09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í D-deild Alþingistíðinda. (5349)

933. mál, ljóskastarar í skipum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það var 4. febr. 1948, sem þál. um ljóskastara í skipum var afgr. frá Alþingi. 16. febr. skrifaði ég skipaskoðunarstjóra og óskaði eftir, að hann hefði framkvæmd um undirbúning þessa máls. Ég hef spurzt fyrir hjá honum um, hvað þessu máli líður. Hefur hann skrifað mér svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið hefur með bréfi, dags. 4. þ.m., óskað upplýsinga um, hvað gert hafi verið í því, er lýtur að framkvæmd þingsályktunar frá 4. febr. 1948, um ljóskastara. Málið stendur þannig:

Ráðuneytið skrifar skipaskoðunarstjóra bréf, dags. 16. febr. 1948, ásamt nefndri þingsályktun, og felur honum að undirbúa reglugerð þá, sem þingsályktunin gerir ráð fyrir, að sett verði, í samráði við þá aðila, sem skipaeftirlitslögin gera ráð fyrir, að geri tillögur við samningu slíkrar reglugerðar, svo og Slysavarnarfélag Íslands.

Það næsta, sem gerist, er þetta: Með því að nefnd sú, sem skipuð var af ríkisstjórn, sjómönnum og útgerðarmönnum til þess að semja frumvarp til laga „um eftirlit með skipum“ (sem nú er orðið að lögum) og reglugerð, m.a. um útbúnað skipa, er enn þá starfandi, þá taldi skipaskoðunarstjóri réttast að senda nefndinni nefnda þingsályktun til þess að taka ákvæði um ljóskastara í skipum upp í væntanlega reglugerð.

Hinn 8. marz 1948 ritar skipaskoðunarstjóri formanni nefndarinnar, hr. Bárði Tómassyni, bréf, þar sem farið er fram á, að nefndin taki þetta mál til frekari fyrirgreiðslu og í samræmi við tilgang þingsályktunarinnar.

Á fundi, sem ég var staddur á hjá nefndinni, tók hún þetta mál til athugunar, og var tekið upp í væntanlega reglugerð ákvæði um ljóskastara. Í væntanlegri reglugerð er gert ráð fyrir, að öll íslenzk skip, 50 rúmlestir að stærð, skuli hafa ljóskastara. Ljósmagn ljóskastaranna er hvað stærstu skipin snertir miðað við alþjóðareglur, en fer síðan minnkandi.

Ljóskastararnir eru með þrenns konar ljósmagni.

No. 1 lýsir í ca. 1.000 m fjarlægð

— 2 — —— 700 m —-

— 3 — —— 400 m —-

Ákvæðin um ljóskastara eru enn þá ekki komin í framkvæmd, með því að reglugerðin er ekki búin, en auðvelt væri að taka þessi ákvæði strax út og gefa þau út í sérstakri reglugerð.“

Ég hef svo ekki öðru við þetta að bæta en að ég óska eftir, að hann hraði málinu.