16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í D-deild Alþingistíðinda. (5424)

940. mál, rafmagnsverð

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég mun í aðalatriðum leitast við að svara þessari fsp. eins og um er spurt. Hvað það atriði snertir, hvernig verðið á raforkunni er ákveðið, gildir yfirleitt það sjónarmið, bæði að því er heildsölu frá orkuverum og aðalorkuveitum og smásölu frá héraðsrafmagnsveitum snertir, að verðið er ákveðið með tilliti til þess, að hlutaðeigandi fyrirtæki beri sig fjárhagslega, þ.e.a.s. standi undir viðhaldi, rekstri og eðlilegum aukningum, en ekki reiknað með, að þessi fyrirtæki séu rekin sem gróðafyrirtæki. Í stærri kaupstöðum og sérstaklega þar, sem rafveiturnar eru orðnar gamlar, hlýtur verðið því að jafnaði að vera lægra, en í minni kauptúnum, og í hinum minni kauptúnum með nýjar rafveitur mun núgildandi verð tæpast vera nógu hátt til þess að standa undir veitunum.

Fram til þessa hafa rafveitur ekki verið reknar nema í kaupstöðum og kauptúnum hér á landi. Hafa þær yfirleitt staðið undir sér fjárhagslega, en á nokkrum stöðum, þar sem orkuveitur eru í byrjun, er ekki talið fært að fara það hátt með verðið, að veiturnar fái staðið alveg undir sér fyrstu árin, og því í þeim tilfellum leyft að haga verðinu þannig, að það er að vísu fyrirsjáanlegur halli á rekstri veitnanna fyrstu árin, en gert ráð fyrir, að það lagist á næstu árum, þegar nokkurn veginn er búið að ná því marki, sem að var stefnt.

Þetta er um hinar almennu veitur að segja. Um sveitaveiturnar er öðru máli að gegna. Vegna strjálbýlisins verður stofnkostnaðurinn þar svo hár, að engin von er til, að rekstrartekjurnar geti staðið undir honum og verð á rafmagninu þó ekki verið óhæfilega hátt. Þess vegna hefur það ákvæði verið tekið í l., að ríkið greiði niður nokkuð af stofnkostnaði héraðsveitna, það mikið, að ekki þurfi að setja verðið hærra en svo, að það verði nokkuð nærri rafmagnsverði annars staðar á landinu, þótt það sé sums staðar lítið eitt hærra.

Ég vil nú snúa mér sérstaklega að fsp. og í því sambandi gefa eftirfarandi upplýsingar: Á Hvanneyri telst ekki vera almenningsveita, og hefur því ekki verið staðfest gjaldskrá fyrir raforkusölu þar. Aftur á móti kaupir skólinn orku frá Andakílsárvirkjuninni á 380 kr. árskílówattið, en ekki munu hafa verið ákveðin gjöld fyrir notkun einstakra heimilisnotenda þar. — Hinir staðirnir, sem um er spurt, hafa gjaldskrár, staðfestar af atvmrn. og birtar í B-deild stjórnartíðindanna. Gjaldskrárnar eru allar með sama eða mjög líku sniði og því auðvelt að bera þær saman. Raforkuverð til heimilisnota er aðallega miðað við þrenns konar notkun: (a) til lýsingar, (b) til almennrar heimilisnotkunar, (c) til húshitunar. Skal hér tilgreint verðið á rafmagni til þessara nota á þeim stöðum, sem um er að ræða, og jafnframt gert í sem stytztu máli grein fyrir tilhögun raforkusölunnar, eftir því sem tilefni virðist til.

