri uppástungu, að sérstökum rétti verði falið að fjalla um öll flugslys og það með hjálp kunnáttumanna í þessum efnum. Ég veit ekki, hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum þjóðum, en ég vil vekja athygli á þessari uppástungu og þykir ósennilegt, að slíkt mál eigi heima hjá sakadómara nema eitthvað sérstakt sé að. Mér er kunnugt um það, að eins og nú er málum háttað, þá eiga flugmenn erfitt með að fá úr því skorið, hvort þeir eiga sök á slysum, sem þeir lenda í, svo að réttindi þeirra skerðist. Það er einnig full þörf að athuga, hvernig þessum málum er háttað og fyrir komið hjá þeim þjóðum, sem hafa stundað flug lengur en við. Mér finnst því sjálfsagt, að sérstakur dómur rannsaki öll flugslys, án þess að kæra komi til greina. Það er einkum fagleg kunnátta ásamt kunnáttu í lögum, sem er líklegust til að komast næst hinu sanna í þessum málum.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Út af ræðu hæstv. fjmrh. vil ég taka það fram, að slíkt fyrirkomulag eins og hann minntist á er einmitt til athugunar í ráðuneytinu.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Um þau atriði, sem fyrirspurnin fjallar um, hefur mér borizt eftirfarandi skýrsla frá flugráði, dagsett 29. marz s.l.:

„1. Fram að 1. sept. 1947 var benzín í eigu bandarísku ríkisstj. á geymunum á Keflavikurflugvelli. Samkvæmt samningi milli eiganda benzínsins og olíufélagsins Intava tók sá síðarnefndi að sér að afgreiða það á flugvélar, er um völlinn fóru. Umboðsmenn Intava var Hið íslenzka steinolíufélag. Um þann 1. sept. 1947 var látið benzín á geymana, sem var eign Olíufélagsins h.f., og hefur félag það síðan haft á hendi afgreiðslu flugbenzíns til allra flugvéla, er um völlinn hafa farið. Sérstakur samningur er milli Esso Export Corporation og bandarísku ríkisstj. um það, að það félag eða umboðsmenn þess hér (OIíufélagið h.f.) afgreiði benzín á allar flugvélar á vegum bandarísku ríkisstj., er um Keflavíkurflugvöll fara.

Ætlazt er til, að Olíufélagið greiði leigu eftir geymana frá þeim tíma, að þeirra eigið benzín var látið á þá, þ.e. frá 1. sept. 1947.

2. Alls eru 12 benzíntankar við flugvöllinn. 11 þeirra eru nothæfir. Samtals taka þeir tankar, sem nothæfir eru, um 2.600 tonn af flugbenzíni.

Eigi hefur enn verið greidd nein leiga eftir tankana, en samningar standa yfir um hana. Ég skal skjóta því hér inn í skýrsluna, að enn hefur ekki alveg verið gengið frá, hve há leigan verður, en þegar er búið að greiða nokkra tugi þúsunda upp í það, og mun ég upplýsa það, ef hv. þm. óskar eftir því.

3. Þar eð ofangreindir 12 tankar eru allir í einu kerfi og aðeins ein leiðsla frá þeim til sjávar, er ekki hægt að láta fleirum en einum aðila í té afnot þeirra. — Hér vil ég bæta því við, að flugmálastjóri hefði helzt viljað skipta þessu niður, svo að fleiri félög hefðu getað haft afnot af þeim.

Olíuverzlun Íslands h.f. hefur nýlega komið fyrir 50 tonna tanka á flugvellinum og mun afgreiða af honum á flugvélar, ef sérstaklega er óskað eftir benzíni frá því félagi.

5 hráolíugeymar eru einnig við flugvöllinn, og eru þeir notaðir undir brennsluolíu Bandaríkjamanna þar á staðnum.

Fylgiskjal endursendist.

F. h. flugráðs

Haukur Claessen.

Til flugmálaráðuneytisins.“

Ég hygg, að ég geti ekki svarað þessu betur á þessu stigi málsins, þ.e. um leiguna, en vona að geta upplýst hv. þm. um það, ef hann óskar þess sérstaklega.

Fyrirspyrjandi (Áki Jakobsson): Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör þau, sem hann hefur gefið við fyrirspurnum mínum. En mér finnst, að þessir samningar gangi seint, því að þegar ég 1947 bar fram till. um endurskoðun Keflavíkursamningsins, skýrði hæstv. dómsmrh. svo frá, að þessir samningar stæðu þá yfir, svo að nokkuð hefur þetta dregizt á langinn. Þá vil ég sérstaklega spyrja hæstv. flugmrh., út af því, sem hann lýsti yfir, að Olíufélagið afgreiddi benzín til flugvéla Bandaríkjastjórnar, hvers konar ráðstafanir hafi verið gerðar af hinu opinbera, hvaða tankapláss sé notað handa flugvélum Bandaríkjastjórnar og hvaða handa prívatviðskiptaflugvélum. Ég skil ekki heldur, hvers vegna önnur félög geta ekki fengið aðgang að tönkunum með því að leggja önnur leiðslukerfi.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda, að þetta hafi dregizt nokkuð úr hófi. Ég hafði haldið, að þessu væri lokið. Það er rétt, að það verður að greina á milli afnota Bandaríkjastjórnar og annarra viðskiptavina, en það mun vera gert, þegar benzínið rennur í gegn, en á hvern hátt það er gert, veit ég ekki.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Það hefur vakið nokkurt umtal nú undanfarið, hvernig landspróf væru framkvæmd og hvaða kostnaður væri af þeim, og ber ég því fram þessa fyrirspurn, ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa þetta mál.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Samkv. upplýsingum ríkisbókhaldsins segir: Hinn sérstaki kostnaður, sem miðskólapróf (landspróf) hefur haft í för með sér umfram þann prófkostnað, sem áður var, er þóknunin til landsprófsnefndarmanna, 9 að tölu auk formanns. Árið 1948 voru hverjum nefndarmanni goldnar 600 kr. í þóknun, en formanni 3.000 kr. Árið 1947 var þóknun nefndarmanna 600 kr. til hvers, en greiðsla til formanns 5.000 kr. Árið 1946 fengu nefndarmenn einnig 600 kr. þóknun hver og formaður einnig 600 kr.

Landspróf 1946 mun alls hafa kostað 60.000,00 kr.

Landspróf 1947 mun alls hafa kostað 30.600,00 kr.

Landspróf 1948 mun alls hafa kostað 44.551,00 kr., eða kostnaður samtals þessi 3 ár krónur 135.151,00.

Kostnaðurinn hefur því verið mestur fyrsta árið, en það stafar af því, að þá þurfti ýmiss konar undirbúning, sem varð allkostnaðarsamur.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Ástæðan til þessarar fyrirspurnar er sú, að það hefur vakið óánægju hjá kvikmyndahúsaeigendum og þeim, sem kvikmyndahús sækja, að kvikmyndahús háskólans, Tjarnarbíó, sem nýtur ýmissa sérréttinda, hafi rekið óheppilega samkeppni við önnur kvikmyndahús og hafi boðið mikið í myndir og á þann hátt gert öðrum erfiðara fyrir. Ég hef því spurt um þetta til að fá að vita, hvað húsið hafi gefið mikið af sér brúttó og nettó síðan starfræksla þess var hafin. Þá spyr ég einnig um það, sem erfitt er að svara, hve mikið húsið hafi hækkað tilkostnað annarra kvikmyndahúsa með háum boðum fyrir notkun mynda. Og svo að lokum atriði, sem er mikils um vert, hve mikið þetta kvikmyndahús greiði forstöðumanni sínum, sem jafnframt er einn af kennurum skólans, sem árleg laun, þóknun og útgjöld við ferðir.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Mér hefur borizt eftirfarandi svar við þessari fyrirspurn frá rektor háskólans, próf. Alexander Jóhannessyni, dagsett 31. marz 1949:

„1. Brúttó- og nettótekjur hafa verið sem hér segir:

1942 brúttó kr. 383.013,50 nettó kr. 78.792,81 (frá 8. ág.).

1943 — — 1.305.161,00 — — 355.411,84

1944 — — 1.215.643,00 — — 231.063,18

1945 — — 1.239.803,23 — — 177.523,28

1946 — — 1.69.651,18 — — 408.402,69

1947 — — 1.262.260,38 — — 404.374,75

1948 — — 933.811,24 — — 277.676,27

Hér ber að geta þess, að enn er verið að af skrifa byggingarkostnað vegna breytinga hússins samkvæmt venjulegum reglum. Skemmtanaskatt greiddi kvikmyndahúsið til ársloka 1945.

