16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í D-deild Alþingistíðinda. (5271)

928. mál, Sameinuðu þjóðirnar

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég var einn af þeim 14 þm., sem sáu sér ekki fært árið 1946 að samþykkja að ganga í bandalag Sameinuðu þjóðanna, eftir að felld hafði verið tillaga um, að við þyrftum aldrei að láta í té stöðvar til hernaðaraðgerða. Í hópi þessara þm. voru margir hinir elztu og reyndustu þm., svo sem Bernharð Stefánsson, Pétur Ottesen, Jón Sigurðsson, Ingvar Pálmason, Björn Kristjánsson, Páll Zóphóníasson, Skúli Guðmundsson, Steingrímur Steinþórsson og Gísli Sveinsson. 36 hv. þm. vildu þó allt til vinna, að Ísland gerðist þátttakandi í Sameinuðu þjóðunum, sem áttu að útrýma styrjöldum og koma á eilífum friði. Nú er svo komið eftir 2 ár, að farið er að draga af trú 36-menninganna á mátt Sameinuðu þjóðanna til að vernda þjóðirnar og tryggja þeim daglegt brauð. Nú heyrist það daglega, að Sameinuðu þjóðirnar hafi brugðizt hlutverki sínu og Íslendingar verði að ganga í nýtt bandalag, sem tryggja eigi frið milli þjóðanna. Á skammri stundu skipast veður í lofti.

Út af þátttöku Íslendinga í Sameinuðu þjóðunum hef ég borið fram svo hljóðandi fyrirspurn til hæstv. fjmrh. á þskj. 324.

1. Hvaða árgjald hefur Íslandi verið gert að greiða til Sameinuðu þjóðanna samkv. 17. gr. bandalagssáttmálans?

2. Hver hefur orðið kostnaður Íslands af fulltrúasendingum á þing Sameinuðu þjóðanna, hvert árið um sig?

3. Hver er orðinn allur kostnaður Íslands af þátttöku í þessu bandalagi Sameinuðu þjóðanna síðan Ísland gerðist þar aðili og til þessa dags?

Ég hef ekkert heyrt um það, hvað þetta hafi kostað, en leikur hugur á að fá úr því skorið, og hygg ég, að svo muni vera um fleiri þm. Ég vænti góðra og glöggra svara. Spurningin er hrein og bein og undirhyggjulaust borin fram.