16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í D-deild Alþingistíðinda. (5250)

925. mál, fjárbú ríkisins á Hesti

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er dálítill misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, ef hann heldur, að aðalstarf og jafnvel eina starfið á Hestbúinu sé spítalastarf, eins og hann orðaði það. Það er satt, að það var upphaflega stofnað sem kynbótabú, og það hefur líka verið rekið sem kynbótabú. Það mun hafa flýtt fyrir stofnun þess, að gera átti sérstakar tilraunir með ýmsa fjárstofna í sambandi við mæðiveikina. Menn höfðu veitt því athygli, að fé af mismunandi ættum og stofnum virtist misjafnlega móttækilegt fyrir veikina. Þess vegna var það einn af mörgum þáttum í starfsemi búsins að gera tilraunir með næmi og ónæmi fjárstofnanna fyrir mæðiveikinni og rannsaka, hvort hægt væri að koma upp ónæmum stofnum eða því sem næst.

Þetta bú var stofnsett 1943, og ég hef fylgzt með rekstri þess frá upphafi, en varðandi þá fyrirspurn, sem hér liggur fyrir, skrifaði ég dr. Halldóri Pálssyni, sem hefur haft umsjón með búinu frá fyrstu tíð, og fékk ég aftur frá honum eftirfarandi upplýsingar sem svar við hinum ýmsu liðum fyrirspurnarinnar:

Þar sem ekki er enn að fullu lokið við reikninga ársins 1948, geta niðurstöðutölur viðvíkjandi 1. og 5. lið breytzt lítils háttar.

1. Auk jarðarinnar Hests í Borgarfirði, í því ástandi er hún var keypt af kirkjujarðasjóði 1944 fyrir að byggt væri yfir prestinn á Hvanneyri og ræktað þar þriggja hektara tún handa prestinum, hefur verið lagt í stofnkostnað við búið þar kr. 388.304.39. Af þessari upphæð hefur verið lagt í endurbætur og mannvirki á jörðinni kr. 225.995.39, og það, sem gert hefur verið fyrir þessar 225 þús. kr., er sem hér segir: Byggð hafa verið vönduð fjárhús yfir 300 fjár ásamt hlöðu. Byggt hesthús yfir 9 hross með básum. Gert við fjós. Sett nýtt þak á íbúðarhús, og nokkrar aðrar breytingar gerðar á því. Sett upp dieselrafstöð. Land jarðarinnar girt. Ræktaðir um 3 hektarar af túni. Í byggingu er súrheysgryfja, kartöflugeymsla, og allmikið hefur verið unnið að undirbúningi ræktunar. Ég álít þetta vel gert fyrir 225 þús. kr., og er það allra manna mál, sem til þekkja, að þarna hafi verið haldið mjög vel á fé, enda hefur verið þar úrvals ráðsmaður.

Þessar 225 þús. kr. fóru sem sagt í endurbætur og mannvirki á jörðinni, en 162 þúsund krónum, eða rösklega það, hefur verið varið í bústofn, vélar, verkfæri og áhöld.

3. Hér er spurt um keypt sauðfé að Hestbúinu. — Árið 1943 voru keyptar 160 kindur, 1944 25 kindur, 1945 56 kindur, 1946 73 kindur, 1947 46 kindur, og 1948 48 kindur, eða alls 408 kindur, þ.e. 90 ær, 284 gimbrarlömb, 14 hrútar fullorðnir og 20 lambhrútar. Auk þess hafa verið aldar upp 267 kindur fæddar á Hestbúinu, og frá búinu hefur verið selt kynbótafé sem hér segir:

Árið 1945 21 kind, 1946 14 kindur, 1947 29 kindur og 1948 60 kindur, og selt kynbótafé er þá samtals 124 kindur, þar af 49 gimbrarlömb, 14 hrútar fullorðnir og 61 lambhrútur.

4. Þá er spurt, hve mikið hafi drepizt af fé á Hestbúinu árlega, og er það sem hér segir:

Ár: Úr mæðiveiki: Af öðrum sökum:

1943 0 kindur 0 kindur

1944 1 — 4 —

1945 7 — 3 —

1946 18 — 6 —

1947 5 — 12 —

1948 9 — 15 —

Samtals 40 kindur 40 kindur

Auk þessa hefur verið slátrað mæðiveikum kindum, sem komið hafa til nytja í misjöfnu ástandi, sem hér segir: Árið 1944 4 kindum, 1945 14 kindum, 1946 39 kindum, 1947 42 kindum, og 1948 42 kindum, eða alls 141 kind.

