23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í D-deild Alþingistíðinda. (5287)

136. mál, embættisbústaðir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef nú ekki miklu við þetta að bæta. Ég tek alveg undir það með hv. 1. þm. Rang., að undirbúningur að þessu frv. hafi ekki verið mikill, en ég skal nú leggja það til við þá, sem að undirbúningnum standa, að þeir hraði honum, eftir því sem föng standa til. Mér skildist það, að meginkjarninn hafi verið nokkurn veginn í sömu átt hjá hv. þm. og það, sem fram kom í skýrslu ráðuneytanna, enda vænti ég þess, að framkvæmdum verði hagað í svipaða átt og hv. 1. þm. Rang. lagði til. Ég játa það, að persónulega hef ég beitt mér fyrir því, að menn hér í Reykjavík yrðu aðnjótandi þessara bústaða, en það gerði ég vegna þess, að sams konar embættismenn voru áður búnir að fá bústaði. Og það er að mínu viti mögulegt að takmarka ákvæði, þannig að byggt verði eftir sanngjörnum reglum og látið ganga jafnt yfir alla, en það má ekki gera mönnum mishátt undir höfði.

Varðandi það, sem hv. 1. þm. N–M. sagði, þá er það nú nokkurs annars eðlis, og það getur varla komið fram í þessari löggjöf, því að hér verður varla annað tekið fram en það, hvaða tegund embættismannabústaða ætti að byggja og undir hvaða skilyrðum eigi að byggja, en varla verður tekið fram um einstaka staði, þar sem byggja á. Þar kemur aftur til greina löggjöfin um skipun læknishéraða og skipun prestakalla. Þannig eru það ráðuneytin, sem kveða á um það, á hvaða stað skuli byggja.