2. Þessa spurningu tel ég ekki svara verða. 3. Próf. Níels Dungal átti mikinn þátt í að koma kvikmyndastarfseminni á laggirnar og hefur verið formaður stjórnarinnar frá byrjun til ársloka 1948. Hann hefur gert samninga við erlend félög og annazt bréfaskriftir öll árin. Bréfaskriftirnar m.m. hafa verið umfangsmiklar, og í byrjun var þóknun hans fyrir öll hans störf miðuð við það, að hann greiddi aðstoðarstúlku við bréfaskriftirnar helming þeirrar þóknunar, sem honum var ákveðin. Þóknun hans hefur verið sem hér segir:

1942 kr. 3.561,00 1943 — 12.300,00

1944 – 12.856,00 ferðakostnaður 6.760,90

1945 – 13.308,00

1946 – 14.052,00 1947 — 15.120,00

1948 – 14.400,00 ferðakostnaður 7.300,00.“

Þetta er allt lestur á bréfi frá próf. Alexander Jóhannessyni. Ég hef engu að bæta við um 2. spurninguna, sem rektor segir, að ekki sé svara verð. Ég hef ekki náð tali af rektor og get því ekkert frekar um þessi mál sagt, en í bréfinu stendur.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Þetta er allglögg skýrsla, svo langt sem hún nær, og til bóta að hafa fengið hana. En það er óneitanlega mikill tilkostnaður, að ágóði skuli ekki vera nema 270 þús. kr., þegar tekjur eru 900 þús. kr. Enn fremur eru það allmikil aukalaun fyrir mann, sem er á fullum launum, auk rannsóknarstofunnar, að hafa 14 –15 þús. kr. fyrir þetta starf, enda hefur rektor átt þátt í því að breyta þessu og láta próf. Dungal hætta þessu starfi. Um það atriði, sem rektor vildi ekki svara, gerir ekki svo mikið til, því að það upplýsist vafalaust öðruvísi. Mér er kunnugt um og mun skýra borgurunum frá því, hve mikið þessi stofnun skaðar önnur kvikmyndahús með óhæfilegum yfirboðum. Þetta er athugavert fyrir hæstv. ráðh. og sýnir, hvernig ríkisrekstur notar skattfrelsi sitt til óleyfilegra yfirboða. — Ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir þessar upplýsingar og mun bæta við þær síðar.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Því miður hefur ekki enn unnizt tími til að athuga þetta að fullu, en það verður tekið til athugunar.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Ég mun bíða eftir svarinu. En ástæðan til fyrirspurnarinnar er sú, að ég tel nauðsyn fyrir þm. að vita þetta til þess að geta dæmt um það, hvort fela skuli húsameistara ríkisins þetta eða bjóða út til einstakra manna .... Þetta er ekki fullsannað um eitt atriðið. Ég bendi á það, að þessi ríkisrekstur er miklu ódýrari, en einstaklingsrekstur, og í öðru lagi bendi ég á, að húsameistari ríkisins hefur sjálfur eftirlit með þeim stórbyggingum, sem hann hefur með höndum. Þetta virðist ekki gert hjá einstökum arkitektum, sem taka upp á akkorð. Þeir fá því meira, því dýrari sem byggingin er.

Samgmrh. (Emil Jónsson): Það er ein af þessum stofnunum, sem um er spurt, sem heyrir undir mitt ráðuneyti. Stýrimannaskólinn nýi sem kallaður er í fyrirspurninni, þ.e. Sjómannaskólinn, og get ég gefið þær upplýsingar strax, þótt ekki séu í svipinn tiltæk svör varðandi allar þær stofnanir, sem hér er spurt um. Umsjón með byggingunni hafði nefnd, sem til þess var skipuð, og réð hún, eða ráðuneytið, húsameistara, sem störfuðu allan tímann eða árum saman og fengu fyrir störfin samtals kr. 144.453,76. Enginn sérstakur eftirlitsmaður var ráðinn umfram húsameistarana, svo að eftirlitslaunin voru engin.

Gísli Jónsson: Mér þykir rétt í tilefni af þessum upplýsingum að minna á, er hæstv. atvmrh. var að gera veður út af því, hvað mér hefði verið greitt fyrir umsjón með togarakaupunum fyrir ríkisins hönd. Það voru 300 þús. kr., sem ég fékk fyrir umsjón með smíði 30 togara, á móti 144 þúsundum hér fyrir umsjón með smíði eins húss, og er þá ekki reiknað með því, sem greitt hefur verið fyrir teikningar hússins.

Fyrirspurnin leyfð með 28 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Nokkru af þessu hefur verið svarað áður, en þó hefur dregizt nokkuð lengi að fá fullnaðarsvör, og þessi fyrirspurn er dálítið víðtækari en fyrri fsp. Landsprófin eru nýjung hjá okkur og margir efast um gildi þeirrar nýjungar. Hér er þó aðeins spurt um tilkostnaðinn við þessi próf.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Herra forseti. Kostnaðurinn við 1. lið á þskj. var árið 1948 kr. 5.400.00. — Um 2. lið er það að segja, að mér er ekki alveg ljóst, hvort hv. þm. á við prófdómendur alls eða við prófdómendur við landspróf eingöngu. — Um það, sem spurt er um í 3. lið, eru eigi fyrir hendi nákvæmar upplýsingar, en mun vera alls röskar 300 þús. kr. Dagkaup prófdómenda er annars sama og kaup það, sem greitt er fyrir stundakennslu, og það er samkv. reglugerð frá 27. sept. 1947 sem hér segir:

Í Menntaskólanum .................. kr. 7.70 –

Kennaraskóla Íslands, vélstjóraskólanum, stýrimannaskólanum ........ — 7.20

– gagnfræða- og héraðsskólum . .. .. ... — 6.50

— íþróttakennara- og húsmæðrakennaraskólum ..........................

— 6.00 - húsmæðra- og unglingaskólum ...... — 5.25

— barnaskólum ........................ — 4.70

Orlofsfé er þarna talið með, en á þetta er svo greidd verðlagsuppbót. Annars má fá allar upplýsingar um þetta mál í reglugerð frá 27. sept. 1947, eins og ég gat um áðan. — Um 4. tölul., sem er um prófkostnað við hina ýmsu skóla 1948, er það að segja, að fræðslumálaskrifstofan hefur verið beðin að svara þessu, en hún kveðst ekki geta það enn þá, þar sem uppgjör hafi ekki borizt frá öllum skólum, en þessar skýrslur eru nú að koma, svo að vonandi verður hægt að svara þessu fljótlega.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör, og vænti, að svör til viðbótar komi bráðlega, og mætti þá einnig gefa upplýsingar um þessi mál frá 1947 og hver hafi verið kostnaður við þau þá.

Fyrirspurnin leyfð með 28 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Með fyrirspurn þessari er ætlazt til að fá því svarað, hve margir fastir menn eru nú og á síðastliðnu ári við atvinnudeild háskólans, hve margir lausir og hve kostnaður hafi orðið mikill við þetta árið 1948. Það er vitað, að atvinnudeildin hefur þanizt mikið út, og væri fróðlegt að fá upplýsingar um þá aukningu. Einnig er spurt um, hver ferðakostnaður deildarmanna hafi orðið innanlands og við utanferðir og hver árangur hafi orðið af starfi deildarinnar. Ég vildi, að það kæmi í ljós, hvort það er rétt, sem ekki er óeðlilegt að halda, hvort fjölgað hafi verið mikið við þessa stofnun án þess að ástæða sé til, en þessi stofnun á að efla atvinnuvegina, og væri því fróðlegt að fá um þetta skýr svör, hvers virði starf þessarar stofnunar er fyrir atvinnuvegi landsmanna.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Herra forseti. Í sambandi við þær spurningar, sem hér liggja fyrir og heyra undir mitt ráðuneyti, hef ég leitað til atvinnudeildar háskólans og fengið svör við fsp. á þskj. 531. Þessum svörum fylgdi eftirfarandi bréf frá Pálma Péturssyni:

„Bréf yðar dags. 11. þ. m. móttekið. Vér leyfum oss hér með að senda yður svör við fyrirspurnum á þskj. 531.

Í sambandi við svörin er rétt að taka fram: 1) Fyrirspurn nr. 1 og 3 höfum vér leyft oss að svara í einu lagi, þar sem oss er ekki ljóst, hvernig á að skipta sérfræðingum stofnunarinnar í vísindamenn og fræðimenn, og höfum því svarað báðum spurningunum með því að telja upp þá sérfræðinga, sem vinna við hverja deild.

2) Vér höfum leitað umsagnar deildarstjóra viðvíkjandi spurningum nr. 5, og fylgir hjálagt svar þeirra, ásamt svari frá sérfræðingi Sig. Péturssyni.

Virðingarfyllst

Pálmi Pétursson.

Til atvinnumálaráðuneytisins, Reykjavík.“

Hér fara á eftir svörin:

Svar við 1. og 3. lið.

Iðnaðardeild: deildarstjóri Gísli Þorkelsson ráðinn 1946

aðrir Jón E. Vestdal — 1937

sérfræðingar Bjarni Jósefsson — 1937

Sig. Pétursson — 1937

Tómas Tryggvason — 1947

Óskar Bjarnason — 1945

Haraldur Ásgeirsson — 1946

Jóhann Jakobsson — 1946

Búnaðardeild:

deildarstjóri Halldór Pálsson — 1944

aðrir Björn Jóhannesson — 1945

sérfræðingar Áskell Löve — 1945

Pétur Gunnarsson — 1939

Ingólfur Davíðsson — 1937

Geir Gígja — 1937

Kristín Kristjánsdóttir — 1948

Fiskideild:

deildarstjóri Árni Friðriksson — 1937

aðrir Hermann Einarsson — 1945

sérfræðingar Jón Jónsson — 1947

Unnsteinn Stefánsson — 1948

Hr. bónda Jakob Líndal er greitt á vegum búnaðardeildarinnar styrkur til rannsóknarstarfa, grun Þar að auki við sameiginlega stjórn stofnunarinnar ritari, 2 skrifstofustúlkur, viðgerðarmaður og húsvörður.

