27.04.1949
Sameinað þing: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í D-deild Alþingistíðinda. (5329)

931. mál, tolleftirgjöf af bifreiðum

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú leyst úr þessu að nokkru leyti, þó að það hefði nú mátt vera meira eftir þennan tíma. Það hefur nú komið í ljós, að á ákveðnum tíma hefur þessi venja komizt á með samþykki þeirra manna, sem sæti áttu í ríkisstj. Þetta er því að nokkru leyti nýmæli, en ekki heppilegt nýmæli, en ég ætla ekki að fara út í það hér, en ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort allir þeir ráðherrar, sem setið hafa í ríkisstj. frá þessum ákveðna tíma, hafi notað sér þessi hlunnindi og hvort ekki sé leyfilegt, að ráðherra fái sér bifreið skv. þessari heimild og flytji hana inn í landið, selji hana síðan og fái sér aðra nýja. Ráðherrar gætu haft af þessu ekki ósnotra verzlun og arðbæra, geri ég ráð fyrir. Veit hæstv. ráðh., hvort þessi venja hefur komizt í praxís?

Mér er ekki kunnugt um, hvort sú venja hefur komizt á, að forsetar Alþ. og skrifstofustjórar ráðuneytanna og Alþ. hafi þessi hlunnindi, en ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. viti það. Og að endingu þætti mér æskilegt að fá að vita það, hvort allir núverandi ráðherrar hafa notað sér þessa helmild eða hve margir.