Það er þá fyrst verð á rafmagni til lýsingar. Í Rvík er ljósaverðið kr. 0,93 á hverja kwst., á Akureyri kr. 1,20, í Sandgerði kr. 1,44, á Selfossi kr. 1,20, í Þykkvabæ kr. 1,25, á Grenjaðarstað kr. 1,25 og á Akranesi kr. 1,20. — Þess skal getið, að í gjaldskrám flestra rafveitna er heimild til 20% hækkunar á raforkuverðinu án sérstakrar staðfestingar rn. Rafveita Sandgerðis hefur ákveðið að notfæra sér þessa heimild, og er raforkuverðið þar því 20% hærra en hjá hliðstæðum rafveitum, þ.e. kr. 1,44 pr. kwst., eins og fyrr segir.

Þá er verð á rafmagni til heimilisnotkunar. Á þeim gjaldskrárlið, sem algengastur er til heimilisnotkunar, er innheimt bæði kwst.-gjald og fastagjald. Kwst.-gjaldið er miðað við verð á orku til suðu, en fastagjaldið við áætlaða ljósanotkun. Fastagjaldið er sett til þess að komast af með aðeins einn kwst.-mæli á heimilunum í stað þess að hafa tvo. Á Akureyri, Akranesi og Grenjaðarstað er þessi gjaldskrárliður enn fremur miðaður við notkun til herbergjahitunar með lausum ofnum. Því er þannig hagað, að fyrir notkun umfram áætlaða ljósa- og suðunotkun er kwst.-gjaldið hækkað. Verðið er sem hér segir:

Í Rvík eru greiddir 19 aurar pr. kwst. (fyrsta notkun), á Akureyri 20 aurar, í Sandgerði 36 aurar, á Selfossi 27 aurar, í Þykkvabæ 30 aurar, á Grenjaðarstað 30 aurar og á Akranesi 30 aurar. Auk þess er herbergisgjald, sem grípur hér inn í. Í Rvík er það 2 kr. af hverju herbergi, á Akureyri 20 aurar af fermetra gólfflatar, í Sandgerði 6 kr. af fyrsta herbergi og kr. 3,60 af öðrum herbergjum, á Selfossi 5 kr. af fyrsta herbergi og 3 kr. af öðrum herbergjum, á Grenjaðarstað og á Akranesi er gjaldið hið sama og á Selfossi, og á Akranesi er gjaldið 4 kr. af hverju herbergi.

Loks er verð á rafmagni til húshitunar. Rafmagn til fullrar húshitunar er selt um sérmæla og einungis til fasttengdra tækja, sem straumur er tekinn af á vissum tímum með klukkurofum. Við daghitun er straumurinn rofinn á tímum mesta álags rafveitnanna um hádegið og síðdegis. Við næturhitun er straumurinn rofinn frá kl. 8 á morgnana til kl. 11 á kvöldin. Verðið er sem hér segir:

1. Daghitun: Í Rvík 9 aurar á kwst., á Akureyri 10 aurar, í Sandgerði 16,8 aurar, á Selfossi 12 aurar, í Þykkvabæ 15 aurar, á Grenjaðarstað 15 aurar og á Akranesi 12 aurar.

Sandgerði er hér hæst, og stafar það af 20% álaginu.

2. Næturhitun: Í Rvík 3,7 aurar á kwst., á Akureyri 5 aurar, í Sandgerði 6 aurar, á Selfossi 4 aurar, í Þykkvabæ 5 aurar, á Grenjaðarstað 5 aurar og á Akranesi 5 aurar.

Nú hefur eingöngu verið spurt um rafmagnsverð í sambandi við vatnsraforkustöðvar, en þótt ekki hafi verið um það spurt, skal ég til fróðleiks lesa til samanburðar raforkuverð í þeim kaupstöðum landsins, sem hafa olíurafstöðvar, en verð til lýsingar um sérmæli er þar sem hér segir:

Í Neskaupstað kr. 1,50 á kwst., í Stykkishólmi kr. 1,50, á Flateyri kr. 1,50, í Hrísey kr. 2,00, í Dalvík kr. 1,80, á Eskifirði kr. 1,75.

Ég held, að það sé ekki öllu meira, sem ástæða sé til að svara í sambandi við þessa fyrirspurn.