27.04.1949
Sameinað þing: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í D-deild Alþingistíðinda. (5416)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef nú bætt við þekkingu mína um þetta efni, frá því að ég svaraði 2. og 3. lið þessarar fyrirspurnar, og vonandi til ánægju fyrir hv. fyrirspyrjanda. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið frá skrifstofu tollstjórans í Rvík og tollstjóraskrifstofunni á Keflavíkurflugvelli, hafa Bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli flutt inn á árinu 1948, um Reykjavíkurhöfn eða beint með flugvélum, samtals um 4.753 smálestir af ýmiss konar vörum, sem eru tollfrjálsar samkv. l. nr. 95 frá 28. des. 1946, sem eru löggilding Keflavíkursamningsins. Langmestur hluti þessa varnings er annaðhvort byggingarefni vegna mannvirkja, sem reist hafa verið og eru í smíðum, eða matvæli handa embættis- og starfsmönnum Bandaríkjastj. þar. Af viskí og sterkum drykkjum var flutt inn á árinu 1948 1.548 kassar, sem samsvarar því, að hver erlendur starfsmaður á þessum stað fái liðlega 18 flöskur af sterkum drykkjum á ári. Af öli og bjór voru fluttir inn 3.890 kassar, sem samsvarar því, að 93 flöskur séu handa hverjum erlendum starfsmanni flugvallarins á árinu. Um einn lið eru ekki fyrir hendi fullar upplýsingar, en tóbak er skammtað til starfsmanna á flugvellinum.