20.04.1949
Sameinað þing: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í D-deild Alþingistíðinda. (5484)

947. mál, stöðuveitingar við atvinnudeild háskólans

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Með fyrirspurn þessari er ætlazt til að fá því svarað, hve margir fastir menn eru nú og á síðastliðnu ári við atvinnudeild háskólans, hve margir lausir og hve kostnaður hafi orðið mikill við þetta árið 1948. Það er vitað, að atvinnudeildin hefur þanizt mikið út, og væri fróðlegt að fá upplýsingar um þá aukningu. Einnig er spurt um, hver ferðakostnaður deildarmanna hafi orðið innanlands og við utanferðir og hver árangur hafi orðið af starfi deildarinnar. Ég vildi, að það kæmi í ljós, hvort það er rétt, sem ekki er óeðlilegt að halda, hvort fjölgað hafi verið mikið við þessa stofnun án þess að ástæða sé til, en þessi stofnun á að efla atvinnuvegina, og væri því fróðlegt að fá um þetta skýr svör, hvers virði starf þessarar stofnunar er fyrir atvinnuvegi landsmanna.