Svar við 4. lið:

Skv. reikningi atvinnudeildarinnar fyrir árið 1948 var kostnaður sem hér segir:

Svar við 2. Lið.

Við iðnaðardeild vinna 1 aðst.m., 5 aðst.st.

— fiskideild - 2 - 4

— fjörefnarannsóknir 1

4 aðst.m. 9 aðst.st.

a) Laun skv. launaskrá, er fylgdi ársreikningi 1948

Fastráðið

starfsfólk Lausafólk

Iðnaðard. .............. kr. 3.20591.48 13957.80 — 334549.28

Búnaðard. .............. – 2.10900.00 7458.00 — 218352.00

Fiskid. ................ — 1.96133.26 8150.00 — 214283.26

Sam. kostn. ............ – 82468.75 5962.50 — 88431.25

Fjörefnar. .............. — 26000.00 — 26000.00

kr. 881621.79

b) Húsaleiga, ...................................................... 35330.00

rafmagn, gas, ljós ................................................26316.60

— 61646.60

c) Ferðakostnaður:

Fiskid. erl. ferðakostn. .......... … Kr. 23320.75

innl. .......................................... — 32220.08

55540.83

Búnaðard. erl. ferðakostn. ......... — 5100.08

innl. ....................................... — 28370.48

33470.58

89011.41

d) Annar kostn. skv. reikn. 1948:

Iðnaðard.: Gjöld .................... — 113924.03

Tekjur ................... — 223005.39

109081.36

Búnaðard.: Gjöld ................. — 111208.72

Tekjur ................. — 33584.87

77623.85

Fiskid.: Gjöld ..................... — 122039.87

Kostn. v/flutninga …………. — 88748.17

Hafrannsóknir .................. — 508646.28

Rekstrarhalli Hestsbúsins ................................ 719433.70

—————– Engeyjarbúsins ........................... 78103.59

- Úlfarsárbúsins .............................................. 24132.32

Fjörefnarannsóknir .......................................... 64278.91

Kostn. v/undirbúnings sem.verks 8778.07

Sam. kostn.:

Gjöld ................................................. — 84658.88

Tekjur af Happdrætti Háskóla Íslands — 103545.00

Tekjur af sparisjóðsinnst. ................. — 4995.03

23881.15

— 876543.32

Rekstrarhalli samtals kr. 1908823.12

Framlag ríkissjóðs 1948 ......................................... kr. 2031595.72

- ágóðahluti af happdrætti Háskóla Íslands.. 103545.00

- Matvælaeftirlitið ...................................... 86320.00

189865.00

Fasteignamat Engeyjar fært til jafnaðar….. 1841730.72

Mism. fasteignamats Eyrargötu 8, Siglufirði 51100.00

áhvílandi veðláns fært til jafnaðar……. 2350.00

1895180.72

Eignarýrnun á árinu 1948 ............................................ 13642.40

Kr. 1908823.12

Hér kemur svo svar iðnaðardeildar við spurningunni:

„Hefur orðið sýnilegur árangur af starfi deildarinnar eða einstakra vísindamanna, sem starfa þar, og í hverju er sá árangur fólginn?“

Verksvið iðnaðardeildar er fjölþætt, en í framkvæmd má skipta því í tvo meginþætti, þ.e.:

I. Rannsókn á aðsendum sýnishornum.

II. Sjálfstæð rannsóknarefni.

I. Rannsóknir á aðsendum sýnishornum hafa hingað til krafizt meginhluta starfskrafta deildarinnar. Þessar rannsóknir eru fyrst og fremst þjónusta í þágu iðnaðarins og annarra verklegra framkvæmda í landinu. Hinn sýnilegi árangur af þessum rannsóknum kemur að jafnaði ekki almenningi fyrir sjónir, og verða þær því að metast eftir þörfinni fyrir slíkar rannsóknir og hvernig henni er fullnægt. Stöðugur vöxtur iðnaðar og annarra verklegra framkvæmda undanfarið gerir vaxandi kröfur til þessa hluta starfseminnar. Eftirfarandi flokkun á aðsendum sýnishornum getur gefið nokkra hugmynd um nauðsyn og gildi þessara rannsókna:

1. Almennar efnarannsóknir:

a) Fóðurefnarannsóknir, gerðar fyrir búnaðardeild í sambandi við fóðurtilraunir og fóðureftirlit eða fyrir tilraunastöðina á Sámsstöðum í sambandi við ræktunartilraunir o.fl.

b) Efnarannsóknir á útflutningsafurðum, svo sem síldarmjöli, síldarlýsi og fiskimjöli til útflutnings. Þess er jafnaðarlega krafizt í samningum, að vottorð frá opinberri efnarannsóknarstofnun fylgi hverjum farmi.

c) Vatnarannsóknir, ýmist á vatni til neyzlu eða iðnaðar. Deildin hefur m.a fylgzt með ketilvatni varastöðvarinnar við Elliðaár frá byrjun hennar.

d) Rannsóknir á eldsneyti, benzíni og smurningsolíu, sem hafa vaxandi þýðingu vegna flugsins og aukins vélakosts í landinu.

e) Rannsóknir fyrir yfirvöldin í sambandi við sakamál og slysfarir.

f) Ýmsar rannsóknir, svo sem á hráefnum til iðnaðar, salti, frostvara á bíla o.fl., verzlunarvörum, auk ýmiss konar ráðgjafastarfsemi.

2. Gerla og mjólkurrannsóknir. (Sjá greinargerð Sig. Péturssonar.)

3. Matvælarannsóknir. Varðandi matvælarannsóknir, sem framkvæmdar eru vegna matvælaeftirlitsins, verður að vísa til landlæknis eða heilbrstj.

4. Byggingarefnisrannsóknir.

a) Rannsókn á möl og sandi til byggingar. Byggingarefni með röngum hlutföllum á milli kornastærða eru óheppileg eða óhæf til notkunar. Einföld rannsókn gefur til kynna, hvers konar efnum eigi að blanda saman til þess að fá þau góð.

b) Prófun á brotþoli steinsteypu. Með stöðugu eftirliti með brotþoli steypu má koma í veg fyrir, að of veikt sé byggt.

c) Rannsókn á bindiefnum til byggingar og vegagerðar.

d) Rannsókn á steinefnum til byggingar og vegagerðar.

e) Rannsókn á einangrunarefnum.

f) Ráðgjafastarfsemi í þágu byggingariðnaðarins.

5. Jarðfræðirannsóknir.

a) Borkjarnarannsóknir fyrir jarðboranir ríkisins, einkum í sambandi við boranir eftir heitu vatni og gufu.

b) Jarðfræðilegar rannsóknir í sambandi við jarðgöng við Sogsvirkjunina.

c) Jarðfræðileg ráðgjafastarfsemi.

Il. Sjálfstæð rannsóknarefni:

1. Innlend einangrunarefni.

Kerfisbundnar mælingar á einangrunarhæfileika og styrkleika innlendra einangrunarefna. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa verið notaðar við framleiðslu á einangrunarefnum hér.

2. Manneldisrannsóknir.

Auk matvælarannsókna vegna heilbrigðiseftirlitsins hefur iðnaðardeild gert efnarannsóknir á matvælum fyrir manneldisráð, og voru niðurstöður þeirra notaðar við rannsókn á mataræði Íslendinga.

3. Neftóbaksgerð.

Árið 1940 voru í iðnaðard. gerðar tilraunir með vinnslu neftóbaks, er líktist neftóbaki frá Brödrene Braun, með þeim árangri, að sama ár var hafin framleiðsla á innlendu neftóbaki að fyrirsögn forstjóra iðnaðardeildar. Stríðsárin var allt neftóbak framleitt hér á landi, og eftir stríðið var því haldið áfram, þar sem bæði líkaði íslenzka neftóbakið betur en það innflutta og var ódýrara. Líklegt er, að beinn hagnaður ríkissjóðs af neftóbaksgerðinni frá byrjun hafi numið milljónum króna, auk mikils gjaldeyrissparnaðar.

4. Hraðfrystur fiskur.

Ýmis vandamál í sambandi við fiskfrystingu og geymslu á hraðfrystum fiski hafa verið tekin fyrir og rannsökuð eða leyst í samvinnu við fiskmatið.

5. Hvera- og laugavatn.

Kerfisbundnar rannsóknir á hveravatni hafa verið framkvæmdar á vatni úr nær öllum helztu hverasvæðum landsins. Niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir í handriti að skýrslu iðnaðardeildar fyrir árið 1945–1946.

6. Kennsla við háskálann.

Árin 1937–46 var kennsla í efnafræði framkvæmd af forstjóra iðnaðardeildar, auk annarra starfa við deildina.

7. Mórannsóknir.

Víðtækar rannsóknir hafa verið gerðar á hitagildi og öskuinnihaldi í mó sunnan- og vestanlands. Rannsóknir þessar voru gerðar fyrir Rannsóknaráð ríkisins.

8. Sementsverksmiðja.

Undirbúningur að byggingu sementsverksmiðju hefur verið framkvæmdur af starfsmönnum iðnaðardeildar. Í því sambandi vísast til grg. með frv. til l. um sementsverksmiðju s.l. ár.

9. Lýsisherzluverksmiðja.

Undirbúningur að byggingu lýsisherzluverksmiðju var fyrst hafinn í iðnaðardeild. Árið 1947, er sá undirbúningur var allvel á veg kominn, var stjórn Síldarverksmiðja ríkisins falið að halda honum áfram. Gögn öll varðandi þetta mál voru þá afhent stjórn síldarverksmiðjanna.

