06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í D-deild Alþingistíðinda. (5448)

171. mál, slys á Keflavíkurflugvelli

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég er ekki persónulega nákunnugur þessum málum. En skýrsla, sem ég hef í höndum, virðist benda á, að ekki sé ástæða til að telja, að mikið hafi verið um slys þarna í sambandi við þjónustu á vellinum. Vil ég þá leyfa mér að lesa upp skýrsluna.

„TF-ISH (Flugfélag Íslands h/f) 1/11 1948. Flugvélin rann út af braut í hálku, er hún var að aka í flugtaksstöðu á brautinni. Vinstri hjólaumbúnaður skemmdist, vinstri vængur, mótor og skrúfa, einnig miðburðarbiti í búknum (centre section). Málið er í rannsókn og liggur nú í dómsmálaráðuneytinu.

F-BAZQ (Air France) 27/11 1948.

Flugvélin stóð fyrir framan flugstöðvarbygginguna, og voru farþegar að fara út úr henni, þegar eldur kom upp í farþegarúminu (klefanum). Gekk greiðlega að koma öllum farþegum út, og urðu engin slys á mönnum. Tókst að ráða niðurlögum eldsins, en flugvélin skemmdist talsvert, aðallega efri hluti búksins, og allur umbúnaður á farþegaklefa gereyðilagðist.

Gert var við flugvélina af Lockhead Aircraft Corp., og er hún nú að verða flugfær aftur. Engin rannsókn hefur farið fram um upptök eldsins. Álitið er að kviknað hafi út frá rafmagni.

G-AHNN (British South American Airways) 31/12 1948.

Flugvélin fékk á sig snögga vindhviðu, er hún var að aka eftir einni akstursbrautinni. Fór flugvélin út af brautinni með bæði framhjólin, og skemmdist við það einn hreyfillinn og loftskrúfan. Einnig mun hjólaumbúnaður hafa laskazt eitthvað. Nokkur hálka mun hafa verið á brautinni. Gert var við flugvélina hér, og flaug hún síðan á þrem hreyflum til Bretlands. Flugvélar af þessari gerð hafa reynzt hinir mestu gallagripir, og hefur brezka flugmálastjórnin bannað notkun þeirra nema til birgðaflutninga til Berlínar. Engin rannsókn hefur farið fram um orsök slyssins.

G-AGJP (British Overseas Airways Corp.) 24/2 1949.

Flugvél þessi reyndi fyrst aðflug og lendingu með aðstoð radarblindlendingatækja. Lendingin misheppnaðist, og tók flugvélin niðri fyrir utan brautina með annað hjólið, um leið og flugmaður hóf hana á loft aftur. Við þetta skemmdist vinstri hjólbarði, og varð áhöfnin vör við skemmdirnar. Voru því viðhafðar sérstakar varúðarráðstafanir af hálfu flugvallarins, með því að fleiri slökkviliðsbifreiðar voru hafðar til taks (tvær), fleiri slökkviliðsmenn og aðvörun send til sjúkrahússins. Svo illa vildi til, að önnur slökkviliðsbifreiðin festist í snjóskafli í brautarbrúninni, er hún var að aka út af brautinni, og stóð framendi hennar lítið eitt inn á brautina. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að losa bifreiðina áður en flugvélin lenti, og rann flugvélin út að vinstri brautarbrúninni og lenti á bifreiðinni. Sökum þess að vinstri hjólbarði flugvélarinnar var sprunginn, leitaði flugvélin til vinstri, eftir að hún var lent, og tókst flugmanninum ekki að halda henni á miðri braut. Skemmdir urðu á ytri hreyfli vinstra megin, og einnig skemmdist vinstri vængur allmikið. Rannsókn er hafin í máli þessu, en ekki lokið.

Þess ber að geta, að engin slys hafa orðið á mönnum vegna framangreindra óhappa. Loftferðaeftirlitið hefur með aðstoð sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og fulltrúa hans á Keflavíkurflugvelli rannsakað öll þau slys, sem fyrrnefndum aðilum hefur verið tilkynnt um.

GF-TFN (Trans-Canada Airlines) 10/1 1949, kl. 23.30.

Flugvél þessi rann í lendingunni á eitt brautarljósanna, og skeði ekki annað en að ljósið eyðilagðist, jafnframt því að annar vinstri hjólbarðinn skemmdist.

VH-TAO (Trans Australia Airlines) 11/1 1949, kl. 00.30.

Flugvél þessi rann í lendingunni út af flugbrautinni og skemmdist allverulega. Það mun þó verða gert við flugvélina hér, en aðalskemmdir eru á vinstri væng, vinstri hjólaumbúnaði, nefhjóli og vinstri hreyfli. Rannsókn hefur farið fram um orsök slyssins, og virðist hún í höfuðdráttum vera þessi: Mikill skafbylur var, er flugvélin lenti, og skyggni vart meira en 1/4 mílu. Hugsanlegt er, að brautin hafi verið mishál og að það hafi orsakað eitthvað um, að flugvélin fór út af brautinni. Um leið og flugvélin lenti, kom snögg vindhviða á hægri hönd, sem þyrlaði snjóskýi upp fyrir framan flugvélina, og hefur það blindað flugmanninn og ef til vill hrakið flugvélina til vinstri.

USAF-5498 (United States Army Airforce) 18/1 1949.

Flugvél þessi mun hafa lent allharkalega, og sprungu við það þrír hjólbarðar; engar aðrar skemmdir urðu á flugvélinni, og hélt hún áfram ferð sinni, þegar búið var að skipta um hjólbarðana. Engin rannsókn hefur farið fram.“

Undirskrifað Haukur Claessen.