20.04.1949
Sameinað þing: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í D-deild Alþingistíðinda. (5493)

948. mál, skilnaður Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að þetta mál heyri undir mig, en hins vegar minnist ég þess ekki að hafa séð neitt um þetta í mínu ráðuneyti, en þrátt fyrir það þarf ekki að verða dráttur á svörum. Hins vegar undrast ég, hve hv. þm. spyr fávíslega, því að engum ætti að vera eins kunnugt og honum, að endanlegur skilnaður Íslands og Danmerkur fór fram 17. júní 1944. Þetta hélt ég, að öllum væri kunnugt og þá fyrst og fremst sagnfræðingi þessa máls. Annars býst ég við, að hv. þm. eigi við ýmis atriði, sem af skilnaðinum leiddi. Þetta eru nokkur atriði, mjög misjafns eðlis, og er sumum þeirra lokið, en öðrum ekki og meðal annars af ástæðum, sem ég gerði grein fyrir hér í vetur, en hv. þm. S–Þ. virðist ekki hafa fylgzt með því.

Það stendur þannig á með sum af þessum málum, að það væri óheppilegt af Íslands hálfu að ljúka þeim af í skyndi, eins og t.d. um fiskveiðiréttindi Færeyinga. Þar höfum við ekki viljað binda okkur nema frá ári til árs, nema við fengjum fiskveiðiréttindi við Grænland í staðinn. Hér á Alþingi hafa verið uppi raddir um það, að við ættum ekki að láta okkur nægja smáréttindi, heldur ættum við að krefjast alls Grænlands. Nú er verið að rannsaka, hvort við eigum nokkurn rétt til Grænlands, en þær rannsóknir taka nokkuð langan tíma, og ég tel það mjög óheppilegt að ganga frá samningunum við Dani fyrr en rannsókn þessari er lokið, heldur álít ég, að það sé okkur í hag að draga þetta á langinn, meðan Danir ýta ekkert á.

Önnur atriði, eins og t.d. um það, hvað gera skyldi við ríkisborgara, sem væru staddir í hinu landinu, hafa verið útkljáð, og er það samkomulag að efni til mjög líkt því, sem við höfðum ráðgert, og tel ég það mjög fullnægjandi fyrir okkar hönd. Viðvíkjandi handritamálinu er það að segja, að þetta mál var tekið upp af Íslands hálfu í fyrstu, og er það nú í rannsókn hjá dönsku stjórninni. Kunnugir menn í Danmörku og okkur velviljaðir telja, að ekki muni heppilegt að reka mikið eftir í því máli, og telja heppilegra að láta Dani jafna sig á þessu og eiga um það sjálfa án okkar afskipta. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að þetta sé heppilegast, og vona, að þetta mál fái giftusamlega lausn, og víst er um það, að ef við hefðum sett fram einhverjar lagakröfur, þá hefði það verið sama og setja slagbrand fyrir dyrnar og hefði stórskemmt fyrir okkur. Þannig mætti lengi telja og sýna fram á, að það er okkur sízt til hagsbóta að reka mjög á eftir í þessum málum og það því fremur, er þess er gætt, að fullnaðarskilnaður fór fram 17. júní 1944, þótt hv. þm. S-Þ. virðist ekki vita það. Enda kom það á daginn, að það var hin mesta firra, er sumir menn héldu því fram, að ekki mætti ljúka skilnaðinum við Dani vegna þess, hve mörg mál hefðu ekki verið rædd til fulls, en mörg þessi atriði koma sjálfum skilnaðinum ekkert við, og tel ég því fyllilega eðlilegt, að þau verði rædd og afgreidd smátt og smátt.

Vona ég svo, að hv. þm. S-Þ. láti sér nægja þessi svör mín.