02.03.1949
Sameinað þing: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í D-deild Alþingistíðinda. (5334)

932. mál, mannahald og launagreiðslu hjá fjárhagsráði og deildum þess

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, að spurningarnar eru ljóst orðaðar, og svara ég þeim þannig skv. bréfi, sem mér hefur borizt um þetta frá fjárhagsráði:

I. Fjárhagsráð: Laun samtals í janúarmánuði kr. 50.138.44, þar af aukavinna kr. 638.44. Fjöldi starfsmanna 21, þar með taldir nefndarmenn.

II. Viðskiptanefnd og verðlagsstjóri: Laun samtals í janúarmánuði kr. 99.088.18, þar af aukavinna kr. 15.509.20 (ca 15,6%). Fjöldi starfsmanna 47. Þar með taldir nefndarmenn og þeir, sem annast verðlagseftirlit úti á landi. Eftirvinna er óhjákvæmileg í það minnsta í janúar og febrúar. — Viðskiptanefndin hefur aldrei greitt næturvinnutaxta, þótt unnið hafi verið á helgidögum og fram til kl. 12 á miðnætti aðra daga, ef sérstök nauðsyn hefur krafið.

III. Skömmtunarskrifstofan: Laun alls í janúarmánuði kr. 59.756.07, þar af aukavinna kr. 21.437.30 (ca. 35,8%). Starfsmenn 26, þar af tveir lausamenn, sem unnið hafa fyrir tímakaup og hækka aukavinnuna því óeðlilega mikið.

Með þessu held ég, að spurningum hv. þm. sé svarað.