27.04.1949
Sameinað þing: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í D-deild Alþingistíðinda. (5328)

931. mál, tolleftirgjöf af bifreiðum

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það er að vísu svo, eins og ég hef þegar getið um áður, að það er ekki svo fljótlegt að komast eftir því, hve margir þessir menn eru, ef taka á alla, sem komið gætu til greina, en eftir orðalaginu gætu allmargir gert það.

Ég var að biðja tollstjóra um að athuga þetta, en hann hefur tjáð mér, að það væru svo mörg skjöl, sem fara þyrfti gegnum, að það yrði geysimikil vinna að svara fyrirspurninni til hlítar. En nú hefur hv. fyrirspyrjandi lýst því yfir, að hann ætlist ekki til, að svo mikil vinna verði lögð í þetta. Hann spyr, hvenær byrjað hafi verið á þessum innflutningi.

Er þess þá að geta, að með bréfi 16. okt. 1941 skrifar forsrh. þáverandi til bifreiðaeinkasölu ríkisins, þar sem segir, að það hafi verið ákveðið á ráðherrafundi, að í stað þess að stjórnarráðið átti bifreiðar þær, sem notaðar voru af ráðherrum, þá skyldu þeir nú eiga þess kost að kaupa bifreiðar og greiða þær með innkaupsverði, einkasölunni að skaðlausu, en tolla- og álagningarlaust. Svo hefur sá háttur verið hafður á, eftir því sem bezt verður séð, að ýmist allir ráðherrarnir hafa notað sér þessa heimild og notað eigin bifreiðar og átt þær, eða þá að þeir hafa ekki átt bifreiðarnar sjálfir, heldur ríkið, sem leggur þær til afnota fyrir ráðherra, og er svo enn í sumum tilfellum. Ég geri ráð fyrir, að það sé aðallega þetta, sem vakir fyrir hv. fyrirspyrjanda. En ég hef ekki getað fengið um það upplýsingar hjá bifreiðaeinkasölunni, hve margar bifreiðar hafa verið fluttar inn á þennan hátt, og ekki heldur, hve margir sendimenn ríkisins og starfsmenn við íslenzk sendiráð hafa fengið leyfi til þess að hafa með sér og flytja tollfrjálst bifreiðar sínar inn í landið.

Ég ætla þá, að ég hafi gert þetta ljóst, að þetta hefur verið til síðan 1941, að ýmist hafa bifreiðarnar verið í eign ráðherra, og hafa þeir því lagt fram allt slit, sem á bifreiðunum verður, en tolllaust, en hafa hins vegar fengið gúmmí og benzín, eða þá að ríkið sjálft á bifreiðarnar til afnota fyrir ráðherra.