5. Undir fimmta lið fyrirspurnarinnar er spurt, hve miklar tekjur og útgjöld landið hafi haft af þessum búrekstri. Frá stofnun búsins til ársloka 1948 hafa tekjur búsins orðið samtals 284.563.95 kr., en útgjöld við rekstur þess og tilraunastarfsemina umfram tekjur hafa á sama tíma numið 214.901.46 kr. Halli á búinu hefur m.ö.o. orðið rúmar þrjátíu þús. kr. á ári, sem verður að skoðast sem stuðningur ríkisins við þetta tilraunabú.

2. Þá kem ég að því, sem varið hefur verið af ríkinu til að eignast jörðina Hest með því að bæta Hvanneyrarpresti jörðina með þeim húsum, sem á henni voru, er hann fluttist frá Hesti að Hvanneyri. Það var gert með því að byggja yfir hann hús á Hvanneyri, og kostaði það 320 þús. kr., og ræktun þriggja hektara túns þar, sem um var samið, kostaði 12.556 krónur. Auk þess hefur síðan verið varið allmiklu fé til rafmagns á staðnum, en það er þessu óviðkomandi.

6. Tekjur búsins af laxveiði hafa verið 1.500 kr. á ári. Veiðin var leigð, þegar búið var stofnað.

7. Yfirstjórnandi Hestbúsins fær enga sérstaka greiðslu fyrir umsjón sína og starf við Hestbúið, því að það er hluti af starfi hans sem forstjóra og sérfræðings í búfjárrækt við búnaðardeildina. Þar fær hann laun samkvæmt launal., kr. 10.200.00 á ári í grunnlaun.

Hv. þm. vildi halda því fram, að tilgangslaust væri að halda þessu búi áfram, vegna þess að nú stæðu yfir fjárskipti, og þar af leiðandi væri hlutverki búsins lokið. Um þetta segir svo í skýrslu, sem nokkuð lýsir árangri þessarar starfsemi:

„Það, sem áunnizt hefur í mæðiveikimálinu með tilraunastarfseminni á Hesti, er í stuttu máli þetta: Áður en búið var stofnað, hafði komið í ljós, að féð á sumum bæjum drapst minna úr mæðiveikinni, en fé á öðrum bæjum og fé af einstökum ættum á sumum bæjum drapst síður úr mæðiveiki, en fé af öðrum ættum á sama bæ. Ýmsir bændur o.fl. töldu fjárskipti óþörf, því að féð af hraustustu stofnunum mundi lifa, en hitt drepast, og smám saman mundi því fé landsmanna verða lítt næmt fyrir veikinni. Af þessum sökum var talið rétt, að fyrsta tilraunin á tilraunabúinu á Hesti yrði sú að fá úr því skorið, hvort fé af ýmsum stofnum væri misnæmt fyrir mæðiveikinni og hvort takast mætti að rækta ónæmt eða lítt næmt fé. Þegar búið var stofnað, voru því keypt lömb frá allmörgum bæjum á mæðiveikisvæðinu, þar sem minnst hafði drepizt úr mæðiveiki síðustu 4–5 árin, þótt veikin væri í stofninum. Jafnframt var keypt fé af kynbótastofnum, þótt vitað væri, að þeir hefðu reynzt næmir fyrir mæðiveikinni. Var það gert bæði til að hafa næmt fé með því, sem búizt var við, að væri hraustara, og til þess að hafa á búinu gott fé til þess að byggja á kynbætur og ræktun í almennri merkingu. Reynslan hefur orðið sú, að flestir þessir fjárstofnar hafa reynzt álíka næmir fyrir veikinni og fé almennt. Þeir, sem álitið var að væru næmir, hafa reynzt mjög næmir, eins og t.d. féð frá Fjarðarhorni í Hrútafirði. Hins vegar hafa tveir stofnar frá Gillastöðum og Kleifum í Dalasýslu reynzt ónæmari, en annað fé. Samt sem áður hafa þeir ekki reynzt eins hraustir og búizt var við. Þetta hefur leitt það í ljós, að þótt ef til vill megi draga úr vanhöldum af völdum mæðiveikinnar með ræktun fjárins með tilliti til ónæmleika, þá mundi það taka of langan tíma til þess að bændur gætu beðið eftir því, og hefur því verið horfið að fjárskiptum í þeirri von, að með því megi takast að útrýma mæðiveikinni. Nú síðustu árin hefur fé af 3 skozkum kynjum verið í samanburðartilraunum á Hesti, m.a. til þess að fá úr því skorið, hvort það reynist ónæmara fyrir mæðiveikinni en íslenzka féð, en þetta fé með erlenda blóðinu er enn of ungt til þess, að hægt sé að draga ályktanir um það, hvort það sé ónæmara, en íslenzkt fé.

