06.12.1948
Efri deild: 25. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

14. mál, kyrrsetning og lögbann

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka n. fyrir vinsamlega meðferð á þessu frv. og get lýst mig fylgjandi flestum þeim brtt., sem fram eru komnar við frv. Og ég vil ekki á þessu stigi málsins lýsa mig andvígan neinni þeirra. En áður en ég greiði atkv. um síðustu brtt., þá vildi ég þó fá á þeim nokkrar skýringar, það er að segja brtt. að fella niður 2. málsgr. 24. gr. Mér skilst að vísu, að afleiðing þess, að ákvæðið sé fellt niður, mundi verða sú, að almennar skaðabótareglur kæmu til greina, sem er það sama, sem sagt er í sjálfu ákvæðinu. En nauðsynlegt er þó að fá vitneskju um, hvort það er það, sem fyrir n. hefur vakað. Ég er ekki viss um, að sé alveg greinilegt, að almennar skaðabótareglur komi þar til greina, að það nái til þess, sem hér er um að ræða, nema það sé sérstaklega tekið fram. Það er í það minnsta nauðsynlegt, að sé ljóst af umr., hver ætlun n. er í þessum efnum. Og þá vildi ég einnig varpa fram þeirri spurningu um síðustu brtt., að 4. málsgr. 28. gr. verði eins og.n. leggur til, hvort það sé alveg öruggt, að sú breyt. fái staðizt, og hvort n. hafi hugleitt það nógu rækilega, að fyrirmælin um miskabætur, sem sett eru varðandi kyrrsetningu, eigi til hlítar við varðandi 1ögbann. Ég hygg, að svo mundi í raun og veru í fæstum tilfellum verða. Það er greinilegt, að bann við athöfn manns hefur alls ekki sama álitshnekki né óþægindi í för með sér eins og t.d. kyrrsetning mannsins eða kyrrsetning á fjármunum hans. Þó að manni sé óheimilað að gera einhverja nýja framkvæmd, þá er það honum yfirleitt miklu síður tilfinnanlegt, en ef annaðhvort fjármunir hans eða hann sjálfur eru kyrrsettir. Ég er því ekki fyrir fram, án þess að heyra rökin fyrir því, sannfærður um það, að það eigi til hlítar við að láta þessar reglur gilda jafnt í báðum þessum tilfellum. En segja má að vísu, að þar sem í 24. gr. er talið, að bætur komi því aðeins til, eftir því sem líklegt mætti telja, að maður hefði beðið þetta tjón, þá skaði ekki að setja fyrirmælið. En þá er líka á það að líta, að í 27. gr. segir, að 24. gr. á yfirleitt við um lögbann. Það er einungis vakin athygli á því í 4. málsgr. 28. gr., að bætur fyrir miska- og lánstraustsspjöll komi yfirleitt ekki til greina varðandi lögbann, vegna þess að atvikin séu ekki slík, að þau fyrirmæli yfirleitt geti átt við. En ef atvikin eru slík, þá hygg ég, að eins og frv. er nú, þá sé það ótvírætt, að menn eigi miska- og lánstraustsbætur, ef ákvæðið yrði samþ. Og þá er engin ástæða til að berjast hatrammlega á móti till.,heldur annaðhvort að samþ. þær eða fella, en áður en menn taka afstöðu til þeirra, finnst mér æskilegt, að frekari skýringar komi frá n., hvað fyrir henni vakir, hvort hún ætlast til, að raunverulegar breyt. eigi sér stað, eða hvort hún vill aðeins breyta einhverju smávegis, sem henni finnst betur fara.