06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í D-deild Alþingistíðinda. (5461)

944. mál, landspróf

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Samkv. upplýsingum ríkisbókhaldsins segir: Hinn sérstaki kostnaður, sem miðskólapróf (landspróf) hefur haft í för með sér umfram þann prófkostnað, sem áður var, er þóknunin til landsprófsnefndarmanna, 9 að tölu auk formanns. Árið 1948 voru hverjum nefndarmanni goldnar 600 kr. í þóknun, en formanni 3.000 kr. Árið 1947 var þóknun nefndarmanna 600 kr. til hvers, en greiðsla til formanns 5.000 kr. Árið 1946 fengu nefndarmenn einnig 600 kr. þóknun hver og formaður einnig 600 kr.

Landspróf 1946 mun alls hafa kostað 60.000,00 kr.

Landspróf 1947 mun alls hafa kostað 30.600,00 kr.

Landspróf 1948 mun alls hafa kostað 44.551,00 kr., eða kostnaður samtals þessi 3 ár krónur 135.151,00.

Kostnaðurinn hefur því verið mestur fyrsta árið, en það stafar af því, að þá þurfti ýmiss konar undirbúning, sem varð allkostnaðarsamur.