09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í D-deild Alþingistíðinda. (5360)

935. mál, leiga á jarðhúsum

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. fyrirspyrjandi telur, að ekki hafi verið lagaheimild til að taka á leigu kartöflugeymslurnar við Elliðaár. Ég verð að vefengja þennan lagaskilning hjá honum og láta hann vita, að það er ekki aðeins í þetta skipti, heldur oft áður, að atvmrn. hefur orðið að gera ráðstafanir til, að Grænmetisverzlun ríkisins tæki á leigu húsnæði til atvinnurekstrar síns, á sama hátt og ég hygg, að hæstv. viðskmrh. hafi tekið á leigu húsnæði vegna innkaupastofnunar ríkisins, sem nýlega er komin á laggirnar. Það er ein af þeim skyldum, sem rn. eru lagðar á herðar, að sjá um framkvæmd slíkra mála. Að því leyti sem snertir leigu á þessum geymslum, þá er ótvíræð heimild til þess í sjálfu málinu, um leið og ráðh. er fengið það til framkvæmda. Þetta hefur verið gert fyrir milligöngu milli eigenda húsanna og framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem hefur óskað eftir því við atvmrn., að hafizt væri handa um að fá þessi hús og nota þau til geymslu á kartöflum og öðrum garðávexti og grænmeti. Rn. hefur haft milligöngu um að ná þessum samningum sameiginlega fyrir Grænmetisverzlun ríkisins og framleiðsluráð landbúnaðarins, sem nú hefur tekið við þessu í sínar hendur, að því leyti sem grænmetisverzlunin notar það ekki sjálf. Það væri kannske sá hlutur, sem mætti vefengja, að rn. hefði haft heimild til, en framleiðsluráð landbúnaðarins starfar að nokkru leyti undir atvmrn., og því er falið að gæta þess, að framleiðsla landbúnaðarins nýtist sem bezt fyrir þjóðina, og það óskaði eftir að fá yfirráð yfir þessum húsum, svo að þau nýttust sem bezt fyrir framleiðslu landsmanna. Þetta hefur rn. gert án þess að bera sig saman við hina ráðh.