23.03.1949
Sameinað þing: 52. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í D-deild Alþingistíðinda. (5403)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vildi mælast til, að hæstv. forseti tæki fyrir 160. mál, sem er fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. um aðflutninga að Keflavíkurflugvellinum. Þessi fyrirspurn var á dagskrá í síðasta fyrirspurnatíma, en var ekki svarað þá, á þeim grundvelli, að hálf ríkisstj. væri vestur í Ameríku. En hæstv. forseti lofaði því þá, að hún yrði tekin fyrir í næsta fyrirspurnatíma. Nú háttar því svo til, að ekki er mikið verk að svara henni, en mjög þýðingarmikið að fá þessar upplýsingar áður en rætt verður um sáttmála Atlantshafsbandalagsins, sem hæstv. ríkisstj. mun leggja hér fyrir þingið á næstunni. Ég vil því mælast til þess við hæstv. forseta, að ríkisstj. verði gefinn tími til að svara þessari fyrirspurn á þessum fundi. Ég mæli ekki gegn því, að fyrst verði flutt framsöguræða til fjárl., en ef framsöguræðan er það löng, að ekki verði tími til að svara fyrirspurninni, þá vil ég mælast til, að henni verði frestað.