Það virðist augljóst af spurningunni, að fyrirspyrjandi veit ekki annað en Hestbúið hafi eingöngu verið stofnað vegna mæðiveikitilrauna. Þetta er misskilningur. Búið var stofnað sem tilraunabú búnaðardeildar í sauðfjárrækt og annarri búfjárrækt, eftir því sem við yrði komið. Það var að vísu ákveðið, að byrjað skyldi á því að rannsaka viðnámsþrótt einstakra fjárstofna gegn mæðiveiki. Búið var stofnað samkvæmt lögum um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins frá 7. maí 1940. Síðan búið var sett á stofn, hafa líka verið framkvæmdar ýmsar ræktunartilraunir þar á sauðfé auk fóðurtilraunanna. Þar eru nú ræktaðir allmargir hreinræktaðir fjárstofnar, t.d. allir þekktustu stofnar Kleifakynsins og nokkrir stofnar af hyrndu fé, t.d. Gottorpsfé, þingeyskt fé o. fl. stofnar. Stofnar þessir eru kynbættir með úrvali og skyldleikarækt, og eins er unnið að því að sameina beztu kosti sumra stofna með blöndun, samfara úrvali og síðan skyldleikarækt. Mikið hefur áunnizt í þessu efni, og féð á Hesti er margt orðið framúrskarandi vel byggt, holdsamt og afurðagott, þótt jörðin sé ekki nema meðaljörð eða varla það að landkostum. Búið hefur selt alls 75 hrúta til kynbóta. Eftirspurnin hefur farið ört vaxandi, og s.l. haust var ómögulegt að fullnægja henni. Auk þessarar miklu hrútasölu á búið árlega um og yfir 20 hrúta, sem nauðsynlegt er að það eigi, vegna hinna mörgu ættstofna, sem þar eru ræktaðir. Suma þessa hrúta lánar búið bændum í nágrenninu, þar sem hægt er að ná til þeirra aftur, ef hrútur ferst. Af þessu mikla hrútahaldi hefur búið aukinn kostnað, en fram hjá því skeri verður ekki synt, ef ræktun fjárstofnanna á að vera skipulega framkvæmd. Nú standa yfir tilraunir um samanburð á kynblendingum af 3 skozkum kynjum og íslenzku fé og hreinræktuðum íslenzkum ám á sama aldri. Í tilraun þessari eru 5 flokkar. Í fyrsta flokki eru Border-Leicester kynblendingar. Í öðrum flokki eru Cheviot-kynblendingar. Í þriðja flokki eru Svarthöfða-kynblendingar. Í fjórða flokki eru ísl. ær af Kleifakyni. Í fimmta flokki eru hyrndar ísl. ær af húnvetnsku kyni, aðallega Gottorpsfé.

Gerður er samanburður á eftirfarandi eiginleikum hjá þessum fjárkynjum: Viðnámsþrótti gegn mæðiveikinni eins og áður er sagt, fóðurþörf, þrifum, bæði á beit og innistöðum, hreysti og dugnaði, frjósemi og afurðagetu, bæði hvað magn og gæði afurðanna, kjöts og ullar, varðar. Tilraun þessi þarf að standa yfir nokkur ár til þess að fá þessum spurningum svarað, en þá ættu að vera fyrir hendi haldgóðar upplýsingar um, hvort þessi brezku fjárkyn hafi yfirburði yfir ísl. féð, svo að ekki þurfi að deila lengur um, hvort hagur væri í því að flytja þessi fjárkyn til landsins með sæðingu eða öðruvísi.

