09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í D-deild Alþingistíðinda. (5383)

938. mál, þjóðartekjur af útgerð 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Varðandi þá fyrirspurn, sem hér liggur frammi og er á þskj. 413, vil ég hér með tilkynna hv. fyrirspyrjanda það svar, sem fyrir liggur og sett er í letur af Fiskifélagi Íslands, sem bezta aðstöðu hefur til þess að upplýsa þessi mál, og vil ég leyfa mér að lesa það svar, en það hljóðar svo:

„Vér höfum haft til athugunar bréf hins háa ráðuneytis, dags. 3. þ. m., þar sem óskað er eftir, að við látum í té upplýsingar um nokkur atriði, er fram koma í fyrirspurn alþm. Jónasar Jónssonar á þskj. 413, varðandi þjóðartekjur af útgerð árið 1947.

Spurningum þeim, sem settar eru fram í 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar, er svarað með eftirfarandi:

1. a. Togarafiskur ............ kr. 47.172.700 b.

Bátafiskur ...................... — 111.742.690 c.

Síldarafurðir . .................. — 75.848.420

2. Tekjur af lýsissölu ........ — 22.863.700

Rétt þykir oss að benda á, að spurningarnar eru þannig fram settar, að mjög erfitt er að átta sig á, hvað raunverulega er átt við. Enn fremur vantar hér upplýsingar um ýmsar afurðir sjávarútvegsins, svo sem t.d. fiskimjöl, en tekjur af þeim útflutningi árið 1947 námu alls kr. 5.594.790, en af öðrum sjávarafurðum alls kr. 3.806.470, en heildarútflutningstekjur af sjávarafurðum þetta ár námu kr. 267.028.770.00. Allar tölurnar sýna það, sem fékkst fyrir þessar afurðir fob., þ.e. eins og talið er í opinberum útflutningsskýrslum, en þar með er ekki sagt, að afurðirnar hafi verið framleiddar á þessu ári, því að ávallt flyzt svolítið magn af flestum afurðunum milli ára. Það ætti þó ekki að breyta neinu verulegu um niðurstöðuna.

Varðandi 3. liðinn höfum vér engar handbærar upplýsingar og leituðum því til Hagstofu Íslands í því sambandi. Barst oss í gær svo hljóðandi svar frá hagstofunni:

„Með bréfi dags. 4. þ. m. hefur Fiskifélagið farið fram á, að hagstofan léti því í té upplýsingar, sem atvmrn. hefur óskað eftir vegna framkominnar fyrirspurnar á Alþingi um áætlaðar greiðslur til útlanda árið 1947 fyrir útgerðarvörur og viðgerðir skipa erlendis.

Út af þessu skal yður hér með tjáð, að áætlun um þetta hefur verið gerð í áliti nefndar þeirrar, er skipuð var 3. apríl 1948 til þess að gera tillögur um árlegan vísitöluútreikning miðaðan við magn og verð útflutningsframleiðslunnar. Skilaði nefndin áliti sínu til forsætisráðherra í byrjun þessa árs, og mun nægja að vísa til þess.“

Virðingarfyllst,

Davíð Ólafsson

(sign.).“

Nú er það að vísu rétt, að á þessar upplýsingar skortir að skýra það, sem í plagginu stendur, og af því að ég hafði það ekki við höndina, þá vildi ég mega vænta nokkurrar biðlundar hjá hv. fyrirspyrjanda varðandi það.