02.03.1949
Sameinað þing: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í D-deild Alþingistíðinda. (5312)

930. mál, bygging fornminjasafns

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að svarið í bréfinu segir engan veginn fyrir um það, hvort hér sé um lokagreiðslur að ræða eða ekki. Ég hef ekki kynnt mér það nánar. Ég fékk þetta bréf ekki fyrr, en um hádegisbilið í dag, þegar ég fór heim að borða, svo að það var ekki mikill tími til stefnu, en ég skal láta athuga þetta og fá upplýsingar um það, hvort hér sé um lokagreiðslur að ræða. En um eftirlitið segir svo í bréfinu:

„Eftirlit með byggingunni, auk arkitektanna, og form. byggingarnefndar, hefur Sigurður Jónsson múrarameistari, en hann og Snorri Halldórsson húsasmíðameistari hafa tekið verkið að sér, og hefur hvor þeirra fengið í laun kr. 1.125.00 í grunnkaup pr. mán..... Húsameisturunum hafa verið greiddar 120.000.00 kr. samkv. taxta arkitektafélagsins.“

Ég veit ekki annað en það, sem í bréfinu stendur, en ég get vel tekið undir það með hv. þm., að það þurfi undirbúning til þess að svara fyrirspurnum, en sumar af þeim fyrirspurnum, sem hv. fyrirspyrjandi leggur fram, eru þannig lagaðar, að það er ekki hægt að svara þeim, og aðrar eru þannig vaxnar, að það er ekki hægt nema verið sé að undirbúa sig í 3–4 daga.