16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í D-deild Alþingistíðinda. (5256)

926. mál, lönd hjá Kleppi handa Menntaskólanum í Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Það er í rauninni heppilegt, að þessi fyrirspurn skuli hafa komið hér til umræðu í dag, þegar ríkisstj. útbýtir frv. um eignarnám á lóðum handa gamla Menntaskólanum í Reykjavík í nágrenni hans, og vaknar hæstv. menntmrh. að vísu seint til þeirra hluta, en betra er seint en aldrei. Hæstv. fyrrv. menntmrh. gerði kaupráðstafanir á landi í nánd við Klepp undir menntaskóla og lét ríkissjóð borga fyrir þetta, og hygg ég, að það fé hafi aldrei verið endurgreitt. Ríkisstj. mun nú ekki veita af að fá þessa peninga aftur til útgjalda í sambandi við menntaskólann, og vænti ég, að í ljós komi nú, hvenær búast megi við, að þetta verði endurgreitt, og hvað gert hafi verið til að fá það endurgreitt.