06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í D-deild Alþingistíðinda. (5443)

942. mál, rannsóknarstöðin á Keldum

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Samkv. upplýsingum frá húsameistara er búið að leggja 2.133.714 kr. til byggingarframkvæmda við tilraunastöðina á Keldum fram til 21. marz 1949. Um s.l. áramót hafði Rockefeller-sjóðurinn í New York lagt fram 137.500 dollara. Er þetta fé til áhaldakaupa og til að kaupa byggingarefni ýmiss konar. Enn fremur höfðu verið yfirfærðar í íslenzkum gjaldeyri 50 þús. dollarar af áðurgreindri upphæð til greiðslu á byggingarkostnaði.

Þá er 3. spurning. Rockefeller-sjóðurinn gaf tilraunastöðinni á Keldum s.l. ár 50 þús. dollara til viðbótar fyrri gjöf sinni, sem var alls 150 þús. dollarar, og verður það fé notað smám saman á næstunni til að ljúka við að koma stofnuninni í það horf, sem þarf að vera.

4. spurning. Tilraunastöð háskólans á Keldum hefur starfað um fjögurra mánaða skeið, og sést á því, að stofnunin er orðin nothæf. Ekki er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram meira vegna stofnkostnaðar. Er ætlað, að það, sem eftir er ógreitt af framlagi Rockefellersjóðsins, nægi til að ljúka við innréttingar, byggja áburðargryfjur, setja upp brennsluofn o. fl., sem enn er ógert.

Um 5. spurninguna er það að segja, að ráðgert er að ráða ekki að svo stöddu fleira fólk við stofnunina en nú er. Það er einn forstöðumaður, sem hefur 11 þús. kr. í grunn, tveir sérfræðingar með 10.200 kr. í grunn, einn aðstoðarmaður við vefjarannsóknir, sem hefur 7.200 kr. í grunn, tvær aðstoðarstúlkur, hvor með 5. þús. kr.; einn ráðsmaður með 7.800 kr., einn vinnumaður með 6 þús. kr.; og einn maður enn, sem er dýrahirðir og bílstjóri, sem hefur 6 þús.: kr. í grunnlaun.

Þetta er sá starfsmannafjöldi, sem samþ. var af menntmrn. og fjmrn. að leggja stofnuninni til, eftir mjög ýtarlegar rannsóknir og viðtöl við alla aðila um það, hvað minnst muni þurfa til þess, að stofnunin geti farið af stað. Það voru uppi till. um að ráða nokkra fleiri, en þetta var samþ.

Þá er 6. spurning, um verkefni stöðvarinnar fyrstu fimm árin.

Helztu verkefni tilraunastöðvar háskólans á Keldum eru sem stendur: 1. Að komast að eðli og útbreiðsluháttum þurramæði í sauðfé. 2. Að gera tilraunir með bóluefni gegn garnaveiki í sauðfé. 3. Rannsóknir á júgurbólgu í kúm. 4. Rannsóknir á afleiðingum eitrunar frá Heklugosi. 5. Rannsóknir á þýðingu sjaldgæfra steinefna í fóðri íslenzks búfénaðar. 6. Rannsóknir á súrheyseitrun og Hvanneyrarveiki í sauðfé. 7. Rannsóknir á hænsnatyphus í hænsnabúum, til að aðstoða við útrýmingu, þegar þess er óskað. 8. Rannsóknir á coccidiose í kjúklingum og dreifing á lyfi gegn þeirri plágu. 9. Framleiðsla á bóluefni gegn lungnapest. 10. Framleiðsla á bóluefni gegn lambablóðsótt. 11. Framleiðsla á serum gegn lambablóðsótt. 12. Dreifing á ormalyfi til bænda. 13. Rannsóknir á bráðadauða í kúm. 14. Tilraunastöðin hefur verið tilnefnd til að taka af Íslands hálfu þátt í alþjóðlegum epidemiologiskum rannsóknum á inflúenzu, sem fram fara í flestum löndum á vegum Sameinuðu þjóðanna. 15. Tilraunastöðin mun, þegar svo ber undir, taka að sér einstök verkefni varðandi sjúkdóma í mannfólki, ef starfsskilyrði þykja þar hentugri til slíks, t.d. hefur hún fengizt nokkuð við athuganir á lömunarfaraldri á Akureyri, sem nú er nýafstaðinn.

Þetta eru þau atriði, sem forstöðumaðurinn hefur séð ástæðu til að taka fram í svari sínu til ráðuneytisins. Sést greinilega á þessu, að ekki skortir verkefnin.