10. Biksteinn.

Bráðabirgðaathugun hefur farið fram á því, hvort biksteinn finnist hér á landi, og hefur hann fundizt á Austurlandi. Undirbúningur er hafinn að rannsókn á magni hans og útbreiðslu næsta sumar. Biksteinn getur orðið mikil útflutningsvara, ef nægilegt magn finnst og er aðgengilegt.

11. Heklurannsóknir.

Efnarannsóknir voru gerðar á ýmiss konar gosefnum úr síðasta Heklugosi. Hafa m.a. fengizt allgóðar upplýsingar um, hvernig flúor breiðist út af völdum gossins. Niðurstöður verða birtar ásamt öðrum gögnum, sem aflað hefur verið um þetta gos.

12. Niðursuðumat.

Frjálst mat á niðursuðuvörum til útflutnings hefur verið framkvæmt á meiri hluta þeirra niðursuðuvara, sem fluttar hafa verið út síðan í ársbyrjun 1948.

Atvinnudeild Háskólans,

lðnaðardeild.

Gísli Þorkelsson.

Gerla- og mjólkurrannsóknrir.

A) Aðsend sýnishorn 15/9–31/12 1948:

8.679 sýnishorn, mest vegna mjólkureftirlitsins. Um árangur þeirra rannsókna vísast til þeirra, sem eftirliti þessu stjórna.

B) Sjálfstæðar rannsóknir. Helztu viðfangsefni:

1. Rannsakaður gerlagróður skyrsins, gerður hreinræktaður þéttir til skyrgerðar og skyrgerðaraðferðir endurbættar.

2. Fundin orsök að málmbragði að gerilsneyddu mjólkinni í Reykjavík.

3. Gerðar efnarannsóknir á íslenzkri kúamjólk og fylgzt með breytingum á efnasamsetningu hennar í heilt ár.

4. Gerðar athuganir á kalsíum- og fosfórmagni í íslenzku kúafóðri með tilliti til sjúkdóms í kúm, er einkum gerði vart við sig í Eyjafirði.

5. Prófaðar ýmsar aðferðir við votheysgerð, m.a. reynt að bæta í heyið mysu og maís.

6. Rannsakaður gerlagróður í nýveiddum þorski og síld. Niðurstöður rannsóknanna hafa verið birtar í skýrslum iðnaðard. 1938–1944 og í eftirtöldum ritgerðum:

Die Milshwirtschaft auf Ísland (MolkereiZeitung Hildesheim 52. nr. 17 1938).

Málmbragð af mjólk (Freyr 34. bls. 110. 1939). Die Míkroben im islöndischen Speisequark

(skyr) (Vorratspflege und Lebensmittelforschung Band III, S 122. 1940).

Um skyr og skyrgerð (Freyr 35. bls. 146. 1940). Kalzium und Phosphor im Futter isländischer Milchkühe (Greinar II, 2., Afmælisrit Vísindafélags Íslendinga 1943).

Votheysgerð (Tímarit V.F.Í. 28. ár. bls, 46. 1944).

Gerlar í fiski (Ægir bls. 242. 1944).

Saltkærir gerlar valda skemmdum (Tímarit V.F.Í. 31. ár. bls. 11. 1946).

Die Herkunft der Milchsäurelangstäbchen des isländisehen Speisequarks (Acta Naturalia Islandica Vol. I, No. 5. 1946).

Votheysgerð (Freyr 42, bls. 251. 1947). Gerlarannsóknir á nýjum þorski (Tímarit V.F. Í. 32. árg. bls. 72. 1948).

Sigurður Pétursson.

(sign)

Búnaðardeild. Svar við spurningunni: „Hefur orðið sýnilegur árangur af starfi deildarinnar eða einstakra vísindamanna, sem starfa þar, og í hverju er þá fólginn sá árangur?“ Það er ekki unnt að gefa fullnægjandi svör við þessari spurningu nema með langri ritgerð, því að viðfangsefni deildarinnar eru svo fjölbreytt. Reynt verður hér að stikla á helztu atriðunum.

Með l. nr. 64 frá 1940, um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins, er búnaðardeildinni ætlað að vinna að eftirtöldum verkefnum: Jarðvegsrannsóknum, jurtakynbótum og frærannsóknum, jurtasjúkdómarannsóknum, fóðurrannsóknum og fóðurtilraunum, búfjárkynbótum og búfjársjúkdómarannsóknum. Með l. um tilraunastöð háskólans í meinafræði voru búfjársjúkdómarannsóknirnar leystar frá búnaðardeildinni.

Þótt atvinnudeild háskólans væri vígð 1937, tók búnaðardeildin lítt til starfa fyrr en á árunum 1944 og 1945. Aðeins einn sérfræðingur réðst að deildinni 1937 og annar 1939, sá fyrrnefndi til að annast rannsóknir á jurtasjúkdómum og sá síðarnefndi til þess að vinna að fóðurtilraunum og fóðurrannsóknum. Á árunum 1944 og 1945 réðust svo að deildinni þrír sérfræðingar í eftirtöldum greinum: búfjárkynbótum, jarðvegsrannsóknum, jurtakynbótum og frærannsóknum. Auk þess var skordýrafræðingur fluttur frá fiskideild til búnaðardeildar árið 1945 og hefur unnið þar síðan Þessir sérfræðingar hafa allir komið að tómum kofunum, ef svo mætti að orði komast. Alla aðstöðu og áhöld til tilraunastarfsemi og vísindaiðkana vantaði í fyrstu. Alþ. og ríkisstj. hafa sýnt málefnum stofnunarinnar mikinn skilning og veitt fé til uppbyggingarstarfseminnar smátt og smátt. Hefur því skapazt smám saman allgóð vinnuaðstaða fyrir flestar greinar þeirrar starfsemi, sem deildin á að hafa með höndum, og er hún nú allvel búin tækjum. En það hefur tekið sérfræðinga deildarinnar mikinn tíma að skapa þessa vinnuaðstöðu með því að fá tæki í rannsóknarstofurnar og koma upp tilraunabúum o.fl. o.fl.

Viðfangsefni búnaðardeildarinnar eru flest þess eðlis, að það þarf að vinna að þeim í mörg ár áður en endanlegar niðurstöður koma í ljós. Allar ræktunartilraunir jurta og dýra eru í þessum flokki. Annar flokkur viðfangsefnanna er þannig, að árangur kemur í ljós á fáum árum, t.d. ýmsar fóðurtilraunir o.fl. Þriðji flokkur viðfangsefnanna gefur hins vegar hagnýtan árangur þegar í stað, t.d. ef erlent meindýr berst til landsins með vörum og tekst að hindra útbreiðslu þess, eftirlit með fóðurvörum o.fl.

1. Jurtasjúkdómarannsóknir.

Árið 1947 kom út á vegum búnaðardeildar ýtarleg skýrsla um niðurstöður á rannsóknum á jurtasjúkdómum og vörnum gegn þeim, sem unnið hefur verið að við deildina á árunum 1937–1946, Rit landbúnaðardeildar A-Flokkur Nr. 2.

Árangur þessara rannsókna er meðal annars í því fólginn, að fengizt hefur þekking á því, hvaða jurtasjúkdómar eru til í landinu á helztu nytjajurtum, hve útbreiddir þeir eru, hve miklu tjóni þeir valda og hvort þeir eru gamlir og landlægir eða nýkomnir til landsins. Enn fremur hafa verið gerðar tilraunir með varnir gegn þessum sjúkdómum, bæði með notkun lyfja og með því að finna með tilraunum ónæmustu afbrigði jurtanna, t.d. kartöflunnar.

Rannsóknirnar hafa leitt í ljós:

A. Að þótt margir jurtasjúkdómar séu hér í landinu, þá eru þeir mun færri en t.d. í nágrannalöndum okkar. Er því ástæða til þess að herða á eftirlitinu með innflutningi jurta, enda hefur það verið gert fyrir atbeina deildarinnar.

B. Jurtasjúkdómar valda hér verulegu tjóni á flestum nytjaplöntum.

C. Flestir sjúkdómar á útijurtum eru útbreiddir um allt land, en aðrir, t.d. kálmaðkur og kálæxli, eru á takmörkuðum svæðum.

D. Á innijurtum eru ýmsir sjúkdómar, sem aðeins gætir innanhúss, og eru þeir aðallega bundnir við gróðurhúsin.

Varnir gegn kartöflusjúkdómum.

A. Gerðar hafa verið rannsóknir á notkun varnarlyfja gegn kartöflumyglu og fundinn heppilegasti úðunartími, með þeim árangri, að draga má úr tjóninu úr 20–40% niður í 1/2–2%. Þessi vörn gerir kartöfluræktina margfalt öruggari atvinnugrein en ella og getur sparað þjóðinni stórfé á mygluárum. Ýmis kartöfluafbrigði hafa reynzt mun ónæmari fyrir þessari skæðu veiki en önnur.

B. Varnir gegn stöngulveiki hafa reynzt í því fólgnar að nota ósjúkt útsæði og taka stöngulsjúk grös burt úr görðum.

Varnir gegn sjúkdómum á rófum og káli.

