16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í D-deild Alþingistíðinda. (5401)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram út af þessum umr., sem fram hafa farið, og ítrekunum hv. 2. þm. Reykv. að fá þessari fyrirspurn, sem hér liggur fyrir frá honum, svarað í dag eða á morgun, að það er viðtekin regla hér á þingi, sem framkvæmd er af forsetum Alþingis, bæði í Sþ. og deildum, að taka til greina, ef mál er á dagskrá, sem varðar einhvern þm. eða ráðh., og taka málið ekki fyrir meðan hlutaðeigandi er fjarvistum. Og þegar þeir tveir ráðh., sem þetta mál samkvæmt eðli sínu snertir, hæstv. utanrrh. og hæstv. menntmrh., sem með flugmálin fer, eru fjarvistum í embættiserindum, þá finnst mér það ekki ná nokkurri átt og stappa nærri ósvífni, að þess skuli vera krafizt, að mál, sem heyrir undir þá, skuli verða tekið til umr. hér á þingi. Ég veit, að hæstv. forseti hefur sýnt hv. 2. þm. Reykv. ætíð þá tilhliðrun, sem hann hefur óskað eftir, að mál yrði ekki tekið fyrir, — vegna þess að hann væri óviðbúinn að ræða það eða þyrfti að vera fjarvistum, — sem hann vildi vera viðstaddur. Þá hefur hæstv. forseti ætíð sýnt honum tilhliðrunarsemi eins og öðrum hv. þm. Þá er það augsýnilegt, þegar hæstv. ráðh. eru fjarvistum í embættiserindum fyrir ríkið, að það er skylt og sjálfsagt að taka til greina ósk, sem fram er borin um það réttilega, að fyrirspurnir, sem snerta þá beint eða óbeint, verði ekki teknar fyrir, meðan þeir eru fjarverandi í embættiserindum fyrir ríkið, enda veit ég það, að þegar ég minntist á það við hæstv. forseta í gær, þá taldi hann það sjálfsagt. Þetta er regla, sem ávallt hefur verið fylgt, líka gagnvart hv. 2. þm. Reykv., en krafa hans sýnir, hvernig hann vill láta hegða sér gagnvart öðrum, en honum sjálfum.