06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í D-deild Alþingistíðinda. (5451)

171. mál, slys á Keflavíkurflugvelli

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi varpa fram þeirri athugasemd, hvort ekki væri rétt að haga því eins með flugslys eins og sjóslys, að um þau fjallaði sérstakur réttur, en þegar um slys á sjó er að ræða, fjallar sjóréttur um þau, en hann er samansettur m.a. af kunnáttumönnum í þessum málum. Ég held, að hér fari fram rannsókn á flugslysum, þó að ekki sé um banaslys að ræða, og þessi rannsókn fer fram hjá sakadómara og það að því er virðist án þess, að menn með flugkunnáttu fjalli þar um. Ég vil því varpa fram þeirri uppástungu, að sérstökum rétti verði falið að fjalla um öll flugslys og það með hjálp kunnáttumanna í þessum efnum. Ég veit ekki, hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum þjóðum, en ég vil vekja athygli á þessari uppástungu og þykir ósennilegt, að slíkt mál eigi heima hjá sakadómara nema eitthvað sérstakt sé að. Mér er kunnugt um það, að eins og nú er málum háttað, þá eiga flugmenn erfitt með að fá úr því skorið, hvort þeir eiga sök á slysum, sem þeir lenda í, svo að réttindi þeirra skerðist. Það er einnig full þörf að athuga, hvernig þessum málum er háttað og fyrir komið hjá þeim þjóðum, sem hafa stundað flug lengur en við. Mér finnst því sjálfsagt, að sérstakur dómur rannsaki öll flugslys, án þess að kæra komi til greina. Það er einkum fagleg kunnátta ásamt kunnáttu í lögum, sem er líklegust til að komast næst hinu sanna í þessum málum.