06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í D-deild Alþingistíðinda. (5449)

171. mál, slys á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Áki Jakobsson):

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar. Ég býst við, að allir muni sammála um, að eitthvað sé hér í ólagi, þegar svona mörg slys geta átt sér stað. Rétt er það, að engir hafa orðið mannskaðar, en það er hins vegar tilviljun. T.d. komu tvö slys fyrir svo að segja samtímis, 10. og 11. janúar, með svo að segja klukkutíma millibili. Og það var hrein tilviljun, að ekki varð af stórslys. Þeir eru með bíla hingað og þangað um brautir og hafa ekki samband úr flugturninum, af því að talstöðvarbíllinn er í ólagi, svo að þeir vita ekki, hvar bílarnir standa, þegar þeir gefa flugvélinni merki um að setjast. En bíllinn sat þá fastur í fönninni, og slysið varð fyrir það, að sveigt var hjá bílnum. Mér finnst mjög einkennilegt það, sem hæstv. ráðh. sagði, að engin rannsókn hefur farið fram og ekki hafi verið talin ástæða til slíks. Við vitum, að ekki mega verða miklir árekstrar meðal bíla eða skemmdir á þeim, svo að ekki fari rannsókn fram; það er talið nauðsynlegt að staðfesta, hvað hefur skeð. Það væri fróðlegt að vita, hver það er, sem ákveður, hvort rannsókn skuli fara fram á óhöppum og mistökum á flugvellinum, hver fær skýrslurnar og hver ákveður, hvort ýtarlegri rannsókn eigi að fara fram eða ekki. Ég er mjög hræddur um, að þessi slys hljóti að verða til þess, að Keflavíkurflugvöllur verði ekki talið öruggt lendingarsvæði.

Ég fékk þær upplýsingar, að hált væri á Reykjavíkurflugvellinum, en aftur á móti væri búið að sandbera Keflavikurflugvöllinn, en þegar til kom, var þar flughált, og rann flugvélin á hliðina. Ekkert slys hlauzt af þessu, en það hefði getað orðið, og sýnir þetta ófyrirgefanlegan trassaskap hjá þeim, sem þar stjórna þessum málum, enda er sagt, að félagið, sem þar hefur umsjón nú, hafi fengið það með því að bjóða niður önnur félög. T.d. er aðeins einn maður á vakt í flugturninum, og mun eitt slys hafa orðið af því, að hann gat ekki sinnt flugvél, sem var að lenda, og þó að ekkert slys hlytist af því, þá er slíkt óforsvaranlegt og verður að taka alvarlegum tökum. Ég vil svo spyrja hæstv. ráðh., hvaða ákvörðun hafi verið tekin í þessu efni og hvort rannsókn eigi að fara fram eða ekki.