06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í D-deild Alþingistíðinda. (5437)

941. mál, fjárskipti í Eyjafirði og Skagafirði

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Um fyrsta liðinn er það að segja, að í haust er leið fór fram atkvgr. á umræddum svæðum um væntanleg fjárskipti og niðurskurð á þessu ári. Þetta var fellt, að nokkru leyti af ónógri þátttöku og að nokkru leyti af neikvæðri þátttöku. Nú hefur fyrir tilstilli sauðfjársjúkdómanefndar verið ákveðið að láta fara fram endurtekna atkvgr., til þess að fá skýrt úr því skorið, hvort vilji sá, sem áskilið er í l. um fjárskipti, að sé fyrir hendi, sé þarna til. Er beðið eftir þeirri niðurstöðu.

Um 2. spurninguna er það að segja, að ég geri ekki ráð fyrir, að neitt frv. verði borið fram á þessu þingi, sem breyti um lagaákvæði, sem nú gilda.

3. spurningunni vil ég svara eins og maðurinn, sem varð á vegi langferðamanns, sem bað hann um að útvega sér snærisspotta, sem hann þarfnaðist. Sá, sem fyrir beiðninni varð, svaraði: Fyrst og fremst á ég engan spotta, og þótt ég ætti spotta, þá léti ég hann ekki. Ég mun ekki fyrirskipa fjárskipti, ef atkvgr., sem nú stendur yfir, fer öðruvísi en margir vænta, þannig að hún verður neikvæð. Og enda þótt ég ætlaði að gera það, þá mundi ég ekki svara á þá leið, því að það mundi hafa óheppileg áhrif á atkvgr.