A. Rannsökuð hafa verið ýmis varnarlyf gegn kálmaðkinum. Varptími kálflugunnar hér á landi hefur verið rannsakaður og annað í sambandi við lifnaðarhætti hennar, sem nauðsynlegt er að vita í sambandi við varnir gegn henni. Úðun á blómkáli minnkar skemmdirnar úr 90% í 1.–5% og á hvítkáli úr 50% í 0–2%. Nú er verið að reyna D. D. T. lyf gegn þessum vágesti.

Varnir gegn sjúkdómum, í gróðurhúsum. Varnir hafa verið reyndar gegn ýmsum sjúkdómum í gróðurhúsum, t.d. gegn rótarormum með allgóðum árangri. Einnig hafa verið reyndar ýmsar varnir gegn sjúkdómum jurta og trjáa í skrúðgörðum, með góðum árangri.

Sérfræðingur deildarinnar í jurtasjúkdómum hefur einnig unnið mikið starf við leiðbeiningar í þessum efnum. Hann hefur meðal annars ritað 20–30 leiðbeinandi greinar um jurtasjúkdóma og varnir gegn þeim í blöð og tímarit og flutt marga fyrirlestra í útvarp um þessi mál. Einnig hefur hann ritað bókina „Plöntusjúkdómar,“ er búnaðardeildin gaf út, og ásamt skordýrafræðingi deildarinnar ritað bókina „Jurtasjúkdómar og meindýr“, sem gefin var út af deildinni 1947. Hann hefur einnig unnið mikið að grasafræðirannsóknum.

11. Skordýrarannsóknir.

Skordýrafræðingur hefur unnið við búnaðardeildina síðan 1945. Hefur hann í því sambandi lagt sérstaka stund á að rannsaka útbreiðslu og skaðsemi ýmissa meindýra meðal skordýranna, sem valda tjóni á gróðri, í matvælum, á fatnaði, húsgögnum, húsum, í innfluttum trjáviði, og skordýra, sem ásækja fólk, svo sem veggjalýs, húsflugur og fleiri þess konar dýr, sem eru hættulegir smitberar. Skordýrafræðingurinn hefur þráfaldlega stöðvað útbreiðslu skaðsemdarskordýra áður óþekktra hér, sem borizt hafa til landsins. Þannig hafa 9 trjábukkategundir, en það eru skaðsemdarbjöllur í trjáviði, enn ekki náð útbreiðslu hér á landi, því að þeim hefur stöðugt verið útrýmt strax og þeirra hefur orðið vart. Nú síðast fyrir skömmu kom trjáviður hingað til lands morandi af bjöllutegund, svo nefndum blóðbæk, og varð að grípa til gasbrælu til útrýmingar. Á sama hátt hefur útbreiðsla á skaðsemdardýrum í matvælum, fatnaði o. fl. verið stöðvuð strax og þeirra hefur orðið vart, svo að þau hafa ekki náð að ílendast hér. Þar á meðal eru 3 .tegundir af tínusbjöllum, sem eru stórskaðlegar og auk þess ertubjöllur, hrísgrjónabjöllur o.fl.

Einnig hefur skordýrafræðingur deildarinnar stöðugt haft á hendi leiðbeiningastarfsemi fyrir almenning varðandi skaðsemdarskordýrin og varnir gegn þeim. Hann hefur í því sambandi haldið mörg útvarpserindi, skrifað fjölda greina í blöð og tímarit og ritað bækur, svo sem bókina „Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim“, og ásamt með magister Ingólfi Davíðssyni skrifað bókina „Jurtasjúkdómar og meindýr“, eins og áður er frá sagt.

Áður en skordýrafræðingurinn tók til starfa við búnaðardeildina, vann hann á vegum fiskideildar, einkum að rannsókn á dýralífi og átu í vötnum hér á landi. Hefur hann skrifað ritgerðir og bækur um þær rannsóknir.

111. Fóðurrannsóknir og fóðurtilraunir.

A. Gerðar hafa verið meltanleikarannsóknir á mörgum sýnishornum af íslenzku heyi með misjafnri verkun, til þess að finna fóðurgildi þess. Var það nauðsynlegt vegna þess, að fóðurgildi heys hér á landi er allt annað en í nágrannalöndum okkar og nauðsynlegt að vita um gildi heysins vegna allra leiðbeininga um fóðrun búfjár hér.

B. Gerðar hafa verið ýmsar fóðrunartilraunir, sem meðal annars hafa leitt eftirfarandi atriði í ljós:

1. Sannazt hefur, að hægt er að fóðra nautgripi og sauðfé eingöngu á íslenzku votheyi með jafngóðum árangri og þótt þurrhey væri gefið. Er þetta þýðingarmikil staðreynd, sem áður var óþekkt og bændur trúðu ekki á.

2. Sannazt hefur með fóðrunartilraunum, að mjög mikil síldarmjölsgjöf handa sauðfé hefur ekki spillandi áhrif á heilbrigði ánna né afkvæmanna, en sú hjátrú var mjög ríkjandi, að mikil síldarmjölsgjöf gæti verið hættuleg heilbrigði fjárins og jafnvel orsakað fósturlát og lambadauða. Fjölþættar tilraunir með síldarmjöl handa sauðfé eru enn í gangi hjá deildinni.

3. Tilraunir með mismunandi magn af síldarmjöli í fóðri handa mjólkurkúm leiddu í ljós, að mikil einhæf notkun síldarmjöls í fóðrið olli því, að smjörfitan varð eðlisverri en ella. Smjörið varð mjög laust í sér og með óeðlilegu bragði. Hins vegar hafði síldarmjöl í hæfilegu hlutfalli við kornmat í fóðurblöndu handa kúnum engin skaðleg áhrif á gæði smjörsins.

4. Tilraunir hafa verið gerðar til þess að ganga úr skugga um, hvort það svaraði kostnaði að gefa ám kjarnfóður síðustu viku meðgöngutímans til viðbótar við það, sem talið er gott eldi. Niðurstöðurnar urðu þær, að það svaraði varla kostnaði. Nú er unnið á hliðstæðan hátt að því að rannsaka, hvort ekki svari kostnaði að ala ær síðustu vikur meðgöngutímans, sem hafa verið laklega fóðraðar yfir veturinn.

5. Gerð hefur verið samanburðartilraun á venjulegu votheyi og hinu svo kallaða A.I.V. votheyi sem fóðri handa mjólkurkúm. Reyndist A.I.V. votheyið betra.

6. Rannsakað hefur verið, hvort hægt væri að sanna, að bráðadauði í kúm gæti orsakazt af óheppilegum fóðurefnum, t.d. of mikilli síldarmjölsgjöf eða einhverjum óheppilegum næringarhlutföllum í fóðrinu. Ekki var hægt að sanna, að slíkt væri fyrir hendi.

7. Unnið hefur verið síðustu árin að rannsókn á súgþurrkun heys. Hafa þær rannsóknir leitt í ljós, að aðferð þessi hefur marga góða kosti. Hægt er að fullþurrka hálfþurrt hey með óupphituðu lofti, en með því að hita loftið má ná betri árangri.

8. Síðustu 2 árin hefur deildin haft eftirlit með öllum fóðurblöndum, sem framleiddar hafa verið hér á landi, og tryggt þannig kaupendum vörugæðin.

Margar greinar um niðurstöður þessara rannsókna hafa verið birtar í búnaðarblaðinu Frey á undanförnum árum, og er nú verið að búa undir prentun ýtarlega skýrslu um þessar rannsóknir og tilraunir og niðurstöður þeirra.

IV. Jurtakynbætur og frærannsóknir.

Þessi starfsemi hófst við búnaðardeildina á árinu 1945, en starfið var fyrst í stað í molum

vegna jarðnæðisleysis og vöntunar á vinnuskilyrðum yfirleitt.

Hafizt hefur verið handa með fjölþættar rannsóknir í þessari grein, en flestar tilraunirnar þurfa að standa yfir árum saman áður en fullvíst er um niðurstöður þeirra. Því verður að líta svo á, að sá árangur, sem enn hefur, fengizt, sé fremur vísbending, en fullnaðarniðurstöður.

Starfsemi sérfræðings deildarinnar í jurtakynbótum og frærannsóknum má skipta í eftirfarandi liði:

A) Rannsókn á túnjurtum.

1. Gerðar hafa verið samanburðartilraunir á 43 hvítsmárastofnum frá ýmsum löndum á norðurhveli jarðar. Þær hafa þegar leitt í ljós, að einungis þeir stofnar, sem ættaðir eru frá Norður-Skandinavíu og vesturhéruðum Skotlands og Wales, þola íslenzkt veðurfar. Einn þessara stofna, S. 100 frá Aberystinyth í Wales, virðist bera af.

2. Reyndir hafa verið 34 erlendir stofnar af rauðsmára. Þeir hafa allir reynzt óheppilegir fyrir íslenzkt veðurfar. Skástir hafa reynzt nokkrir stofnar frá Norður-Svíþjóð og Finnlandi.

3. Samanburðartilraunir á túnsmára (Alsíkursmára) hafa sýnt, að þessi stórvaxna smárategund muni þrifast hér mun betur en rauðsmári. Sænski stofninn Svea alsikeklöve virðist bera af öðrum.

4. Tilraunir með „humallusernur“ benda til, að þessi belgjurt geti orðið hér að töluverðu gagni á túnum og beitilöndum, sé hægt að sá henni árlega eða annað hvert ár.

