02.03.1949
Sameinað þing: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í D-deild Alþingistíðinda. (5308)

930. mál, bygging fornminjasafns

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Eins og allir íbúar Reykjavíkur hafa orðið varir við, þá hefur verið unnið að því undanfarin misseri að koma upp mikilli byggingu vestan við háskólann. Á sú bygging að verða fyrir listaverk landsins og fornminjar. Þessi bygging var ákveðin í sambandi við stofnun lýðveldis á Íslandi og bygging hússins ákveðin í hátíðargleði. Hefur slíkt valdið nokkurri fljótfærni og umbúnaður hússins því ekki hugsaður eins og hefði mátt ætla um hús af þessari gerð. Húsið er frámunalega ljótt og óhentugt sem safnbygging. Meðal annarra vankanta var það, að enginn inngangur var í það, og hefur orðið að brjóta inngang í það. Sá menntmrh., sem réð byggingarframkvæmdum, var Einar Arnórsson. Skipaði hann 3 manna nefnd til að sjá um byggingu hússins, og var Sigurði Guðmundssyni falið að teikna húsið. Varð ósamkomulag á milli húsameistara og byggingarnefndar, og fékk nefndin engu ráðið. Á þeim hluta hússins, sem ætlaður er fyrir listaverk, er sá galli, að engin ofanbirta er. Aðalsalur er 9 m hár, en þar er ekkert ljós. En á hinum háu veggjum þessara sala eru stórir hliðargluggar líkt og á verzlunarhúsum. Nú er því þannig háttað í öllum málverkasöfnum, sem getið er um, að birtan er fengin ofan frá. Þessi sjálfsagði hlutur hefur verið vanræktur, og mun þetta tiltæki hafa skapað megna óánægju hjá málurum landsins. Ég hef því spurt sérstaklega um þetta, hvort málarar landsins muni neita að sýna málverk sin í slíkum salarkynnum. Mér hefur einnig þótt máli skipta að spyrja, hver hafi haft eftirlit með verkinu, auk kostnaðar. Bygging þessi verður því óvinsælli sem hún er dýrari. Þess vegna hef ég spurt um þetta.