06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í D-deild Alþingistíðinda. (5432)

167. mál, ríkisframlag til rekstrar nokkurra skóla

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Hæstv. ráðh. hefur nú svarað þessu bæði skörulega og ýtarlega. Ég sé ekki ástæðu til að óska eftir sundurgreiningu á fyrsta liðnum, vegna þess að það skiptir engu verulegu máli. Ég álít þessa skýrslu hæstv. ráðh. mjög fróðlega, ekki svo mjög fyrir augnablikið, heldur ef koma skyldi til þess að endurskipuleggja okkar skólakerfi. Eins og hæstv. ráðh. benti á, er það að sjálfsögðu ekki rétt að taka til greina viðhaldið á Hvanneyri, því að það er hvergi talið annars staðar. En það var líka leiðrétt. Ég skal taka það fram, að kvennaskólinn í mínu kjördæmi var allra kvennaskóla ódýrastur, — kannske ekki eins og hér í Reykjavík —, þangað til nýju lögin komu. Það er þess vert fyrir hv. þm. að fara að fylgjast með, hvaða breyt. skólalöggjöfin frá 1946 hefur í för með sér kostnaðarlega. Og það, sem hefur komið í ljós við iðnskólareksturinn, sem að vísu er nokkuð sérstaks eðlis, bendir á, að það mundi kannske hægt að endurskipuleggja skólana á þann hátt, að þeir verði ekki algerlega háðir ríkinu, bæði gagnfræðaskólar og héraðsskólar. Það var verið að biðja um fjárveitingu til Iðnskólans í Reykjavík, sem þótti nokkuð há, en ég held ég verði að vera með henni til að verðlauna þennan ódýra skóla.