16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í D-deild Alþingistíðinda. (5272)

928. mál, Sameinuðu þjóðirnar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn hef ég látið fara fram athugun á þessu hjá ríkisbókhaldinu og fengið eftirfarandi upplýsingar:

Í fyrsta lagi er spurt, hvaða árgjald Íslandi hafi verið gert að greiða til Sameinuðu þjóðanna samkvæmt 17. gr. bandalagssáttmálans. — Ríkisbókhaldið hefur gefið mér þær upplýsingar, að árin 1946-47 hafi tillag Íslands til Sameinuðu þjóðanna verið kr. 88.062.02. Svo bætist þar við tillag til Working Capital Fund, kr. 52.040.00, að viðbættum yfirfærslukostnaði, sem var kr. 1.050.77. Samtals er því tillagið 1946-47 kr. 141.152.79. Svo er uppfært hér tillag ársins 1948, kr. 90.282.90, en þar sé ég ekki þennan seinni lið, sem uppfærður er fyrri árin, það er tillag til Working Capital Fund. Ég fékk þessar upplýsingar svo seint í hendur, rétt áður en ég fór úr ráðuneytinu í dag, að ég hafði ekki ráðrúm til að leita eftir því hjá ríkisbókhaldinu, hvort þessi liður kæmi til greina 1948 eða ekki. En sé gengið út frá, að þessi liður komi ekki til greina á árinu 1948, eins og gert er í þessu yfirliti, sem ég hef í höndunum, þá er hér um að ræða heildarkostnað að upphæð kr. 231.435.69, sem er árgjald eða tillag Íslands til Sameinuðu þjóðanna árin 1946–48 að báðum meðtöldum.

Þá kem ég að öðrum lið fyrirspurnarinnar, og er þar spurt, hver kostnaður hafi orðið af fulltrúasendingum á þing Sameinuðu þjóðanna hvert árið um sig. — Ríkisbókhaldið gefur þær upplýsingar, að kostnaður Íslands af þinghaldi Sameinuðu þjóðanna hafi orðið sem hér segir:

Árið 1946 kr. 76.550.66

— 1947 — 105.823.39

— 1948 — 29.274.61

En til skýringar stendur hér í yfirlitinu, að þessi kostnaður fyrir mánuðina okt.–des. 1948 sé ókominn til reiknings, þ.e. kostnaðurinn við þinghaldið í París í haust, og er því ekki hægt að gefa upplýsingar um hann. En samanlagt eru þær tölur, sem ég las áðan, kr. 211.648.66, og er sú tala því svarið við öðrum lið fyrirspurnarinnar að viðbættum kostnaðinum við þinghaldið í París.

Í þriðja lið fyrirspurnarinnar er svo loks spurt, hver sé orðinn allur kostnaður Íslands af þátttöku þess í bandalagi Samelnuðu þjóðanna frá því að Ísland gerðist aðili að því og til þessa dags. Svarið er, auk þess kostnaðar, sem þegar hefur verið tilfærður, kr. 16.618.97 til gjaldeyris- og alþjóðabankans á árunum 1946 og 1947, kr. 37.596.21 til matvælaráðstefnunnar árin 1946, 1947 og 1948, kr. 1.622.70 til alþjóðlegu barnahjálparinnar árið 1948, og loks kostnaður og framlag til alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar kr. 16.120.00.

Framangreindar niðurstöðutölur, þ.e.

kr. 231.435.69

— 211.648.66

— 16.618.97

— 37.596.21

— 1.622.70

— 16.120.00

mundu þá samanlagðar vera svarið við þriðja lið fyrirspurnarinnar, og hef ég ekki lagt þær saman, að viðbættum kostnaðinum við þinghaldið í París í okt.–des. s.l. ár sem fyrr segir.

Ég skal ekkert segja um, hvort þetta er algerlega tæmandi, en ríkisbókhaldið hefur fengið mér þessar upplýsingar þannig í hendur sem svar við þessari fyrirspurn hv. 3. landsk. Sé svarið ófullnægjandi að einhverju leyti, þá get ég því miður ekki bætt úr því í bili. En ég hef fullan vilja á að láta endurskoða þessar upplýsingar, ef hv. fyrirspyrjandi óskar eftir því, og láta honum það síðar í té, ef í ljós kæmi við nánari athugun, að hægt væri að gefa fyllri skýringar og upplýsingar.