Á Hesti eru haldnar fullkomnar ættartölubækur og afurðaskýrslur yfir hvern einstakling í hjörðinni. Allt ásetningsféð er vegið að haustinu, um miðjan vetur og að vorinu. Hvert lamb er merkt að vorinu og þau öll vegin að haustinu. Allar afurðir hverrar sláturkindar eru vegnar sérstaklega, og byggingarlag hvers dilksskrokks er rannsakað og gæði kjötsins, til þess að fá samanburð á hinum einstöku fjárstofnum með tilliti til kjötgæðanna ekki síður en afurðamagnsins. Búið er einnig notað sem kennslubú. Skólapiltar frá Hvanneyri eru látnir skoða féð þar af hinum ýmsu kynjum og ættstofnum, og þeim er leiðbeint um dóma í því sambandi af sauðfjárræktarráðunautnum, sem hefur yfirumsjón á búinu. Sérstaklega er búið notað mikið við kennslu framhaldsdeildar piltanna á Hvanneyri. Einnig hefur Hestsbúið selt mötuneyti Hvanneyrarskólans sláturafurðir. Er þá tækifærið notað til þess að kenna skólapiltum, hvernig dilkar eigi að vera vaxnir og holdþéttir, með því að sýna þeim dilkaföllin og útskýra fyrir þeim, á hverju gæðamat kjötsins byggist. Skólastjórinn á Hvanneyri er mjög ánægður yfir þessari samvinnu við fjárræktarbúið á Hesti, og því tækifæri, sem nemendur fá þar til þess að læra um sauðfjárrækt. Auk þessa heimsækja tugir bænda búið árlega til þess að sjá féð og leita þar eftir kynbótafé. Auk fjárbúsins hafa verið ræktaðar ágætar kýr á Hesti, þótt kúabúið þar sé og hafi verið lítið. Seldir hafa verið þaðan 5 kynbóta nautkálfar og nokkrar kýr og kvígur. Búfjáreign búsins er nú sem hér segir: 5 nautgripir, 3 hross, 250 ær, 131 gemlingar. þar af 13 lambhrútar, og 13 hrútar fullorðnir, eða alls 394 kindur.“

Eins og hv. þm. sagði, er þetta allt unnið fyrir gýg og tilgangslaust, þegar að því kemur, að fjárskipti fara fram í Borgarfirði og þessi stofn, sem þarna er, fellur eins og annað fé. En í sambandi við það minntist hann á mál, sem rætt var hér í vetur, það eru þær tilraunir, sem nú er verið að gera og sem vonandi lánast, um það að varðveita ýmsa beztu stofna, sem til eru í landinu í þeim héruðum, þar sem nú eru að fara fram fjárskipti og niðurskurður, með því að vernda þá með uppeldi úti í Engey. Þetta er framkvæmt þannig, að ein úrvalsær af Vestfjörðum er flutt til geymslu í Engey, svo er tekið sæði úr úrvalshrút af beztu kynjum, sem nú eru að fara undir öxina. Þessir sæðisflutningar eru framkvæmdir frá landi út í eyju undir nákvæmu eftirliti og skýrslum um notkun hinna ýmsu kynja, og vonir standa til, að þegar fjárskipti eru um garð gengin og búið er að útrýma þessum ágætu stofnum, þá verði þeir til þarna í Engey, og ef reynslan sýnir, sem líkur eru til, að smitun geti ekki borizt á þennan hátt í hinn heilbrigða stofn í Engey, þá er unnt að taka upp á sérstöku búi aftur hina gömlu heilbrigðu stofna, sem þar hafa lifað af þessa miklu pest, og skipuleggja ræktunina á ný út um allt land, og þá er nauðsynlegt að hafa til þess fullkomið fjárræktarbú, þar sem fullkomnasta þekkingu er hægt að fá, og geta byrjað að hreinrækta þessi ýmsu kyn og deila þeim aftur út um landið og reyna að koma þannig í veg fyrir, að það mikla starf og það mikla fé, sem á undanförnum árum hefur verið lagt í að skapa góða kynstofna, fari til einskis, og þessir góðu kynstofnar eyðileggist ekki þrátt fyrir niðurskurð, heldur verði til að bæta kynstofninn aftur, ef það skyldi takast að koma þessum kynbótum við.