5. Tilraunir með notkun lúpína til þess að auka frjósemi í jarðvegi hafa leitt í ljós, að ýmsir Norður-Evrópiskir stofnar af hinni eitruðu einrænu lúpínu þrífast hér vel og einnig sænskur stofn af eiturlausri lúpínu.

6. Gerðar hafa verið samanburðartilraunir með 18 stofna af skriðlingresi frá ýmsum löndum. Þeir hafa allir reynzt illa, en stofn frá Norður-Svíþjóð þó skást. Skriðlíngresi hefur verið hér í flestum fræblöndum, en það er þýðingarlaust, aðeins til að kasta gjaldeyri, a.m.k. þangað til fundizt hefur betri stofn eða stofnar:

7. Af hundgresi hafa verið reyndir 45 stofnar frá Norðurlöndum, Englandi, Kanada og víðar. Bezt hafa reynzt stofnar frá Englandi og einn stofn frá Nýja-Sjálandi og einn stofn frá Svíþjóð. Þetta gras er ágætt fóðurgras, en hefur ekki verið ræktað að ráði hér á landi og því mikilvægt, ef hægt er að finna heppilega stofna af því fyrir íslenzk skilyrði.

8. Af loðvingli hafa verið reyndir 15 stofnar og reyndist einn stofn langbeztur.

9. Reyndir hafa verið 30 stofnar af hávingli. Þrír þeirra hafa þolað bezt íslenzkt veðurfar; einn frá Wales og 2 frá Svíþjóð.

10. Af túnvingli hafa verið bornir saman 25 erlendir stofnar. Þola þeir allir illa íslenzkt veðurfar og þola því ekki samanburð við íslenzkan túnvingul.

11. Gerðar hafa verið samanburðartilraunir með 45 stofna af rúggresi. Aðeins tveir þessara stofna þola íslenzkt veðurfar.

12. Sextíu stofnar af vallarfoxgrasi af norður- og suðurhveli jarðar hafa verið reyndir. Aðeins einn þeirra, frá Norður-Svíþjóð, þolir svo vel veðurfarið, að hægt sé að mæla með honum til ræktunar hér.

13. Af vallarsveifgrasi hafa verið reyndir 52 erlendir stofnar víðs vegar að. Þrífast þeir allir hér og bera flestir fræ. Margir þeirra koma til greina við túnrækt hér, en þó virðist kynbættur stofn bera af þeim öllum.

14. Reyndir hafa verið 15 stofnar af hásveifgrasi bæði frá Bretlandi og Norðurlöndum. Þeir hafa allir reynzt vel, og því er sama, hvort fræið er flutt inn frá Skandinavíu eða Bretlandi. — Reyndir hafa verið 48 stofnar af faxgrasi. Reyndist einn þeirra, sænskur stofn, langbeztur. Er hann notaður við sandgræðslu. Sextán stofnar af háliðagrasi hafa verið reyndir frá Norðurlöndum og Bretlandi. Reyndust þeir allir sæmilegir, en finnskir stofnar samt bezt.

Aðstaða hefur verið ill til þess að gera samanburðartilraunir með fræblöndur, en nokkrar blöndur hafa þó verið reyndar. Virðist árangurinn benda í sömu átt og í nágrannalöndum okkar, sem sé, að hafa þurfi í sömu blöndu tegundir, sem blómgast á sama tíma, og bezt sé að hafa fáar tegundir í hverri blöndu, gagnstætt því, sem gert er hér á landi. Einnig virðist rangt að hafa eina og sömu blöndu fyrir allan jarðveg, eins og hér er gert.

Gerðar hafa verið ýmsar rannsóknir á þeim túnjurtum, sem vaxa villtar hér á landi. En sökum skorts á aðstæðum og aðstoðarfólki hefur enn ekki verið hægt að gera fjöldarannsóknir með kynbætur innlendra grasastofna, sem þó er bráðnauðsynlegt. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að á Íslandi vaxa að jafnaði stofnar með hærri litningatölu (chromosomtölu), en í Suður-Skandinavíu, og oftast eru þeir skyldastir stofnum í Englandi, Norður-Noregi og heimskautalöndum Kanada og Grænlands. Virðist því nauðsynlegt, þegar grösin eiga í hlut, að fá fjölda úrvalstegunda frá þessum löndum til reynslu við kynbætur íslenzku grasanna.

Í sambandi við íslenzk grös er vert að geta þess, að gerðar hafa verið talsverðar rannsóknir á ýmsum íslenzkum villigrösum til að leiða í ljós, hvort þær hafa verið rétt ákvarðaðar, þar eð grunur lá á um rangar greiningar á nokkrum þeirra. Ein þeirra tegunda er melgrasið, sem margir hafa gert sér vonir um, að kynbæta megi frekar. Var álitið, að hér væri sama tegund og í Vestur-Evrópu, en hún hefur 56 litninga, og þá væri ástæðulaust að reyna að kynbæta það með rúgi eða hveiti. Við rannsóknir hjá deildinni s.l. ár á fjölda eintaka víðs vegar að af landinu kom í ljós, að sú meltegund, sem hér vex, er ekki sú sama og í Evrópu, heldur grænlenzk eða amerísk tegund, sem hefur aðeins 28 chromosom eða litþræði. Ef aðstaða væri fyrir hendi, mætti reyna að kynbæta hana með víxlfrjóvgun hveitis eða rúgs, sem hafa 28 eða 14 chromosom eða litþræði, og tvöfalda síðan chromosomtöluna. Má þá búast við að fá fjölæra sandjurt, sem gæfi af sér gott korn.

Hafizt hefur verið handa með kynbótaúrval úr þeim erlendu stofnum, sem bezt hafa reynzt hér. Verður lítið hægt að aðhafast í þessu efni nema fá gróðurhús til umráða og aðstoðarfólk vegna þessa starfs.

Reyndir hafa verið 97 stofnar af kartöflum frá Evrópu og Ameríku og þarf að reyna miklu fleiri, því að komið hefur í ljós, að stofnar, sem aldrei hafa verið notaðir hér áður, bera af.

Lítils háttar tilraunir hafa verið gerðar með ræktun berjarunna, en enginn árangur af þeim tilraunum liggur enn fyrir. Gerðar hafa verið tilraunir með nokkra stofna af eplatrjám á vegum deildarinnar í gróðrarstöðinni á Akureyri, og virðast þær ætla að gefa betri árangur, en búast mátti við.

Tilraunir með jarðarber hafa leitt í ljós, að þau eru ræktanleg hér, eins og í öðrum norðlægum löndum.

Deildin hefur gengizt fyrir því, að hér hafa fengizt heppilegir smáragerlar undanfarin ár. Reyndir hafa verið nokkrir jurtahormónar til þess að eyða með illgresi, án þess að nytjajurtirnar saki, með þeim árangri, að allar líkur eru fyrir því, að þau geti eytt fjölmörgum illgresistegundum úr túnum og görðum, t.d. sóleyjum og fíflum. Árið 1945–46 hófst í U.S.A. stórframleiðsla á hormónum, sem fyrirbyggja spírun matarkartaflna, þótt geymdar séu við stofuhita. Tilraunir hér við deildina 1946–48 hafa sýnt ágætan árangur, en lyf þetta hefur enn ekki fengizt innflutt, þótt það geti minnkað efnatap í kartöflunum um 10–25% og mundi því spara þjóðinni stórfé.“

Þá er hér skrá yfir ýmis rit, sem birt hafa verið frá deildinni, og hleyp ég yfir það.

Þá kem ég að kaflanum um jarðvegsrannsóknir og les nú skýrsluna áfram.

„Starfsemi á þessu sviði mætti skipa í tvo flokka.

a) Rannsóknir og leiðbeiningar varðandi áburðarnotkun, meðferð lands og hvaða land skuli tekið til ræktunar, þ.e. rannsóknir, sem eru „hagnýtar“ þegar í stað.

b) Rannsóknir á eðli íslenzks jarðvegs, sem í eðli sínu eru fyrst og fremst vísindalegar, en verða þó að teljast einnig „hagnýtar“, þar eð þær eiga að gefa grundvallarupplýsingar um eðli íslenzks jarðvegs.

Unnið hefur verið að:

a) Sýrufarsrannsóknum, er einkum hafa haft verulega þýðingu varðandi gróðurhúsarækt. Nokkrar dreifðar áburðartilraunir hafa verið gerðar á túnum, og hafa þær undirstrikað ágalla í áburðarnotkun, er hafa átt sér stað. Sérfræðingur í jarðvegsrannsóknum hefur svarað fyrirspurnum bæði munnlega og skriflega, er borizt hafa varðandi ræktun lands, gróðurhúsarækt og áburðarnotkun. Hann hefur haldið nokkur erindi í útvarp og skrifað nokkrar greinar um þessi mál. Viðað hefur verið að allmiklu af jarðvegssýnishornum víðs vegar að af landinu og gerðar á þeim kerfisbundnar og allyfirgripsmiklar efnagreiningar og eðlisrannsóknir. Er þetta mjög tímafrekt verk og enn á byrjunarstigi. Hefur enn ekki þótt ástæða til að birta niðurstöður þessara rannsókna. Að dómi sérfræðings deildarinnar í þessum fræðum verður þessi þáttur þýðingarmesta rannsóknarviðfangsefni jarðvegsrannsókna á komandi árum.

Af sérstökum verkefnum má nefna: Rannsóknir á notagildi fljótandi ammoníaks sem áburðar. Þessum rannsóknum er enn ekki lokið, en í þær hefur þegar verið lögð allmikil vinna.

Athuganir á að hita jarðveg með heitu vatni til útiræktunar matjurta. Gaf þessi tilraun fremur neikvæðan árangur. Það má geta þess, að sérfræðingur í jarðvegsfræðum hefur unnið að athugunum og undirbúningi varðandi áburðarverksmiðju á vegum atvinnumálaráðuneytisins og í því sambandi farið til Norðurlanda og Ameríku.“

Þá kemur að búfjárkynbótum og er það aðallega varðandi kynbótabúið á Hesti. Þar sem því hefur verið svarað hér áður, er því sleppt hér.

Þá kemur svar frá fiskideildinni við sömu spurningu, og les ég það einnig upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskideildin hefur það tvíþætta verkefni með höndum

1) að fylgjast sem bezt með vexti og viðgangi fiskistofnanna frá ári til árs og ástandinu í sjónum yfirleitt og

2) að taka fyrir aðkallandi vandamál útvegsins vegna.

1) Einn árangur af rannsóknarstarfi deildarinnar er sá, að við getum nú sagt um stærð og að nokkru leyti göngur sumra íslenzku fiskistofnanna á árunum síðan deildin tók til starfa. Aðrar menningarþjóðir vita vel skil á slíkum hlutum hjá sér, en hér mundi að mestu standa ófyllt og opið skarð, ef fiskideildarinnar hefði ekki notið við. Á þennan hátt er byggður grundvöllur undir framtíðarrannsóknir og fiskveiðar komandi kynslóða. Rannsóknir á síld hafa leitt til þess, að nauðsynlegt þótti að gerendurskoða allt, sem við vissum um þennan fisk. Árangurinn varð sú kenning, að síld gengi milli Noregs og Íslands. Sú kenning var fyrst rökstudd, en hefur nú verið sönnuð með merkingartilraunum.

2) Af ýmsum rannsóknum, sem teknar hafa verið upp, hefur fengizt margvíslegur árangur, þótt margt af honum hafi enn þá lítt eða ekki verið hagnýtt.

a) Fundin voru grálúðumið, þar sem 1.200 fiskar veiddust á einum togtíma.

b) Bent hefur verið á, að samkvæmt rannsóknum á aflamagni og sjávarhita virðist 6.5–7.5 stiga heitur sjór við botn vera heppilegastur hrygnandi þorski.

e) Fundin voru ný karfamið við Austurland, er gáfu um 9 smálestir karfa á togtíma.

d) Sýnt hefur verið fram á miklar þorskgöngur á vorin til Grænlands, út af sunnanverðum Vestfjörðum.

e) Með starfi sínu tók fiskideildin hinn öflugasta þátt í undirbúningi að friðun Faxaflóa og átti þannig drjúgan þátt í, að Alþjóðahafrannsóknaráðið mælti einróma með því, að flóinn yrði friðaður (1946).

Áður en sérstök veiðimálastjórastaða var stofnuð, lét fiskideildin vatnarannsóknir til sín taka.

a) Samdar voru tvær ritgerðir, önnur um Blöndu, en hin um Ölfusá-Hvítá, að lokinni rannsókn, er gerði fært að leiðbeina með útsetningu seiða.

b) Sannað var, að „murtan“ í Þingvallavatni er sérstakt afbrigði bleikju, en vex ekki úr murtustærð og verður að bleikju.

Árni Friðriksson.“

Svo mörg eru þau orð. Ég hygg, að í þessu langa máli megi finna allmikið af þeim upplýsingum, sem spurt er um í fyrirspurninni, og verð ég að láta þetta nægja sem svar.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Það er ekki hægt annað en að þakka hæstv. ráðh. þá elju, sem hann hefur haft við að lesa þetta upp hér yfir okkur þm. En ég get ekki sagt, að starf undirmanna hans veki alveg sams konar ánægju eins og hans fyrirhöfn. Þegar ég heyrði þessa undarlegu skýrslu, kom mér í hug, að þegar herskipin voru illa sett í síðasta stríði, þá settu þau út reyk mikinn til þess að fela sig, svo að ekki yrði á þau skotið. Ég vil skjóta því til hæstv. ráðh., sem er yfirmaður þessara deilda, að ekkert hefur sannfært mig betur en þessi skýrsla um það, að hann þarf að taka til nokkurra úrræða í sambandi við þessi mál. Það er alveg óhugsandi, að Áskell Löve og Halldór Pálsson, sem kunna ekki að svara svona fyrirspurn betur en þetta, séu réttu mennirnir í því starfi, sem þeir hafa með höndum. Það er sýnilegt, að menn, sem halda, að Alþ. eigi að fá svona svör, eins og hér hafa komið fram, sérstaklega frá Löve, kunna ekki neitt til starfa. Um Halldór Pálsson hefur það komið fram í öðru sambandi, að hann lét verja 400 þús. kr. til þess að fá jörðina Hest til að mega byggja þar fjárhús og girðingar fyrir 300 þús. kr. til þess að hafa þar sauðfé, sem er svo eftir stuttan tíma drepið. Ég álít, að það sé mjög fróðlegt að fá fram, hvernig bætt hefur verið við mönnum í þessa deild, þegar kommúnistar réðu miklu hér. Sérstaklega hefur 4. landsk. (BrB) bætt fjöldamörgum mönnum í deildina. Það voru allt flokksbræður hans, en ekki spurt um það, hvers landið þyrfti með. Ef menn hugsa um það, hvernig að náttúrufræði var unnið áður, af Eggert Ólafssyni, Jónasi Hallgrímssyni, Þorvaldi Thoroddsen, Helga Péturss, Stefáni á Möðruvöllum og Bjarna Sæmundssyni, þá fá menn glögga hugmynd um það, hver munurinn er, og hvernig árangurinn verður, þegar vel er unnið af áhugamönnum, þó að við erfið kjör sé. Hvernig nú er unnið, sjá menn af því langa svari, sem hæstv. landbrh. gerði vel í að láta okkur heyra, þó að ég búist við, að mörgum þm. hafi fundizt, að spurningatíminn væri að eyðileggja sjálfan sig með því að fá svona skýrslur. Það er ómögulegt annað en menn veiti því eftirtekt, að það er ákaflega lítið leggjandi upp úr þessu starfi. — Ég vil að endingu minnast á matvælaeftirlitið. Það var vel byrjað, en ekkert hefur orðið úr því, og þannig mundi mega taka aðra hluti til athugunar í sambandi við þessi mál, ef tími væri til þess nú.

Gísli Jónsson: Hæstv. ráðh. hefur haldið hér vísindalegan fyrirlestur í nærri klukkutíma, í fyrirspurnatíma, og við höfum heyrt þau vísindi, að það sé alveg sannað í atvinnudeild háskólans, sem kostar nokkrar milljónir á ári, að sé beljum gefið of mikið síldarmjöl, komi bragð af mjólkinni og gæði hennar verði ekki eins mikil. Við höfum líka fengið þær upplýsingar, að þessi sama vísindastofnun geti ekki enn svarað því, hvort það borgi sig að fóðra ær sæmilega um meðgöngutímann eða svelta þær. Ég vil benda hæstv. forseta á það, hvort ekki er verið að eyðileggja þann góða tilgang, sem hugsaður var með fyrirspurnatímanum, með því að láta halda svona fyrirlestra hér. Ég vildi enn fremur spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann hefur sjálfur lesið yfir svörin, áður en hann ber þau fram hér, eða tekur hann þau alveg óathugað frá mönnum, sem ekkert virðast hafa að gera annað, en dunda við að koma saman svona lítilfjörlegum svörum? Mér finnst það gersamlega ósamboðið hæstv. ráðh., ef hann hefur ekki litið á þessi blöð áður en hann les klukkutíma fyrirlestur hér á Alþ.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson): Það er danskur málsháttur, sem er á þá leið, að eins og maður hrópar í skóginn, eins fái maður svar frá honum. Ég hef ekki gert annað en að lesa upp svör við fyrirspurnum, sem bornar voru fram á Alþ. Og sé það að eyðileggja þennan ágæta tíma að svara fyrirspurnunum, þá verð ég að segja það, að sá veldur miklu, sem upphafinu veldur, þ.e.a.s. þeir, sem spyrja.

Gísli Jónsson: Herra forseti. Ég hafði búizt við því, að hæstv. ráðh. svaraði því beint, sem ég spurði um, hvort hann hefði ekki litið á þessar skýrslur áður en hann las þær upp hér á Alþ. Eða hefur hann látið sér nægja að bjóða Alþ. upp á þetta án þess að gagnrýna það sjálfur? Það væri ákaflega æskilegt, að forseti gæfi viðkomandi ráðh. bendingu um það, að betra væri að athuga þessi gögn, áður en þeir flytja svona lagað á Alþ. í fyrirspurnatíma, því að til þess hefur aldrei verið ætlazt.

Fyrirspurnin leyfð með 28 shlj. atkv.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Þegar gengið var frá aðalatriðunum viðvíkjandi skilnaði Íslands og Danmerkur, var gert ráð fyrir, að gengið yrði frá öllum öðrum atriðum mjög fljótlega. Nokkrar tilraunir voru að vísu gerðar í þá átt, og fóru nefndir milli landanna í þeim tilgangi, en árangurinn af þessu virðist hafa orðið sáralítill, og hefur ekkert verið minnzt á þessi mál hin síðari ár. Ég álít því eðlilegt og rétt, að ríkisstj. gefi þinginu og þjóðinni skýrslu um þetta mál.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að þetta mál heyri undir mig, en hins vegar minnist ég þess ekki að hafa séð neitt um þetta í mínu ráðuneyti, en þrátt fyrir það þarf ekki að verða dráttur á svörum. Hins vegar undrast ég, hve hv. þm. spyr fávíslega, því að engum ætti að vera eins kunnugt og honum, að endanlegur skilnaður Íslands og Danmerkur fór fram 17. júní 1944. Þetta hélt ég, að öllum væri kunnugt og þá fyrst og fremst sagnfræðingi þessa máls. Annars býst ég við, að hv. þm. eigi við ýmis atriði, sem af skilnaðinum leiddi. Þetta eru nokkur atriði, mjög misjafns eðlis, og er sumum þeirra lokið, en öðrum ekki og meðal annars af ástæðum, sem ég gerði grein fyrir hér í vetur, en hv. þm. S–Þ. virðist ekki hafa fylgzt með því.

Það stendur þannig á með sum af þessum málum, að það væri óheppilegt af Íslands hálfu að ljúka þeim af í skyndi, eins og t.d. um fiskveiðiréttindi Færeyinga. Þar höfum við ekki viljað binda okkur nema frá ári til árs, nema við fengjum fiskveiðiréttindi við Grænland í staðinn. Hér á Alþingi hafa verið uppi raddir um það, að við ættum ekki að láta okkur nægja smáréttindi, heldur ættum við að krefjast alls Grænlands. Nú er verið að rannsaka, hvort við eigum nokkurn rétt til Grænlands, en þær rannsóknir taka nokkuð langan tíma, og ég tel það mjög óheppilegt að ganga frá samningunum við Dani fyrr en rannsókn þessari er lokið, heldur álít ég, að það sé okkur í hag að draga þetta á langinn, meðan Danir ýta ekkert á.

Önnur atriði, eins og t.d. um það, hvað gera skyldi við ríkisborgara, sem væru staddir í hinu landinu, hafa verið útkljáð, og er það samkomulag að efni til mjög líkt því, sem við höfðum ráðgert, og tel ég það mjög fullnægjandi fyrir okkar hönd. Viðvíkjandi handritamálinu er það að segja, að þetta mál var tekið upp af Íslands hálfu í fyrstu, og er það nú í rannsókn hjá dönsku stjórninni. Kunnugir menn í Danmörku og okkur velviljaðir telja, að ekki muni heppilegt að reka mikið eftir í því máli, og telja heppilegra að láta Dani jafna sig á þessu og eiga um það sjálfa án okkar afskipta. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að þetta sé heppilegast, og vona, að þetta mál fái giftusamlega lausn, og víst er um það, að ef við hefðum sett fram einhverjar lagakröfur, þá hefði það verið sama og setja slagbrand fyrir dyrnar og hefði stórskemmt fyrir okkur. Þannig mætti lengi telja og sýna fram á, að það er okkur sízt til hagsbóta að reka mjög á eftir í þessum málum og það því fremur, er þess er gætt, að fullnaðarskilnaður fór fram 17. júní 1944, þótt hv. þm. S-Þ. virðist ekki vita það. Enda kom það á daginn, að það var hin mesta firra, er sumir menn héldu því fram, að ekki mætti ljúka skilnaðinum við Dani vegna þess, hve mörg mál hefðu ekki verið rædd til fulls, en mörg þessi atriði koma sjálfum skilnaðinum ekkert við, og tel ég því fyllilega eðlilegt, að þau verði rædd og afgreidd smátt og smátt.

Vona ég svo, að hv. þm. S-Þ. láti sér nægja þessi svör mín.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson): Herra forseti. Hæstv. utanrrh. gat þess, að hann hefði ekki vitað um þessa fsp., og var dálítið úrillur út af því. Annars er ég eftir atvikum ánægður með þau svör, sem ég fékk hjá hæstv. ráðh., en vissan formála hefði hann mátt grunda betur. Ef hæstv. ráðh. væri dálítið eldri, mundi hann vita, að það, sem Benedikt Sveinsson og Bjarni frá Vogi óttuðust mest varðandi sjálfstæðismálið 1918, var einmitt fiskveiðiréttindin og hinn sameiginlegi þegnréttur. Það var hins vegar ekki von, að hæstv. ráðh. vissi þetta, og fyrirgefst honum því þetta sökum æsku sinnar. Mér finnst bara, að þeir menn, sem tóku að sér að ræða þessi mál við Dani, hafi ekki verið nógu skeleggir við að bæta okkar málstað svo sem unnt hefur verið. Því fer mjög fjarri, að þegnréttindin séu þýðingarlítið atriði. Á stríðsárunum streymdu hingað Danir svo þúsundum skipti. Sumt af þessu fólki var gott fólk, en sumt aftur á móti lélegt, og hygg ég að enginn ráðh. hefði þá getað komið hinu óæskilega fólki burtu, hversu feginn sem hann hefði viljað. Ég vil svo enda þessi orð mín með því að segja, að ég tel ekki, að um fullkominn hjónaskilnað sé að ræða, þótt hjón séu skilin að borði og sæng og gengið hafi verið frá fjárhagsatriðum, ef börnunum hefur ekki verið ráðstafað.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Ég sé nú, að misskilningur hv. þm. S-Þ. er róttækari en ég gerði ráð fyrir. Hann virðist álíta, að Danir njóti enn jafnréttis við Íslendinga og að Danir njóti hér fiskveiðiréttinda. Danir njóta alls ekki jafnréttis að öllu á við Íslendinga sjálfa, frekar en ríkisborgarar annarra ríkja, sem hér dveljast í lengri eða skemmri tíma. Þeir verða að lúta íslenzkum lögum í einu og öllu, á meðan þeir dveljast hér á landi og er það ekkert öðruvísi, en með aðra Norðurlandamenn. Hitt er svo annað mál, að sérstakar reglur gilda um ferðalög milli þessara landa, og hafa m.a. Danir viðurkennt þá reglu, að ekki þurfi vegabréfsáritun í ferðalögum milli Íslands og þess lands. Þá hafa Danir viðurkennt, að sérstakir samningar, sem voru í gildi á milli Íslendinga og Dana, á meðan þessi lönd voru í nánari tengslum, hafi fallið úr gildi. Má hér t.d. minna á fiskveiðiréttinn. Þar kemur ljóst fram, hverjum augum Danir líta á það mál, en þeir hafa hér takmarkaðan fiskveiðirétt, sem framlengist með sérstökum l. frá ári til árs. Hitt er svo annað mál, að þessi réttur hefur enn sem komið er ekki verið skertur, en vitaskuld hefur Alþingi það í hendi sér, hvenær sem því býður við að horfa, að óbreyttu ástandi. Síðan ég tók sæti í ríkisstj., hafa Danir ávallt minnzt á fiskveiðisamninginn og viljað endurnýja hann, en þannig hafa þeir viðurkennt, að fyrri samningar hafi fallið úr gildi með sambandsslitunum. Mér finnst því vantraust hv. þm. S-Þ. vera nokkuð mikið á frændum vorum Dönum.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.

Samgmrh. (Emil Jónsson): Úr hafnarbótasjóði hefur verið greitt sem hér segir:

Til Akraness .................. 1.450.000.00 kr.

— Bakkafjarðar .. ... .. .. .. .. 80.000.00

— Bolungavíkur ............... 170.000.00

— Dalvíkur ..... .......... …..150.000.00

— Flateyjar á Breiðafirði .... 50.000.00

— Grindavikur ................ 238.500.00

— Hafnarfjarðar ………… 200.000.00

— Hofsóss ............................. 75.000.00

— Húsavíkur ........................ 530.000.00

— Hvammstanga ……………… 75.000.00

— Keflavíkur og Njarðvíkur.. 1.942.323.90

— Melgraseyrar ...................... 20.000.00

— Neskaupstaðar .................. 150.000.00

— Ólafsfjarðar ...................... 500.000.00

— Patreksfjarðar .................... 85.000.00

— Sandgerðis ....................... 300.000.00

— Skagastrandar ……………..490.000.00

— Sauðárkróks ..................... 150.000.00

— Stöðvarfjarðar .................... 55.000.00

— Voga ............................... .300.000.00

— Vopnafjarðar ..................... .30.000.00

— Þingeyrar ........................... 24.173.90

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. samgmrh. fyrir þessar upplýsingar, og eins og alþingismenn hafa heyrt, þá er þetta svar tæmandi.

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson): Herra forseti. Það eru tvö bæjarfélög, sem hafa fengið lán samkvæmt III. kafla 1. nr. 44 frá 1946. Þessi bæjarfélög eru Reykjavik, sem hefur fengið 5 millj. kr., og Ísafjörður, sem hefur fengið 1 milljón, en samkvæmt 31. gr. laganna er gert ráð fyrir því, að lánin nemi allt að 85% af byggingarkostnaði. Það er fullgengið frá lánunum til Reykjavíkurbæjar, en ekki fullgengið frá lánunum til Ísafjarðar, en það má búast við því, að upphæðin verði um 1.2 millj. Önnur bæjarfélög, sem sótt hafa um lán skv. þessum l., eru þrjú, en ekki hefur verið unnt að verða við beiðni þeirra.